22.04.1975
Neðri deild: 71. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3155 í B-deild Alþingistíðinda. (2356)

204. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Í bréfi ASÍ, sem hv. 5. þm. Vestf. vitnaði til, þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Ef fullnægja á því hvoru tveggja að verja — án fyrirvara — 2 000 millj. kr. í skattalækkanir og að sú lækkun gagnist þeim fyrst og fremst sem lakast eru settir efnalega,“ þá er þetta innskot „án fyrirvara“ bersýnilega tilheyrandi upphæðinni sjálfri, á við upphæðina 2 000 millj. kr. í skattalækkanir og ekki við neitt annað. Og það er ekki ágreiningur um það að sú yfirlýsing ríkisstj. var gerð án fyrirvara. En þegar kemur að því hvaða aðferð skuli beitt við skattalækkunina, þannig að skattalækkunin komi þeim fyrst og fremst, sem lakast eru settir efnalega, að haldi, þá var ASÍ ljóst að ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar áskildu sér rétt um val á þessum tveim mismunandi leiðum sem um hefur verið rætt, lækkun beinna skatta eða óbeinna skatta. Hér er um fullkomnar efndir að ræða á yfirlýsingu ríkisstj. með þessu frv.

Þegar hv. 5. þm. Vestf. er að reyna að koma upp ágreiningi milli okkar, mín og hv. 4. þm. Austf., vegna þess að hann hafi lagt áherslu á að frv. hefði aðeins inni að halda heimild til þess að draga úr útgjöldum ríkissjóðs, þá vil ég taka það fram að auðvitað er það rétt að hér er aðeins um heimild að ræða. Mín skoðun og túlkun á þessu lagafrv. er sú, að þessi heimild verði notuð að því marki sem nauðsynlegt er til þess að jöfnuður verði í ríkisbúskapnum vegna þess að það er lífsnauðsyn. Hvort þetta markmið gerir það nauðsynlegt að nýta heimildina alla að 3500 millj. kr. markinu eða ekki skal ég ekki fullyrða á þessu stigi málsins. Það er eitt með öðru sem bæði ríkisstj. og fjvn. verða að glöggva sig á í þeirri vinnu sem fyrir hendi er og unnin hefur verið að nokkru.

Þá spurði hv. þm. mig hvort Morgunblaðið hefði rétt eða rangt fyrir sér og sagt sannleikann um efni þessa frv. Ég get vitnað með Morgunblaðinu og sagt: Auðvitað er það alveg rétt hjá Morgunblaðinu að þarna er um það að ræða að draga úr útgjöldum ríkisins til framkvæmda. En þar með er ekki allur sannleikurinn sagður. Hafi Morgunblaðið ekki getið um að gert væri ráð fyrir því að útgjöld til rekstrar væru einnig lækkuð, þá er það skortur á því að segja alla málavöxtu.