17.03.1975
Neðri deild: 59. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2426 í B-deild Alþingistíðinda. (1908)

177. mál, Fljótsdalsvirkjun

Magnús Kjartansson:

Hæstv. forseti. Mér virðist nú dálítið örðugt að halda þessari umr. áfram án þess að hæstv. iðnrh, sé viðstaddur. Mér er kunnugt um að hann er tepptur af umr. í Ed. og getur því ekki verið á tveim stöðum í senn. En ég tel nauðsynlegt að hann sé viðstaddur þessa umr., ekki síst þar sem í ræðum þeirra tveggja hv. þm., sem hér hafa tekið til máls, hefur verið vakið máls á ýmsum spurningum og óskað eftir því að við þeim kæmu svör frá hæstv. ráðh. Og ég er hér einnig með spurningu sem ég tel ákaflega brýnt að fá svarað og þyrfti raunar að fást svarað sem allra fyrst.

Hv. flm., Sverrir Hermannsson, vék að því í ræðu sinni að erlendir aðilar um stóriðju legðu mikla áherslu á könnun á orkuvinnslumöguleikum á Austfjörðum og að svisslendingar hefðu boðið að leggja fram fjármuni til rannsóknar á þessum orkumöguleikum. Og hv. þm. lýsti því að hann væri reiðubúinn að taka þessu boði. Hér er um ákaflega alvarlegt mál að ræða ef ætlunin er að láta erlenda auðhringa taka til við rannsóknir á orkuvinnslumöguleikum á Íslandi því að sjálfsögðu felst í slíku að sá auðhringur, sem leggur slíka peninga fram, vill fá aðstöðu til þess að nýta orkuna síðar. Sá aðili, sem hefur lagt fram þessa hugmynd, er svissneski auðhringurinn Alusuisse, sem kom upp álbræðslunni í Straumsvík, og þessi hugmynd hans um að leggja fram peninga til virkjunarrannsókna er tengd ákaflega stórum hugmyndum sem hringurinn hefur sett fram. Þær hugmyndir eru hvorki meira né minna en þær að Alusuisse og íslendingar búi til nýjan alþjóðlegan auðhring. Þar er Íslendingum ætlað að leggja fram svo sem þriðjung þeirrar orku sem unnt er að framleiða í landinu sem eins konar hlutafé af sinni hálfu. Alusuisse býðst svo til að leggja á móti námaréttindi sem þeir eiga í námum víðs vegar um heim. Svo á að fá fjármuni frá fjármagnsaðilum, frá auðhringum sem hafa með fjármuni til að gera, til þess að búa úr þessu nýjan, þó nokkuð stóran alþjóðlegan auðhring. Þetta er hugmyndin og á þessu byggist það tilboð sem hv. þm. var að tala um. Sem sé það eru sjálf orkuréttindin, sjálf orkuframleiðslan á Íslandi, sem þannig á að leggja í púkk til þess að búa til alþjóðlegan auðhring þar sem íslendingar ættu að sjálfsögðu mikinn minni hluta.

Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að við fáum að vita um viðbrögð hæstv. ríkisstj. við þessari hugmynd, því að mér er ekki kunnugt um að slík viðbrögð liggi fyrir. Hitt veit ég, að nú um helgina voru sendir þrír íslendingar til viðræðna við Alusuisse. Það er Jóhannes Nordal seðlabankastjóri og þm. Ingólfur Jónsson og Steingrímur Hermannsson. Mér er ekki kunnugt um hvaða erindisbréf þeir eiga að hafa með sér frá hæstv. iðnrh. En fyrst þetta mál ber á góma hér núna hefði ég talið nauðsynlegt að Alþ. fengi vitneskju um það hvort e. t. v. hefur verið um að ræða þessar fáránlegu hugmyndir. Og ég vil beina því til hæstv. forseta hvort ekki sé rétt að fresta þessari umr. þangað til hæstv. iðnrh. getur verið hér viðstaddur og svarað spurningum manna, bæði um þetta atriði, sem ég hef hér minnst á, og önnur atriði sem hafa komið fram í umr.

Að því er sjálfa till. varðar, sem hv. þm. Sverrir Hermannsson hefur hér mælt fyrir, þá er ég algerlega andvígur síðari hl. þeirrar till, þ. e. a. s. að leitað verði eftir kaupanda að raforku með stóriðju staðsetta í Reyðarfirði fyrir augum. Hv. þm. talaði einnig um það í ræðu sinni hversu mikla orku við ættum, og við ættum miklu meiri orku en við þyrftum að nota til okkar daglegu og venjulegu þarfa og við yrðum að koma þessari orku í verð. En ef við höfum þann háttinn sem þessi hv. þm. talar um, þá erum við að skipa sjálfum okkur á bekk með nýlendum og hálfnýlendum sem selja orku sína sem hráorku. Þannig er háttað verðlagningu í sambandi við iðnaðarframleiðslu á okkar dögum að bæði hráefni og hráorka eru verðlögð ákaflega lágt, en arðsemin kemur í sambandi við sjálfa framleiðsluna. Ef við ætlum okkur það hlutskipti að framleiða einvörðungu orku til að selja á þennan hátt, þá erum við að eftirláta hinn raunverulega ágóða af orkuöfluninni þeim erlendu aðilum, sem eiga slíkar verksmiðjur, og sætta okkur við það hlutskipti að fá aðeins í okkar hlut örlítið brot af þeim verðmætum. Auk þess held ég að það ætti að liggja í augum uppi fyrir hvern mann að ef hér eiga að rísa erlend stórfyrirtæki eitt af öðru, þá erum við að afsala okkur efnahagslegu valdi yfir atvinnuvegum okkar íslendinga. Við erum að gefa erlendum aðilum efnahagsleg völd sem við höfum nú sem betur fer að mjög verulegu leyti sjálfir. Eftir því sem slíkum fyrirtækjum fjölgaði í landinu yrði efnahagslegt fullveldi okkar þrengra. En við þetta bætist einnig það fjárhagslega atriði, sem ég minntist á áðan, að það er frumstæðasta aðferðin til þess að koma orku í verð að selja hana til fyrirtækis. Það viðfangsefni, sem við okkur blasir á því sviði, er að við verðum sjálfir menn til þess að koma upp fyrirtækjum sem við ráðum sjálfir yfir, sem geta nýtt þessa orku og notað hana til fullvinnslu á ýmsum afurðum sem hægt er þá að flytja út. Þá tryggjum við okkur það að orkan sé verðlögð í samræmi við raunverulegt verðmæti sitt eins og það birtist á almennum markaði. En þetta eru atriði sem við fáum tækifæri til að fjalla ítarlegar um á næstunni. Hins vegar vil ég enn beina því til hæstv. forseta hvort ekki sé rétt að fresta þessari umr. út af þeirri fyrirspurn, sem ég hef hér vakið máls á, og út af fyrirspurnum sem fram hafa komið í máli annarra hv. þm.