20.12.1974
Sameinað þing: 29. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í B-deild Alþingistíðinda. (1126)

1. mál, fjárlög 1975

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Gagnstætt því sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, Halldóri Ásgrímssyni, 5. þm. Austf., sem þakkaði hv. fjvn. fyrir vel unnin störf í ýmsu, þá ætla ég nú ekki að gera það. Ég hef ekki haft mikið tækifæri til þess að gegna mínum þingmannsstörfum sem þm. Reykv. Ég hef þurft að stöðva fjvn.- menn á göngum eða sölum þinghússins til þess að koma fram erindum höfuðborgarinnar sem þm. Reykv. og átt í miklum erfiðleikum með að fá þá til að stansa nógu lengi til þess að hlusta á það sem ég hafði að segja um hagsmunamál Reykjavíkur og reykvíkinga. Þegar ég ætlaði að ræða þessi mál á flokksfundum okkar hafa þeir líka verið á hlaupum á fjvn.- fundi, og ég sé enga ástæðu til að þakka þeim fyrir að vera á flótta undan erindum borgarinnar allan tímann.

Erindi mitt hingað upp í ræðustól að þessu sinni er að ítreka og endurtaka fsp, til hæstv. fjmrh. sem ég lagði fyrir hann við 2. umr. fjárl. fyrir árið 1975 og óskaði ekki eftir að þrengja svo að honum um tíma að honum gæfist ekki tóm til að svara. Þess vegna bað ég hann um að svara mér ekki fyrr en við 3. umr. þessara fjárl. sem nú liggja fyrir.

Fyrsta fsp. mín var þessi: Verður tekið tillit til erinda borgarstjórnar Reykjavíkur frá s.l. ári um breyt. á innheimtu opinberra gjalda á þann veg að komið verði í veg fyrir að launþegar fái aðeins kvittanir frá opinberum aðilum í stað lífeyris, að ávallt verði greidd út í peningum nægileg upphæð til lífeyris milli launagreiðsludaga? Eins og nú er geta útborganir farið niður í 9 kr. í peningum og er algengt á vissum tíma árs. Það er ekki gott til þess að vita t.d. — svo að ég taki dæmi sem mér er sjálfum kunnugt úr mínu starfi sem borgarfulltrúi — að sjómannskona með mörg börn dragi kvittanir í stað lífeyris upp úr launaumslagi manns síns sem er fjarverandi. Kerfið þarf að ná sínu, en það hlýtur að vera til önnur aðferð og mannúðlegri til innheimtu opinberra gjalda. Bjóst ég jafnvel við að innheimtukerfinu yrði breytt nú og fjárstreymi til ríkissjóðs við það miðað.

Þá hafði ég gert aðra fsp. til hæstv. fjmrh. sem ég einnig óskaði eftir að fá svarað við 3. umr. fjárl., og hún hljóðaði svo: Hve há prósentutala af úthlutunarfé fjvn. kemur frá innheimtu í Reykjavík og hve miklu er varið í prósentum til Reykjavíkur eða framkvæmda í höfuðborginni af því heildarfé sem innheimt er? Má segja að þetta sé mér til fróðleiks sem ungum þm., og kannske hafa fleiri en ég hug á að vita það.

Eins og ég tók fram við 2. umr. fjárl. fyrir nokkrum dögum, er ég eins og hv. þm. þeirra Austf., Helgi F. Seljan, 7. landsk. þm., sem lýsti óánægju sinni yfir því að austfirðingar hefðu ekki fulltrúa í fjvn., mjög óánægður með að ekki skuli vera einn nm. í fjvn. úr röðum þm. fyrir Reykjavík, þrátt fyrir það að í fjvn. var fjölgað um einn mann í upphafi þessa þings. Þetta torveldar mjög, eins og ég gat um áðan, erindisrekstur þm. Reykjavíkur um hagsmunamál höfuðborgarinnar. Þrátt fyrir fjölgun í n. var ekkert pláss fyrir þm. úr höfuðborginni í henni og það tel ég alls ekki sæmandi fyrir Alþ., þar sem er stærsta og fjölmennasta kjördæmi landsins.

Hv. 5. þm. Norðurl. e., Stefán Jónsson, tók það hér sem dæmi um hvað nauðsynlegt væri að fjárveitingar yrðu nú myndarlegar til hans kjördæmis — og átti það líklega að vera undantekning — að fólkið þar vinnur að undirstöðuatvinnuvegunum. Það átti að réttlæta kröfur hans um aukið fjárframlag til hans kjördæmis. En ég ætla að upplýsa þá hv. þm. sem ekki vita það að fólkið í Reykjavík vinnur líka hörðum höndum alveg eins og annars staðar á landinu og ekki síður að undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar.

Ég hafði tvær aðrar fsp. sem ég ætlaði að bera hér fram til hv. form. fjvn. Hann er nú fjarverandi, en ég ætla samt að skýra frá því, hvaða spurningar það voru, og ég ætla að svara þeim um leið.

Fyrri spurningin var: Hve miklu fé er lagt til að úthlutað verði til málefna aldraðra, til elliheimila í Reykjavík? - Því ætla ég að svara strax. Á bls. 12 í till. fjvn. um byggingu sjúkrahúsa, sjúkraskýla, læknismiðstöðva, elliheimila, læknisbústaða o.fl. er talið upp hverju eytt er til elliheimila og hvar. Það er ekkert til Reykjavíkur, ekki nokkur skapaður hlutur.

Þá ætlaði ég að gera fsp. til hv. form. fjvn. um hve mikið framkvæmdafé sé ætlað í B-álmu Borgarsjúkrahússins á fjárl. næsta árs. Á bls. 11 undir lið 55.a er talið upp hvað ætlað er til sjúkrahúsanna í Reykjavík, og til framkvæmda við B-álmu Borgarsjúkrahússins er ekkert fé ætlað. Hv. þm. Sverrir Bergmann bar hér fram till. um að auka þennan gjaldalið um 33 millj. — að vísu til hönnunar B-álmu Borgarsjúkrahússins. Ég ætlaði að styðja þá till. í von um að hægt væri að beina því fé inn í framkvæmdaáætlun B-álmu Borgarsjúkrahússins, en af ókunnugleika vissi hann ekki, sá hv. þm., að B-álma Borgarsjúkrahússins er þegar fullhönnuð og bíður bara eftir því að fá grænt ljós frá ríkisstj. til þess að hefja framkvæmdir.

Ég ætla að benda á að Borgarsjúkrahúsið er eina sjúkrahúsið hér sem tekur á móti öllum þeim sem skyndilega þurfa á aðstoð að halda, t.d. vegna slysa, og flestir eru þar lagðir inn.

En ástandið er þannig að brotni gömul kona illa hér í Reykjavík, þá er hún ekki sett inn í sjúkradeildir sjúkrahúsanna, hún er flutt heim, vegna þess að þeir þora ekki — það er ljótt að segja frá því — þeir þora ekki að festa rúm undir gamalt fólk svo að það verður að fara heim hvort sem það er einstæðingar eða ekki. Þarna tala ég af reynslu sem borgarfulltrúi.

Ég hafði hugsað mér að gera hér till. um verulega fjárveitingu til framkvæmda við B-álmu Borgarsjúkrahússins í von um að hæstv. fjmrh. mundi styðja það vegna þess að hann er úr nálægu kjördæmi og veit hvað mikið álag er á Borgarsjúkrahúsinu og náttúrlega Landsspítalanum líka frá hans kjördæmi. En ég hef ekki gert það og mun ekki gera það. Ég mun fara að ráðum viturra manna hér í þinginu og ýmissa þeirra, sem hér hafa tekið til máls, og vona að aukinn skilningur fáist fyrir þessu mikla máli og við gerð næstu fjárl. verði myndarlegt átak gert til að koma þessu þarfa máli áfram.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri, herra forseti. Ég hef sjálfur svarað tveim spurningum sem ég hefði haft gaman af að fá svör við af vörum form. fjvn., en vona að hæstv. fjmrh. komi sér ekki undan að svara hinum tveimur spurningum mínum. Það verður fróðlegt fyrir reykvíkinga alla að vita þau svör.