04.02.1975
Sameinað þing: 36. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1470 í B-deild Alþingistíðinda. (1285)

306. mál, auðæfi á eða í íslenskum hafsbotni

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Eins og kom fram í svari hæstv. forsrh. hefur ekki borist sú skýrsla sem óskað hefur verið eftir frá hinum rússnesku vísindamönnum. Þaðan hefur aðeins borist lausleg bráðabirgðaskýrsla. Það er ekki langt síðan Rannsóknaráð skrifaði bréf, ég held þriðja eða fjórða bréfið, og fór fram á slíka skýrslu. Mér finnst vera mjög athugandi, ef svar berst ekki bráðlega, að þess verði leitað í gegnum sendiráð okkar í Moskvu. Hins vil ég þó geta, að vera má að hinir rússnesku vísindamenn líti svo á að þeim beri ekki skylda til að senda okkur skýrslu, því að staðreyndin er sú, að þessi fundur þeirra er fyrir utan nýtanleg landgrunnsmörk, á það miklu dýpi, eins og fram kom í ræðu hæstv. forsrh. Einnig má geta þess, að rannsóknarleiðangur í samvinnu rússneskra og amerískra vísindamanna á svæðinu hér norðaustur, austur og suðaustur af landinu fann, eins og fram kom í ræðu fyrirspyrjanda, merki um olíu eða olíurík lög, og hefur ekki heldur tekist að fá skýrslu frá þeim leiðangri. Hefur því verið svarað, að hann hafi verið fyrir utan mörk hins íslenska yfirráðasvæðis.

Eins og kom fram í svari forsrh. hefur landgrunnsnefnd starfað að þessum málum. Hún var sett upp fyrir nokkrum árum að tillögu Rannsóknaráðs ríkisins og hefur að mínu viti unnið hið ágætasta starf. Skýrsla hennar um fyrsta áfanga rannsókna á íslensku landgrunni mun liggja fyrir fljótlega. Ég hygg þó að óhætt sé að segja, að það eru engin merki þess að olía finnist á landgrunni okkar íslendinga. Aftur á móti getur komið til mála að olíulög, sem virðast vera norðaustur af landinu, teygi sig undir landgrunnið og megi vinna þau með því að bora í gegnum landgrunnsskelina.

Ég stóð ekki síst upp til þess að þakka þau ummæli hæstv. forsrh, að landgrunnsrannsóknum verði haldið áfram af fullum krafti. Það leit svo út þegar fjárlagafrv. var fyrir Alþ. á s.l. hausti, að þeim yrði hætt, því að í grg. stóð að landgrunnsrannsóknum væri lokið, og engin fjárveiting var ætluð í því skyni. Sem betur fer tókst að leiðrétta þetta og fá 3 millj. kr., sem er hins vegar ákaflega lítið fjármagn í svo dýrar rannsóknir. Ég vil því treysta því, að í næsta fjárlagafrv. verði aukið fjármagn ætlað í þessu skyni.