23.04.1975
Neðri deild: 72. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3166 í B-deild Alþingistíðinda. (2380)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Frsm. meiri hl. (Ingólfur Jónsson) :

Hæstv. forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, er stjfrv. og hefur eins og kunnugt er fengið afgreiðslu í hv. Ed. Frv. hefur verið nokkuð lengi til meðferðar í báðum d. og fengið ítarlega athugun. Iðnn. þessarar d. hefur haldið marga fundi um málið, kallað fyrir sig ýmsa aðila til þess að fá upplýsingar um ýmis veigamikil atriði þessa máls, en n. gat ekki orðið sammála. Hv. þm. Magnús Kjartansson hefur skilað minnihlutaáliti og hv. þm. Ingvar Gíslason tjáði sig ekki tilbúinn til þess að taka afstöðu til málsins.

Nál. meiri hl. er á þskj. 440 og tel ég ekki ástæðu til þess að fara að lesa nokkur atriði úr því þar sem hv. þm. hafa það þskj. á borðinu fyrir framan sig.

Það frv., sem hér um ræðir, gerir ráð fyrir því að reist verði járnblendiverksmiðja á Grundartanga í Hvalfirði. Við íslendingar eigum ekki langa sögu í stóriðjumál.um, en við höfum þó byrjað á þeirri braut og stærst þeirra verksmiðja, sem hér er um að ræða, er álverksmiðjan í Straumsvík.

Þegar frv. til l. um álverksmiðjuna í Straumsvík var til umr. í hv. Alþ. höfðu menn skiptar skoðanir um hvort rétt væri að ráðast í þann verksmiðjurekstur. Ætla ég ekki að rifja það upp, en ég hygg að flestir séu nú sammála um að stigið hafi verið rétt og heillavænlegt spor þegar samningurinn við Alusuisse var gerður og álverksmiðjan í Straumsvik var reist. Þjóðarbúið hefur haft allgóðar tekjur af þessari verksmiðju og nú er svo komið að um þrír milljarðar kr. koma í árlegar tekjur í erlendum gjaldeyri í þjóðarbúið vegna þess að verksmiðjan er til og er rekin, Það munar mikið um það í þjóðarbúið þótt milljarðarnir séu margir sem við eyðum og þurfum að afla. Auk þess var viðurkennt að rafmagn til almenningsnota á svæði Landsvirkjunar er miklu ódýra fyrir það að unnt var að ráðast í stóra virkjun við Búrfell og orkufrekur kaupandi var til þess að nýta þá orku.

Kísiljárnverksmiðjan við Mývatn telst einnig til stóriðju þótt minni sé en álverksmiðjan. Hún gefur þjóðarbúinu nokkur hundruð millj. kr. á ári í erlendum gjaldeyri. Ég held að það deili engir um það nú að það hafi verið rétt spor að reisa þá verksmiðju.

Við höfum sementsverksmiðju á Akranesi og má segja að hún sé gjaldeyrissparandi því að ef hún væri ekki til yrði að flytja inn allt það sement sem notað er.

Við höfum áburðarverksmiðjuna í Gufunesi. Það má einnig segja það sama um hana að hún er gjaldeyrissparandi. Ef hún væri ekki starfandi yrði að flytja inn meira af tilbúnum áburði en nú er gert. Það hefur verið talað um að stækka þá verksmiðju og tel ég að það geti vel komið til greina og geti verið hagstætt að gera það. Það hefur einnig verið talað um að byggja nýja áburðarverksmiðju og framleiða áburð til útflutnings og virkja jafnvel beinlínis til þess. En þá verður ekki hjá því komist að vekja athygli á að hér á landi er ekkert efni til eða lítið til áburðarframleiðslu annað en það sem unnið er úr loftinu, þ. e. köfnunarefni. Til þess að framleiða ammoníak hér þarf ódýra orku og áburðarverksmiðjan í Gufunesi fær orkuna með sama verði og álverksmiðjan í Straumsvík. En sá er munur á að álverksmiðjan í Straumsvík greiðir framleiðslugjald sem er meira árlega heldur en orkuverðinu nemur, en áburðarverksmiðjan greiðir að sjálfsögðu ekkert framleiðslugjald og býr þess vegna við langtum betri kjör en nokkur annar orkukaupandi í landinu. Nú er svo komið að norðmenn, sem framleitt hafa mikið af ammoníaki, telja að rafmagnið sé of dýrt til þeirrar framleiðslu. Þess vegna hugsa þeir sér að framleiða eftirleiðis ammoníak með jarðgasi sem er 2/3 eða a. m. k. helmingi ódýrara en rafmagn. Af því leiðir að við mundum ekki geta keppt á heimsmarkaði með ammoníakframleiðslu eða köfnunarefnisáburð með því að nota rafmagn frá íslenskum virkjunum þótt hagstæðar séu. Ég tel ástæðu til að vekja athygli á þessu vegna þess að það hefur jafnvel verið gefið í skyn að við gætum byggt áburðarverksmiðju í stað annarrar framleiðslu, svo sem járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði.

Ég tel sjálfsagt að haldið verði áfram að virkja, að nýta innlenda orkugjafa, bæði jarðvarmann og fallvötnin, ekki aðeins til þess að koma upp stóriðju í landinu, heldur einnig og ekki síður að efla annan iðnað og til þess að nota innlenda orkugjafa til húsahitunar og reyna með því að spara olíu sem nú er mjög dýr og tekur mikið af okkar verðmæta gjaldeyri. Við gætum vitanlega sagt að áður en þessar verksmiðjur, sem ég áðan taldi upp, komu til hafi hér í landi verið stóriðja. Það má segja að fiskveiðar með afkastamiklum fiskiskipum séu stóriðja, og það má einnig segja að fiskiðjuverin í landi flokkist undir þetta. Vissulega ber að halda áfram að efla sjávarútveginn, landbúnaðinn og smærri iðnað. En við getum ekki komist hjá því að breikka grundvöllinn undir atvinnulífinu og fjölga þeim stoðum sem standa undir þjóðfélagsbyggingunni. Það gerum við einnig með því að efla stóriðju og koma upp ýmiss konar verksmiðjum sem kaupa orku sem við beislum og gefa arð í þjóðarbúið.

Járnblendiverksmiðjan í Hvalfirði mun verða ein af þessum stoðum og gefa í erlendum gjaldeyri allt að 2 milljörðum á ári í okkar hlut.

Frv. það, sem hér er um að ræða, er að mörgu leyti líkt frv. sem til var á s. l. ári í febrúarmánuði og nokkuð var rætt hér í þingsölunum þótt það hafi ekki þá verið lagt fram. Fyrrv. iðnrh., Magnús Kjartansson, lýsti því í umr. þá að hann teldi að það frv. væri hagstætt og ég skildi ekki betur en svo að hann væri því fylgjandi að lögfesta það frv. Á meðan hann var iðnrh. var að því unnið að gera samkomulag við Union Carbide, fyrirtæki í Bandaríkjunum sem er mjög sterkt fjárhagslega og rekur verksmiðjur í mörgum löndum En það var í byrjun árs 1971 sem viðræðunefnd um orkufrekan iðnað fór að leita eftir samkomulagi og samningum við stóriðjufyrirtæki sem gæti tekið upp samvinnu við okkur íslendinga þar sem þá var ekki síður en nú áhugi fyrir því að beisla fallvötnin og nýta þá orku sem lengst af er óbeisluð hér í landinu.

Fyrrv. iðnrh., Magnús Kjartansson, lagði áherslu á það að við íslendingar ættum meiri hl. í þessu fyrirtæki og hefur margsinnis lýst því yfir að hann vildi ekki taka upp samninga um stóriðju við erlend fyrirtæki nema íslendingar ættu meiri hl. Ég tel að það sé sjálfsagt að hafa í huga hverju sinni hvað heppilegast er í þessu efni. En ég tel að það þurfi alls ekki að vera algild negla að við íslendingar eign meiri hl. í fyrirtækjum eins og þessu. Það er allt undir því komið hvernig samningar takast. Ég tel sjálfsagt að íslendingar eigi virkjanirnar, en ég get vel hugsað mér að það verði samið eftirleiðis eftir kringumstæðum um að erlent fyrirtæki fái leyfi til þess að setja hér upp framleiðsluverksmiðju sem kaupi orku úr íslensku orkuveri. Það er vel hægt að hugsa sér það, en íslendingar gætu hins vegar smátt og smátt orðið eigendur að slíkum iðjuverum með því að láta hluta af sköttum og gjöldum, sem þessar verksmiðjur greiða, renna til þess að auka eignarhluta okkar í verksmiðjunni og að tilskildum tíma liðnum gætum við þá orðið eigendur að öllu fyrirtækinu. Það er þess vegna alls ekki víst að það sé best fyrir íslendinga að eiga frá byrjun meiri hl. í slíkri verksmiðju. Það er mín sannfæring að það sé unnt að gera samninga á þeim grundvelli að það geti verið hagstætt fyrir íslendinga að selja orkuna og eignast e. t. v., ef ástæða þykir til, verksmiðjuna á vissum áratíma með því að láta skatta og gjöld frá verksmiðjunni renna til þess. En það eru skiptar skoðanir um þetta eins og svo margt annað og við því er ekkert að segja. Ganga verður út frá því að markmiðið sé það sama, að allir vilji gera það besta, sem hagkvæmast kann að verða fyrir þjóðarheildina.

Samkv. þessu er gert ráð fyrir því að stofna hlutafélag, sem reisi og reki verksmiðju á Grundartanga í Hvalfirði, ferrosilíkon 75%. Gert er ráð fyrir því, ef þetta frv. verður að lögum, að félagið verði stofnað sem fyrst til þess að unnt verði að fara að vinna að framkvæmdum. Ef félagið yrði stofnað nú á þessu vori og hægt væri að fara að undirbúa framkvæmdir gæti verksmiðjan byrjað framleiðslu fyrri hluta árs 1977 eða um það leyti sem Sigölduvirkjun er tilbúin. Dráttur á því að þessi verksmiðja komist í gagnið veldur vitanlega tjóni fyrir Landsvirkjun ef enginn orkufrekur kaupandi er til að kaupa orkuna þegar virkjunin er tilbúin.

Gert er ráð fyrir því að íslendingar eigi 55% í verksmiðjunni, en Union Carbide 45%. Hlutur íslendinga í verksmiðjunni verður 13.2 millj. dollara eða 1 980 millj. kr. með því gengi sem nú er. Þá er eðlilegt að spurt sé hvernig verksmiðjan verði fjármögnuð. Það er eðlilegt að það sé athugað. Við 1. umr. málsins hér í hv. d. var um það rætt að íslendingar þyrftu að leggja fram 10 milljarða kr. í þessa verksmiðju. Sá, sem það sagði, talaði af misskilningi því að íslendingar leggja ekki fram nema þessar 1980 millj. kr. Það eru 55% af hlutafénu. Þessa fjár verður að afla og er gert ráð fyrir að á árinu 1975 þurfi 297 millj. kr., 1976 990 millj. kr., 1977 653 millj. kr. og 1978 40 millj. kr. Þetta fjármagn verður tekið að láni. Það er þó vitanlega undir Alþ. komið hvort það vill leggja eitthvað fram sérstaklega á fjárl., en það hefur ekki verið rætt. Verði ekki lagt fram á fjárl. fjármagn til þessa máls verður að taka það að láni. En það er gert ráð fyrir að hlutafélagið afli þessa fjár án ríkisábyrgðar og einnig rekstrarfjárins og þess fjármagns sem þarf í stofnkostnaðinn að auki. Það er ekki gert ráð fyrir því að ríkið þurfi að ganga í ábyrgð fyrir þessa verksmiðju. Og það er gert ráð fyrir því að hagnaður verksmiðjunnar verði a. m. k. það mikill að hún geti staðið undir vöxtum og afborgunum og reyndar gert ráð fyrir meiru samkv. útreikningnum um rekstrarafkomu verksmiðjunnar. Ég tel rétt að taka þetta fram vegna þess að við 1. umr. hér í hv. d. mátti skilja a. m. k. einn ræðumanninn þannig að það væri nú verið að ráðast í svo fjárfrekt fyrirtæki að líklegt væri að það gæti spillt fyrir fjárútvegun til annarra og nauðsynlegri hluta en þessarar verksmiðju. Ég hygg að þegar menn gera sér grein fyrir því að verksmiðjan tekur fjármagnið að láni án ríkisábyrgðar og að ekki er gert ráð fyrir að leggja fram strax nema part hlutafjárins, nokkur hundruð millj., þá sjái menn að hér hefur verið dregin grýla upp á vegginn hvað það snertir að fjármögnun til annarra hluta spillist við þetta.

Samkv. 3. gr. frv. er gert ráð fyrir að kaupa land á Grundartanga og hefur það verið gert, 80 hektarar lands, og kaupsamningur hefur verið um það gerður, Þá hefur einnig verið gert ráð fyrir að gera höfn við Grundartanga og er sá undirbúningur langt kominn, Gert er ráð fyrir að höfnin verði byggð samkv. hafnal. þannig að heimamenn eigi 25%, en ríkissjóður kosti 75% af hafnargerðinni. Hafnarframkvæmdin er tiltölulega ódýr vegna þess að hafnaraðstaða á Grundartanga er sérstaklega góð. Sveitarfélögin í nágrenni við höfnina munu sameinast um eignarhlutann, 25% af höfninni.

Því hefur stundum verið haldið fram að höfnin geti orðið þungur baggi á ríkissjóði og að þessi hafnarframkvæmd geti orðið til þess að draga verði úr hafnarframkvæmdum annars staðar á landinu. Iðnn. Nd. ræddi þetta mál við hæstv. samgrh. og ráðuneytisstjórann í samgrn. og lofaði hæstv. ráðh. að gefa yfirlýsingu um að kostnaður við þessa höfn yrði ekki til þess að draga úr framkvæmdum annars staðar á landinu. Ég hef hér í höndum lauslegt yfirlit yfir væntanlegar tekjur og gjöld Grundartangahafnar. Það er gert ráð fyrir að tekjurnar geti orðið 19.1 millj. kr. á ári þegar verksmiðjan er komin í gang. Það er gert ráð fyrir að hráefni til verksmiðjunnar verði um 150 þús. tonn á ári og framleiðslan frá verksmiðjunni um 50 þús. tonn, 200 þús. tonn fari um höfnina árlega í sambandi við verksmiðjureksturinn, og sé reiknað með hafnargjöldum eins og hér í Reykjavik gefur það 19.1 millj. í tekjur á ári. Nú er gert ráð fyrir því (Gripið fram í: 19 milljarðar.) 19 milljarðar? Nei, nei 19.1 millj. kr., tekjur hafnarinnar, vitanlega brúttótekjur. Það er hins vegar gert ráð fyrir því að höfnin geti fengið tekjur annars staðar frá þannig að það verði aðrir aðilar, sem nota höfnina, heldur en verksmiðjan. En um það er ekki tímabært að fullyrða, að ég tel, þótt samgrh. hafi haldið því fram að borgfirðingar muni strax á fyrstu árum nota þessa höfn og vörur, sem fara til Borgarnes, muni fara um þessa höfn frekar en skipin sigli upp Borgarfjörð til Borgarness. Hæstv. ráðh. er kunnugri þessu en ég, en hann hélt því fram að höfnin á Grundartanga mundi fljótt fá öruggar tekjur frá borgfirðingum til viðbótar því sem verksmiðjan gefur. En gjöld hafnarinnar eru lauslega áætluð. Stofnkostnaðurinn er áætlaður um 500 millj. kr. miðað við verðlag eins og það er nú. Af þeirri fjárhæð er, eins og áður sagði, 75% óafturkræft ríkisframlag, en 25% eða 125 millj. kr. framlag heimaaðila. Gert er ráð fyrir að allt framkvæmdaféð verði í formi erlends lánsfjár. Miðað við 15 ána endurgreiðslutíma þess og þrjá möguleika í vaxtagreiðslum, 8, 9, eða 10% vexti, yrði ársgreiðsla, annuitet, af framlagi heimaaðila þessi: Miðað við 8% vexti 14 millj. 604 þús. kr., miðað við 9% vexti 15 millj. 507 þús. kr., miðað við 10% vexti 16 millj. 434 þús. kr. Ef tekjur eru áætlaðar 19.1 millj. kr., eins og áður greinir, yrði tekjuafgangur til almenns rekstrar hafnarinnar á bilinu 2.7–4.5 millj. kr. Ógerlegt er talið að áætla með nokkurri nákvæmni hve önnur rekstrargjöld hafnarinnar yrðu mikil, en benda má á eftirtalda kostnaðarliði: laun hafnarstjóra eða bryggjuvarðar, rafmagn, tryggingar, húsaleiga og hitun vegna aðaðstöðu fyrir starfsmann og svo síðast en ekki síst nauðsynlegt viðhald hafnarmannvirkja. Samkv. ofangreindu verður að teljast mjög líklegt að höfnin yrði rekin með einhverjum halla fyrst í stað, þótt sleppt sé að reikna verði af ríkisframlaginu.

Þá er einnig samkv. 3. gr. frv. gert ráð fyrir því að leggja verði veg að hafnarstæðinu og raflínu til fyrirhugaðrar verksmiðju. Það kastar vitanlega eitthvert fjármagn, en ekki neitt í líkingu við það sem höfnin kostar.

Þá er gert ráð fyrir því að það verði 7 manna stjórn í verksmiðjunni, 4 fyrir Ísland og 3 fyrir Union Carbide, og gert er ráð fyrir að stjórnin verði kosin á aðalfundi félagsins. Ég sé að hv. þm. Bragi Sigurjónsson hefur flutt brtt. þar sem gert er ráð fyrir að stjórnin verði kosin af Alþ. Það er vitanlega matsatriði hvor kosturinn er valinn en hv. Ed. afgreiddi frv. frá sér með þeim hætti að gera ráð fyrir stjórnarkjörinu á aðalfundi og tel ég eðlilegt að halda sig við frv. eins og það er. Hins vegar er alltaf hægt, að breyta þessu hvenær sem Alþ. vill. Vitanlega er meðeignaraðilanum sama hvort fulltrúar Íslands eru kosnir af Alþ. eða með öðrum hætti. En ég tel heppilegast að halda sig við frv. eins og það er, en menn ættu þá hægara með að sætta sig við það þegar möguleiki er fyrir hendi að breyta þessu ef menn vilja að fenginni reynslu.

Frv. þetta, eins og það nú er, er á margan hátt aðgengilegra en það frv. sem varð til í febr. 1974 og nokkuð var rætt um í mars og aprílmánuði, bæði hér innan þingveggja, en þó sérstaklega utan þeirra. Sérstaklega er ástæða til að minna á að rafmagnsverð til verksmiðjunnar hefur hækkað mjög mikið frá því sem gert var rá fyrir í fyrra frv. Tel ég ástæðu til að rifja það nokkuð upp. Eins og þetta er nú í frv. er gert ráð fyrir að á 1. og 2. ári verði forgangsorkan 9.5 mill og afgangsorkan 0.5 mill, á 3. og 4. starfsári bræðslunnar verður forgangsorkan 10 mill, en afgangsorkan 1.4 mill, meðalverð 5.7 mill, á 5. og 6. starfsári bræðslunnar 10 mill fyrir forgangsorku, afgangsorka 1.9 mill, meðalverð 5.9 mill. á 7. og 8. starfsári bræðslunnar 10 mill forgangsorkan, 2.4 mill afgangsorkan, meðalverð 6.2 mill. Þegar talað er um verð á orkunni ber að hafa í huga ákvæði í samningnum um endurskoðun orkuverðs eftir tilsettan tíma ef breyting verður á verðlagi.

Það verð, sem hér hefur verið nefnt, er verulega hærra, eins og áðan sagði, heldur en talað var um á s. 1. vori og talið fullnægjandi þá. Ein helsta ástæða þess að verð á raforku til málmblendiverksmiðjunnar verður að vera hærra nú en gert var ráð fyrir á s. l. vori er sú, að nú liggur fyrir að verksmiðjan muni taka til starfa hálfu öðru ári seinna en gert var ráð fyrir, eða í lok árs 1977 í stað miðs árs 1976 eins og áður var fyrirhugað. Þetta veldur hálfs annars árs sölutapi til verksmiðjunnar. Þá er þess einnig að geta að byggingarkostnaður Sigöldu ásamt háspennulínubyggingum er áætlaður hærri nú en áður. Og síðast, en ekki síst, er nú reiknað með hærri vöxtum á lánum en áður. Þetta orkuverð er þó hlutfallslega miklu hærra en það sem áður var samið um, ekki síst þegar haft er í huga að byggingarkostnaður Sigölduvirkjunar og vaxtagreiðslur hefðu orðið eins og nú er gert ráð fyrir þótt rafmagnsverðið hefði verið eins og ráðgert var á s. l. vori. Við hefðum setið uppi með lágt raforkuverð en hækkaðan byggingarkostnað eins og raun ber vitni ef frv. hefði verið lögfest á s. l. vori eins og það lá fyrir þá og eins og talið var þá viðunanlegt. Einnig kemur til að nú hefur hlutfallinu milli afgangsorku og forgangsorku verið breytt til hagræðis fyrir Landsvirkjun.

Verkfræðideild Landsvirkjunar hefur gert ýmsa útreikninga á því hvernig útkoma fyrirtækisins verður miðað við það orkuverð sem sett er fram, og eru niðurstöður þeirra greindar hér á eftir. Hægt er að skilgreina lágmarksverð, sem krafist er í lögum um Landsvirkjun, þannig að það sé verð sem setja verður á orku til ákveðins notanda til þess að orkusala til hans borgi einungis kostnaðinn við fjárfestingarfyrninguna við orkukerfi Landsvirkjunar, sem orsakast af þeim aukna markaði sem notandinn skapar. Ef samið væri um slíkt orkuverð mundi Landsvirkjun hvorki tapa né græða á orkusölunni. En þá væri ekkert svigrúm til að mæta hugsanlegum neikvæðum áhrifum á breytingum á grunnforsendum sem inn í dæmið ganga. Verkfræðideild hefur reiknað lágmarksverð til málmblendiverksmiðjunnar út á þann hátt með þeim áætlunum um stofnkostnað virkjana við Sigöldu og Hrauneyjarfoss ásamt tilheyrandi háspennuvirkjum sem nú liggja fyrir. Lágmarksverðið er langt fyrir neðan það verð sem gert er ráð fyrir í samningum þeim sem hér eru til umr. um orkuverð, og er því hagnaður af sölunni mjög mikill þegar að því er gætt. Þá hefur verkfræðideild reiknað út svokallað kostnaðarverð á raforku frá Sigöldu og Hrauneyjarfossi. Kostnaðarverð er 4.95 mills kwst., meðalverð, og er gert ráð fyrir að kostnaðarverð afgangsorkunnar sé 0.5 mill kwst. Ef þetta verð er borið saman við það verð, sem lýst var hér áður, kemur í ljós að söluverðið samkv. samningnum er miklu hærra en það sem sýnir raunverulegan kostnað.

Þegar rætt er um orkuverðshækkunina frá fyrri samningsdrögum er oft talað um 35% hækkun, úr 4.2 mill frá s. l. vori í 5.7 mill kwst., meðalverð fyrstu 8 áranna. En þetta er ekki réttur samanburður. Það er nauðsynlegt að geta þess að í samningum þeim, sem nú er um að ræða hefur magn forgangsorku verið minnkað úr 264 gwst. í 244 gwst. á ári en afgangsorkan aukin. Er þetta því orka sem Landsvirkjun hefur til ráðstöfunar á hverju ári, 20 gwst., þegar Sigalda er fullnýtt. Verði hún fullnýtt á þremur árum er þessi orka seljanleg í 17 ár af samningstímanum og sé reiknað með einingarverði 10 mill kwst., eins og er gert í samningi þeim um orkusölu sem um er að ræða, gefur þessi orkusala Landsvirkjun 170 þús. dali á ári til jafnaðar. Samkv. samningum, sem fyrir lágu á s. l. vori, hefði Landsvirkjun fengið fyrir orkusölu 1 970 448 dali á ári. Samkv. nýrri drögunum verða það 2 911 650 dalir. Sé við þetta bætt 170 þús. dölum fær Landsvirkjun 3 081 650 dali á ári fyrir sama forgangsorkumagn og áður eða 56.3% meira en gert var ráð fyrir í samningsdrögunum frá s. l. vori. Sé hins vegar reiknað með sama heildarorkumagni í báðum tilvikum verður hækkunin 42.7%. Það er mikill tekjuauki fyrir Landsvirkjun að afgangsorkan hefur verið aukin, og hækka tekjur Landsvirkjunar mikið við það að hafa til ráðstöfunar 20 gwst. á ári sem járnblendiverksmiðjan hefði fengið samkv. fyrri samningsdrögum með óbreyttum hlutföllum á milli forgangsorku og afgangsorku. Miðað við þá samninga, sem hér er um að ræða, er reiknað með að orkuverð til almennings fyrstu árin verði 15% lægra sökum þess að Landsvirkjun selur raforku til járnblendiverksmiðjunnar og er þó reiknað með virkjunarframkvæmdum sem verður að gera ráð fyrir vegna þeirrar sölu sem fer til járnblendiverksmiðjunnar. Samkv. þeim samningum, sem gerðir voru í tíð hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar, hefði verð til almennings ekki lækkað við sölu til járnblendiverksmiðjunnar eins og nú er gert ráð fyrir þar sem áður var miðað við einungis kostnaðarverð og hlutfall á milli forgangsorku og afgangsorku var óhagstætt. Og enn ber að vekja athygli á því að byggingarkostnaður Sigölduvirkjunar og vaxtakostnaður hefði ekki verið lægri en nú er gert ráð fyrir og raun ber vitni þótt frv. hefði verið lögfest á s. l. vori með rafmagnsverði sem var að meðaltali 4.2 mill. Ef frv. hefði verið lögfest á s. l. vori með þessu rafmagnsverði, en Landsvirkjun hefði eigi að síður orðið að taka á sig allar hækkanir á byggingarkostnaði og vaxtahækkanir, þá hefði útkoman vitanlega orðið mjög slæm fyrir Landsvirkjun og þá hefði þessi samningur ekki orðið til þess að lækka orkuverð til almennings eins og nú er gert ráð fyrir um 15%, heldur hefði sá samningur orðið til þess að hækka orkuverð til almennings. Ég aðeins vek athygli á þessu. En það er áreiðanlegt að þeir, sem fjölluðu um þessi mál á s. l. vetri eða vori, ætluðu sér ekki að ganga þannig frá samningnum að þeir mundu íþyngja Landsvirkjun eins og við sjáum nú að hefði orðið ef frv. hefði verið samþ. í þeirri mynd sem það þá var.

Ég sé ástæðu til að minna hér á nokkrar fullyrðingar hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar sem koma fram í nál. hans á þskj. 449. Hv. þm. segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Ástæða er til þess að vekja athygli á því að þeir, sem greiða atkv. með frv. um kísiljárn verksmiðju, eru ekki að fjalla um einangruð vandamál, heldur eru þeir jafnframt að taka ákvarðanir um önnur stórmál. Þeir eru að dæma orkuskort yfir stóra landshluta um alllangt árabil. Þeir eru að dæma óþörf olíukaup yfir þjóðarheildina og þungbæran hitunarkostnað yfir hluta þjóðarinnar. Þeir eru að ákveða að mesta meiri háttar vatnsaflsvirkjun á Íslandi verði við Hrauneyjarfoss í Tungnaá, en ekki í öðrum landshlutum.“

Ég verð nú að segja að það er leiðinlegt að þurfa að lesa þetta upp eftir mætan hv. þm., og ég held að það sé best að afsaka þm. með því að hann hafi skrifað þessar setningar í hita dagsins. Allir hv. þm. vita að þótt orka verði seld til járnblendiverksmiðjunnar frá Sigöldu, þá er ekki verið að dæma orkuskort yfir þjóðina með því. Allir hv. þm. vita og hv. þm. Magnús Kjartansson einnig að þótt þetta frv. verði samþ., þá er ekki verið að stuðla að því að viðhalda miklum olíuinnflutningi umfram það sem annars þyrfti þótt þetta frv. væri ekki samþ. Við höfum fengið upplýsingar bæði í iðnn. Nd. og á öðrum vettvangi um það hvernig okkar orkumálum verður háttað næstu árin. Það verður lokið við Sigöldu á árinu 1976, í síðasta lagi 1977. Undirbúningur að Kröfluvirkjun er vel á veg kominn og vonir standa til að þeirri virkjun verði lokið 1976. Við höfum orð orkumálastjóra fyrir því, bæði í iðnn. og í útvarpi og á öðrum vettvangi, að þótt járnblendiverksmiðjan fái rafmagn eins og áætlað er verði nægileg orka til ársins 1980 a. m. k. þótt ekkert væri virkjað á þeim tíma annað en Sigölduvirkjun og Krafla. Nú segir hv. þan. Magnús Kjartansson: Ef járnblendiverksmiðjan fær rafmagn, þá höfum við ekki nægilegt til húshitunar. Við þurfum að gera allt sem við getum til þess að nota innlenda orkugjafa til húshitunar. Þar erum við sammála, ég og hv. þm. Magnús Kjartansson. Við erum sammála um að gera allt, sem unnt er til þess að flýta því að húsin verði hituð upp með jarðvarma eða raforku og að olíukyndingu verði hætt eins fljótt og kostur er. Um þetta er engin deila okkar í milli. En Magnús Kjartansson hv. þm. heldur því fram að með því að láta járnblendiverksmiðjuna fá rafmagn, þá muni ekki verða til rafmagn til húshitunar eins og hægt væri að nota á þessum tíma. Við fengum til viðræðna í iðnn. verkfræðinga frá Landsvirkjun og frá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens. Í nefndinni var lögð fram skýrsla og útreikningar bæði frá Landsvirkjun og Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens, sem sýndu það að þótt allt væri gert sem í mannlegu valdi stendur, fjármagn væri fyrir hendi og nægur vilji, þá yrði samt nægileg orka til 1980 til húshitunar og til allra almenningsnota þótt járnblendiverksmiðjan fái orku. Það er þess vegna rangt sem hv. þm. segir í nál. að þeir, sem samþykkja þetta frv., séu að kalla orkuskort yfir þjóðina. Það er leiðinlegt að þessi hv. þm skuli viðhafa þessi orð á þskj. hér í hv. Alþ. Ég tel að hv. þm. sýni Alþ. og alþm. óvirðingu með því að koma með slíkar fullyrðingar á þskj. sem stangast algerlega á við allar þær skýrslur sem sérfræðingar okkar hafa lagt fram um þetta mál. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. En ef það á að verða orkuskortur 1980 eftir að unnið hefur verið að því að kynda húsin með raforku og jarðvarma og eftir að járnblendiverksmiðjan hefur fengið þá orku sem ætlast er til þá gæti það ekki orðið nema með því móti að við hættum að virkja, að við hættum að hafast nokkuð að, fullgera Kröfluvirkjum og Sigöldu og halda svo að sér höndum. Er það þetta sem hv. þm. vill? Það verður ekki orkuskortur 1981 eða eftir 1980 nema við hættum að virkja.

Það gæti að vísu komið sú ríkisstj. í landinu, úrræðalaus og þröngsýn, sem leiddi orkuskort yfir þjóðina ef hún hættir að virkja. En nú er unnið að virkjunarmálum og það er áreiðanlega ekki stefna núv. hæstv. ríkisstj. að hætta að virkja þegar Kröfluvirkjun og Sigölduvirkjun er lokið. Það er áreiðanlega meining núv. hæstv. ríkisstj. að halda áfram að beisla orku, bæði jarðvarmann og fallvötnin að halda áfram að auka fjölbreytni í atvinnulífinu og setja á stofn fyrirtæki sem gefa arð í þjóðarbúið og tryggja atvinnu fyrir alla. Ég hafði haldið að hv. þm. Magnús Kjartansson væri mér sammála um þetta. Þess vegna geri ég mér vonir um að hann afturkalli það, sem stendur í þskj., að verið sé að kalla orkuskort yfir þjóðina með því að láta járnblendiverksmiðjuna fá nokkuð af orkunni frá Sigöldu.

Ég hef hér með mér skrifaðar skýrslur frá Landsvirkjun og frá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens um rafmagnsmálin, en ég ætla að sleppa því að þessu sinni að lesa þær upp, sérstaklega vegna þess að hv. alþm. hafa heyrt svo margt um þetta, bæði beint og óbeint, og síðast en ekki síst ótvíræð ummæli orkumálastjóra í útvarpinu um að það yrði ekki orkuskortur 1980 nema ekkert væri unnið að virkjunarmálum umfram það sem nú er að komast í gagnið.

Eitt er það sem hefur verið gagnrýnt af hv. þm. Magnúsi Kjartanssyni, það er sölusamningurinn sem liggur fyrir og lýst hefur verið. Sölulaun til Union Carbide hafa verið hækkuð samkv. þeim samningsdrögum, sem nú liggja fyrir, frá því sem gert var ráð fyrir á s. 1. vori. Það er rétt að gera nokkra grein fyrir því hvers vegna þetta hefur hækkað. Það liggja ekki tölur fyrir um það hversu mikið er framleitt af ferrósilíkoni og selt í heiminum en talið er að 1972 hafi það verið um 3 millj. tonna og nokkuð hafi það aukist síðan. Gert er ráð fyrir að markaður í Vestur-Evrópu, sem einkum er ráðgert að selja til, verði um 540 þús. tonn árið 1977 sem gæti orðið fyrsta starfsár verksmiðjunnar í Hvalfirði. Í samræmi við aðra hráefnismarkaði, sem háðir eru sveiflum, hefur verð á ferrosilíkoni einnig verið breytilegt. Síðan 1970 hefur verðið þó verið á uppleið og árið 1973 og það sem af er árinu 1974 hefur verðið hækkað mikið, enda hefur verið skortur á ferrosílíkoni í heiminum, en þó alveg sérstaklega á Vesturlöndum. Verð það, sem miðað er við í arðútreikningum verksmiðjunnar, er um 500 dollarar á tonn. Þetta verð er allmiklu hærra en það hefur áður verið en talið er að það muni ekki lækka aftur þar sem framleiðslukostnaður er orðinn svo háður orkuverði, en auk hans munu miklar mengunarvarnir stórhækka allan kostnað í eldri verksmiðjum. Union Carbide hefur verið brautryðjandi í því að gera markaðinn stöðugri og öruggari með því að veita meiri tækni og þjónustu í sölukerfi en aðrir framleiðendur. Það er enginn vafi á því að ekkert fyrirtæki í heiminum er jafnsterkt á öllum sviðum járnblendiframleiðslu og sölu á því. Þess vegna er samvinna við fyrirtækið mikilvæg trygging fyrir því að öruggur markaður fáist fyrir það ferrósílíkon sem hér er fráleitt.

Í frv. um sölusamning er gert ráð fyrir því að dótturfyrirtæki Union Carbide í Evrópu taki að sér einkaumboð á sölu á framleiðslu verksmiðjunnar gegn stighækkandi sölulaunum svo sem hér segir: Fyrstu 10 þús. tonn framleiðslunnar 3% sölulaun, næst 10 þús. tonn 3.5% sölulaun, næstu 10 þús. tonn 4% sölulaun, og það sem er umfram 30 þús. tonn 5% sölulaun. Þetta gerir 3.9% söluþóknun til jafnaðar ef öll ársframleiðslan, 47–50 þús. tonn, er seld. En afkoma verksmiðjunnar er vitanlega undir því komin að öll framleiðslan seljist. Söluþóknun miðast við fob. verð í íslenskri höfn að undanskilinni sölu á kurluðum salla sem engin umboðslaun eru greidd af, en það eru u. þ. b. 4000 tonn á ári. Að sjálfsögðu lækkar það söluþóknunina til jafnaðar á allri framleiðslunni á ári ef þessi 4 þús. tonn væru tekin með í reikninginn. Í samningsdrögunum frá s. l. vori var gert ráð fyrir að söluþóknun væri 3%, en fallist var á þessa hækkun nú með tilliti til þeirrar hækkunar, sem orðið hefur á kostnaði erlendis, og með tilliti til þess að Union Carbide hefur yfirleitt 5% sölulaun frá öðrum verksmiðjum með sams konar framleiðslu. Það, sem ætlað er að greiða í söluþóknun af framleiðslu verksmiðjunnar, er þess vegna langt fyrir neðan það sem gerist erlendis. Það er mikils virði að Union Carbide hefur á undanförnum 20 árum byggt upp mjög öflugt sölukerfi sem einkum byggist á því að veita viðskiptavinum sem mesta þjónustu bæði í gæðum og tæknilegri þjónustu. Þetta sérhæfða sölukerfi tryggir mjög öruggan markað og að jafnaði hærra verð en fæst á hinum almenna markaði. Afkoma verksmiðjunnar byggist á því að öll framleiðsla verksmiðjunnar seljist á háu verði, og Union Carbide hefur heitið því að gera allt sem í þess valdi stendur til þess að uppfylla kröfur verksmiðjunnar að þessu leyti og sjá hag hennar borgið. Þar sem eignahluti Union Carbide er u. þ. b. helmingur í verksmiðjunni ætti það að vera söluaðilanum, Union Carbide, hvatning til að láta vel takast með sölu á allri framleiðslu verksmiðjunnar í Hvalfirði og tryggja afkomu hennar sem best.

Með tilliti til þess hagræðis sem fengist hefur á öðrum liðum samninganna er vel afsakanlegt þótt þessi söluþóknun hafi hækkað frá því sem var gert ráð fyrir áður, t. d. á meðan rafmagnsverðið var eins lágt og gert var ráð fyrir. Mætti jafnvel segja að annað gæti verið hættulegt fyrir þessa verksmiðju ef sölutregða yrði á framleiðslunni. Þegar allar aðrar verksmiðjur með þessa framleiðslu borga 5% gæti verið að það yrði selt í seinna lagi frá þeirri verksmiðju sem lægst sölulaun borgar.

Þá er það tækniafsalið og tækniþjónustan og er rétt að fara nokkrum orðum um það. Það hefur einnig verið á það minnst og allmikið um það rætt að gert er ráð fyrir að borga nokkru meira fyrir tækniafsalið nú heldur en gert var ráð fyrir á s. l. ári. Verksmiðjan fær afsal á tæknikunnáttu frá Union Carbide og greiðir 32 millj. dollara í formi hlutabréfa í eitt skipti fyrir öll fyrir tæknikunnáttuna. Með þeim samningi á að vera þannig um hnútana búið að verksmiðjan verði eins vel úr garði gerð og unnt er og jafnframt að allar nýjungar og endurbætur í þessum iðnaði komi verksmiðjunni strax til góða. Með tilliti til stöðu Union Carbide má ætla að verksmiðjan muni ætíð búa við þá bestu tækni sem völ er á í heiminum.

Union Carbide rekur umfangsmikla rannsóknastofu og er stöðugt að gera tækninýjungar og breytingar til batnaðar á rekstri þess konar verksmiðju. Sama máli gegnir um mengunarvarnir og aukna sjálfvirkni í rekstrinum. Gert er ráð fyrir að fyrir tækniafsalið sé nú greitt í eitt skipti fyrir öll 900 þús. dollurum hærri upphæð heldur en gert var ráð fyrir á s. 1. vori. Menn geta spurt hvers vegna það sé gert. Meginástæður fyrir því eru þær að sú tækni, sem nú er boðin, er miklu meira virði heldur en sú tækniþekking sem boðin var fyrri hluta árs 1974. Í frv. því, sem áður hefur verið minnst á, var tækniþekkingin metin á 8.3% af áætluðum stofnkostnaði verksmiðjunnar. Samkv. því frv., sem nú liggur fyrir, og samningi um afsal tæknistofnunar er tækniþekkingin aðeins 3% af áætluðum stofnkostnaði verksmiðjunnar. Með samningi við verksmiðjuna er gert ráð fyrir því að hún hafi aðgang að þeirri þekkingu sem Union Carbide hefur aflað sér og mun afla sér á rannsóknastofum fyrirtækisins, þar sem stöðugt er unnið að tækninýjungum og framförum. Það er þess vegna ekki verið að kaupa þá þekkingu, sem nú er fyrir hendi, heldur einnig þá þekkingu sem Union Carbide aflar sér í þessari framleiðslugrein í framtíðinni.

Gert er ráð fyrir því að upp kunni að rísa deilumál á milli eignaraðilanna út af tækniaðstoðarsamningi við Union Carbide, t. d. vegna tæknikunnáttuafsalsins og einnig vegna umboðssölusamningsins á meðan þau eru í gildi og ágreiningur um kröfumál gæti risið af einhverjum ástæðum í sambandi við þessa samninga. Ef til þess kemur er gert ráð fyrir því að viðkomandi aðilar í þessum samningum sem ágreiningum sem kröfur hafa risið út af, freisti þess að leysa málið án tafar með samkomulagi sín á milli. Ef aðilum að ágreiningi eða kröfumáll, sem um getur samkv. því sem hér er sagt, mistekst af einhverjum ástæðum að leysa málið skjótlega með samkomulagi er hvorum aðila um sig heimilt að vísa málinu til ríkisstj. og Union Carbide til lausnar á því með samkomulagi milli ríkisstj. og Union Carbide. Jafnframt þessu er ríkisstj. og Union Carbide heimilt að krefjast þess að sérhverjum slíkum ágreiningi og kröfumáli verði vísað af aðilum málsins til ríkisstj. og Union Carbide með samkomulagi þeirra á milli. Ef ríkisstj. tekst ekki ásamt Union Carbide að leysa með samkomulagi einhvern ágreining eða kröfumál sem um getur skal málinu vísað til dómstóla sem mælt er um hér á eftir. „Ríkisstj. og Union Carbide samþykkja hér með“, segir í samningnum, „að bæjarþing Reykjavíkur skuli eiga endanlega lögsögu“ varðandi ágreining eða kröfur samkv. 1. mgr. þessarar gr. að áskildu málskoti til Hæstaréttar eftir því sem heimilt er að lögum. Járnblendifélagið og dótturfélög Union Carbide fallast á þessa lögsögu á sama hátt með samþykki sínu á samningi þessum. Union Carbide og dótturfélög Union Carbide skulu hvert um sig tilnefna skriflega forsvansmann búsettan á Íslandi sem hafi fullt umboð til að taka við stefnu fyrir þeirra hönd fyrir dómstólum á Íslandi í hverju því máli sem skotið er til þeirra dómstóla í samræmi við 4. mgr. þessarar gr. og sérhver slík stefna skal talin nægilega til lykta leidd ef hún hefur verið birt þessum forsvarsmanni á þeim fresti er lög mæla fyrir um. Hvers konar mót af hálfu Union Carbide eða dótturfélagi Union Carbide fyrir íslenskum dómstólum skal vera og teljast sérstakt mót í þeim tilgangi sem þar er um að ræða og skal ekki valda því að Union Carbide eða dótturfélag Union Carbide verði annars háð íslenskri lögsögu.

Hér hefur verið vitnað í sérstakan kafla í samningnum sem gert er ráð fyrir að lögfesta varðandi deilumál sem upp kynnu að koma um tækniaðstoðina, um tækniafsalið og um umboðssölusamning. Og með tilliti til þess að í stjórn hlutafélagsins er meiri hl. íslendingar og málið verður rekið fyrir bæjarþingi Reykjavíkur sýnist ekki vera vafi á því að íslendingar geti náð rétti sínum ef Union Carbide eða dótturfélög þess, sem annast eiga sölu á framleiðslu verksmiðjunnar í Hvalfirði, sýna vanefndir á einhvern hátt.

Þá er það rekstur og hagnaður verksmiðjunnar, sem skiptir vitanlega miklu máli, afskriftir og skattar. Á bls. 16 í frv. má sjá hvernig gert er ráð fyrir að útkoman verði á verksmiðjunni á árunum 1978–1982, 1983–1987 og 1988–1993. Samkv. þessum útreikningum er hagnaður mikill og afskriftir miklar. Hreinn hagnaður 1978–1982 eru 3 milljarðar 34 millj. til jafnaðar á ári, á árunum 1983–1987 er hreinn hagnaður 4 milljarðar 639 millj. til jafnaðar á ári og á árunum 1988–1993 6 milljarðar 401 millj. til jafnaðar á ári. Af þessu má sjá að hlutur Íslands, 55%, er allmikill og gjaldeyrishagnaður af rekstri þessarar verksmiðju getur orðið yfir 2 milljarðar á ári til jafnaðar á samningstímanum með því gengi sem nú er um að ræða. Meðalarðsemi verksmiðjunnar er mikil eins og sjá má í frv. Það er gert ráð fyrir meðalarðsemi fjárfestingar fyrir skatta 17.4%, en þá er ekki tekið tillit til áhrifa sjóðsmyndunar og vaxtatekna á arðsemina. Áætlað er að sjóðseign fyrirtækisins verði rúmlega 47 millj. dala í árslok 1993. Sjóðsmyndunin byggist annars vegar á myndun varasjóðs samkv. hlutafjárlögum, en jafnframt er ógreiddur tekjuskattur og arður frá síðasta ári. Vaxtatekjur af sjóði eru áætlaðar 1080 þús. dalir á ári að meðaltali. Sambærileg meðalarðsemi var 10.3% í áætlun þeirri sem lá til grundvallar skýrslu n. í febr. s. l., þannig að hér er um verulega hækkun á meðalarðsemi að ræða sem liggur aðallega í því að söluverð framleiðslunnar hefur hækkað mikið frá því sem gert var ráð fyrir á s. l. vori.

Þjóðhagsstofnunin hefur látið frá sér fara umsögn um þessa verksmiðju og þjóðhagsstjóri, Jón Sigurðsson, kom á fund iðnn. Nd. og svaraði fsp. nm. Ég tel ástæðu, til að fara hér nokkrum orðum um það sem helst kemur fram í umsögn Þjóðhagsstofnunarinnar.

Þjóðhagsstofnun fékk frv. til umsagnar og var beðin um að meta forsenduna þeirra rekstraráætlana sem gerðar hafa verið fyrir járnblendiverksmiðjuna af starfsmönnum n. í samráði við Union Carbide. Þeir voru einnig beðnir um að meta þjóðhagsleg áhrif af rekstri fyrirtækisins umfram það sem þegar hefur komið fram í grg. viðræðunefndar um orkufrekan iðnað. Þannig er skýrt komið fram hverja þjóðhagslega þýðingu fyrirhugað fyrirtæki hefur. Þjóðhagsstofnun var send öll tiltæk gögn til þess að hún gæti gert ítarlega athugun á málinu. Þjóðhagsstofnun hefur fjallað um rekstrartekjur og sérstaklega söluverð það sem reiknað er með. Þjóðhagsstofnunin kemst að þeirri niðurstöðu að verksmiðjan sé arðberandi og hefur lítið við þær áætlanir að athuga sem gerðar hafa verið og hún hefur fengið til umsagnar. Þjóðhagsstofnunin fjallaði einnig un markaðshorfur og getið er um að meginmarkaðssvæðið sé Evrópa, sérstaklega Bretland. Þar hafi fyrirtækið Union Carbide Corporation mikil ítök eða töluverða sölu og selji um 20% af því sem selt er á þeim markaði, einkum til British Steel Corporation. Einnig er um það getið að það fyrirtæki hafi tjáð sig hafa áhuga á því að gera fastan samning um kaup héðan og er getið um það hér að ekki sé ólíklegt að til greina gæti komið að gera fastan samning við það fyrirtæki til langs tíma. Þjóðhagsstofnunin gerði einnig samanburð á þjóðhagsstærðum eða þjóðhagsgildi þessa iðnaðar sem getur orðið mjög mikið.

Þjóðhagsstofnunin gerði samanburð á vinnsluvirði þessarar verksmiðju, álbræðslunnar og sjávarútvegs. Hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu yrði í þessari verksmiðju um 1.1%, álbræðslunni 2.1%, en sjávarútvegi um 12.3%. En sjávarútvegur er stærsti aðilinn í okkar atvinnumálum. Vinnsluvirði sem hlutfall af heildartekjum er 54% hjá járnblendiverksmiðjunni, 38% hjá álverksmiðjunni, en um 60–65% hjá sjávarútvegi. Vinnsluvirði á mannár er um 12.4 millj. kr. í þessari verksmiðju, 4.6 millj. í álverksmiðjunni en 1.4 millj. í sjávarútvegi, þannig að vinnsluvirði í járnblendiverksmiðjunni á mann er ákaflega mikið fyrir hverja stund sem unnin er vegna tækni og sjálfvirkni í þessari verksmiðju umfram það sem er yfirleitt í öðrum verksmiðjum. Þjóðhagsstofnunin lætur þess getið að erfitt sé að gera nákvæman samanburð á áætlun þeirri, sem fyrir liggur um járnblendiverksmiðjuna, við aðrar atvinnugreinar, en eigi að síður hefur Þjóðhagsstofnunin gert það sem í hennar valdi stendur við að gera nákvæman samanburð sem óhætt er að fullyrða að er mjög nærri sanni.

Umsögn Þjóðhagsstofnunarinnar er mjög mikilvæg að því leyti að hún rennir stoðum undir þær áætlanir og þær niðurstöður sem fengist hafa í viðræðunefndinni og eru forsendur fyrir því að ráðist er í byggingu verksmiðjunnar.

Margir þeir, sem hafa snúist gegn þessari verksmiðju, viðurkenna að hún geti verið arðbær og haft þjóðhagslegt gildi sem arðgefandi fyrirtæki í okkar þjóðfélagi. En þeir segja: „Samt sem áður hljótum við að vera á móti þessari verksmiðju vegna þess að af henni stafar mikil mengun og hætta af þeirri mengun“. Ef það væri rétt að það stafaði mikil hætta af þessari verksmiðju á lífi manna, sem í verksmiðjunni vinna, og annarra sem búa í nálægð verksmiðjunnar, ef af verksmiðjunni stafaði mikil hætta á lífríki, bæði á landi og í vatni þá væri eðlilegt að menn hugsuðu sig um, einmitt vegna þess að enginn vill hafa mengun, allir hv. þm. og allir landsmenn vilja viðhalda hreinu og heilnæmu lofti hér á landi. Þótt ráðist sé í stórframkvæmdir og stóriðju, þá vilja menn útiloka mengun. Og til þess eru rannsóknastofnanir, til þess er tæknin að koma í veg fyrir mengun.

Iðnn. Nd. kallaði fyrir sig forstöðumann Heilbrigðiseftirlits ríkisins og aðstoðarmann hans, Eyjólf Sæmundsson. Einnig komu til viðræðu í n. landlæknir og náttúruverndarmenn. Allir voru þessir menn spurðir um það hvort hætta stafaði af verksmiðjunni. Allir gáfu þessir menn skýr svör og nm. og gestir n. áttu allir sameiginlegt að vilja fá hrein og skýr svör við því hvort það væri virkilega hættulegt að byggja og reka þessa verksmiðju. Náttúruverndarráð hefur verið haft með í ráðum. Tveir menn frá Náttúruverndarráði, Vilhjálmur Lúðvíksson og Hjörleifur Guttormsson, fóru til Noregs til þess m. a. að kynna sér rekstur járnblendiverksmiðja í Noregi. Í Noregi hafa verið reknar járnblendiverksmiðjur í meira en 50 ár. Norðmenn hafa þess vegna fengið reynslu af rekstri verksmiðja af þessu tagi. Þeir Vilhjálmur og Hjörleifur kynntu sér þetta í sinni ferð og eftir heimkomuna skrifuðu þeir iðnrh., Heilbrigðiseftirliti ríkisins og iðnn. og gerðu grein fyrir för sinni. Þeir spurðu norðmenn um mengun frá verksmiðjunum, og þær verksmiðjur, sem hafa verið reknar í Noregi í meira en 50 ár, eru af annarri gerð en sú verksmiðja sem á að refsa í Hvalfirði. Í Hvalfirði verður byggð nýtískuverksmiðja með eins fullkomnum hreinsunartækjum og þekkt eru. Í Noregi hafa verksmiðjurnar starfað án hreinsitækja og án þeirra mengunarvarna sem nú eru þekktar. Í verksmiðjunum í Noregi hefur reykurinn frá verksmiðjunum farið út um andrúmsloftið og varnir innan húss og utan hafa ekki verið neitt í líkingu við það sem verður í nýju verksmiðjunni á Grundartanga. Þeir Vilhjálmur og Hjörleifur spurðust fyrir um það hvort atvinnusjúkdómar hafi komið upp hjá þeim mönnum sem unnið hafa í verksmiðjunum. Svar við því var greinilegt. Það var ekki hægt að rekja sjúkdóma til þess að þeir væru af völdum verksmiðjunnar eða óhollustu þar fremur en öðrum iðnaði. Þeir spurðu um hvernig það væri með lífríkið í fjörðunum, sem verksmiðjurnar standa við og með grasið og blöðin á trjánum í nágrenni verksmiðjanna. Það hafði ekki borið á eitrun eða mengun í nágrenni verksmiðjanna en hér er um gamlar verksmiðjur að ræða sem ekki hafa hreinsiútbúnað, sem ekki hafa mengunarvarnir í líkingu við það sem á að verða í Hvalfirði. Þessar upplýsingar, sem norðmenn hafa gefið um mengunarhættu og eitrunarhættu af svona verksmiðjum, eru vitanlega ákaflega mikils virði.

Forstöðumaður Heilbrigðiseftirlits ríkisins og aðstoðarmaður hans fóru til Bandaríkjanna til þess að skoða verksmiðjur af þessari gerð, ekki helst gamlar og úreltar verksmiðjur eins og norsku verksmiðjurnar verða nú að teljast, heldur nýjar verksmiðjur með hreinsitækjum og fullkomnum mengunarvörnum. Heilbrigðiseftirlitið hefur gefið skýrslu og telur að það sé unnt að koma í veg fyrir mengun. En til þess að koma í veg fyrir mengun — og það telja þeir líka Vilhjálmur og Hjörleifur — þarf að hafa ítrustu gætni og nota öll tiltæk ráð sem menn nú þekkja og allir a. m. k. hér á Íslandi eru sammála um að beri að nota.

Með tilliti til þess sem hér hefur verið sagt og vitnað í upplýsingar sem fyrir liggja virðist ekki vera mikil hætta á mengun. (Forseti: Ég vil spyrja hv. ræðumann hvort hann telur að nú henti að hann geri hlé á máli sínu svo að fyrirhugað hlé á fundinum eigi sér stað nú?) Það má gjarnan vera. Ég býst ekki við að ég eigi mjög langt mál eftir, en ég get hætt núna og byrjað aftur þegar fundi verður haldið áfram, hvort sem ég tala þá stutt eða lengra. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég get nú farið að stytta mál mitt. Ég var þar kominn ræðu minni að ég hafði lokið að mestu við að tala um mengunarmálin en mér þykir rétt að það verði lokaorð í mengunarmálinu að lesa hér upp það sem Heilbrigðiseftirlit ríkisins hefur að segja um þetta mál, með leyfi hæstv. forseta, — Heilbrigðiseftirlitið segir:

„Helstu niðurstöður eru sem hér segir: Telja verður að mengun frá fyrirhugaðri verksmiðju verði ekki í þeim mæli að lífríki umhverfis hennar stafi teljandi hætta af.

Staðreynd er að heilsu starfsfólks í slíkum iðnaði var nokkur hætta búin og að ekki er útilokað að kísilveikitilfelli hafi komið upp. Með hliðsjón af þeim öryggis- og eftirlitsaðgerðum, sem fyrirhugaðar eru, er þó ljóst að heilsu starfsfólks verði ekki stefnt í voða umfram það sem almennt gerist í iðnaði hérlendis. Gert er ráð fyrir að fyrirhuguð verksmiðja verði í meginatriðum eins vel úr garði gerð til verndunar umhverfis og heilsu starfsfólks og tæknilega er mögulegt. Bent hefur þó verið á nokkur atriði sem betur mættu fara, t. d. uppskipun hráefnis og gerð útblástursútbúnaðar. Munu heilbrigðisyfirvöld beita sér fyrir því að þau verði færð í betra horf þegar formleg umsókn um bygginga- og rekstrarleyfi hefur borist frá þeim aðila sem ábyrgur verður fyrir byggingu og rekstri fyrirtækisins. Hafa þarf náið eftirlit með heilsu starfsfólks og byggingu og rekstri verksmiðjunnar ef framkvæmd verður. Einnig er nauðsynlegt, að gerð verði könnun á lífríki Hvalfjarðarsvæðisins áður en rekstur verksmiðjunnar hefst, t. d. á vegum líffræðistofnunar Háskóla Íslands til þess að unnt verði að fylgjast með hugsanlegum breytingum. Hæstv. iðnrh. hefur falið líffræðistofnun Háskóla Íslands að gera þessar líffræðiathuganir. Hér ber sérstaklega að hafa í huga að líklegt er að rætt verði um frekari útþenslu iðnaðar á svæðinu í framtíðinni. Til greina kemur að heilbrigðisyfirvöld leiti til erlendra stofnana um aðstoð við skipulagningu alls eftirlits varðandi fyrirhugaða verksmiðju. Ljóst er af framangreindu að Heilbrigðiseftirlit ríkisins mælir á þessu stigi málsins ekki gegn því að fyrirhugaðri verksmiðju verði veitt starfsleyfi með venjulegum skilyrðum.

Venjuleg skilyrði og umsögn frá Heilbrigðiseftirliti ríkisins með hliðsjón af umsögnum annarra aðila má sjá á dæmigerðri afgreiðslu slíks verksmiðjumáls frá hendi heilbr.- og trmrn. sem er hér fest við, og það er lengra mál en er í samræmi við það sem hér hefur verið sagt.

Það liggur ljóst fyrir að Heilbrigðiseftirlitið mun ekki mæla gegn því að starfsleyfi verði veitt ef menn fylgjast rækilega með því að fyllstu varúðar verði gætt í öllum öryggismálum varðandi verksmiðjuna.

Rykið og úrgangur verksmiðjunnar hefur verið talið vandamál, og þeir Vilhjálmur og Hjörleifur, sem fóru til Noregs eins og áður var um getið, kynntu sér hvernig þetta er í Noregi. Norðmenn telja að það borgi sig ekki að endurvinna rykið, eins og það er kallað, vegna þess að það dragi úr afköstum verksmiðjunnar. En úrgangur verður allmikill og er þess vegna nauðsynlegt að eitthvað sé hægt að nýta hann. Norðmenn eru byrjaðir á að nota þennan úrgang í sement, og telja að það geti verið mjög hentugt og heppilegt. Einnig eru þeir byrjaðir á að nota þetta efni til húðunar á áburði. Það er ekki langt síðan þeir gerðu þetta, en það virðist ætla að gefa góða raun að nota úrganginn til sementsgerðar að talsverðu magni og eins til húðunar á áburði.

Fyrir stuttu komu 4 menn, sérfræðingar, frá Union Carbide til viðræðna við Heilbrigðiseftirlit ríkisins og Náttúruverndarráð um mengunarvarnir, m. a. um hvernig mætti nýta rykið. Í skýrslu, sem ég hef hér í höndum og mér barst eftir að þeir höfðu verið hér, segir um endurnýtingu ryksins:

„Fram kom að með endurnýtingu alls ryksins aukist natríum- og kalíuminnihald þess að því marki að rykið verður límkennt og klessist í pokasíunum. Af þessum sökum þarf að fjarlægja einhvern hluta þess og voru 10–20% talin sennilegt hlutfall. Þetta ryk, sem þannig verður ekki endurnýtt í verksmiðjunni sjálfri, er að magni til 2000–4004 tonn á ári og er líklegt að sementsverksmiðjan geti nýtt sér það, en talið er að hún geti notað 7–8 þús. tonn á ári. Hugsanlegt er að áburðarverksmiðjan geti hagnýtt sér rykið til húðunar á áburði, svo sem gert er í Noregi, en um það hefur ekki verið rætt við áburðarverksmiðjuna.“

Það hefur ekki verið rætt við áburðarverksmiðjuna, um þetta, en ég er ekki trúaður á að áburðarverksmiðjan geti ekki notað verulegt magn af þessu ryki, kannske 1–2 þús. tonn. Það hefur verið rætt við sementsverksmiðjuna um málið og mun verða reynt hvort þetta er heppilegt. Það er talið líklegt að það gæti hentað hér ekki síður en í Noregi, en það yrði aldrei nema 7–8 þús. tonn á ári, en alls er rykið 22 þús. tonn. Ef losna þyrfti við rykið, sem enginn gæti tekið við, yrði það gert með því að blanda það sementi og vatni og fleygja því í gryfjur sem mokað yrði yfir. Þannig er þetta gert í Bandaríkjunum og eflaust víðar þar sem endurnýting er dýrari en kvartsið þar sem það er í ríkum mæli á lágu verði, Hingað komið er kvartsið hins vegar dýrara en kvarnað ryk. Ekki er vitað til þess að rykið valdi tjóni. Bent var á að norðmenn telja endurnýtingu ryksins rýra nýtni verksmiðjunnar. Union Carbide telur sig ekki hafa þá reynslu.

Inn í umr. um nýtingu ryksins spunnust umr. um mælingar á því. Fram kom að þessar mælingar eru afar vandasamar og krefjast dýrra tækja. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvar eða hvernig þessar mælingar verði framkvæmdar né heldur hver annist þær, en sá aðili mundi þurfa að viðhalda þjálfun sinni í ákaflega ríkum mæli. Til þess að ganga úr skugga um áhrif verksmiðjunnar á rykmagn í umhverfi hennar er nauðsynlegt að rykmælingar hefjist áðum en verksmiðjan tekur til starfa, svo að fram komi hvert sé magn náttúrulegs ryks á þessum slóðum. Union Carbide telur sig geta endurnýtt 80–90% af rykinu með því að láta það fara aftur inn í verksmiðjuna og það borgi sig að gera það hér vegna þess að kvartsið, efnainnihald ryksins, er miklu dýrara hér en t. d. í Noregi og Bandaríkjunum. Þeir hafa reynt þetta í verksmiðjum sínum fyrir vestan og verða ekki þess varir, sem norðmenn álíta, að afköst verksmiðjunnar minnki nokkuð við það þótt rykið sé endurnýtt. Það virðist því sem sá vandi, sem menn héldu að mundi skapast vegna ryksins, sé hverfandi, og sérfræðingar fullyrða að þeir muni geta endurnýtt 80–90%, og það er einnig í athugun hvort sementsverksmiðjan geti tekið nokkurn hluta til vinnslu og áburðarverksmiðjan. Það liggur í hlutarins eðli að það verður allt gert til þess að koma í veg fyrir mengun og hættu af rekstri í þessarar verksmiðju.

Ástæðan til þess að mælt er með því að ráðast í þetta fyrirtæki er sú að fyrirtækið virðist arðbært. Þetta er orkufrekur iðnaður sem kaupir orku frá Landsvirkjun og borgar vel fyrir orkuna. Verksmiðjan gefur arð í þjóðarbúið og veitir atvinnu, vel borgaða, eins og t. d. nú er gert í álverksmiðjunni. Það liggur fyrir að mati sérfróðra manna, að þótt þessi verksmiðja fái rafmagn eins og ætlast er til, þá verður ekki orkuskortur hér á landi, hvorki fyrir sunnan né norðan eða annars staðar, af völdum þessarar verksmiðju þegar miðað er við árin 1980–1981. Og það liggur í augum uppi að ef Kröfluvirkjun verður tilbúin 1976 eða í síðasta lagi 1977 og Sigölduvirkjun á árinu 1977 þá verður ekki látið staðar numið að virkja. Ný virkjun verður komin í gagnið 1980 til þess að veita orku inn á kerfið.

Þess vegna er það rangt, sem hv. þm. Magnús Kjartansson segir í sínu nál., að þeir, sem greiði atkv. með þessari verksmiðju, séu að kalla orkuskort yfir þjóðina. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að halda áfram að virkja bæði fallvötnin og jarðhitann. Ég er því meðmæltur, sem Magnús Kjartansson hefur haldið fram, að það eigi að gera það sem unnt er til þess að koma í veg fyrir olíunotkun til húshitunar. Raforkan hefur verið dýr til húshitunar fram að þessu, en nú er að koma upp ný tækni sem mun gera raforkuna ódýrari en verið hefur í þessu skyni. Það ern hinar svokölluðu varmadælur sem farið er að nota erlendis. Varmadælur vinna öfugt við kælivélar eða frystivélar. Varmadælur leiða hitann inn í húsin, öfugt við það sem frystivélarnar gera, að leiða kuldann inn í húsin. Og með því að nota varmadælur til upphitunar í sambandi við raforku eða jarðvarma er talið að ekki þurfi meira en helming af rafmegnsnotkun og jafnvel ekki nema 1/4 við það sem áður var. Það er talið líklegt að með varmadælunum geti rafmagnið keppt við hitaveiturnar. Verkfræðingur hjá Landsvirkjun er að vinna að þessu og er kominn vel á veg með að sanna nytsemi varmadælunnar. Líklegt er að það verði til þess að hægara verði að nýta raforkuna til húshitunar en annars hefði verið, einnig til þess að vatn, sem áður var ekki talið hafa nægan hita til upphitunar húsa, getur með aðstoð varmadælunnar gefið fullnægjandi híta í húsin. T. d. gæti 36–40 stiga heitt vatn með aðstoð varmadælunnar verið fullnægjandi til upphitunar húsa. Sem betur fer fleygir tækninni stöðugt fram og það er nauðsynlegt að nýta hana í sem ríkustum mæli.

Herra forseti. Ég ætla þá að láta máli mínu lokið og vænti þess að umr. geti haldið áfram hér í dag og í kvöld ef þörf krefur.