02.05.1975
Neðri deild: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3493 í B-deild Alþingistíðinda. (2618)

81. mál, innflutningur og eldi sauðnauta

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég tel ekkert við það að athuga þó að hv. fyrirrennari minn hafi aðra skoðun á máli en ég. Ég tel að okkur sé báðum heimilt að hafa skoðun á þessu máli og þær þurfa ekki að falla saman þó að við styðjum sömu ríkisstj.

Ég vil vekja athygli á því að mér finnst, eins og ég sagði áðan, að ef leyfður er innflutningur á dýrum í þessu sambandi, þá hafi verið of mikið að gert í sambandi við innflutninginn á holdanautasæðinu sem verður að hafa í einangrunarstöð áður en hægt er að koma því á markað. Ég lít líka svo á að það þurfi ekki samþykki Alþ. til þess að flytja inn sauðnaut eftir að þetta frv. yrði að lögum ef ráðh. og yfirdýralæknir samþ. það. (Gripið fram í.) Það þarf nefnilega ekki að flytja dýrin inn á kostnað ríkisins. Það eru til einstaklingar sem vilja flytja dýrin inn. Það veit ég ósköp vel. Þeir hafa sótt á þetta og það þarf ekki að koma með málið inn á hv. Alþ. þegar Alþ. er búið að afgr. málið úr sínum höndum eftir að þetta er orðið að lögum.

Ég vil líka vekja athygli á því, og það vitum við báðir, hv. 1. þm. Sunnl. og ég, að ráðh. eru forgengilegir og þeir geta haft mismunandi skoðanir, eins og hefur t. d. hent okkur. Það er ekki þar með sagt að þó að ég hefði þessa skoðun og mundi ekki leyfa þetta að eftirmaður minn hefði sömu skoðun. Ég vil heldur ekki afgr. lög út á yfirdýralækni því að yfirdýralæknir, eina og aðrir menn, er dauðlegur og gæti þess vegna verið fallinn út úr sínu embætti og það getur verið kominn maður með aðra skoðun í hans starf og ráðh. með aðra skoðun en ég hef og þá er málið þar með komið í gegn. Þess vegna er engin vörn í því í sambandi við þetta frv. þó að sá yfirdýralæknir, sem er núna, hafi þá skoðun sem hann hefur og ráðh., sem er núna, hafi þá skoðun sem hann hefur. Mergur málsins er sá hvort hv. Alþ. vill fara inn á þá leið að flytja hér inn lifandi kvikfénað sem ekki er nú sjáanlegt að við höfum neinna beinna hagsmuna að gæta í, en hafa á sama tíma afgr. mál eins og holdanautamálið með þeim tilkostnaði og þeim vörnum sem þar er í frammi hafðar, þrátt fyrir fyrir það að þar sé um að ræða innflutning á djúpfrystu sæði, en hér á lifandi dýrum sem ég álít að sé meginmunur málsins.

Ég tek svo undir það með hv. 1. þm. Sunnl. að ég vil ekki afgr. mál bara út af því að það hafi einhvern tíma mistekist. Það hef ég ekki gert í sambandi við önnur mál hér, heldur út á afstöðu mína til þessa máls. Það sem ég tel að sé meginatriðið í þessu er að ef við förum inn á þessa braut, þá höfum við farið inn á ranga braut þegar við afgr. á sínum tíma leyfi til innflutnings á holdanautasæði. Hv. 1. þm. Sunnl. var þá ráðh. landbúnaðarmála og hann gætti hinnar fyllstu varfærni og ég álít að það þyrfti alveg eins í þessu tilfelli. En ég lít svo á að það sé ekki gert með þessu frv.

Mér finnst ekki óeðlilegt að ég hafi látið í ljós mína skoðun og bent á það sem ég benti á hér. Ég er ekkert að segja þm. fyrir verkum þó að ég hafi lýst þessu sem ég hef hér gert. Þeir hafa sínar skoðanir á málinu. En það er engin vörn í máli þó að dauðlegir menn eigi að framkvæma það.