25.02.1975
Neðri deild: 46. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1888 í B-deild Alþingistíðinda. (1510)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Ég vil gera örstutta aths. við þetta frv., sem hér liggur fyrir. Það er við 6. gr. frv., sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. er heimilt í samráði við Síldarverksmiðjur ríkisins að selja Síldarvinnslunni á Norðfirði vélar og tæki úr þeim verksmiðjum Síldarverksmiðja ríkisins, sem ekki er fyrirsjáanleg þörf fyrir á næstunni, með mjög hagstæðum greiðslukjörum. Ríkisstj. ákveður verð og greiðsluskilmála.“

Ég vil staldra ofurlítið við þessa gr. Ég vil, að endilega liggi fyrir samþykki forráðamanna þeirra sveitarfélaga, þar sem þær verksmiðjur eru sem áformað er að flytja eða þær vélar eru sem áformað er að flytja til Norðfjarðar. Ég legg mjög ríka áherslu á, að það verði ekki gert gegn vilja heimamanna að taka af þeim þessi atvinnutæki og þá atvinnuaðstöðu sem þeim fylgir. Og ég vænti þess fastlega, að hv. fjh.- og viðskn. Nd. sjái sér fært að breyta frv. á þann hátt, að það sé tvímælalaust tekið fram, að þetta verði ekki gert nema með samþykki heimamanna á hverjum stað.

Ég sé ástæðu til þess að þakka hæstv. forsrh. þau ummæli, að bæta þurfi tjón sem orðið hefur af snjóflóðum annars staðar á landinu. En því miður finnst mér, að ummæli hans hafi ekki verið alveg nógu skýr. Ég vil — með leyfi forseta — segja ykkur frá samþykkt bæjarráðs á Siglufirði sem mér hefur borist í hendur. Hún er þannig:

„Bæjarráðið samþykkir að fara þess á leit við þm. kjördæmisins, að þeir leggi eindregið til, að Viðlagasjóði verði falið að greiða bætur vegna tjóns af völdum snjóflóða í Siglufirði í des. s.l., með sama hætti og á Norðfirði, þegar málið verður tekið fyrir á Alþ.“

Þannig hljóðaði ályktun bæjarráðs á Siglufirði, og ég tel eðlilegt að víkjast góðmótlega undir bón bæjarráðs Siglufjarðar, því að þetta tjón er sama eðlis og það sem varð á Norðfirði, þó að sem betur fer hafi það ekki verið eins hörmulegt. Á Siglufirði eyðilögðust tvö vönduð íbúðarhús og verða ekki byggð upp aftur á sama stað, þannig að eigendur þeirra hafa orðið fyrir miklu tjóni. Ég legg á það sérstaka áherslu að þetta verkefni verði falið Viðlagasjóði, því að ég hygg að samræmi verði mest í hlutunum með því. Og ég vænti þess, að hv. fjh.- og viðskn. d. hafi þetta atriði einnig í huga.