29.04.1975
Sameinað þing: 71. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3436 í B-deild Alþingistíðinda. (2534)

239. mál, afnotaréttur þéttbýlisbúa af sumarbústaðalöndum

Flm. (Eyjólfur K. Jónsson):

Herra forseti, Till. sú, sem hér er til umr., var flutt á síðasta þingi seint og varð ekki útrædd. Þá voru uppi talsverðar umr. um eignar- og afnotarétt af fasteignum, landi og öðrum landgæðum, eins og líka hafa verið á þessu þingi og raunar nú um nokkurra ára skeið. Till. er nú flutt af þm, úr öllum þingflokkum og hún miðar að því að mati flm. að sætta þessi sjónarmið eða a. m. k. svo, að þeir, sem hafa mjög misjöfn sjónarmið í þessu efni, telja allir að þessi háttur, sem hér er til lagður, mundi þó í öllu falli til bóta verða.

Till. miðar að því að allir þeir, sem í þéttbýli búa, eigi þess kost að hafa til umráða landskika sem er í eigu ríkisins, en þeir hefðu samt af ótakmarkaðan afnotarétt svipað og er með leigulóðir í þéttbýli, en afnotaréttur þeirra samsvarar nokkurn veginn eignarrétti, eins og menn vita, hann er framseljanlegur og menn hafa hann til afnota. Ríkið á nú í kringum 900 jarðir og margar þessara jarða mundu auðvitað henta mjög vel til þess að einstaklingar og fjölskyldur, sem í þéttbýli búa, gætu þar fengið skika til eigin umráða. Það er gert ráð fyrir því að kvaðir yrðu á þessa úthlutun lagðar, t. d. þær að viðkomandi menn yrðu að rækta upp sín eigin lönd eða þá nálæg landssvæði. Það má gjarnan hugsa sér að þar sem fagurt umhverfi væri með nokkrum gróðri, væru menn samt skyldaðir til að taka þátt í ræktun lands sem nálægt lægi, örfoka lands, sanda o. s. frv., ekki endilega eingöngu þess skika sem þeir hefðu til einkaafnota.

Það má líka hugsa sér það að menn yrðu að taka þátt í ræktun veiðivatna eða þá að gera veiðivötn úr vötnum sem ekki er líf í nú, og svo mætti lengi telja. En meginatriðið er að menn hafa haldið því fram með réttu nú á síðari árum, að land, einkum í námunda við mesta þéttbýlið hér suðvestanlands, sem mikil ásókn væri í vegna þess að það hentaði fyrir sumarbústaði, hækkaði mjög í verði og hinir efnaminni hefðu ekki tök á því að eignast slíka skika. Hér er úr þessu bætt og ekki eingöngu á þann veg að efnaminni menn geti fengið til afnota landssvæði alveg eins og þeir sem efnameiri eru, heldur ætti þetta líka að stuðla að því að hækkanir á verði á landi yrðu ekki sambærilegar við það sem mundi verða ef ríkið færi ekki inn á þessa braut. Ég held þess vegna að það sé óhætt að segja að öll þau rök sem fram hafa komið, stundum í hörðum og heitum deilum um þessi mál, ættu að geta hnigið að því að eðlilegt sé að samþykkja þessa þáltill. Ég vona þess vegna, að hún fái greiðan gang í gegnum þingið, og legg til að henni verði vísað til hv. allshn.