29.01.1975
Neðri deild: 36. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1409 í B-deild Alþingistíðinda. (1231)

130. mál, fóstureyðingar

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég ætla ekki efnislega að ræða þær aths. sem hv. þm. gerði að umræðuefni, en vil taka það fram til viðbótar því sem ég sagði áðan, að sú n., sem endurskoðaði þetta frv. og kannaði þær aths. sem fram hafa komið við upphaflega gerð frv., hélt 8 fundi. N. viðaði að sér öllum skriflegum aths., sem höfðu borist rn. og Alþ., og hélt fund með landlækni og fengin voru gögn og upplýsingar frá embætti hans, og einnig hélt n. fund með stjórn Læknafélags Íslands.

Ég get tekið undir það með hv. síðasta ræðumanni að vitaskuld verður afl atkv. að ráða í sambandi við þær till., sem hér liggja fyrir, eða brtt. sem kunna að verða fluttar við þetta frv.

En það er aðeins eitt atriði út af 13. gr. frv., að hafi konu verið synjað um aðgerð í einu sjúkrahúsi er ekki heimilt að framkvæma aðgerðina á öðru sjúkrahúsi nema leyfi n. komi til. Ég er mjög hræddur um að það verði erfitt að fá lækna til samstarfs með því að segja að þeim sé skylt að gera þessa aðgerð ef konan óskar eftir því, og það er verið að taka tillit til hvað á að knýja menn til að gera og setja það undir n., en konan hefur auðvitað sinn mikla rétt í því sambandi, og n. er ákvarðað að vinna skjótt samkv. þessu frv. Ég held að þessi viðbót við 13. gr. sé mjög vel skiljanleg. Hins vegar kemur auðvitað n., sem fær frv. til meðferðar, til þess að að athuga bæði þetta mál og aðrar aths. sem fram hafa komið og fram kunna að koma.

Ég er hv. síðasta ræðumanni ekki sammála um orðalag 9. gr., eins og hún var í því frv. sem lagt var fram á síðasta þingi, og það orðalag sem er á 9. gr. í þessu frv., eins og það er hér lagt fyrir. Ég tel að það sé miklu eðlilegra orðalag og gleggra hvað snertir heimild til fóstureyðingar af félagslegum ástæðum, eins og er nú í 9. gr. frv. Hins vegar, eins og ég sagði áðan, er það á valdi Alþ., hvora leiðina eða einhverja aðra leið eða annað orðalag Alþ. velur. Ég geri það ekki að neinu kappsmáli, þó að breytingar séu gerðar á þessu frv., ef n., sem fær það til meðferðar, telur það rétt og þingmeirihluti er fyrir hendi. Ég tel, eins og við erum raunar báðir sammála um, höfuðatriði þessa máls að frv. verði að lögum og I. kafli frv. er að dómi okkar beggja langviðamesti kaflinn í frv. og skiptir langmestu máli.

Ég ætla svo ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég vonast til þess, að heilbr.- og trn., sem fær frv. væntanlega til meðferðar, reyni eftir föngum að hraða afgreiðslu málsins og stefnt verði að því að þetta frv. verði að lögum á þessu þingi.