22.04.1975
Neðri deild: 71. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3151 í B-deild Alþingistíðinda. (2354)

204. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Forsrh. (Geir Hallgrímsson) :

Herra forseti. Það er ekki ástæða til að lengja umr. um þetta mál, en ég vil þó drepa á örfá atriði.

Fyrst vil ég taka það fram að við fyrirheit ríkisstj. gagnvart aðilum vinnumarkaðarins er fullkomlega staðið. Aðilar vinnumarkaðarins vissu það vel að í yfirlýsingu ríkisstj. fólst fyrirvari um það að hve miklu leyti skattalækkanirnar mundu felast í beinum sköttum og að hve miklu leyti í óbeinum. Það kemur þeim því ekki á óvart, hvernig frv. er úr garði gert.

Ég benti á það í umr. hér í gær að ágreiningslaust er hvernig að skuli farið um nær 1500 millj. kr. skattalækkun. Ágreiningurinn er þá um rúmar 500 millj. kr. af þeirri 2 000 millj. kr. skattalækkun sem fyrirhuguð er, þ. e. a. s. ágreiningurinn er um 1/4 hluta upphæðarinnar. Þegar meta skal hagkvæmni hvorrar aðferðarinnar fyrir sig launþegum til hagsbóta er mjög mikið álitamál hvor leiðin er þeim betri. Þess vegna er það ekki einhlítt að fara hefði átt algerlega aðra hvora leiðina, eins og hér hefur verið gefið í skyn. Ástæður, sem stjórnarflokkarnir hafa til þess að velja blandaða leið, eru þær að fyrirhuguð er frekari endurskoðun á tekjuskattskerfinu og það mundi torvelda frekari endurskoðun ef lengra yrði gengið í lækkun beinna skatta nú. Á ég þá einkum við það að enn eitt skref verður stigið til þess að samræma og sameina tryggingakerfið og skattakerfið í framhaldandi endurskoðun skattalaganna svo og að sérsköttun hjóna er markmið beggja stjórnarflokkanna.

Ég vil svara þeim spurningum, sem til mín hefur verið beint varðandi stofnlánasjóðina og opinberar framkvæmdir, með þeim hætti að eins og fram kemur í frv. sjálfu er gert ráð fyrir því varðandi opinberar framkvæmdir, að lánsfé til ráðstöfunar verði samtals 5 000 millj. kr., og gerð grein fyrir því í aths. við VIII. kafla hvernig þess lánsfjár er aflað. Í 31. gr. frv. sjálfs er síðan tekið fram í hvaða höfuðmálaflokka þessi fjárhæð skiptist og eru orkumálin þar langstærsti útgjaldaliðurinn, þ. e. a. s. 3 500 millj. kr. af áðurgreindum 6004 millj. kr. Sundurliðun er þar nokkur gerð, en ekki tilgreint hve há upphæð hverjum undirlið er ætluð. Þetta stafar af því að endanlegar fjárhags- og framkvæmdaáætlanir eru ekki fullgerðar og því ekki unnt að sundurliða þetta nánar. En í heild sinni hefur upphæðin 3 520 millj. kr. verið við það miðuð að unnt væri að vinna að sem flestum mikilvægum framkvæmdum orkumála. Nefndar eru framkvæmdir Rafmagnsveitna ríkisins og rafvæðing sveitanna, og er þar átt við þá áætlun á þessu sviði sem ekki er enn lokið og lýtur að því að ljúka henni.

Í sambandi við h-liðinn, orkumál Norðurlands, er gert ráð fyrir því að unnið verði bæði að byggðalínunni og virkjun Kröflu.

Kaup á jarðborum tekur til kaupa á stóra jarðbornum sem miklar vonir eru tengdar við.

Í d-lið er getið um virkjunarrannsóknir en eins og kunnugt er eru þær nauðsynlegur undanfari allrar ákvörðunartöku um val milli kosta í orkuöflun hér á landi. Þær hafa verið vanræktar, en nú er ætlunin að reyna að hefja vandaðar virkjunarrannsóknir á þeim helstu virkjunarstöðum sem til mála hafa komið og á góma hefur borið í umræðum um orkumál.

Í e-lið er svo rætt um orkuveitur sveitarfélaga og er þar ekki síst rætt um hitaveitur þeirra. En hve miklu fé verður til þeirra varið og til hverra fer eftir því hve fljótt er búið að ganga frá framkvæmdaáætlunum og hönnun þessara orkuveitna og hverjar þeirra sýnast að lokinni endanlegri rannsókn vera hagkvæmastar, svo og er þarna ekki unnt að ákveða endanlega fjárupphæð fyrr en ljóst er hvaða möguleikar eru til fjáröflunar frá ýmsum öðrum sjóðum, eins og t. d. Lánasjóði sveitarfélaga svo að dæmi sé nefnt.

Varðandi stofnlánasjóðina, þ. e. a. s. fjárfestingarlánasjóðina, bæði atvinnuvegasjóðina og Byggingarsjóð, þá er búið að gera grein fyrir brtt. sem lýtur að því að 30. gr. frv. verði breytt með þeim hætti að heimild til erlendrar lántöku verði aukin frá 3000 millj. kr. í heild í 3 800 millj. kr. og er ætlast til að af þeirri fjárhæð sé heimilt að endurlána Framkvæmdasjóði 2 000 millj. í staðinn fyrir 1 200 millj. kr. Hér er verið að fullnægja eins og kostur er útlánaþörf þessara sjóða og standa vonir til þess að unnt verði með skaplegum hætti að halda hinum nauðsynlegustu framkvæmdum atvinnuveganna og Byggingarsjóðs gangandi á árinu. Við skulum hins vegar ekki draga dul á það að fjáröflun fjárfestingarlánasjóðanna er viðvarandi vandamál hér á Alþ., fyrst og fremst vegna þess að menn horfast ekki í augu við það að stofnlánasjóðirnir eru látnir taka að láni fjármagn ýmist með gengisáhættu eða verðtryggingu sem þeir svo ávaxta í útlánum með lakari kjörum. Það er ljóst að ef fjárhagsgrundvöllur fjárfestingarlánasjóðanna á að vera traustur, þá þarf að komast samræmi á milli þeirra kjara, sem sjóðirnir verða að sæta í fjáröflun sinni, og útlánakjara þeirra. Mun ríkisstj. vinna að þeirri samræmingu og væntanlega gera ráðstafanir til þess að Alþ. fjalli nánar um það mál.

Ég vil þá aðeins víkja að þeirri till. sem lýtur að breytingu á fyrningarreglum og fram hefur komið í brtt. á þskj. 495. Þm. hafa rætt um það að meiri hl. fjh.- og viðskn. hafi lagt fram till. í þessu skyni sem lengra hafi gengið að draga úr fyrningarheimild. Ég vil í því sambandi taka fram að engin slík till. hefur formlega verið lögð fram hér á þingi og þótt till. hafi verið orðaðar eða ræddar í n. þingsins, þá er það ekki um formlega tillögugerð að ræða og ber því ekki að vitna til slíkrar tillögugerðar með þeim hætti í umr. í d. Ef störf í n. geta ekki farið fram þannig að nm. varpi fram ýmsum hugmyndum og till. í umr. um mál í n. áður en þeir gera upp hug sinn endanlega um tillöguflutning á sjálfu Alþingi, þá ná nefndarstörfin ekki tilgangi sínum til frjálsra skoðanaskipta og könnunar á því máli sem á dagskrá er hverju sinni, Það er fyrst þegar lokaafgreiðsla frá n. fer fram að afstaða n. og nm. kemur fram. — Hér er um það að ræða að gera breytingu á fyrningarreglum yfirstandandi árs vegna þess að á yfirstandandi ári er óvenjulega hár verðhækkunarstuðull. þ. e. a. s. 70%, en var á síðasta ári 10%. Því var það álit meiri hl. fjh.- og viðskn. að rétt væri að þessi hækkun til fyrningarafskrifta væri nokkuð takmörkuð og takmörkuð þá við 50% þegar um lausafé er að ræða eða nánar tiltekið 49%.

Það má segja að það hafi e. t. v. orkað tvímælis yfir höfuð að breyta fyrningarreglum, vegna þess að aðrar skattalagabreytingar samkv. frv. snerta eingöngu einstaklinga og vegna þess að ætlunin er í endurskoðun skattalaganna, sem áfram heldur, að taka skattareglur varðandi atvinnurekstur sérstaklega til meðferðar og þá ekki síst meðferð fyrningarreglna í skattalögunum og skattalega meðferð á sölu fyrnanlegra eigna, og verður það gert.

Ég skal ekki svara sérstaklega þeim þm. sem hafa gefið í skyn að ágreiningur væri milli stjórnarflokkanna, t. d. um það hvar niðurskurður ætti fram að koma í útgjöldum ríkisins, hvort heldur hann ætti að koma niður í strjálbýli eða þéttbýli, Ég held og get fullvissað hv. þm. um það að meðal stjórnarflokkanna er ekki um neinn ágreining að ræða. Stjórnarflokkarnir munu ganga að því starfi í fjvn. og ríkisstj. á þann veg að meginstefnu fjárlaga verði haldið og það verði gert allt sem unnt er til þess að mikilvægustu framkvæmdir og útgjöld ríkisins fái að standa, enn fremur hugað að frestun þeirra framkvæmda sem ekki eru fullkomlega hannaðar eða undirbúnar. Þarf það ekki að merkja neina seinkun á því að þau mannvirki geti komið að notum. Ég vil líka enn á ný ítreka að sparnaður eða niðurskurður á ekki að eiga sér stað fyrst og fremst eða eingöngu á framkvæmdaliðum, heldur og á rekstrarliðum.

Hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur hér gert grein fyrir fyrirætlunum ríkisstj. um breytingar á tryggingum, tryggingabótum til lífeyrisþega, og skal ég ekki fjölyrða nánar um það. Þær till. koma fram þegar frv. til staðfestingar á brbl. um launajöfnunarbætur o. fl. verður tekið til 2. umr. í Ed.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri, en vil leggja áherslu á það að lokum að hv. þm. stjórnarandstöðunnar verða að gera sér ljóst að til þess að við getum veitt fé úr ríkissjóði til nytsamlegra framkvæmda og þjónustu, hvort heldur er í strjálbýli eða þéttbýli, til þess að við getum veitt lán úr fjárfestingarlánasjóðum, hvort heldur er í strjálbýli eða þéttbýli, og til þess að við getum aflað fjár til opinberra framkvæmda og veitt fé til þeirra víða úti um landið, þá þarf efnahagur ríkisins sjálfs og þjóðarinnar í heild að vera traustur. Það er ekki hægt að ganga áfram á þeirri braut að stefna í halla ríkissjóðs sem var rekinn með yfir 3000 millj. kr. halla á síðasta ári. Við getum ekki bætt við þann halla á þessu ári, það er útilokað. Við verðum að greiða upp eldri skuldir. Við hljótum einnig að horfast í augu við það að lánsfjármarkaðir erlendis þrengjast og skuldabyrði okkar hvað snertir afborganir og vexti af erlendum lánum þyngist sífellt og verður á þessu ári e. t. v. 15% af gjaldeyristekjum landsmanna og vex upp í 20% ef áfram heldur næstu árin. Þessu getum við ekki haldið áfram, Við verðum að takmarka okkur við það sem skynsamlegt er á hverjum tíma og við það sem unnt er að afla lánsfjár til. Það er þess vegna um það að ræða að horfast í augu við að fjármunir þeir, sem ríkið sjálft og sjóðir þess ráða yfir eru takmarkaðir engu síður en fjármunir þeir sem einstaklingarnir í þjóðfélaginu ráða yfir. Þetta verðum við að horfas í augu við og sætta okkur við og segja landsmönnum skýrt og skilmerkilega. Það er ekki hægt að slá sér á brjóst og segja að það sé unnt að gera allt fyrir alla án þess að það kosti menn nokkuð.

Ég vil láta það koma hér fram sem mér finnst hv. stjórnarandstæðingar hafa talað hér sem lýðskrumarar öðrum þræði, því miður, gerandi sér ekki grein fyrir að aðstæður þjóðarbúsins eru allt aðrar en svo að unnt sé að telja fólki trú um að við getum enn aukið eyðsluna í þjóðfélaginu, þegar við einmitt verðum að leggja áherslu á og efla skilning landsmanna á því að nú um stund þurfum við að hægja á ferðinni, draga saman seglin til þess að ná jafnvæginu svo að við í þeirri jafnvægisstöðu getum hafið nýja framfarasókn.