25.04.1975
Efri deild: 73. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3279 í B-deild Alþingistíðinda. (2407)

204. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Frsm. 2. minni hl. (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti. Frsm. meiri hl. hefur nú gert grein fyrir stefnumörkun þessa frv. og gat þess að nm. áttu kost á því að vera á samtals 7 fundum, en þar vorum við á tveimur fundum í Ed., en hinir voru með Nd. Einnig drap hann á það að ýmsir embættismenn hefðu komið á fund okkar og gert grein fyrir ýmsum atriðum, sem þeir voru spurðir um. En það verður að segjast að á svona fundum, fer hver mínútan í ýmis konar umr. og oft eru ekki skipulegar umr. hafðar í frammi, eins og öllum hv. þm. er kunnugt, og þrátt fyrir tölu þessara funda eru þeir ekki eins upplýsingaríkir og efni standa til. Get ég tekið undir orð síðasta ræðumanns um það að á fundinum í morgun var vægast sagt hafnað ýmsum upplýsingabeiðnum, sem við fórum fram á, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir formanns að reyna að leysa úr þeim vanda að afla okkur þeirra gagna sem um var beðið. En ég tel að slík vinnubrögð og sá skyndilegi hraði, sem við vorum píndir í að hafa hér í hv. Ed um afgreiðslu þessa máls, sé óverjandi með öllu. Ég undirstrika það að hér var hreint hneyksli á ferðinni, og ég vona að við eigum ekki eftir að lifa annað eins, hreinlega sagt, í vinnubrögðum Alþingi.

Það er komið svo að við eigum bara að afgreiða mál hér, sem nema milljörðum, án þess að hafa hugmynd um efni þeirra mála og það er algerlega óverjandi. Það kom fram við 1. umr. að svo getur farið að aðeins 4 menn í fjvn. myndi meiri hl. hugsanlega og afgreiði mál, sem nema hundruðum millj., og þá veit Alþ. raunar sáralítið um hvað er að ske. Þetta kalla ég afskræmingu á lýðræðinu, hreinlega afskræmingu á lýðræðinu í framkvæmd, og nær ekki nokkurri átt að stuðla að slíkri þróun. Ég te1 það til vansæmdar hæstv. ríkisstj. og ég beini þeim orðum eindregið til hæstv. forsrh., slíkur drengskaparmaður sem hann er, að hann stuðli ekki að áframhaldi slíkra vinnubragða. Ég trúi því ekki að þetta sé honum neitt geðfellt, nema síður sé. Því miður bera svona vinnubrögð vitni þess að ekki sé nægileg festa í öllu stjórnkerfinu og ég ætlast til þess og við áreiðanlega allir að hér verði breyting á. Það hefur komið fram í ræðum manna og ritum víða að embættismannavaldið er að verða okkur yfirsterkara hér á Alþ. og fengum við sannarlega að kenna á því á nefndarfundi í dag.

Ég mun nú fjalla lítils háttar um þetta frv. og einstaka þætti þess. Ég flyt á þskj. 510 nokkrar brtt. Þær eru fyrst og fremst tölulegar, teknar upp úr beiðni frá fulltrúum ASÍ og ekki flóknar í sjálfu sér. En ef ég fjalla fyrst um skattamálin, þá vil ég taka undir það að það er hneisa ein að vera að fjalla um skattamál hér í dag, á síðustu dögum aprílmánaðar, og nær ekki nokkurri átt að standa þannig að hlutunum. Samkv. samkomulagi, sem undirritað er af hæstv. forsrh. 26. mars 1974, er það í yfirlýsingu tekið skýrt fram að ríkisstj. muni á Alþ. beita sér fyrir skattahækkun að þessu marki með það fyrir augum að hún gagnist best þeim sem við erfið kjör búa. Í samræmi við það setti ASÍ fram nokkrar hugmyndir og óskaði eindregið eftir því að hv. Alþ. gæti mætt óskum þessa með því að hafa frv. samkv. því sem þeir töldu að best mundi að gagni koma. Eins og ég tek skýrt fram í nál. vil ég verða við þessari beiðni þar sem hér er um mikilvægt atriði að ræða. Jafnvel þó að vissir útreikningar gætu sýnt að það komi misjafnlega niður eftir tekjuskiptingu manna, þá er það áreiðanlega ekki síður pólitískt mikilvægt atriði — og það þekkir hæstv. forsrh. miklu betur en ég — að verða við óskum þeirra aðila sem er verið að gefa fyrirheit um í umræddri yfirlýsingu og áreiðanlega munu meta það mikils þegar líður á árið að hlustað hafi verið á óskir þeirra, vegna þess að hér er aðeins hlé til bráðabirgða. Allir vita að þessi mál halda áfram að verða mikið vandamál þegar líður á árið. Þá munu þeir áreiðanlega meta ýmislegt eftir viðbrögðum Alþ. í samræmi við beiðni sína og yfirlýsingu hæstv. forsrh.

Það liggur ekki fyrir, þótt þessi leið verði farin sem frv. gerir ráð fyrir, hvar söluskattur verður lækkaður á ákveðnum vöruflokkum eins og form. n. og frsm. meiri hl. gerði ráð fyrir. Taldi hann að eftir þeim breytingum, sem nú liggja fyrir, verði eftir ca. 500 millj. sem rynnu til þessa þáttar. En maður hefði viljað fá að vita hvernig ætti að ráðstafa þessum tölum. En það er enn það sama okkur er haldið leyndu, a. m. k. í minnihluta flokkunum eða stjórnarandstöðunni, hvernig ráðstafa á þessu fjármagni.

Þetta tel ég afar slæmt. Það hefur verið rætt um ákveðna flokka, en það er ekki neitt staðfest með hvaða hætti þetta verður gert.

Skattamálin eru mjög viðkvæm mál. Vil ég taka undir orð síðasta ræðumanns varðandi kvöðina um barnalífeyri, eins og hann gerir ráð fyrir í einni sinni till., að lágmark væri að 20 þús. kr. væru fríar hjá viðkomandi konu. Það finnst mér algert lágmark og ætti raunverulega að vera frjálst, eins og verið hefur, fyrir þessa manneskju að fá barnalífeyri, sérstaklega þegar um óskila- og vanskilaaðila á móti er að ræða eins og oft á sér stað. Einnig vil ég sérstaklega vara við því ákvæði, sem er tekið upp á bls. 5 í frv., 11. gr., og er nýtt ákvæði og hljóðar svo:

„Nú hefur fjmrh. ákveðið að gjalddagar tekju- og eignarskatts skuli vera fleiri en einn á ári, og veldur þá vangreiðsla að hluta því að skattar gjaldandans á gjaldárinu falla í eindaga, þó ekki fyrr en 15. næsta mánaðar eftir að álagningu er lokið.“

Hér er farið inn á alveg nýja braut sem er afar hættuleg þeim mörgu aðilum sem hafa sveiflukenndar tekjur frá ári til árs. Ef við værum komnir með staðgreiðslukerfi og allir sætu að því, eins og ríkisstarfsmenn og margir fleiri sem hafa fastar tekjur og tekið er reglulega af frá mánuði til mánaðar, varðandi sína tekjuöflun og sína skattgreiðslu, væri þetta ákvæði í lagi og eðlilegt. En nú vitum við hversu óhemju misjafnlega árar bæði til lands og sjávar og tekjur manna sveiflast upp og niður og þá er þetta ákvæði að mínu mati mjög hættulegt. Það mun áreiðanlega reynast mörgum svo, að þeim er um megn, ef þeir hafa góðar tekjur og fá þess vegna háa skatta, að lenda síðan í því að þurfa að borga skatta af þessum háu tekjum árið eftir og verða svo beittir þessu ákvæði. Þá lenda þessi heimili eða þeir einstaklingar í verulegum vanda og nær ekki nokkurri átt að refsa þeim fyrir það að við á Alþ. skulum ekki geta búið til sómasamlega skattalöggjöf — það nær ekki nokkurri átt. Þetta ákvæði má ekki koma inn í löggjöf fyrr en við höfum tryggt að skattalöggjöfin sé sómasamlega af hendi gerð að mínu mati. Það nær ekki nokkurri átt að setja þetta inn í löggjöfina fyrr. En þá er það eðlilegt. Ég vara við því að samþykkja þetta ákvæði, hreinlega vara við því. Mjög skýrt dæmi um það í dag eru einmitt tekjur loðnusjómanna og breyting á þeim frá undanförnum tveimur árum til ársins í ár. Ég þekki það af eigin raun, þar sem ég hef fengist við að innheimta fyrir ríkið mjög há skattgjöld af hlutarsjómönnum, hvílík vandkvæði það eru nú fyrir suma fjölskyldumenn að eiga að standa skil á sköttum sínum, og um þverbak mundi keyra ef þessi ákvæði ættu að koma aftan að þeim núna. Það er algerlega vonlaust að bjóða nokkrum manni, sem býr við þessar aðstæður, slíka löggjöf. Ég trúi því ekki að þetta fari í gegn, — hreinlega sagt, ég trúi því ekki.

Margt meira mætti segja um skattbreytingar, en ég ætla ekki að tíunda það. Ég tel þetta mikilvægustu þættina, sem um er að ræða, í viðbót við það sem áður hefur komið fram. Hitt vil ég aðeins undirstrika að nauðsynlegt er að halda áfram og móta sem fyrst ákveðna skattalöggjöf og hafa hana það vel unna að það þurfi ekki að vera að kákla í henni frá ári til árs. Í því sambandi vil ég gjarnan spyrja hæstv. forsrh., þar sem fjmrh. boðaði í vetur að hann hefði skipað þrjár skattanefndir, hvernig starfsemi þessara nefnda gangi og hvað þeir séu komnir langt í tillögugerð. Megum við eiga von á því að næsta haust sjáum við heildarmynd af skattalöggjöf sem okkur er til sóma? Í dag, að samþykktum þessum till. ýmsum, erum við búnir að flækja skattalöggjöfina svo að það er ekki á færi nema fárra manna að átta sig almennilega á þessum málum og reikna út skatta sína, því miður. Ég vil því gjarnan fá að vita þetta og legg á það áherslu. Og það er síðasti þáttur í mínum till. að þessi mál séu áfram skoðuð mjög ákveðið og heildarstefna í skattamálum sé mótuð og liggi fyrir þegar Alþ. kemur saman að hausti.

Svo miklar upplýsingar komu fram um lánasjóðina áðan hjá síðasta ræðumanni að ég ætla mjög að stytta mál mitt varðandi þá. En ég vil aðeins taka undir það að það er óverjandi að ráðstafa svona miklu fé eða gera ráð fyrir lántöku í þessum mæli og hafa ekki um leið nokkuð góða heildaryfirsýn yfir það hvernig fjárfestingarlánasjóðirnir ætla að ráðstafa þessu fjármagni og hversu miklar beiðnir liggja hjá fjárfestingarlánasjóðunum, svo að við getum gert okkur grein fyrir því hvort hér er of í lagt eða hvort hér hallar mjög á enn til að leysa þeirra fjármagnsþörf. Við í n. fengum bréf frá Seðlabanka Íslands, dags. 10. febr. 1975, þar sem Seðlabankinn fjallar nokkuð um erlendar lántökur og lánahreyfingar hjá opinberum sjóðum og endurgreiðslu og gerir yfirlit og spá í því efni. Þar kemur greinilega fram, að það er ljóst að gera má ráð fyrir að greiðslur í hlutfalli af tekjum verði af þessum lánum á árinu í ár 14.5% og verði komnar upp í um 20.3% árið 1979. Þetta hlutfall er örugglega mjög hátt. Þó að deila megi um það hvað við megum fara hátt í greiðslubyrði þá man ég vel eftir því að fyrir tveimur árum talaði hæstv. núv. forsrh. mjög á móti því að þetta hlutfall færi yfir 11–12%, og urðu um það allmiklar deilur hér í hv. d. milli síðasta ræðu manns og hæstv. forsrh. hvað þetta hlutfall mætti vera hátt og hvernig þeim fjármunum ætti að ráðstafa þegar erlendar lántökur væru orðnar svona miklar. Ég vil undirstrika það einmitt að þegar hlutfallið er komið svona hátt, þá er því meiri nauðsyn að hv. Alþ. fái glöggt yfirlit yfir það hvernig á að ráðstafa þessu fjármagni. Það getur verið rökrétt og eðlilegt að taka allmikil erlend lán ef við erum í fyrsta lagi að draga úr eyðslu á erlendum gjaldeyri verulega með því að við fjárfestum hér innanlands í þeim vörum sem draga úr erlendri eftirspurn, eða í öðru lagi að koma hér ástofn fyrirtækjum sem skapa mikinn gjaldeyri. En sé hér um fjárfestingu að ræða með þessari erlendu lántöku sem er bundin til langs tíma og skapar aðeins aukna neyslu innanlands og kallar fram mjög aukna erlenda eftirspurn, þá er brýn nauðsyn á því að gera glögga grein fyrir þessu fjármagni. En það liggur nú alls ekki fyrir neitt að ráði og fáum við sáralítið um það að vita, eins og fram hefur komið.

Í þessu bréfi segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Stefnir hér í hættulega háa greiðslubyrði sem hlýtur óhjákvæmilega að draga úr getu þjóðarinnar til öflunar fjármagns til nýfjárfestingar á komandi árum.“

Þeir, sem semja þetta bréf í Seðlabankanum, vara við þessari þróun. Aðalbankastjóri Seðlabankans var spurður að því tvisvar eða þrisvar á nefndarfundi hvað hann persónulega vildi segja um þessa fjármálaþróun og hvert stefndi varðandi þessi miklu erlendu lán, en hann færðist undan að svara Samt sem áður standa þessi orð hér í þessu bréfi er segja beint að hér stefni í hættulega háa greiðslubyrði og ýti undir ríkjandi verðbólgu í landinu sem gengur nú allmjög í öfuga átt við fyrirhelt hæstv. ríkisstj. og stefnuræðu hæstv. forsrh. Virðist manni, fljótt á litið a. m. k., að nauðsynlegt sé að hafa hemil á erlendum lántökum og gá að því hvernig því fjármagni verði ráðstafað.

Þar sem ekki liggur nægilega fyrir hvernig sjóðirnir hugsast ráðstafa þessu fjármagni, þrátt fyrir það að við höfum fengið í morgun lauslegt yfirlit yfir hvernig þetta er fyrirhugað, tel ég ekki mögulegt að fara nánar út í þessi mál, enda drap síðasti ræðumaður mjög á þessi mál og gerði grein fyrir þeim þáttum. Það yrði þess vegna hjá mér allmikil endurtekning og held ég að ég láti þetta nægja að sinni. En ég vil undirstrika það að þessi vinnubrögð eru ekki verjandi og ég minni enn á það, eins og hann gerði, að hv. Alþ. hefur jafnan fengið glöggt yfirlit um þessi mál í sérstakri skýrslu og tækifæri til að fjalla um það á eðlilegan hátt. Það er vitað mál að stærstu lánasjóðirnir eru í mikilli fjárþröng og umsóknir um lán eru gífurlega miklar nú. Hjá Framkvæmdastofnun ríkisins liggur fyrir meiri bunki af lánaumsóknum en nokkru sinni áður. Það kom fram á einum nefndarfundi að fjármagn lífeyrissjóðanna, sem þeir telja sig eiga laust, sé um 6500 millj. kr., og einn nm. í Nd., Sverrir Hermannsson, sagði á fundi 24. mars s. l. þetta: Þá er því slitið að þing og stjórn fari með fjármálavald og stjórn í landinu. Hér er allt of lítið að gert miðað við 12 millj. kr., þ. e. a. s. frá lífeyrissjóðum. Við þurfum að stefna að því að fá allt að helming af því fé, sem þar er laust. Getum við ekki horft á þessa þróun til lengdar. — Þetta skrifaði ég eftir honum, og ég get tekið undir meginstefnuna í þessari hugsun. En ég sé ekki að neitt bóli á því sem heildarstefnumarki hjá hæstv. ríkisstj. að ná auknu fjármagni til ráðstöfunar á vegum ríkisins úr lífeyrissjóðunum, nema síður sé. E. t. v. er einhver löggjöf í mótun í þessu efni eða samkomulag sennilega heppilegast, en gott væri að vita um það hvort við mættum eiga von á því að við hefðum meira fjármagn til ráðstöfunar frá þessum lífeyrissjóðum í samræmi við allt fjármálakerfi þjóðarinnar og ríkisbúskaparins. Þegar þetta er orðin svona stór tala, þá er nauðsynlegt, eins og þessi þm. drap á, að hafa nokkra stjórn hér á. Annars stefnir í öfuga átt. Auk þessa alls er svo meiri tilhneiging nú en nokkru sinni áður til að bjóða út ríkisskuldabréf sem sannarlega eru í þessu verðbólguþjóðfélagi víxill, sem ekki er nein tala á, gjörsamlega óútfylltur og álögur settar á framtíðina. Það væri jafnvel nær að hafa það svo að ríkissjóður hefði heimild á ákveðnu ári til að gefa út skuldabréf og selja þau með vissum afföllum. Þá vissu allir strax hvaða kvaðir Alþ. væri að leggja á ríkissjóð gagnvart framtíðinni. Ég held að það væru hreinlegri og heiðarlegri vinnubrögð en þessi. Sumum kann að vera illa við slík fjármál, en þá víta menn hvað þeir eru að gera. En hér hreinlega vitum við ekki hvað við erum að rétta framtíðinni vegna þeirrar verðbólguþenslu, sem hefur átt sér stað, og verðrýrnunar peninga á undanförnum árum.

1. gr. frv. fjallar um að heimila ríkisstj. að lækka fjárl. um allt að 3500 millj. kr., — að heimila, undirstrikaði frsm. meiri hl. Af hverju gerir hann það? Hann gerir þetta einfaldlega af því að um þetta eru afar deildar meiningar hjá stjórnarflokkunum og milli einstakra þm. Hann sá ástæðu til að taka þetta tvisvar mjög skýrt fram. Sama gerði flokksbróðir hans í Nd. og við auðvitað í stjórnarandstöðunni. Þó að við séum fjvn.-menn fáum við ekki neitt að vita enn þá. En sjálfsagt líður einhverjum vel að hafa þessa heimild og geta flaggað með hana, ef á þarf að halda. Þótt hæstv. fjmrh. hafi skrifað öllum ríkisstofnunum, skilst mér, bréf samkv. umsögn hæstv. forsrh. hér í framsögu, þá mun það varla nægja og þykir því nauðsyn að hafa þessa svipu með til að halda mönnum á mottunni og passa útgjöld og tekjur fyrir viðkomandi stofnanir standist sem best á.

Við í Alþfl. erum í sjálfu sér ekki á móti því að veita nokkurt svigrúm til þess að lækka fjárl. eins og aðstæður eru í dag. En miklu eðlilegra væri að fyrir lægju nú allgóðar hugmyndir um hvernig hæstv. ríkisstj. hugsaði sér að nota þessa heimild. Svo langt er síðan þessi hugmynd var sett fram að nokkurt svigrúm hefur gefist fjvn. og viðkomandi rn. að gefa mönnum ábendingar í því efni hvar helst mætti skera niður. En ég sagði hér við 1. umr. og segi enn að ég tel að það skipti mjög miklu máli á hvaða þáttum verði hér tekið, og ég vil undirstrika það að það hlýtur að vera að rök séu fyrir því að byrja að skera niður á þeim þáttum þar sem hlutfallslega meira fjármagn þarf til og fáir vinna við heldur en á hinu sviðinu, og vil ég taka undir orð frsm. um, að ég er hlynntari aukinni samneyslu eins og aðstæður deyfa en að gefa færi á meiri einkaneyslu við erfiðar aðstæður.

Skyldusparnaður er í VII. kafla frv. og eru menn flestir á einu máli um að rétt sé að stuðla að slíku. En þetta er þó nokkuð skilyrt og bundið við ákveðnar tekjur og má segja að það hrökkvi sæmilega til þar sem þessi sterka tilhneiging er fyrir hendi að gefa út ríkisskuldabréf þar sem allir geta þá sparað af frjálsum vilja með því að kaupa þau. En eðlilegra væri að þessi sparnaður væri frjálsari og færi í gegnum bankakerfið og bankarnir fengju þannig fé til þess að veita frjálst og eðlilega í atvinnulífið, þar sem viðurkennt er nú að slíkur rekstrarfjárskortur er hjá bönkunum að til alvarlegra vandræða horfir og hefur þegar gert. Mörg fyrirtæki eru einmitt vegna þessara ströngu ákvæða í leiðinlegri greiðslustöðu þrátt fyrir góðan rekstur og menn fá ekki að reka fyrirtæki sín á eðlilegan og heilbrigðan hátt eingöngu fyrir það að afar þröngt fjármagns- og útlánasjónarmið hefur verið sett sem sennilega verður framlengt. Þótt það hafi verið sett til bráðabirgða og fyrsti gildistími til 1. júní, þá var þetta um of, það ber öllum saman um sem til þekkja, og of einstrengingslegt og ekki byggt á heilbrigðu mati á fjölda fyrirtækja. Það væri miklu geðfelldara að stuðla að því að fólk hefði áhuga á því að spara af frjálsum vilja og ráðstafa peningum sínum þar með frjálst, en eftir ekki takmarkaðri og þröngri leið.

Hér kemur inn nýtt ákvæði. Það er flugvallagjald. Við í Alþfl. teljum, að nokkur rök hefðu verið fyrir því að taka upp skattgjald til þess að standast undir kostnaði við flugvallagerð. En eins og hér er sett fram skyndilega og óvenjulega hátt gjald og með þeim hætti sem á að ráðstafa því getum við ekki fallist á þetta ákvæði og leggjumst gegn því eins og það er hugsað. Það er þó spor í áttina að fella niður söluskattinn innanlands, eins og ég drap á við 1. umr., en í heild er kaflinn þannig settur fram að við munum telja óeðlilegt að samþykkja hann og verðum á móti honum þess vegna.

Með þessu frv. og öðru, sem nú er til umr. í Nd. hefur ríkisstj. mótað og sýnt hina samræmdu stefnu sem boðuð var með ræðu hæstv. forsrh í haust. Þessi frv. eiga að draga úr verðbólgu og stefna í allt að 15%, eins og hann sagði á þeim tíma. Þessi frv. eiga að tryggja heilbrigðan rekstur hjá atvinnuvegunum og einkum útflutningsatvinnuvegum. Og margt fleira eiga þessi miklu frv. að tryggja svo að búskapur okkar geti verið með eðlilegum hætti og atvinna með eðlilegum hætti. En ég dreg þetta allt í efa og það gerum við í Alþfl. Því miður liggja nú allir stærri togararnir. Því miður er frv. í gangi sem á að veita einum ráðh. heimild til að ráðstafa 800 millj. kr. meira eða minna frjálst, en það mun vera algert einsdæmi í sögu Alþ. að veita slíka svimandi upphæðir. Því miður er ekki stefnt að því að friður verði á vinnumarkaðnum fram eftir árinu. Allt er á sömu bókina lært. Það er hér tjaldað til skamms tíma þrátt fyrir góð áform og mikla viðleitni, að sagt er, til þess að tryggja jafnvægi út árið. Því miður stefnir hér í ört vaxandi niðurgreiðslur á áburði, í miklar útflutningsuppbætur á landbúnaðarvörum án þess að nokkur sérstök grein sé gerð fyrir því eða talað um að nauðsyn sé að athuga þessi mál hlutlaust og eðlilega og af raunsæi og koma með till. til úrbóta. Millifærslukerfið vex stöðugt eins og snjóbolti og verður innan skamms á annan tug milljarða, og það er spá mín að ekki sé langt í að það springi innan frá, verði okkur hreinlega ofviða að framkvæma það af nokkurri sanngirni og nokkru raunsæi. Þetta er ömurlegt vegna þess að við verðum að hafa það mikla ábyrgð og það mikinn kjark hér á hv. Alþ. að við þorum að spyrna við fótum gagnvart þessari þróun og hafa hlutina innan eðlilegs ramma. Og þó að það særi einhverja, sem hafa mikla fjárfestingarlögun, þá verður svo að vera því að heildarþróun okkar fjármála á undanförnum árum hefur verið svo ömurleg og svo hryllileg að það er tími til kominn að þeirri þróun linni. Hér hefur ríkt verðbólga sem hefur verið 35, 40 og nærri 50% ár eftir ár. Og enn virðist stefna í sömu átt. Ef hér verður uppi sú þróun áfram óáreitt að menn gangi út frá 35–40% verðbólgu, þá næst hér aldrei skynsamlegt jafnvægi. Menn sækja svo á fjárfestingarsjóðina að óviðráðanlegt verður og hver reynir að flýta sér til fjárfestinga eins og hægt er og við reynum að fjármagna stærri og stærri hluta af þessari lánsfjárþörf með erlendu fé sem er afar hættulegt.

Það væri heilbrigt og eðlilegt að lýsa yfir því að gengisfelling yrði ekki gerð á næstunni og fólk mætti treysta því að verðrýrnun peninga yrði ekki eins mikil og verið hefur mörg undanfarin ár. Ég held að það sé frumatriði að almenningur finni að stefnan sé mótuð á þann veg að þeir treysti því að það fjármagn, það verðmæti sem menn eiga undir höndum, rýrni ekki, þótt lausafé sé, og eina leiðin til þess að bjarga sér sé að kaupa ríkisskuldabréf, fasteignir eða einhverjar aðrar eignir sem eru hrein fjárfesting og ekki neinar sérstakar þarfir fyrir.

Þessi miklu frv., sem bæði voru lögð fram í Nd. og við erum nú að fjalla um annað þeirra á lokastigi, áttu að sögn formælenda hæstv. ríkisstj. að skapa nauðsynlegt jafnvægi. En nú hefur það skeð að jafnvel tekjuháar stéttir eru að knýja fram umtalsverðar launabætur og semja til mjög skamms tíma. Nú hefur það skeð að afkastamikil framleiðslutæki, allir stærri togararnir liggja bundnir og andrúmsloft þar virðist svo að enginn veit um lausn á því mikla vandamáli. Nú hefur það skeð að fjármagnsþarfir þessara þátta framleiðslunnar eru slíkar að nennur hundruðum millj. kr. og ekkert liggur fyrir með hvaða hætti úr þeim vanda verður leyst. Þetta er mjög slæmt og er ekki í neinu samræmi við boðaða stefnu hér í haust. Samt sem áður segir málgagn hæstv. ríkisstj., Morgunblaðið, að hæstv. ríkisstj. hafi staðið við öll sín fyrirheit. Það er merkileg staðhæfing út af fyrir sig þegar staðreyndirnar liggja á borðinu svo að ekki verður um villst. Í ræðu hæstv. forsrh. í haust virtist manni þó að gefin væru ákveðin fyrirheit um að hafa hlutina undir sæmilegri stjórn, en alls ekki verður sagt að svo sé í dag.

Það væri óskandi að slík stefnumótun gæti átt sér stað á peningamarkaðnum að fólk fyndi að til einhvers væri að vinna með því að spara og fara rólegar í sakirnar en verið hefur undanfarin ár. En því miður verður maður var við það víða úti í atvinnulífinu að menn telja að stutt sé í næstu gengisfellingu. Eyðslan er í samræmi við þá skoðun almennings. En þetta er alveg gagnstætt því sem við þurfum. Við þurfum að fá það andrúmsloft að fólk finni að hér séu settar fram ákveðnar línur, sem menn ætli að standa við, og almennilega útfærðar og um þær sé fjallað á heilbrigðan og eðlilegan hátt og við fáum um þær að vita, allir þm., jafnt í stjórnarandstöðunni sem í stjórnarfl., og þá sé hægt að rökræða þessi mál fyrir opnum tjöldum og það sé lagt fram alveg hiklaust hvernig ráðstöfun á þessu mikla fjármagni á sér stað. Maður á ekki að þurfa að vera með pex út af því að fá upplýsingar um með hvaða hætti mörg hundruð millj. kr. fjármagnshreyfingar eiga sér stað, eins og nú er gert. Það ganga um það ýmsar sögur með hvaða hætti gengismun hefur verið ráðstafað og munum við eiga kost á að ræða það mál hér í hv. d. innan skamms. Sama er um ýmsa lánasjóði. Þetta er orðið svo stórt og alvarlegt mál að það er komið á það stig að um þessi mál þyrfti að gefa út hvíta bók, hreinlega sagt, þar sem allt væri prentað og talið fram í stórri skýrslu hvernig þessum fjármunum heldur verið ráðstafað. Þegar við erum að taka hverja gengisfellinguna á fætur annarri og ráðstafa milljarðatölum í þágu tiltölulega fárra aðila til lands og sjávar, þá á þjóðin heimtingu á því að fá um það glögg skil. Og það er engum manni greiði gerður með því að viðurkenna alltaf mistök hjá honum og reyna að bjarga honum á sökkvandi skipi. Ef hann er ekki fær um að stjórna sínu fyrirtæki eða standa sig, þá verður að útvega nýtt föruneyti á þann farkost. Það vantar slíka stefnumótun í þessi frv. og þá hörku hér á hv. Alþ. Sjálfsagt verður þess langt að bíða. Þrátt fyrir góðan og mikinn meirihluta hér mótast margt af öðrum sjónarmiðum, því miður. Það fann maður í dag og það á maður að finna sennilega — ég harma það, — um nokkurt skeið enn þá.