12.11.1974
Sameinað þing: 8. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í B-deild Alþingistíðinda. (120)

1. mál, fjárlög 1975

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., en þó eru það nokkur atriði, sem ég vildi víkja að, sem fram hafa komið í ræðum þeirra sem hér hafa talað.

Ég taldi mig leggja fjárlfrv. þannig fyrir að þm. væri ljóst í hverju það væri fólgið að fjárlfrv. er nú lagt fram með hærri tölum en nokkru sinni áður. Ég reyndi eftir því sem ég gat sem pólitískur aðili að gera þetta nokkuð hlutlaust og láta hvert atriði, sem fram gat komið í sambandi við þessi .mál, njóta sannmælis og ég taldi mig sýna fram á að þróun mála á undanförnum mánuðum og undanförnum árum á hér meginorsök og er meginorsakavaldur þess fjárlfrv. sem hér er lagt fram. Ég gerði hins vegar grein fyrir því sem ég taldi að í frv. væri og mætti rekja til þeirrar stefnumótunar sem núv. ríkisstj. setti sér við valdatöku sína enda þótt ég gerði mér grein fyrir að á þessum skamma tíma væri ekki hægt að marka mjög djúp spor í þá átt sem ríkisstj. gjarnan mun vilja gera. Ég skildi líka vel þau vonbrigði sem mátti lesa á milli línanna í ræðum sumra hv. þm. þegar þeir urðu að standa hér upp til að gagnrýna frv. og gagnrýna háar tölur, en þeir gerðu sér grein fyrir því sjálfir að þeir áttu mjög mikinn og stóran þátt í því hvernig komið var.

Ég ætla að víkja að þremur atriðum sem hv. 11. landsk. þm. kom með í sinni ræðu.

Hann vék að þeim aðilum sem njóta tryggingabóta með einum eða öðrum hætti, nú væri illa fyrir þeim komið, þannig stjórn komin í landinu sem með lögum hefði tekið af þeim þær hækkanir sem þeir skilyrðislaust eiga. En ég vil minna þennan ágæta þm. á það að út voru gefin brbl. af fyrrv. ríkisstj. þar sem þessi ákvæði voru tekin inn, og við skyldum þá segja, að sá veldur miklu sem upphafinu veldur. Ég neita hinu ekki að núv. ríkisstj. beitti sér fyrir framlengingu á þeim brbl. og þau komu að sjálfsögðu til meðferðar hér á Alþ. En ég held að þeir verði að kannast við krógann, þeir ágætu menn, og átta sig á því að brbl. voru gefin út í tíð vinstri stjórnarinnar.

Þá var vikið að frv., sem flutt var hér á sumarþingi og kom í minn hlut að flytja, frv. um hækkun á söluskatti, frv. sem var bein afleiðing ráðstafana fyrri stjórnar, vegna þess ástands sem þá hafði skapast. Það höfðu verið ákveðnar mjög háar niðurgreiðslur. Það var gripið til þess eins og oft áður í sambandi við efnahagsmálin, en það var látið eiga sig hvernig afla átti tekna til að mæta þeim á næsta ári. Og þá vék hv. 11 landsk. þm. að þeim mikla kostnaðarauka og gengisfellingunni sem gerð var sem bein afleiðing af þróun mála á því tímabili sem hann studdi ríkisstj. hér á landi. Ég skil ákaflega vel þegar þeir standa hér í ræðustólnum, þessir annars ágætu þm., og þurfa að gagnrýna það sem hér er lagt fram en um leið og þeir tala átta þeir sig á því hver orsakavaldurinn er. En menn verða að klóra í bakkann og það er alltaf virðingarvert þegar menn gera það og sýna karlmennsku þar sem þeir annars láta sjá sig.

En áður en ég skilst við það sem hv. 11. landsk. þm. sagði hér, þá vék hann sérstaklega að einu atriði varðandi það kjördæmi sem ég gegni þingmennsku fyrir, þ.e.a.s. að nú þegar 1. þm. Reykn. gerðist fjmrh. og legði fram fjárlfrv., þá væri ekki mikil reisn á málum, ekki ein einasta króna í landshöfnina í Njarðvík. Og hann lofaði þingheimi því að beita sér fyrir að á þessu skyldi gerð bragarbót þegar frv. kæmi til fjvn. Ég efast ekkert um að hann stendur að því að vinna að málefnum þess kjördæmis sem hann hefur boðið sig fram í nú eins og áður. En það skýtur skökku við þegar hann kemur hér upp til þess að benda á að ekki sé ein króna í fyrsta fjárlfrv., sem ég legg hér fram, til hafnarinnar í Njarðvík. Ég man ekki betur en að ekki hafi verið ein króna til þeirrar hafnar í fjárlfrv. því sem lagt var fram hér á síðasta þingi af vinstri stjórninni og hafði þá hv. 11. landsk. þm. nokkuð góða aðstöðu sem form. fjvn. að sýna hug sinn til Njarðvíkurhafnar. Að vísu kom við meðferð málsins í fjvn. till. frá því rn. sem með þessi mál fer, og í fjvn. kom till. um ákveðna upphæð til þessarar hafnar. Ef við förum enn lengra aftur í tímann, þá man ég ekki eftir því að á fjárl. 1973 og fjárl. 1972 hafi veríð króna til Njarðvíkurhafnar. En ég veit að það kom í framkvæmdaáætlun þegar hún var afgreidd þar með lántöku. Svona er nú þetta og þessu er ekki neitt öðruvísi varið í dag heldur en í gær eða daginn þar áður. Vinnubrögðin eru að þessu leyti svipuð. Og eins og hæstv. samgrh. gerði grein fyrir þá hafði ekki unnist tími til þess, sjálfsagt vegna þess að fyrrv. hæstv. samgrh. hafði mikið að gera með mörg rn., og þegar núv. hæstv. samgrh. tók við sínu embætti var þetta eitt af þeim málum sem hann ræddi um við mig og ég taldi sjálfsagt og eðlilegt að hann léti vinna þessi mál á vegum síns rn. og síðan færu þau rétta boðleið til þess að fá fjárveitingu. Ég vonast til þess, að hv. 11. landsk. þm. standi við það, sem hann sagði, og hjálpi til í fjvn. til þess að hægt verði að fá fjármagn samkv. þeim framkvæmdum sem lagt verður til að gerðar verði. En ég hefði talið það heldur óeðlilega afgreiðslu fjárlfrv. ef ég hefði gert till. um fjármögnun framkvæmda í Njarðvíkurhöfn, sem ég vissi ekki hverjar væru eða neinir hefðu lagt þar á ráðin af þeim sem um málin eiga að fjalla.

Hv. 1. landsk. þm., Jón Árm. Héðinsson ræddi hér um Lánasjóð ísl. námsmanna. Ég hef svolítið reynt að vinna að þessum málum á undanförnum vikum og eins og ég sagði í minni frumræðu eru þessi lög í endurskoðun. Hvers vegna þessi upphæð er í fjárlfrv., það er einfaldlega vegna þess að lánasjóðsstjórnin hafði ekki sínar till. tilbúnar þegar þetta mál var unnið og till. menntmrn. voru þar af leiðandi teknar inn í frv. Till. lánasjóðsstjórnarinnar í dag, miðað við 100% umframfjárþörf til stúdenta, var upp á einn milljarð og 50 millj. fyrir gengisfellinguna, en þar sem hér er um að ræða stóran hluta stúdenta við nám erlendis, þá að sjálfsögðu hækkaði þessi tala í íslenskum kr., þannig að hún mun vera á milli 1200 og 1 300 millj.

Ég skal verða fyrstur til þess að aðstoða stúdenta í sambandi við fjármögnun ti1 þeirra náms. En ég held að það kerfi, sem við er búið, sé þannig að á því þurfi að fara fram mjög ítarleg endurskoðun. Aðeins til að benda mönnum á hvernig endurgreiðslukerfið er, þá gæti ég sagt og skýrt það ákaflega auðveldlega, að hefði ég verið stúdent undir þessum kringumstæðum, eftir þeim lánasjóðslögum sem eru í dag, þá ætti ég enn eftir að greiða 4 afborganir af þeim lánum sem ég hefði fengið sem stúdent. Endurgreiðsla lánanna fer fram í fyrsta skipti 5 árum eftir að námi lýkur og stendur síðan í 15 ár, þannig að sá, sem lýkur 27 ára gamall embættisprófi, lýkur greiðslum sínum þegar hann er 47 ára gamall. Þetta er dæmi sem ég held að sé stúdentum sjálfum ákaflega óhagkvæmt. Ég ræddi þetta við nokkra stúdenta, sem við mig töluðu, og þeir voru mér fullkomlega sammála um að á þessu þyrfti að gera bragarbót, þarna væri um að ræða möguleika til fjármögnunar fyrir stúdentana sjálfa á meðan þeir þyrftu á þessum fjárhæðum að halda.

Ýmislegt annað í sambandi við Lánasjóðinn væri hægt að ræða, en ég sé ekki ástæðu til þess. Eins og ég sagði: Þessi mál eru í endurskoðun og væntanlega fær það frv., sem lagt verður fram um Lánasjóð stúdenta, afgreiðslu fyrir 3. umr. fjárl. og hægt verður að taka mið af afgreiðslu þess frv.

Um vinnubrögð í sambandi við fjvn. get ég sagt það að ég hyggst hafa þau nákvæmlega hin sömu og áður hefur verið og ég vék að því í minni frumræðu að fulltrúar flokkanna, sem eiga sæti í fjvn., munu að sjálfsögðu vinna að þeim málum eins og áður.

Þá kem ég að ræðu hv. 5. þm. Vestf. Það voru tvö eða þrjú atriði sem hann kom sérstaklega inn á. Ég held að ég verði að lesa fyrir hann aftur það sem ég sagði í sambandi við Byggðasjóðinn og framlög til Byggðasjóðs. Ég tók það mjög skýrt fram að á fjárl. hefði verið um að ræða hækkun upp á 440 millj. kr., þannig að það gat enginn farið í grafgötur með það af þeim sem gáfu sér tíma til að hlusta að ég gerði enga tilraun til þess að reyna að eigna ríkissjóði álgjaldið svo sem mér virtist á ræðu hv. 5. þm. Vestf. Um lánsfjármöguleika Byggðasjóðs liggur að sjálfsögðu ekkert fyrir, þannig að þegar verið er að bera saman eins og þessi hv. þm. gerði þá verða menn náttúrlega líka að taka með í dæmið hvaða möguleika Byggðasjóður hefði á lánsfé á næsta ári til þess að fá sambærilega útkomu. Það er ekki hægt að taka dæmið aðeins í öðru tilfellinu og skilja eftir óþekkta stærð og reikna með henni í lágmarki í hinu tilfellinu.

Síðan vék hann að því, þegar mér virtist hann kominn í strand, búinn að lesa upp úr þeim ræðum sem hann hafði hugsað sér eða hefur lesið heima í gærkvöld og hafði ekki fleiri atriði fram að færa í gagnrýni sinni á fjárlfrv., — þá vék hann sérstaklega að hugarfari fjmrh. nýja til ýmissa félagssamtaka, sem störfuðu í landinu, og hvernig ætti að fara með þau og bar saman fjárlagatölur ársins 1974 og frv. fyrir 1975. Hæstv. samgrh. er búinn að svara þessu að vissu leyti. Hann vék að því hvort hér væri ekki um nákvæmlega sömu vinnubrögð að ræða. Hér hef ég t.d. fjárl. frá því 1973 og fjárlagafrv. frá 1974 og ef við tökum þann lið sem hv. þm. sérstaklega minntist á, félmrn. og þá mörgu liði sem þar voru, þá er nákvæmlega sama þar, — ég held að það muni 500 þús. kr. á fjárveitingunni í fjárl. 1973 og fjárlagafrv. 1974.

Hér var komið með gagnrýni á það hverjar niðurstöðutölur þessa fjárlagafrv. væru. Menn voru engu að síður innra með sér vissir um hverjir voru valdir að því, en samt sem áður var hægt að koma víða við og láta líta út sem fjmrh. hefði ekki hugsað til þessarar stofnunarinnar eða hinnar, en þessir hv. þm. báru þetta að sjálfsögðu allt saman fyrir brjósti. Ég verð að segja að þær ræður, sem þeir fluttu hér, báru þess ekki merki að þeir hefðu fram að færa nokkuð nýtt í þessum málum og ég held, eins og ég sagði áðan, að þeir hafi verið sér þess meðvitandi hverjir það eru sem hafa staðið að því að slíkt fjárlagafrv. er lagt fyrir Alþ. í dag.