25.04.1975
Efri deild: 73. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3294 í B-deild Alþingistíðinda. (2411)

204. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson) :

Herra forseti. Ég gerði ekki grein fyrir brtt. sem fjh.- og viðskn. hefur orðið sammála um að flytja og nú hefur verið dreift hér í d. Fyrri brtt. er þess efnis að á eftir 20. gr. komi ný gr., sem verði 21. gr. og hljóði svo:

„Fjmrn. er heimilt að fella niður tolla af þeim lyfjum, er falla undir tollskrárnúmer 30 01 00 og 30 02 00, og af þeim sérlyfjum, sem skráð eru á sérlyfjaskrá, og þeim óskráðum sérlyfjum, sem til landsins eru flutt, með heimild heilbrigðisyfirvalda samkv. 3. mgr. 54. gr. l. nr. 30/1963, er falla undir tollskrárnr. 30 03 09.“

Hér er um það að ræða að fella niður tolla á lyfjum sem eru fyrst og fremst endurgreidd af sjúkrasamlögum og sjúkrahúsum og þykir rétt til einföldunar að fella niður tolla á þessum vörum. Hér mun verða eitthvert tekjutap fyrir ríkissjóð, sem ekki er alveg ljóst hvað verða muni, en væntanlega mun þessi breyting koma fram í lækkuðu verði á lyfjum,

Einnig er hér brtt. um 34. gr., sem er þess eðlis að eindagi kirkjugarðsgjalds sé hinn sami sem á útsvörum. Er oddvita og innheimtumönnum bæjar- og sveitarfélaga skylt að innheimta þau gegn 6% innheimtulaunum, ef kirkjugarðsstjórn óskar, ella gerir hún það sjálf með sömu þóknun. Er lagt til að þessi gr. hljóði svo:

„Eindagi kirkjugarðsgjalda er hinn sami sem á útsvörum. Stjórnir kirkjugarða geta falið ríkissjóði innheimtu kirkjugarðsgjalda. Í hreppsfélögum geta stjórnir kirkjugarðanna þó falið sveitarsjóðum innheimtuna. Innheimtulaun skulu vera 6% af innheimtu fé. Stjórnum kirkjugarðanna er heimilt að hafa innheimtuna í eigin höndum gegn sömu þóknun “

Það var fyrirhugað að flytja frv. til l. um breytingu á innheimtu ríkissjóðs, en það er ósennilegt að slíkt frv. geti náð fram að ganga á þessu þingi. Þess vegna þykir rétt að stjórnir kirkjugarða geti áfram falið innheimtumönnum ríkissjóðs að innheimta þetta gjald ef þess er óskað.