28.02.1975
Efri deild: 51. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1994 í B-deild Alþingistíðinda. (1591)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að svara þeim fyrirspurnum sem hér hafa komið fram.

Hv. 11. landsk. þm. spurði um það, á hverju sú áætlun byggðist að 1 söluskattsstig gæfi 960 millj. kr. í árstekjur og hvaða munur væri á þeirri áætlun miðað við áætlun fjárl. Því er til að svara, að því er ég best veit munu fjárl. fyrir árið 1975 hafa gert ráð fyrir óbreyttum grundvelli af tekjum söluskattsstofns frá árinu 1974 og gengið út frá 930 millj. kr. árstekjum af hverju söluskattsstigi. Hins vegar mun nú vera gert ráð fyrir því að verðbreytingar á árinu 1975, frá ársbyrjun til ársloka, nemi um það bil 25%, en aftur á móti sé um að ræða magnminnkun milli 7 og 9%. Á þessum grundvelli er áætlunin, 960 millj. kr. tekjur af hverju söluskattsstigi, miðuð.

Þá spurði hv. 1. landsk. þm. um það, í hvaða skyni verið væri að leitast við að draga úr útgjöldum ríkisins og ríkissjóðs, og gaf sér svarið sjálfur, sem ég get fallist á. Það er hvort tveggja í senn nauðsynlegt að létta útgjöld ríkissjóðs sjálfs hans vegna og hins vegar er það nauðsynlegt til þess að hamla á móti verðbólguþróuninni.

Ég vildi síðan gera að umræðuefni nokkur þau atriði, sem hér hafa komið fram. Hv. þm., sem tekið hafa til máls, kveðast allir vera sammála því að standa við gefin fyrirheit og skuldbindingar um það að greiða tjón af völdum Vestmannaeyjagossins og snjóflóðanna í Neskaupstað, en bara ekki með þeim hætti sem lagt er til í því frv. sem hér er til umr. Við skulum þá athuga hvað viðfangsefnið er og hvaða skilyrði eru nú til staðar þegar við eigum að taka lokaákvörðun í þessu efni.

Viðlagasjóði var komið á fót og nú þessa stundina, sem við erum að ræða þessi mál, mun hann vera í 1600–1700 millj. kr. vanskilaskuld við Seðlabanka Íslands. Það er óumsamin skuld, það er yfirdráttur á reikningi Seðlabankans sem í raun og veru felur í sér, að Seðlabankinn hefur aukið prentun seðla, aukið peningamagnið í umferð, og þar af leiðandi hefur þessi skuld orðið til þess að auka verðbólguna í þjóðfélaginu. Þegar þessi staða er lögð til grundvallar 15–16 eða á 17 hundrað millj. kr. skuld, sem á ekki í raun og veru að vera, þá bætist við annað úrlausnarefni, annað en að greiða þessa vanskilaskuld, og það er að fjármagna bætur vegna snjóflóðanna í Neskaupstað. Fram hefur komið að það tjón er áætlað 500 millj. kr. Ljóst er að hér er um mjög lauslega áætlun að ræða og formælandi Alþb. í Nd., sá eini þm. sem á heimili sitt í Neskaupstað, hefur tekið fram að þessi áætlun væri allt of lág. Við eigum sem sagt fyrir höndum að sjá um fjármögnun á a.m.k. 500 millj. kr. til viðbótar vöxtum af vanskilaskuldinni og einhverjum afborgunum af henni. Þessu viðfangsefni er ýtt til hliðar, í raun og veru er þessu vandamáli ýtt til hliðar með þeim hugsunarhætti að það nægi að taka áfram 1 söluskattsstig. Og hver yrði staðan þá í árslok? Vanskilaskuldin mundi enn aukast að vöxtum um 1–2–3 hundruð millj. og enn þá meira ef áætlaðar bætur til Neskaupstaðar eða Vestmannaeyja hækka. Ég held að það fari ekki á milli mála að þm. horfast ekki í augu við vandamálið ef þeir taka þannig á því.

Mig langar til þess að minna á, þegar sagt er að Seðlabankinn geti greitt þetta úr sínum sjóðum, að staða Seðlabankans er ekki allt of góð. Á s.l. ári dró ríkissjóður á Seðlabankann í yfirdráttarskuld sem nemur 3 400 millj. kr. vegna greiðsluhalla hjá ríkissjóði. Á síðasta ári drógu viðskiptabankarnir á Seðlabankann upphæð sem nemur á 5. þús. millj. kr. Allt þetta varð til þess að gjaldeyrissjóðir landsins hurfu og eru nú engir. Með þetta að bakgrunni, fjárþörf Viðlagasjóðs fyrir augum og jafnframt að það er ekki eingöngu fjárþörf Viðlagasjóðs, sem við þurfum úr að bæta, heldur og það vandamál að draga úr útgjaldaáformum ríkissjóðs um a.m.k. 2 500-3 700 millj. kr., — minnugir þess að við þurfum að draga úr útlánaáformum fjárfestingarlánasjóða um millj. 2 000 og 3 000 millj. kr. og við þurfum að sjá fyrir fjárþörf ýmiss konar nauðsynlegra orkuframkvæmda sem nemur 1–2 þús. millj. kr., — með þá þróun í peninga- og fjármálum í huga sem átti sér stað á síðasta ári og hefur leitt til þeirrar stöðu nú að úr engu er að spila, hvorki hvað snertir gjaldeyri þjóðarbúsins né fjármagn ríkissjóðs, og þegar við okkur blasa slík geigvænleg fjáröflunarvandamál sem raun ber vitni, þá skírskota ég til hv. þm. að sýna ábyrgðartilfinningu og horfast í augu við þá fjárvöntun sem Viðlagasjóði er á hönd. Því aðeins stöndum við við þær skuldbindingar sem við sameiginlega og allir hér inni höfum tekist á hendur og í dag reyndar staðfest að við viljum standa við.

Það hefur verið rætt um að þessi skattlagning, aukning söluskatts um 1% stig, hefði óholl áhrif á samningsstöðuna á vinnumarkaðinum. Ég geri mér það ljóst. Og vissulega er hér um neyðarúrræði að ræða. En miðað við þá erfiðleika sem við er að glíma, miðað við þá þróun viðskiptakjara sem við búum við og stöðu þjóðarbúsins, þá er ekki góðra kosta völ. Ég treysti á skilning landsmanna allra. Hér er skuldbinding, sem landsmenn allir hafa tekið á sig og ég er í engum vafa um að þeir munu bera og ekki láta hafa áhrif á sig í afstöðu sinni til annarra mála og málefna, jafnvel þótt hagur manna þrengist nú því miður óhjákvæmilega. Aftur á móti er það vilji ríkisstj. að hækkun þessa söluskattsstigs lendi ekki á þeim launþegum sem minnst bera úr býtum. Og ríkisstj. hefur miðað ráðagerðir sínar við það, og launajöfnunarbætur væru þeim mun hærri, einmitt til þessa tekjuhóps í þjóðfélaginu, sem næmi þessu aukna söluskattsstigi, en þær hefðu ella orðið.

Ég vil í tilefni þessa láta það koma hér fram, að ætlunin var að fyrir lægi nú fyrir 1. mars hér í hv. d. till. ríkisstj, og meiri hl. fjh.- og viðskn. d. um launajöfnunarbætur. En samkv. tilmælum aðila vinnumarkaðarins hefur verið ákveðið að fresta framlagningu þessara till. í þeirri von að aðilar vinnumarkaðarins geti komið sér saman um fyrirkomulag í þessum efnum. Er það von mín að svo verði.