21.04.1975
Neðri deild: 69. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3067 í B-deild Alþingistíðinda. (2310)

204. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Frsm. 1. minni hl. (Magnús Kjartansson) :

Hæstv. forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. gat um áðan hefur þetta mál legið fyrir n. um eins mánaðar skeið. Meginhluta þess tíma starfaði að málinu af hálfu Alþb. hv. þm. Lúðvík Jósepsson og vann þar mest að málinu af okkar hálfu. Áður en hann hvarf héðan af þingi gekk hann frá tilteknum brtt. sem eru fluttar á sérstöku þskj. og enn fremur hafði hann samið af sinni hálfu ítarlegt nál. sem prentað er sem meginuppistaða í nál. því sem ég skila.

Þetta nál. hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar er eins konar úttekt á því tímabili sem liðið er síðan núv. ríkisstj. tók við völdum. Þar eru raktar ýmsar meginstaðreyndir um þróun efnahagsmála og hagmála á þessu tímabili og þar er að finna ákaflega mikinn fróðleik og sjónarnnið sem við Alþb.-menn teljum vera rétt frá okkar sjónarmiði. Ég vil um þetta vísa til nál. sjálfs. Þar er þessar röksemdir að finna, En ég mun í mínu máli stikla á nokkrum staðreyndum sem sumar eru þar, og einnig öðrum sem ekki er vikið að þar.

Í ræðu sinni áðan talaði frsm. meiri hl. fyrst og fremst um þá þætti frv. sem snúa að skattamálum. Hins vegar eru margir aðrir þættir í frv., og ég veitti því sérstaka athygli að hv. frsm. meiri hl. sá ekki ástæðu til þess að fjalla um 1. gr. frv. sem er heimild til ríkisstj. að lækka fjárveitingar um allt að 3 500 millj. kr. Hann fjallaði ekki heldur að neinu ráði um VIII. kafla frv. sem þrengir mjög að getu fjárfestingarlánasjóða, atvinnuveganna, en það eru einmitt þessar tvær greinar sem við Alþb.-menn teljum hvað alvarlegastan þátt í þessu frv., þær niðurskurðarráðstafanir sem þar er verið að undirbúa og við óttumst að muni hafa mjög alvarleg áhrif ef eftir þeim verði farið.

Um skattamálin, sem hv. þm. fjölyrti mjög um, er það að segja að þar er um að ræða margvíslegar, en mjög minni háttar breytingar. Í því sambandi er ástæða til að vekja athygli á því að þegar fjárlög voru afgr. hér fyrir áramótin ákvað ríkisstj. að hækka skattlagningu um hvorki meira né minna en 18.5 milljarða. Enn fremur var ákveðið að hækka útsvör í landinu á milli ára um rúmar 3 000 millj. kr., þannig að þarna er um að ræða skattheimtu sem samtals nemur 21–22 milljörðum kr. Það, sem aftur á að skila samkv. þessu frv., eru samtals 2 000 millj. kr. En í því sambandi er ástæða til að minnast þess að í fjárl. sjálfum var tekin frá upphæð sem nam 700 millj. kr. í þessu skyni. Viðbótin er þannig aðeins 1 milljarður og 300 millj. kr., í samanburði við aukna skattheimtu, sem nemur, eins og ég sagði áðan, 21–22 milljörðum, þannig að þarna er um það að ræða að gerðar eru ákaflega smávægilegar breytingar á sama tíma og skattheimta er aukin ákaflega mikið.

Það er kannske ástæða til að rifja upp örfáa þætti úr ferli núv. ríkisstj. í þessu sambandi. Þegar hæstv. ríkisstj. tók við völdum var svo að heyra á hæstv. ráðh. að þeir kynnu ráð til þess að taka á fjárhagsvandanum með tiltölulega skjótum hætti. Þeir hófust handa með því að lækka gengið um 17% í ágústlok á síðasta ári, söluskattur var síðan hækkaður um 2% og jafnframt var kaupgjald raunverulega bundið með afnámi vísitölubóta á kaup. Afleiðingarnar af þessu urðu þær að framfærsluvísitalan hækkaði úr 297 stigum, eins og hún var 1. ágúst í fyrra, í 342 stig 1. nóv. eða um 15.2%. Á móti þessu koma svokallaðar láglaunabætur, sem voru settar með lögum án þess að verkalýðshreyfingin hefði nokkuð á það fallist, sem námu 5–6% á venjulegt kaup.

Það var, eins og ég sagði, svo að sjá sem ríkisstj. teldi að með þessum ráðstöfunum hefði henni tekist að ráða við þau efnahagsvandamál sem við væri að etja í þjóðfélaginu. Hún hafði þegar fært til mjög verulega fjármuni frá vinnandi fólki í landinu til atvinnurekenda og milliliða. Og það var svo að sjá sem hún teldi að þetta væri nægilegt. A. m. k. gekk ríkisstj. og hennar lið til fjárlagagerðar með því hugarfari að þessum vandamálum hefði öllum verið stjakað til hliðar, og það voru samin fjárlög sem fólu í sér að þau voru hækkuð um hvorki meira né minna en 52%. Það er algert einsdæmi í sögu íslensku þjóðarinnar, þar af hækkuðu almenn rekstrarútgjöld mun meira eða um 76%. Þessi fjárlagasmíð var í ákaflega mikilli andstöðu við þann almenna áróður sem ráðh. höfðu haft uppi og enn fremur sérfræðingar hæstv. ríkisstj. Þeir höfðu lýst ástandinu í þjóðfélaginu á allt annan veg en þessi fjárlagagerð var til marks um, og það kom ýmsum ákaflega mikið á óvart að gengið skyldi frá fjárlögum á þennan hátt. En það er nú ljóst hvað fyrir ríkisstj. vakti í því efni. Það vakti fyrir hæstv. ríkisstj. að auka skattheimtuna eins og ég gat um áðan. Það var hækkuð skattheimta um 18.5 milljarða kr., langsamlega mest í óbeinum sköttum, en þó voru beinir skattar hækkaðir um 800 millj.

Afleiðingarnar af þessum og öðrum aðgerðum ríkisstj. urðu þær að óðaverðbólgan hélt áfram að magnast. Á fyrstu 6 mánuðum sem núv. ríkisstj. var við völd hækkaði vísitalan úr 297 stigum, eins og hún var 1. ágúst eins og ég gat um áðan, í 372 stig eða um 25.3% á hálfu ári, Þetta er meðaltal, en það var mjög mikið einkenni á þessari þróun að það, sem hækkaði langmest, voru brýnustu nauðsynjar heimilanna: matvæli, upphitun húsa og rafmagn. Síðan kom í ljós að ríkisstj. hafði ekki haft neina raunverulega hugmynd um hvað hún var að gera, því að 13. febr. er ákveðin ný gengislækkun, 20%. Þá hefur gengið verið fellt tvisvar sinnum á 5 mánaða tímabili. Þetta er algert einsdæmi í sögu okkar íslendinga, og ég efast um að það séu margar þjóðir heims þar sem slíkir atburðir hafa gerst, þegar undan eru skilin örfá ríki í rómönsku Ameríku þar sem gengið hefur stundum lækkað dag frá degi.

Eftir þessa þróun alla saman, tvennar gengislækkanir, hrikalega hækkun á öllum þjónustugjöldum og verðhækkunum af öllu tagi, þá er það spá sérfræðinga nú að vísitalan verði 1. maí n. k. komin upp í 422 stig. Hún hefur þá hækkað úr 297 stigum í 422 stig eða um 125 vísitölustig á 9 mánuðum. Það er 42% hækkun. Þetta er spá sérfræðinga ríkisstj. sjálfrar. En það er margt sem hendir til þess að hækkunin verði meiri og geti komið í ljós að hún hafi orðið 45–50%.

Það hefur verið sagt að allt þetta hafi verið gert til þess að bjarga afkomu atvinnuveganna. Samt er það nú svo að forustumenn atvinnuveganna hafa dregið það mjög í efa til skiptis og á mismunandi forsendum að verið væri að bjarga þeim. T. d. lýstu forustumenn sjávarútvegsins yfir því að því fari mjög fjarri að seinni gengislækkunin styrkti stöðu þeirra til nokkurra muna. Þá var farið í það að bæta hag þeirra, eins og það var orðað, með því að færa til óhemjulega fjármuni í gegnum bankakerfið til þess að koma fyrirtækjum í sjávarútvegi á betri rekstrargrundvöll. Þar hafa að undanförnu verið færðir til milljarðar og aftur milljarðar og um þetta hefur Alþ. ekki fengið neinar skýrslur. Þetta hefur gerst þannig að þessum fyrirtækjum hafa verið veitt löng lán með hagstæðum kjörum með fyrirheitum sem ná langt fram í tímann. Þannig eru fluttir til milljarðar kr. Þetta kemur þannig út að það er bjargað hverju einasta fyrirtæki í sjávarútvegi á Íslandi. Bjargráðin eru við það miðuð að bjarga skussunum og að bjarga þeim sem hafa verið óprúttnastir við að taka skyndilán án þess að hafa nokkrar eðlilegar forsendur fyrir því. Að sjálfsögðu merkir þetta það að þeir, sem hafa hagað atvinnurekstri sínum af eitthvað meiri skynsemi, fá í sinn hlut verulegan ábata. Það eru þessar tilfærslur, sem verið er að framkvæma í þágu sjávarútvegsins, sem síðan hafa valdið því að formaður Félags ísl. iðnrekenda lýsir því yfir að ríkisstj. sé að mismuna atvinnuvegunum á háskalegasta hátt bæði innan sjávarútvegsins og ekki síst á milli iðnaðar og sjávarútvegs (Gripið fram í.) Hann lýsti yfir því á aðalfundi Félags ísl. iðnrekenda fyrir nokkrum dögum að þarna væri um að ræða mjög háskalega mismununarstefnu þannig að því fer mjög fjarri að þessar ráðstafanir ríkisstj. njóti einu sinni stuðnings forustumanna atvinnuveganna sem telja að því fari mjög fjarri að ríkisstj. haldi rétt á þessum málum.

Meginatriðið, sem snýr að almenningi, er þó sú hrikalega fjármunatilfærsla sem þarna er verið að framkvæma, þeir milljarðar, þeir ákaflegu mörgu milljarðar sem hafa verið fluttir til með því að skerða kjör launafólks og eiga svo að bæta afkomu atvinnurekenda og milliliða.

Við höfum heyrt skýringarnar á þessari stefnu. Þær hafa verið þær að á okkur hafi bitnað ákaflega mikil áföll, sem við höfum ekki ráðið við, af völdum verðhækkana erlendis og vegna þess að okkar eigin framleiðsluvörur hafi lækkað í verði. Það er ástæða til þess að víkja svolítið að þessu atriði.

Að því er varðar útflutningsverð á afurðum okkar hefur Þjóðhagsstofnun reiknað út vísitölu útflutningsverðs miðað við dollara og þær líta þá þannig út:

Ársmeðaltal árið 1972 100

- - 1973 139.4

- - 1974 167.1

Um þetta ár sem hæstv. ríkisstj. segir að hafi verið alveg voðalegt, árið 1974, segir Þjóðhagsstofnun orðrétt:

„Verðlag útflutnings hækkaði að meðaltali á árinu um 34%, í kr. um 21–22% í erlendri mynt.“

Þetta er nú sú mikla verðlækkun á útflutningsvörum okkar sem ríkisstj. er ævinlega að tala um.

Þegar við sjáum útreikninga um þetta efni í blöðum eru þeir þannig tilbúnir að það er tekið mið af toppum og lægðum. Það er þannig með þessar vörur eins og margar aðrar að verðið sveiflast. Það koma stundum mjög háir toppar og stundum dældir og það er þessi samanburður sem er forsenda þeirra hrikalegu lýsinga sem við sjáum í stjórnarblöðunum. En það, sem segir hina raunverulegu sögu, er auðvitað þau ársmeðaltöl sem ég var að tala um, hvernig þetta kemur út miðað við meðalverðlag á einu ári. Og þá kemur árið 1974 út á þennan hátt, að vísitala útflutningsverðs hefur hækkað úr 139.4 stigum á árinu 1973 í 167.1 stig á árinu 1974. Spá, sem sérfræðingar hafa gert fyrir árið 1975, ásamt mjög hagstæðum sölum sem þegar hafa verið gerðar, benda til þess að við getum reiknað með að meðalútflutningsverð í dollurum verði á þessu ári svipað og það var á árinu 1974.

Þetta eru meginstaðreyndirnar um verðlagið á útflutningsvörum okkar. Hitt er vissulega rétt, að það var ákaflega margt sem fór úr skorðum á árinu 1974 og ég mun víkja að því síðar. En staðan í byrjun árs 1974 var ákaflega hagstæð. Árið 1973 hafði verið mjög hagstætt atvinnuvegunum. Þjóðhagsstofnunin sagði í skýrslu um það ár orðrétt:

„Á hvaða mælikvarða sem mælt væri virtist hagur sjávarútvegsins á árinu 1973 með því besta sem gerst hefði. Brúttóhagnaður sjávarútvegsins það ár varð 2300 millj. kr. í samanburði við 800 millj. kr. árið áður. Afkoma iðnaðarins var einnig góð á árinu 1973 og betri en árið á undan. Brúttóhagnaður var 6.9% af heildartekjum í samanburði við 5.6% árið áður. Og sömu sögu er að segja um landbúnað og verslun.“

Eins og menn muna var gjaldeyrisvarasjóðurinn hærri en nokkru sinni fyrr í sögu þjóðarinnar í byrjun árs 1974. Úttekt, sem Þjóðhagsstofnunin gerði um mitt ár 1974, sýndi að staða atvinnuveganna var metin svipuð þá og hún hafði verið. Þannig var árið 1974 í heild, afkoma iðnaðar og landbúnaðar var góð, afkoma sjávarútvegsins var misjöfn og mun verri en á metárinu 1973, en þó yfirleitt sæmileg og mjög góð í sumum greinum.

Með þessu er ég þó engan veginn að afneita því að þjóðarbú okkar hafi átt við verulega erfiðleika að stríða. Ég var áðan að tala um vísitölu verðlags útflutningsafurða. En það skiptir einnig ákaflega miklu máli hvaða verðlag er á þeim nauðsynjum sem við flytjum inn í landið. Sú vísitala lítur þannig út samkv. útreikningum Þjóðhagsstofnunar í dollurum:

Árið

1972

100

stig

Árið

1973

120.9

stig

Árið

1974

162.9

stig

Við sjáum á þessum tölum, ef við berum þær saman við hinar fyrri að árið 1973 voru viðskiptakjörin íslendingum afar hagstæð. En breytingin á síðasta ári gerir það að verkum að viðskiptakjörin í fyrra eru um það bil þau sömu og þau voru á árinu 1972. Verðlag á innfluttum varningi árið 1974 hækkaði um 34% og af því hlutust að sjálfsögðu mjög alvarleg verðbólguáhrif vandamál sem nauðsynlegt var að taka á.

En ég vil minna á það — ekki síst vegna þess að. hæstv. ráðh. Sjálfstfl. gera mikið að því að kenna vinstri stjórninni og þar með hinum ágætu vinum sínum, ráðh. Framsfl., um alla þá erfiðleika sem við er að etja — ég vil minna á það hvernig stjórnmálaástandið var hér á árinu 1974. Í byrjun árs 1974, einmitt þegar þessi vandamál byrjuðu að gera vart við sig af vaxandi þunga eins og ég var að geta um áðan, þá glataði ríkisstj, meiri hl. sínum á þingi. Það mátti ekki muna einum, eins og menn vita, en einn úr stjórnarliðinu brást og gekk í lið með stjórnarandstöðunni. Þá gerðust þau tíðindi að stjórnarandstaðan lýsti yfir því að hún mundi koma í veg fyrir samþykkt allra þeirra till. og frv. sem ríkisstj. bæri fram á þingi og skipti þá engu máli hvert efni þeirra væri. Þetta er eitthvert mesta ábyrgðarleysi sem um getur í þingsögu íslendinga og ég hygg að slík viðbrögð væru næsta sjaldgæf í grónum þingræðislöndum. Engu að síður var þannig að þessum málum staðið að það var ekki kleift fyrir fyrrv. ríkisstj. að taka á þessum málum á fyrstu mánuðum ársins í fyrra eins og nauðsynlegt hefði verið. Þegar ríkisstj. bar svo fram frv. sitt gerðust þau tíðindi, eins og menn mína, að einn af ráðh., Björn Jónsson, gekk úr ríkisstj. og allir þm. Samtaka frjálslyndra og vinstri manna snerust gegn henni að undanteknum hv. þm. Magnúsi T. Ólafssyni sem þá gegndi starfi menntmrh. Þess vegna urðu engin tök á því að taka á þessum vandamálum eins og þurft hefði að gera í ársbyrjun 1974. Þeir, sem komu í veg fyrir það að unnt yrði að taka á þessum vandamálum, bera að sjálfsögðu ákaflega mikla ábyrgð. Þetta ástand olli að sjálfsögðu mjög miklu tjóni. Það ýtti undir brask og spákaupmennsku. Menn vissu að það væri von á ráðstöfunum, án þess að unnt hefði verið að grípa til þeirra. Það kom upp sjúklegt ástand í viðskiptamálum og peningamálum. Innflytjendur kepptust við að sóa gjaldeyri í von um að geta hagnast á honum. Fólk, sem átti fjármuni eða hafði tök á að komast yfir fjármuni, reyndi að binda þá í verðmætum sem það hélt að mundu halda gildi sínu. Sjálfstfl. og Morgunblaðið ýttu undir þessa þróun með því að hræða fólk í sífellu og reyna. þannig að grafa undan eðlilegum og ábyrgum viðhorfum. Þetta sjúkdómsástand, sem hófst með innfluttri verðbólgu, en jókst og magnaðist vegna óþjóðhollra viðbragða Sjálfstfl. og Morgunblaðsins, hefur haldið áfram allt fram til þessa dags. M. a. kynntist hæstv. núv. viðskrh. þessu í janúarmánuði þegar hann flutti ræðu sína um gjaldeyrisstöðuna og óskaði eftir ábyrgum viðhorfum. Viðbrögðin urðu þveröfug einmitt af hálfu þeirra innflytjenda sem hann er nú í samvinnu við. Þess vegna snaraðist ákaflega mikið á árinu 1974 bæði af óviðráðanlegum ástæðum og vegna þessa sjúklega ástands hér innanlands. Engu að síður er staða efnahagskerfisins allt önnur en hæstv. ríkisstj. vill vera láta, og það er ómaklegast af öllu ef reynt er að taka á vandamálum, sem sprottin eru af þessum rótum, með því að ráðast á þá sem þessi þróun hefur bitnað harðast á, láglaunafólkið á Íslandi. Þrátt fyrir allt er staðan slík að engin tilefni eru til þeirrar stórfelldu kjaraskerðingar og þess samdráttar sem hæstv. ríkisstj. er nú að leiða yfir þjóðina.

Ég minntist áðan á það hverjar horfur væru um verðlag á útflutningsvörum okkar. Það er alkunna að við eigum ekki í neinum erfiðleikum með að selja okkar útflutningsvörur. Þau ánægjulegu tíðindi hafa einnig gerst að aflinn fyrstu 3 mánuði þessa árs hefur orðið um 20% meiri en hann var á sama tíma í fyrra. Þau frystihús, sem eiga aðild að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, hafa tekið við 33% meiri afla í marslok en þau gerðu í fyrra og frystihúsin á vegum Sambandsins um 20% meiri afla. En í spám hæstv. ríkisstj. var reiknað með óverulegri aflaaukningu eða 2–5%. Þetta eru mjög ánægjuleg tíðindi, og við skulum vissulega muna eftir þeim þegar við erum að vega og meta hvað gera á í atvinnumálum hér á Íslandi.

Það er oft um það talað að loðnuverðið hafi lækkað mjög verulega. Það er alveg rétt. Hins vegar var gæfan okkur svo hliðholl að loðnuaflinn í ár má heita hinn sami og á metárinu í fyrra. Samkv. þeim tölum, sem fyrir liggja, er talið að útflutningsverðmæti þessa loðnuafla verði 3 600 millj. kr. lægra í ár en í fyrra. Þetta er áfall. En það hefur gerst annað. Það hefur einnig gerst að saltfiskur hefur hækkað mjög verulega í verði. Það er talið að vegna verðhækkana muni útflutningsverðmæti saltfisks vaxa úr 6600 millj. í 10 400 millj. kr. eða um 3800 millj. kr. Þetta vegur upp verðlækkunina á loðnuafurðum. Við verðum að líta á þetta dæmi í heild, ekki taka aðeins úr einstaka þætti og segja að þeir séu rökstuðningur fyrir einu og öðru. Ef við berum þá þætti saman, þá er staðan alls ekki þannig að við höfum ástæðu til neinnar annarlegrar svartsýni, enda eru það ekki þessar lýsingar sem í raun og veru eru ástæðan fyrir þeirri stefnu sem hæstv. ríkisstj. framkvæmir. Aðalverkefni hennar, það sem hún hefur tekið sér fyrir hendur að gera, er að færa til mjög stórfellda fjármuni í þjóðfélaginu, framkvæma stórfellda kjaraskerðingu hjá launafólki, sjómönnum og bændum, en færa þá fjármuni til atvinnurekenda og milliliða í þjóðfélaginu.

Ég benti á það áðan að það væri áætlað að vísitala framfærslukostnaðar hækkaði um 42% á 9 mánuðum. Á móti þessu hafa komið vissar kauphækkanir. Þar er um að ræða láglaunabæturnar sem voru lögfestar í fyrra og nema 5–6%, 3% hækkun kom 1. des. samkv. samningum sem verkalýðshreyfingin hafði gert áður, og nú hefur verið samið um kauphækkun sem jafngildir 10.9%. Þannig hefur komið um 19% kauphækkun á meðallaun verkamanna á móti verðhækkunum sem nema 42% a. m. k. að meðaltali, en á flestum brýnustu nauðsynjum 50–60%. Þarna er að gerast atburður sem mér finnst að hv. þm. Framsfl. ættu að hugleiða alveg sérstaklega.

Ég vil minna á það að eitt af stefnumörkum vinstri stjórnarinnar var að hækka kaupmátt tímakaups verkamanna um a. m. k. 20%. Þetta var stefna sem Framsfl. tók þátt í að skrifa undir. Það er ástæða til að rifja upp hvernig kaupmáttur hefur breyst á undanförnum árum. Árið 1970 var hann 86 stig, árið 1971 var hann 98.3 stig, árið 1972 var hann 113.3 stig, árið 1973 var hann 119.7 stig og árið 1974 133.5 stig. Á þessu árabili frá 1970–1974, þegar störf vinstri stjórnarinnar höfðu mest áhrif, var þessi hækkun 33.5%. En nú er því lýst yfir að það eigi að færa kaupmáttinn til baka á sama stig og hann var 1971–1972. Samkv. þessari töflu, sem ég var að fara með, jafngildir þetta 25% lækkun. Ráðh. Framsfl. standa þannig í því núna að taka aftur það sem þeir stóðu að að framkvæma í tíð vinstri stjórnarinnar að því er varðar kjör láglaunafólks á Íslandi.

Auk þess er ástæða til að minna á það að samdráttur sá, sem gerir vart við sig í vaxandi mæli hefur gert kjaraskerðinguna mun stórfelldari. Opinberar skýrslur sýna að að meðaltali hafa verkamenn að undanförnu tekið um 40% tekna sinna fyrir yfirvinnu, og þegar yfirvinna dregst saman þá þýðir það stórfellda tekjuskerðingu í viðbót.

Annars kom þessi þróun, sem ég hef verið að reyna að lýsa hér, ákaflega glöggt fram í ræðu sem hæstv. viðskrh. Ólafur Jóhannesson flutti á aðalfundi miðstjórnar Framsfl. nú um helgina. Hann sagði þar orðrétt eftir því sem ræðan var prentuð í Tímanum, með leyfi hæstv. forseta:

„Kaupgjaldsvísitalan er nú lögbundin við 106.18 stig, en sú vísitölubinding rennur út 31. maí. Ef henni væri sleppt lausri færi hún sennilega í nær 180 stig, og hvernig halda menn að færi þá?“

Þarna talar hæstv. ráðh. um yfir 70% hækkun á framfærsluvísitölu 1. júní til samanburðar við þau tæplega 20% sem laun hafa hækkað. Þarna vantar hvorki meira né minna en 50% á að mati sjálfs viðskrh. Raunar fannst mér þetta orðalag hjá hæstv. ráðh. vera afar fróðlegt. Hann talar þar um framfærsluvísitölu eins og hún væri eitthvert óargadýr. Hann talar um hvað það væri hættulegt að sleppa framfærsluvísitölunni lausri. Það er framfærsluvísitalan sem á að vera inni í búri. En framfærsluvísitalan er að sjálfsögðu ekkert annað en mælikvarði. Þetta er einna líkast því og ef hæstv. ráðh. fengi hita að hann héldi að hann gæti læknað sig af hitasóttinni með því að setja tappa í kvikasilfurrásina í hitamælinum og koma þannig í veg fyrir að það kæmi í ljós á mælinum hvað hitinn væri mikill. Þessi afstaða að tala um vísitöluna sem óargadýr er náttúrlega fáránleg. Það, sem máli skiptir, er sá vandi sem vísitalan er til marks um.

Ég sagði áðan að hv. frsm. meiri hl. hefði ekki séð ástæðu til þess í máli sínu áðan né haft löngun til að ræða um það stórfellda atriði sem lagt er til í frv. að fjárveitingar verði lækkaðar um 3 500 millj. kr. frá gildandi fjárlögum. Þessi lækkun á öll að bitna á verklegum framkvæmum, á heilsugæslustöðvum, sjúkrahúsum, skólabyggingum, hafnargerðum, flugvöllum o. s. frv., auk þess sem skera á niður vegaframkvæmdir í mjög stórum stíl. Í grg. er sagt að rekstrarútgjöld ríkisins muni hækka um 1870 millj. kr. af völdum gengislækkunarinnar, en ríkisstj. segist ætla að koma í veg fyrir 820 millj. kr. af þeirri hækkun. Rekstrarútgjöldin eiga þannig að hækka um 1 056 millj. kr. Niðurskurðurinn, 31/2 milljarður, á því að bitna á öðru en rekstrarútgjöldum. Við fáum hins vegar ekkert að vita hvað á að skera niður.

Ég vil minna hæstv. fjmrh. á að það eru fordæmi fyrir því að það hafi orðið að spretta upp fjárlögum. Að vísu þykir fjmrh., sem eru vandir að virðingu sinni, það ákaflega slæmur kostur ef fjárlög, sem þeir hafa staðið að, standast ekki. En slíkt hefur gerst áður. Ég vil minna á að þetta kom fyrir einn fyrirrennara hans, Magnús Jónsson, meðan hann gegndi störfum fjmrh. En þá hafði Magnús Jónsson þann hátt á að hann flutti sundurliðaðar till. um hvernig ætti að skera niður fjárlög ríkisins og lagði þær fyrir okkur þm. Við höfðum tækifæri til að fjalla um þetta ásamt hæstv. ráðh. og hann tók tillit til sjónarmiða okkar. Ég held að hæstv. ráðh. og hann tók tillit til sjónarmiða okkar. Ég held að hæstv. ráðh. og hann tók tillit til sjónarmiða okkar. Ég held að hæstv. núv. fjmrh. ætti að fara að þessu fordæmi, og raunar sakaði ekki þótt hann fylgdi fordæmi Magnúsar Jónssonar á ýmsum fleiri sviðum. En þetta, að vera fram till. um almennan niðurskurð, 3 500 millj. kr., án þess að bera undir þm. hvernig eigi að haga honum, eru algjörlega ósæmileg vinnubrögð.

Um þetta hafði hins vegar hæstv. viðskrh. Ólafur Jóhannesson þau orð á aðalfundi miðstjórnar Framsfl., hann sagði orðrétt:

„Við framsóknarmenn verðum að standa hér vel á verði og gæta þess svo sem frekast er unnt að sá samdráttur í framkvæmdahraða, sem kann að vera óhjákvæmilegur um sinn, komi sem vægast niður á framkvæmdum hinna dreifðu byggða.“

Þetta eiga „við framsóknarmenn“, eins og hv. ráð. sagði, að tryggja. Er einhver ágreiningur um það milli stjórnarflokkanna hvernig á að standa að þessu máli? Það er svo að sjá á þessum orðum hæstv. viðskrh. að hann telji að það sé verkefni framsóknarþingmanna að koma í veg fyrir önnur og skuggaleg áform hjá samstarfsflokknum. Ég vildi gjarnan vita hvað hæstv. viðskrh. á við þegar hann segir að samdrátturinn megi ekki koma niður á framkvæmdum hinn dreifðu byggða?

Það má vel vera að hæstv. viðskrh. telji einnig að Miðnesheiði sé meðal hinna dreifðu byggða á Íslandi. Þar á einnig að ráðast í meiri háttar framkvæmdir. Hefur verið samið um það að þar verði ráðist í framkvæmdir sem nema 8–9 milljörðum króna. Það er að vísu ekki tengt fjárlögum, þetta er gjafafé frá Bandaríkjunum, en engu að síður dregur það einnig til sín vinnuafl og takmarkar framkvæmdagetu okkar á öðrum sviðum.

Mér þætti fróðlegt að vita hvort hæstv. viðskrh. á við þessa tvo staði þegar hann er að tala um vandamál hinna dreifðu byggða. En væntanlega á hann við fleiri dreifðar byggðir á Íslandi. Og ef þessi niðurskurður á ekki að bitna á hinum dreifðu byggðum sem hann talar um, á hverju á hann þá að bitna? Á hann að bitna á þeim mikla meiri hl. þjóðarinnar sem býr í þéttbýli, sem býr í kaupstöðum, sem býr hér í Reykjavík? Á hann að bitna sérstaklega á þeim sem lifa og starfa í kjördæmi hæstv. forsrh.? Eða hvað er á bak við þennan ágreining sem þarna kemur fram í dagsljósið á milli stjórnarflokkanna um hvernig eigi að framkvæma þennan niðurskurð? Ég óska eftir skýru svari um þetta atriði.

Við alþ.-menn erum algerlega andvígir því að framkvæmdur verði slíkur niðurskurður. Við viljum minna á að það hefur verið framkvæmdur hrikalegur niðurskurður með gengislækkununum báðum og með þeirri óðaverðbólgu sem við höfum orðið að þola. Þær fjárhæðir, sem eru tilgreindar í fjárlögum og miðuðust við ástandið um síðustu áramót, eru orðnar miklu, miklu minni núna og þýða miklu minni framkvæmdagetu. Ég kannast yfirleitt ekki við að það sé tíðkað, þar sem menn beita gengislækkun, að bæta niðurskurð ofan á vegna þess að gengislækkun felur í sér slíkan niðurskurð. Venjulega hefur orðið að jafna metin á hinn háttinn en ekki með því að skera niður í viðbót.

En þetta á ekki aðeins við um 1. gr. fjárlaganna, þetta á einnig við um stofnlánasjóði atvinnuveganna. Verksvið þeirra er þrengt til mikilla muna eins og mál liggja núna fyrir, í því sambandi vil ég minna á að Fiskveiðasjóður telur sig þurfa til útlána á árinu 1975 3 794 millj. kr. og hann sé raunar skuldbundinn til að veita 3 368 millj. kr. En áætlun hæstv. ríkisstj. er að ráðstöfunarfé þessa sjóðs verði aðeins 2 700 millj. kr.

Það á ekki aðeins að stöðva það að sjóðurinn geti tekið á sig ný verkefni, hann á að bregðast skuldbindingum sem hann hefur þegar tekið á sig. Svipuðu máli gegnir um stofnlánasjóð landbúnaðarins, hann telur sig þurfa 1800 millj. kr., en áætlun ríkisstj. er að hann hafi aðeins 754 millj. kr. til ráðstöfunar. Sjóðir iðnaðarins eru ákaflega vanbúnir að mæta þeirri knýjandi nauðsyn að taka til við framkvæmd þeirrar iðnþróunaráætlunar sem hafist var handa um að skipuleggja í tíð fyrrv. ríkisstj. Í sambandi við það hefur hæstv. iðnrh. aðeins talað um að hægt væri að færa sjóðina til, einhverjar innri skipulagsbreytingar, en ekki neitt aukið fjármagn til þessa brýna verkefnis. Í þessu sambandi er ástæða til þess að minna á það að í þeirri vegáætlun, sem nú liggur fyrir þinginu, er gert ráð fyrir 50% niðurskurði að magni til í vega- og brúarframkvæmdum.

Þetta eru, að mati okkar Alþb.-manna, meginatriðin í þessu frv., þ. e. niðurskurður og samdráttur. Við teljum það fráleitt að draga úr verklegum framkvæmdum eða framkvæmdum til félagsmála umfram það sem þegar hefur verið gert í ákaflega ríkum mæli. Á það er sannarlega ekki bætandi.

Eins og ég sagði áðan, eru skattamálin, þó að þeim sé hampað einna mest, mjög smávægileg í sambandi við þær miklu fjármunatilfærslur sem gerðar hafa verið. Ég minnti á það áðan að í fjárlögum er tekjuöflun ríkisins hækkuð um 181/2 milljarð, útsvörin um rúmlega 3 milljarða, m. a. með því að heimila 11% útsvar í stað 10% í fyrra. Skattahækkunin er þannig 21–22 milljarðar. En á móti eiga að koma 2 milljarðar samkv. þessu frv., en eins og ég gat um áðan voru 700 millj. króna fyrir í fjárlagafrv. þannig að breytingin er aðeins 1300 milljónir. Það er verið að skila, aftur um það bil 50 kr. af hverjum 1000 sem teknar hafa verið. Þetta er nú öll rausnin.

Þetta er alveg það sama og gerðist í viðræðum verkalýðssamtakanna við atvinnurekendur. Það hafa milljarðar og aftur milljarðar verið fluttir frá launafólki til atvinnurekenda með gengislækkunum og öðrum hliðstæðum ráðstöfunum, en síðan er broti af þessari upphæð skilað aftur, ýmist með lögum eða bráðabirgðasamkomulagi eins og því sem gert var á dögunum. Það er því engin furða þótt einu af forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar skrifaði grein í Morgunblaðið á dögunum og líkti hæstv. ríkisstj. við ræningja sem ræðst á mann og sviptir hann öllum sínum fjármunum, en réttir honum síðan aftur nokkra smápeninga svo að hann komist heim til sín. Það er þetta sem er verið að gera í skiptum ríkisstj. og atvinnurekenda við launafólkið í landinu. Það eru teknir mjög miklir fjármunir, það er skilað aftur mjög litlu og óskað eftir þakklæti fyrir.

Hér hefur verið minnst á það að skattamálin séu tengd því bráðabirgðasamkomulagi sem nýlega hefur verið gert milli verkalýðsfélaga og atvinnurekenda. Þar náðist árangur sem forustumenn verkalýðssamtakanna hafa lýst yfir að sé óviðunandi með öllu, þarna sé um að ræða algjört bráðabirgðasamkomulag sem alls ekki sé bægt að búa við nema örstuttan tíma. Undir þetta sjónarmið hafa verkalýðsfélög tekið um allt land með samþykktum sínum. Ríkisstj. var aðili að þessu samkomulagi, hún birti yfirlýsingu í sambandi við samkomulagið sem ég vil lesa hér upp, með leyfi hæstv. forseta. Yfirlýsingin er svo hljóðandi:

„Til þess að greiða fyrir samningum um kaup og kjör milli samtaka launafólks og vinnuveitenda og í trausti þess að vinnufriður haldist lýsir ríkisstj. yfir:

1) Í efnahags- og fjármálafrv. því, sem nú liggur fyrir Alþ., eru till. ríkisstj. um lækkun skatta og heimildir til lækkunar skatta sem numið gæti í heild allt að 2000 millj. kr. Ríkisstj. mun á Alþ. beita sér fyrir skattalækkun að þessu marki með það fyrir augum að hún gagnist best þeim sem við erfið kjör búa.

2) Auk framangreindrar lækkunar álagðra skatta mun ríkisstj.. beita sér fyrir því að innheimtu opinberra gjalda ársins 1975 verði dreift yfir lengri tíma en ella hjá þeim launþegum sem í ár hafa sömu eða lægri peningatekjur en í fyrra. Að því verður stefnt að frádráttur opinberra gjalda frá launagreiðslum hvers launþega fari ekki fram úr 40% af tekjum hans í heild á hverjum tíma, enda sé hann ekki í vanskilum með opinber gjöld frá fyrri árum.

3) Ríkisstj. vill beita sér fyrir því að tekjutryggingarmark almannatrygginga hækki í sama hlutfalli og lægstu kauptaxtar í samningum Alþýðusambandsins og vinnuveitenda. Hækkun almenns lífeyris verður einnig ákveðin í samræmi við niðurstöður almennra kjarasamninga og verður við þá ákvörðun m. a. tekið mið af öðrum tekjum þeirra sem lífeyris njóta.“

Þannig hljóðaði þessi yfirlýsing. Fyrsti kaflinn fjallar um skattamál og ég mun víkja að honum sérstaklaga. Annar kaflinn fjallar um það hvernig haga skuli innheimtu opinberra gjalda á þessu ári. Í frv. því, sem hér liggur fyrir, er ekki að finna orð um það hvernig eigi að framkvæma þetta fyrirheit. Ég lýsti eftir því í nefnd hvernig að þessu yrði staðið, en gat ekki fengið nein skýr svör. Menn sögðust telja að það kynnu að finnast einhverjar almennar heimildir í lögum eða e. t. v. yrði að setja um þetta sérstök lög, en það var ekki að sjá sem nm. stjórnarflokkanna hefðu hugmynd um hvernig ætti að efna þetta fyrirheit. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh. hvernig að þessu fyrirheiti verði staðið. Þriðji kaflina fjallar um tekjutryggingar og greiðslur almannatrygginga og ég mun einnig víkja að honum sérstaklega.

Fjh.- og viðskn. barst bréf frá Alþýðusambandi Íslands um 1. kafla þessarar yfirlýsingar og ég vil einnig leyfa mér að lesa þetta bréf. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Með vísun til yfirlýsingar ríkisstj. um skattamál. sem hér fylgir með í ljósriti og út var gefin í sambandi við samninga verkalýðsfélaga og samtaka atvinnurekenda, leyfir samninganefnd Alþýðusambands Íslands sér að vekja athygli hv. fjh.- og viðskn. á nauðsyn þess að breytt verði nokkrum ákvæðum frv. til l. um ráðstafanir í efnahagsmálum og fjármálum ef fullnægja á því hvoru tveggja að verja án fyrirvara 2000 millj. kr. í skattalækkanir og að sú lækkun gagnist þeim fyrst og fremst sem lakast eru staddir efnalega. Eru það eindregin tilmæli samninganefndarinnar að því fjármagni, sem nýting heimildarákvæða V. kafla frv. mundi kosta ríkissjóð, verði varið í sérstakan eða aukinn skattafslátt sem kæmi til útborgunar með sama hætti og barnabætur þegar svo stendur á að skattafsláttur verður hærri en opinber gjöld viðkomanda. Það er einróma skoðun samninganefndarinnar að framangreind breyting mundi skila hinum tekjulægri hagsbótum með miklum mun skýrari og óumdeilanlegri hætti en verða mundi með lækkun söluskatts og tolla um jafnháa upphæð í báðum tilvikum. Styðst sú skoðun m. a. við athugun Þjóðhagsstofnunar og þau augljósu rök að þeir, sem hafi meiri fjárráð, eyði hærri upphæðum í kaup á söluskattsskyldum og tollskyldum varningi en hinir tekjulægri. Sú aðferð, sem ákvæði V. kafla frv. gerir ráð fyrir, mundi því skila minni hagsbótum til hinna efnaminni en þeirra sem betur eru settir, gagnstætt því, sem segir í yfirlýsingu ríkisstj. frá 26. f. m., og þeim tilgangi frv., sem um er rætt í aths. við það. Fyrir þessa annmarka yrði hins vegar girt ef skattafsláttur svaraði til sömu kostnaðarupphæðar og gert er ráð fyrir í frv. og kæmi jafnt til allra án tillits til tekna. Sá háttur mundi einnig að okkar dómi skapa minni skatttæknileg vandamál en sá sem frv. gerir ráð fyrir.

Samninganefndin hefur, eftir að frv. var borið fram á hv. Alþ., gert fulltrúum ríkisstj. grein fyrir framangreindum skoðunum sínum, og kom fram í þeim viðræðum að þar sem frv. væri nú til meðferðar hjá fjh.- og viðskn. Alþ. væri við hæfi að samninganefndin gerði þeim grein fyrir skoðunum sínum á greindum frv.-ákvæðum. Er það hér með gert í trausti þess að hv. fjh.- og viðskn. taki málið til velviljaðrar athugunar og beiti sér fyrir breyt. á frv. í framangreinda átt.

Virðingarfyllst.

Í samninganefnd Alþýðusambands Íslands:

Björn Jónsson. Snorri Jónsson, Eðvarð Sigurðsson, Magnús Geirsson, Jón Sigurðsson, Benedikt Davíðsson, Einar Ögmundsson, Björn Bjarnason, Björn Þórhallsson.“

Þetta er það bréf sem Alþýðusamband Íslands skrifaði ríkisstj. eftir að hafa átt við hana mjög langvinnar viðræður og eftir að það lá fyrir að fyrirheit ríkisstj. um aðgerðir í skattamálum væru hluti af því bráðabirgðasamkomulagi sem gert hafði verið. Ég er þeirrar skoðunar að það hafi verið siðferðileg skylda ríkisstj. að fara að till. Alþýðusamhends Íslands í þessu efni. Ríkisstj. var slíkur aðili að þeim samningum sem gerðir voru, að ég tel að það hafi verið siðferðileg skylda hennar að fara eftir þessum till. Hér er um að ræða bráðabirgðaskipan sem er miðuð við hinar afar þröngu aðstæður sem verkalýðshreyfingin á nú við að búa. Hitt vil ég taka skýrt fram, að frá mínu sjónarmiði er hér um að ræða hugmyndir sem eru fráleitar til frambúðar. Þó þær kunni að eiga við við þær þröngu aðstæður sem nú eru, þá eru þær að mínu viti algjörlega fráleitar sem einhver frambúðarlausn á þessum vanda. Ég hef heyrt það fyrirkomulag að borga út skattaafslátt kallað neyslustyrk til láglaunafólks. Ég hef enga trú á því að verkalýðshreyfingin á Íslandi muni una því lengi að gerðir séu slíkir samningar við atvinnurekendur að þeir, sem lægst laun hafa, verði að fá neyslustyrk úr ríkissjóði til þess að geta dregið fram lífið. Fyrirtæki, sem rísa ekki undir því að greiða sómasamleg laun í samræmi við þá staðreynd að við erum meðal þeirra þjóða heims sem hafa besta afkomu, — slík fyrirtæki eru ekki starfhæf í okkar þjóðfélagi. Skipan eins og þessi er í raun stuðningur við slík atvinnufyrirtæki, en ekki neinn neyslustyrkur til launafólks.

Í þessu sambandi er einnig ástæða til að minna á þá alvarlegu staðreynd að hér á Íslandi tíðkast mjög veruleg skattsvik. Það hafa verið færð rök að því að 20–25% af framtalsskyldum tekjum séu ekki taldar fram, að milljarða króna vanti upp á að tekjuskatturinn skili sér. Allir, hver einasti maður, vita dæmi um hátekjumenn sem borga enga tekjuskatta. Þetta er ýmist gert með skattsvikum eða með því að hagnýta sér veilur í skattalöggjöfinni. Með því að borga út skattaafslátt eru þessir hópar að fá fé úr ríkissjóði í ofanálag á sérstöðu sína og að mínu mati er ekkert fyrirkomulag í skattamálum verra en siðleysi af slíku tagi. Það er einnig alkunna að hluta af söluskatti er stolið undan. Þess vegna er það leið til þess að draga úr slíkum stuldi að lækka eða afnema söluskatt. Og í sambandi við söluskatt af matvælum fær mig enginn til að fallast á það með neinum reikningskúnstum að ef söluskatturinn verði felldur niður af brýnustu lífsnauðsynjum, af matvörum, sem hvert heimili notar, þá sé það ekki hlutfallslega mest hagsbót fyrir þá sem nota mestan hluta tekna sinna til matarkaupa, fyrir barnmargar fjölskyldur, fyrir aldrað fólk og öryrkja sem njóta tekjutryggingar. Það fær mig enginn til að fallast á þá nýstárlegu kenningu að meinsemdirnar í hinu íslenska stéttaþjóðfélagi séu þær og þær einar að hátekjumaðurinn borði margfalt meira af kjöti og brauði heldur en lágtekjumaðurinn.

Við Alþb.-menn erum þeirrar skoðunar að það beri að leggja niður söluskatt af brýnustu nauðsynjum. Við hv. þ. m. Eðvarð Sigurðsson höfum lagt fram frv. um afnám söluskatts af matvælum. Við göngum skemmra í sambandi við þetta frv. Hv. þm. Lúðvík Jósepsson hefur lagt fram till. um að söluskattur verði felldur niður af kjöti og kjötvörum, korni og kornvörum. Við heyrðum raunar áðan hvernig frsm. meiri hl. n. hafði uppi átakanlegar lýsingar á því hvað það hlyti að vera ákaflega erfitt að afnema söluskatt á kjöti. Hann fór þar út í ýmis tæknileg atriði um hvernig kaupmenn fara að því að saga niður skrokka í búðum sínum og ég veit ekki hvað og hvað. Ég er ekki svo sérfróður um þessi efni að ég geti farið í deilur um slík tæknileg atriði. Hitt er mér kunnugt, að það hefur tekist í ýmsum grannríkjum okkar að framkvæma slíka mismunun í sambandi við söluskatt. Þetta er gert í Noregi, þetta er gert í Frakklandi og þetta er gert víða. Og það, sem er hægt að framkvæma í þessum löndum, það getum við að sjálfsögðu gert líka. Það er hins vegar ekki löggjafaratriði, það er framkvæmdaatriði, og ég er viss um að við finnum embættismenn sem geta leyst þau vandamál sem hv. þm. var að gera grein fyrir í framsögu sinni áðan.

Í þessu frv. eru till. um flugvallagjald og skyldusparnað. Þetta eru í eðli sínu ósköp lítilvægar till. Ég minnist þess að þær komu upp í tíð vinstri stjórnarinnar og áttu þá að vera aðgerðir sem stuðluðu að því að ekki þyrfti að lækka gengið. Það átti að vera þáttur í aðgerðum sem kæmu í veg fyrir að gengið yrði lækkað. Nú er þessu dembt ofan á gengislækkun. Ég hreinlega skil ekki þá hagfræðilegu hugsun sem þarna er á bak við. Mér sýnist vera þarna það eitt á bak við að hæstv. viðskrh. þarf að geta sagt eins og hann sagði á aðalfundi miðstjórnar Framsfl. að þarna sé svolítið eftir af gömlu till. hans. Mér sýnist þetta vera aðalástæðan, en ekki að þetta sé einhver eðlilegur þáttur í þeim hagstjórnaraðgerðum sem ríkisstj. er nú að framkvæma.

Ég kem þá að þeim brtt., sem hv. þm. Lúðvík Jósepsson flytur fyrir hönd okkar Alþb.- manna á þskj. 441.

Í fyrstu till. er lagt til að í stað almennrar niðurskurðarheimildar, 3500 millj., þá verði ríkisstj. heimilað að lækka almenn rekstrarútgjöld um allt að 1500 millj. kr., enda sé þess gætt að slík lækkun útgjalda hafi engin áhrif á fjárveitingar til verklegra framkvæmda né heldur á framlög til félagsmála. Ég þarf ekki að skýra þessa till., menn átta sig á hvað í henni felst. Hér er um að ræða algera andstæðu við þá stefnu sem ríkisstj. vill fara.

Í sambandi við 2. gr. er till. um að tekið sé sérstakt tillit til sérstöðu eiginkvenna bænda, þannig að frádráttur vegna þeirra nemi upphæðinni 268 þús. kr., enda gegni þær ekki öðrum störfum. Ég þarf ekki að skýra þetta heldur.

Í sambandi við tekjuskattana erum við hins vegar með þær till. að bætt verði við tveimur tekjuskattsþrepum. Samkv. till. ríkisstj. eiga þau aðeins að vera tvö, en við leggjum til að þau verði fjögur, að það verði bætt við tveimur þrepum hjá þeim sem eru með tekjur sem þykja mjög sómasamlegar í okkar þjóðfélagi, þ. e. a. s. að þeir, sem hafa yfir 11/2 millj.–21/2 millj. í skattgjaldstekjur, greiði 45% og að af skattgjaldstekjum yfir 21/2 millj. greiðist 50%, en síðan verði dreginn frá persónuafsláttur eftir því sem við á. Hliðstæðar till. flytjum við um hjón, þ. e. a. s. að af skattgjaldstekjum, sem séu á bilinu 1 millj. 750 þús. til 2 millj. 750 þús., greiðist 45% og af skattgjaldstekjum yfir 2 millj. 750 þús. greiðist 50%. Við teljum að það sé eðlilegt að hækka skatta á þeim sem hafa svona myndarlegar tekjur í okkar þjóðfélagi. Ég vil benda á að með þessum till. fer því mjög fjarri að við séum að leggja til að jafnlangt verði gengið eins og frændur okkar á Norðurlöndum gera. Í Noregi er slíkur skattstigi allt upp í 80%.

Svo kemur að ákaflega mikilvægu ákvæði, það er 4. brtt. á þskj. 441. Þar er lagt til að við álagningu tekju- og eignarskatts árið 1975 skuli fyrningar reiknaðar samkv. ákvæðum l5. gr. gildandi skattalaga með því fráviki að engar flýtifyrningar skuli leyfðar né heldur verðbreytingar eigna samkv. verðhækkunarstuðli. Afskriftaverð eða afskriftastofn eigna skal því vera það .sama og s. l. ár eða hliðstætt sé um nýjar eignir að ræða. Þetta er skipan sem við leggjum til að verði á þessu ári til þess að tryggja að atvinnureksturinn taki þar á sig eðlilegar byrðar.

Ég vil benda á að hér er um að ræða ákaflega stórfellt atriði. Á það var bent í ræðu fyrir nokkrum dögum af hv. þm. Ragnari Arnalds sem hefur flutt þáltill. um þetta efni. Samkv. þeirri hækkun, sem gerð hefur verið á verðhækkunarstuðli, er heimiluð á þessu ári afskrift sem nemur 25.5% til viðbótar við það kemur svo flýtifyrning sem nemur 6%. Þetta er samtals afskrift sem nemur 31.5% af stofnkostnaði. Ef við tökum dæmi af togara sem kostaði 300 millj. kr., þá þýðir þetta að árlegur hagnaður af slíkum togara má nema 94.5 millj. kr. á ári eða þeim 31.5% sem ég var að lýsa án þess að nokkur bókhaldshagnaður komi fram í rekstri þessa fyrirtækis. Þar af leiðandi borgar það enga skatta af þessum myndarlega hagnaði sínum. Á fjórum árum gæti þetta gert 377 millj., þ. e. upphaflega kaupverðið og 77 milljónum betur, og þá gæti eigandinn selt skipið og ef að vanda lætur fyrir mun hærri upphæð en hann borgaði fyrir það í upphafi. Þetta er ein helsta gróðamyndunaraðferðin í íslensku þjóðfélagi. Þannig fara menn að því að spila á kerfið, þeir fá að láni fjármuni til þess að koma upp fyrirtækjum til þess að kaupa togara. Það er t. d. til í dæminu, eins og hv. þm. Sverrir Hermannsson þekkir, að menn geti fengið 102.5% lán til þess að kaupa togara. Þetta fé er sparifé þjóðarinnar. Það er lánað út úr bönkum. Það er síðan borgað aftur með miklu verðminni krónum, og þessar afskriftareglur, verðhækkunarstuðullinn og flýtifyrningarnar gera það að verkum að maðurinn, sem tók peningana að láni, eignast verðmætið án þess í raun og veru að borga nokkurn skapaðan hlut fyrir það. Enda kom það fyrir á sínum tíma að útgerðarmaður, sem allir vissu að hafði verið með taprekstur árum saman, reyndist allt í einu vera ríkasti maður landsins. Það er þetta sem er fjáröflunaraðferðin á Íslandi, þ. e. að spila á verðbólguna, og hæstv. núv. ríkisstj. hefur einmitt stuðlað að því að þannig væri hægt að standa að verki. (Gripið fram í: Ætlar hv. þm. ekki að fara að gera út?) Fara að gera út? Nei, ég hef ekki hugsað mér að fara að gera út. Ég hef engan áhuga á því að taka þátt í svona happdrætti, ekki nokkurn minnsta. — Þetta er ákaflega mikilvæg staðreynd sem við verðum að gefa gaum. Það er þarna sem gróðamyndunaraðferðin er í þjóðfélaginu, og það er alveg hrikaleg staðreynd að á árinu 1974 voru 240 fyrirtæki í Reykjavík sem veltu 10 þús. millj. kr. árið áður — en það mundi jafngilda um 20 þús. millj. á þessu ári — en þau greiddu alls engan tekjuskatt þar sem bókhaldslegur hagnaður þeirra var nánast enginn. Í hópi þessara fyrirtækja var m. a. fyrirtæki sem heitir H. Benediktsson hf. og hæstv. forsrh. á að verulegum hluta ef ég veit rétt.

5. till. á þskj. 441 er um það, sem ég gat um áðan, að fella skuli niður söluskatt á kjöti og kjötvörum, korni og brauðvörum.

Svo er 6. till., að við 31. gr. bætist að auk þeirra lánsheimilda, sem tilgreindar eru í 29. og 30. gr., sé ríkisstj. heimilt að taka lán og endurlána stofnlánasjóðum atvinnuveganna allt að 2 000 millj. kr. Þetta er til að bæta úr þeim vanda sem ég lýsti hér áðan, að þessir stofnlánasjóðir eru fjárvana, þeir geta ekki staðið við þær skuldbindingar sem þeir hafa tekið á sig, hvað þá bætt á sig nýjum.

Svo leggjum við til að 32. gr. felli niður. Í henni fólst það að ríkisstj. mátti ekki velta sjálfsskuldarábyrgð fyrir kaupum á skuttogurum. Við leggjum til að ríkisstj. hafi þessa heimild. Meiri hl. n, hefur nú fallist á það sjónarmið að ríkisstj. megi hafa þessa heimild.

Auk þessara till. ber ég fram á sérstöku þskj. brtt. við frv. Ég gat þess áðan að hæstv. ríkisstj. hefði gefið fyrirheit um það hvernig háttað yrði greiðslum til aldraðs fólks og öryrkja í sambandi við samkomulagið sem verkalýðshreyfingin gerði við atvinnurekendur. Í þessu frv. er ekki orð að finna um þetta, Okkur var sagt í n. að um þetta ætti að flytja nýtt frv. Það má vel vera að það sé rétt. En ég hefði talið eðlilegt og sjálfsagt að hæstv, ríkisstj. gerði grein fyrir því í þessu frv. hvernig hún ætlaði að standa að þessu máli.

Ég hef oft vakið athygli á því hér í vetur, hversu hraklega hefur verið farið með aldrað fólk og öryrkja í sambandi við aðgerðir hæstv. ríkisstj. Þegar láglaunabæturnar voru ákveðnar í fyrra var þannig frá því gengið að aldrað fólk og öryrkjar fengu ekki nema helmingi lægri upphæð en öðrum voru greiddar. Aðrir fengu 3 500 kr. á mánuði í láglaunabætur, aldrað fólk og öryrkjar fengu ekki nema tæpar 1900 kr. í bætur. Það var sama prósenta, það var ekki sama upphæð. Aðrir áttu að fá sömu upphæð án tillits til tekna, en það var klipið sérstaklega af öldruðu fólki og öryrkjum. Ég vil benda á það að í yfirlýsingu hæstv. ríkisstj. talar hún um að þessar greiðslur eigi að hækka í sama hlutfalli. Samningur verkalýðsfélaganna við atvinnurekendur fjallaði um ákveðna upphæð, 4900 kr., sem allir áttu að fá. Ég er þeirrar skoðunar að aldrað fólk og öryrkjar eigi rétt á að fá þessa sömu upphæð innan þeirra sömu marka og um var samið í þessum samningum. Ef aldrað fólk og öryrkjar fá ekki þessa sömu upphæð, þ. e. a. s. hver einstaklingur þeirra, þá er verið að níðast á þeim umfram aðra og það er algerlega ósæmandi fyrir hæstv. ríkisstj. að halda áfram á þeirri braut.

Ég flyt því þá till. að frá 1. mars skuli elli- og örorkulífeyrir einstaklinga hækka um 4 900 kr. á mánuði samkv. þeim samningi sem ég vitnaði í áðan og aðrar bætur lífeyristrygginga og sjúkradagpeninga hækki í sömu hlutföllum.

Í annan stað legg ég svo til að fjárhæðir þær, sem tilgreindar eru í 19. gr. laga um almannatryggingar, þ. e. a. s. tekjutryggingin, greiðslur til þeirra sem ekki hafa neinar eða sáralitlar aðrar tekjur en bætur almannatrygginga til lífsframfæris, breytist í samræmi við vísitölu framfærslukostnaðar frá 1. okt. í fyrra. Mér finnst að við getum skilið eftir þessa litlu upphæð sem notuð er til að hjálpa þeim sem erfiðast eru settir í þjóðfélaginu, við getum a. m. k. reynt að tryggja að kaupmáttur hennar haldist óskertur hvað sem gerist á öðrum sviðum.

Hér hefur mikið verið rætt undanfarna daga um ákaflega stórt baráttumál verkalýðshreyfingarinnar og það er fæðingarorlof. Það var áður flutt till. um það á þessu þingi af hv. þm. Bjarnfríði Leósdóttur, um að skora á ríkisstj. að breyta lögum um almannatryggingar þannig að tryggt væri fæðingarorlof á sama hátt og um hefur verið samið við allar þær konur sem gegna opinberri þjónustu. Um þetta mál hefur verið fjallað í heilbr.- og trn. sem ég á sæti í. Við höfum rætt þetta þó nokkrum sinnum, sent það til umsagnar o. s. frv. Síðan gerðust þau tíðindi að einn af nm., hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir, flutti án nokkurs samráðs við n. frv. ásamt fleiri þm. þess efnis að Atvinnuleysistryggingasjóður tæki að sér þetta verkefni, Þessi þ. m. hefur vakið á sér mikla athygli með þessu frumkvæði sínu. Það hefur verið greint ítarlega frá þessu bæði í blöðum og útvarpi og sjónvarpi. Ég held ég hafi séð andlitið á hv. þm. tvö kvöld í röð í sjónvarpinu, og vissulega er það alltaf ánægjulegur atburður þegar maður sér svo skemmtilegt andlit inni í stofunni hjá sér. En það, sem skiptir máli, er að sjálfsögðu hvernig að þessu vandamáli skuli staðið og hv. þm. hefur ekki getað gert grein fyrir því hvernig hún hugsi sér framkvæmdina á þessu. Ef Atvinnuleysistryggingasjóður á að sinna þessu verkefni verður annað hvort að tryggja honum tekjur til að hann geti staðið undir því eða það verður að skera niður aðra félagslega starfsemi á vegum sjóðsins, Og þar má ekki vera neitt almennt orðagjálfur um það hvað í þessu felst, það verður að gera tilteknar till. um hvað eigi að skera niður, t. d. hvort ætlunin sé að lækka atvinnuleysisbætur eða eitthvað slíkt. En annaðhvort þetta verður að gerast ef menn flytja slíka till. í einhverri alvöru, — annað hvort auknar tekjur eða niðurskurður á öðrum verkefnum.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þetta eigi ekki heima í lögum um atvinnuleysistryggingar. Þetta á tvímælalaust heima í lögum um almannatryggingar, alveg tvímælalaust, enda mundi það þar ná til annarra hópa kvenna sem ég tel einnig að eigi að hafa þennan rétt. Það eru t. a. m. konur sem eru bundnar við störf á heimilum sínum vegna þess að það er ekki aðstaða í þjóðfélaginu fyrir þær til að vinna úti. Þessar konur vinna ákaflega veigamikil störf í þágu þjóðfélagsins, og ég er satt að segja dálítið undrandi yfir því að einmitt hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir, sem stundum hefur nú viljað muna eftir þessum konum, skuli gleyma þeim í þessu sambandi. Slíkt hið sama á við um sveitakonur. Þar er ákaflega glöggt dæmi um slíkt.

Ég legg því til að í þann kafla þessa frv., sem fjallar um almannatryggingar, komi lagagr. sem prentaðar eru og ég skal ekki lesa upp, en þess efnis að almannatryggingarnar taki, auk þeirra þátta sem eru taldir upp í 10. gr., einnig til fæðingarorlofsfjár, og síðan að ný gr. bætist við sem verði 17. gr., um að fæðingarorlof skuli vera jafnhátt þriggja mánaða dagvinnulaunum við almenna verkamannavinnu við hverja fæðingu til móður sem á lögheimili hér á landi og er íslenskur ríkisborgari. Greiðslur frá atvinnurekendum vegna fæðingarorlofs komi til frádráttar greiðslu samkv. þessari gr. Og svo að 20. gr. verði breytt þar sem greint er frá tekjum almannatrygginga, hlutfalli milli ríkissjóðs og atvinnurekenda, að því verði breytt þannig að ríkissjóður greiði 82.5%, en atvinnurekendur 17.5%, sem þýðir það að atvinnurekendur mundu standa undir þessum nýja þætti eins og sjálfsagt er og eðlilegt að atvinnureksturinn geri. Ég reikna hér með upphæðinni 200 millj. kr. á ári og byggi það á þeim tölum sem hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir var með, hún talaði um 100 millj. Það má vel vera að þessar áætlanir reynist fullveikburða, en þá er að sjálfsögðu hægt að láta reynsluna skera úr um það og breyta þessum hlutfallstölum eftir reynslunni, en meginatriðið er að reglan verði þarna staðfest.

Ég flyt svo enn fremur eina till. í viðbót í sambandi við VIII, kaflann, en þar geri ég till. um það að erlendar lántökur ríkissjóðs verði hækkaðar úr 3 milljörðum kr. í 4 milljarða og að þessi nýi milljarður renni til raforkuframkvæmda. Honum verði varið til að koma upp á sem stystum tíma stofnlínu milli Suðurlands og Norðurlands og vinna að undirbúningi að stofnlínum frá því orkuveitusvæði til Vestfjarða og Austfjarða. Ég þarf ekki að fara um það orðum hér, ég hef svo oft rætt það áður, að ég er þeirrar skoðunar að hér sé um að ræða brýnasta verkefni okkar í framkvæmdamálum á næstu árum, það verkefni sem þurfi að hafa algeran forgang á sviði orkumála, verkefni sem ég tel að hafi verið vanrækt á hinn furðulegasta hátt eftir að núv. ríkisstj. tók við.

Ég er víst búinn að hafa þetta mál allmiklu lengra en ég ætlaði mér og læt máli mínu lokið, en eins og fram hefur komið eru till. okkar Alþb.-manna þess eðlis að þær mundu gjörbreyta efni þessa frv. ef þær yrðu samþ. Þar með væri komin alger stefnubreyting í þetta frv. Þá mundum við að sjálfsögðu fylgja frv. Fari hins vegar svo að þessar till. verði allar felldar með valdi ríkisstjórnarflokkanna, þá munum við greiða atkv. gegn frv. við lokaafgreiðslu þess. Þegar ljóst hefur orðið eftir 2. og 3. umr. hvernig málalok verða og ef ríkisstj. fæst ekki til að taka neitt tillit til okkar hugmynda, þá greiðum við atkv. gegn frv.