27.11.1974
Efri deild: 11. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í B-deild Alþingistíðinda. (310)

60. mál, fullorðinsfræðsla

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Hér er mikil bók á ferðinni, mikið lesmál, kannske ekki beint frv. sjálft, heldur allt það gífurlega lesmál sem þarna fylgir. Þarna er á ferðinni mikill fróðleikur um forvitnilegt efni sem þarf að gefa gaum, verkefni sem þarf vissulega að leysa. Eins og hæstv. ráðh. benti á er hér hins vegar um viðamikið og vandasamt verkefni að ræða. Ég vil taka það fram strax að þetta er það mikið ritverk að ég hef ekki nægilega kynnt mér það enn þá. Sumt af því, sem mér sýnist þarna vera, kemur ekki heldur beinlínis inn í þetta, en er sjálfsagt engu að síður ágætt fyrir okkur þm. að lesa og fræðast þar um ýmsar fræðslustefnur og annað því um líkt sem þarna kemur fram. En ég er þó á engan hátt sannfærður um það að hér sé nákvæmlega fundin hin eina og sanna lausn á fullorðinsfræðslu í landinu. En ég vil taka það fram strax að ég er markmiðinu samþykkur, þ.e. að fullorðinsfræðsla sé annar þáttur okkar menntakerfis, og öll þrjú stigin, sem á er minnst í 1. gr., eiga rétt á sér að mínu viti. Við vitum að þrátt fyrir aukna almenna menntun er almenn menntunarstaða fullorðinna rík nauðsyn, sér í lagi ýmis viðbótarmenntun sem stöðugt breytt viðhorf og ný þekking og tækni gera nauðsynlega. Ég skal því vera fyrsti maður til að mæla með því, að þeirri fræðslu, þeim þætti í menntakerfinu verði fundinn eðlilegur farvegur og sjálfsagt að sýna honum fullan sóma í hvívetna.

Spurningin er um tvennt í mínum huga sem gerir mig varkáran í stórum yfirlýsingum um eindreginn stuðning minn við frv. sjálft nákvæmlega eins og það liggur fyrir. Önnur spurningin er um stöðu menntakerfisins í dag, sér í lagi á framhaldsstigi og í almennri verkmenntun okkar. Hin spurningin er um það hve rétt sú stefna er, sem frv. markar, og hversu það gæti, ef að lögum yrði, ef til vill seinkað öðru jafnmikilvægu, þ.e. t.d. framhaldsskólastiginu og þeim óhjákvæmilegu breytingum sem þar hljóta að vera ofarlega á dagskrá, m.a. í kjölfar nýrrar lagasetningar um grunnskóla. Efasemdir mínar eru kannske ekki mikilvægar, en þær eru af þessu sprottnar, jafnhliða því sem ég styð að framgangi málsins sem slíks án þess að binda mig efni þess í einstökum greinum sem gætu reynst erfiðari í framkvæmd en jafnvel ætlað er.

Hugmyndirnar að þessu fyrirkomulagi eru, eins og hæstv. ráðh. tók fram, sóttar til grannlanda okkar, fyrst og fremst frænda okkar á Norðurlöndum. Vissulega er það góðra gjalda vert og sést á öllu að umrædd n. hefur unnið mikið og gott starf sem eins og ég sagði ég hef ekki komist nákvæmlega yfir að fullkanna enn. Nú vitum við það að öll alhæfing frá kerfi Norðurlandaþjóðanna er hins vegar varhugaverð. Ég er ekki að segja að hún sé hér til staðar, ég er ekki búinn að kynna mér það nægilega vel, en vil ítreka það að íslenskar aðstæður þurfa vitanlega að sitja í fyrirrúmi. Þess ber þá að geta að við erum reynslulítil í þessum efnum, þurfum tíma og tækifæri til að átta okkur á allri málsmeðferð og þeim farvegi sem við teljum farsælastan til raunhæfs árangurs. Ég vil benda á það hve Norðurlöndin eiga miklu traustari grunn á að byggja, ekki bara í þessum efnum, heldur vitanlega miklu betri undirstöðu menntakerfisins í heild og þá ekki síst í sambandi við námsbrautir á hinu verklega sviði og í sambandi við alla tæknimenntun. Hitt er svo auðvitað alveg rétt, að við fáum enga reynslu að gagni án þess að byrja myndarlega, það er satt, en við verðum einnig að gæta þess að reisa okkur ekki hurðarás um öxl með því að fara of geyst af stað eða fara út í of mikið og vera með of mikla margbreytni sem gæti tafið eða jafnvel hindrað allan virkan framgang.

Lagasetning um þessi efni er vandasöm og þarf mikillar athugunar og yfirvegunar við og mörg atriði koma þar inn í. Mið þarf óneitanlega að taka af almennri fræðslulöggjöf okkar og framkvæmd hennar. Þar hafa mörg atriði því miður aðeins verið orð á blaði en litið meira a.m.k. úti á landsbyggðinni. Eins gæti farið hér.

Ég veit að markmið þeirrar n., sem hér að starfaði er að ná sem mestum jöfnuði á þessari fræðslu, að allir sitji við sama borð, og enn frekar veit ég að það er meining hæstv. ráðh. og eindregin ætlan að landsbyggðarfólk hafi sama rétt, sömu möguleika og aðrir. Ég veit líka að á einstaka stað á landsbyggðinni hefur verið farið út í svona fræðslu á myndarlegan hátt og til fyrirmyndar, en heyrir þó til að ég held algjörrar undantekningar. Ég bendi einnig á þá hættu að hið raunverulega erfiðisfólk í landinu verði hér út undan, ekki vegna löggjafar, ekki vegna framkvæmda, heldur aðeins vegna þess hve vinnudagur þess er langur og tómstundir fáar og óreglulegar. Allt þarf þetta athugunar við og við sjáum sjálfsagt seint þá löggjöf sem tryggir okkur allt það sem við þó teljum brýnast, þ.e. að fólk almennt í bæ og byggð; erfiðisfólk sem annað, fái notið þeirrar viðbótarþekkingar sem það kýs að afla sér síðar á lífsleiðinni, hvort sem er til almennrar þekkingaröflunar eða til sérstakra tiltekinna réttinda í þjóðfélaginu.

Ég tel því, eins og áður er sagt, grundvallarhugsunina að baki þessu frv. rétta, þó að ég sé enn ekki nægilega kunnugur og þá ekki heldur sannfærður um hver leið sé best og skjótust að markinu og hvort við endilega séum hér í öllu á réttri braut. Bara umfangið sjálft, hversu stórt mér sýnist stökkið í raun og veru vera, það vekur upp vissar efasemdir þó að gott sé að hugsa stórt í hvívetna. Og aldrei verður það nægilega skýrt fram tekið að þessi þáttur menntakerfisins má ekki verða á kostnað annarra, síst af öllu verk- og tæknimenntunar í landinu sem ég verð þó að telja brýnast allra verkefna að finna farveg, sem bestan og öruggastan til raunverulegs árangurs, þ.e. þess að samtenging menntunarbrauta og atvinnulífs verði sem ótvíræðust og gleggst til hagsbóta fyrir atvinnulíf þjóðarinnar, þjóðarheildina, og til hagsbóta fyrir menntakerfið sjálft ekki hvað síst.

Mig langar aðeins, áður en ég fer úr þessum ræðustól að kynna nokkrar aths.; við frv. þetta er fram eru komnar frá þeim skólamanni á Austurlandi sem ótvírætt er þar í alfremstu röð og það reyndar yfir landið allt. Sem formaður skólanefndar í Neskaupsstað fékk Hjörleifur Guttormsson líffræðingur tækifæri til að yfirfara þetta frv. ítarlega. Skólanefndin hefur nú sent þessa álitsgerð til okkar þm. Austurlands, auk þess hefur hún verið kynnt í stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga og fengið þar vissar jákvæðar undirtektir. Ég vil — með leyfi hæstv. forseta mega lesa hér aðalniðurstöðurnar frá skólanefnd Neskaupsstaðar sem ég kem hér með á framfæri við hv. menntmn., en það er nú reyndar óþarft, því að hæstv. ráðh. tók fram áðan að þessar umsagnir yrðu allar sendar þessari þn. En ég tek það fram sjálfur að ég hef ekki frekar en til frv. sjálfs í einstökum atriðum tekið endanlega né afgerandi afstöðu til þessa álits. En í meðfylgjandi áliti skólanefndarinnar koma fram eftirtalin meginatriði:

1. Þótt æskilegt sé að Alþ. móti á næstunni stefnu um fullorðinsfræðslu og hlúi að henni á ýmsan hátt er ekki rétt að leggja umrætt frv. til grundvallar slíkri löggjöf nema þá eftir rækilega endurskoðun.

2. Nauðsynlegt er að setja samræmda löggjöf um framhaldsskólastigið að meðtalinni verk- og tæknimenntun áður en sett verða yfirgripsmikil lög um fræðslu fullorðinna.

3. Æskilegt er að reynsla fáist af starfi fræðsluráða í landshlutum; fræðsluumdæmum, að því er tekur til grunnskóla, áður en þeim verða falin ný og umfangsmikil verkefni varðandi önnur skólastig eða fullorðinsfræðslu.

4. Stuðningur ríkisins við fullorðinsfræðslu verði fyrst um sinn í margs konar óbeinu formi, en ekki þau 75% af sannanlegum kostnaði sem frv. gerir ráð fyrir.

Síðan vísa þeir nánar í ábendingar skólanefndarinnar sem fram kom í ítarlegu plaggi.

5. Menntmrn. verði heimilað að starfrækja fullorðinnadeildir við skóla framhaldsstigsins fyrir fólk 21 árs og eldra, enda veiti þær fræðslu hlíðstæða frummenntun og kostnaður verður þá greiddur af ríkinu á sama hátt og í frummenntun.

6. Hvatt verði til að sveitarfélög komi sem víðast á námsflokkum með fjölbreyttu sniði undir stjórn skólanefnda og fulltrúa áhugaaðila með fjárhagsstuðningi sveitarsjóða og annarra heimaaðila, en óbeinum stuðningi ríkisins.

7. Atvinnurekendur standi straum af kostnaði við starfsþjálfun fullorðinna sem er í beinum tengslum við atvinnurekstur og vinnustaði.

Við þetta vildi ég því einu bæta að ég bendi á og tek að nokkru undir þrjú atriði. Ég tel nauðsyn nýrrar löggjafar um framhaldsskólastigið hafna yfir allan efa, jafnhliða þessu eða á undan, skiptir ekki máli, en á engan hátt má ýta því verkefni til hliðar, allra síst með tilliti til námsbrauta tengdra atvinnulífinu. Ég fagna því yfirlýsingum hæstv. ráðh. áðan um þetta efni, að þarna sé verið vel að að vinna og muni verða tekið samhliða á því máli. Allar áhyggjur skólanefndar Neskaupsstaðar og okkar annarra, sem þarna höfum af nokkrar áhyggjur, að við verði látið sitja grunnskólastigið, eru þá væntanlega ástæðulausar.

Í öðru lagi hygg ég að fræðsluráðin úti á landsbyggðinni þurfi að fá að spreyta sig á sínu mikla og fjölbreytta verkefni á sviði grunnskólalöggjafarinnar þar sem allt er í raun enn þá ómótað og ógert, áður en viðbótarverkefni eru lögð á þeirra herðar. Ég tek hins vegar fram að tengsl á milli eru sjálfsögð í framtíðinni. En þá sýnist mér að fræðsluskrifstofurnar þurfi eðlilega á viðbótarstarfskrafti að halda ef sinna á þessu verkefni af einhverju viti. Þetta er það viðamikið. Og í þriðja lagi hef ég nokkurn fyrirvara um þann skilyrðislausa hluta ríkisins; 75% af sannanlegum kostnaði, sem frv. gerir ráð fyrir. Ekki það að ég taki ekki undir ákveðna hlutdeild ríkis og það ekki aðeins óbeina, eins og vikið er að í álitinu, sem ég las áðan, aðeins það að til menntakerfisins í heild skortir fé. Það vitum við og við vitum að það skortir alveg sérstaklega til að koma á nauðsynlegri nýskipan framhaldsnáms. Eins og hæstv. ráðh. tók fram veit auðvitað enginn í raun hve hér er verið í einu að leggja miklar byrðar á ríkissjóð, en vel gæti svo farið að hér yrði um ærnar fúlgur að ræða. Menn mundu sem sagt taka vel við sér og ekki skal ég hafa á móti því. Ég sé svo sannarlega ekki eftir þessum viðbótarfúlgum. En þær fjárhæðir mega þá ekki koma niður á öðrum þáttum eigi síður nauðsynlegum. Þegar um svona ákveðna og þetta háa prósentu er að ræða, án þess að við vitum í raun og veru nógu vel um þá upphæð sem þarna væri möguleg, þá er þetta e.t.v. fulldjarft í byrjun.

Að öðru leyti endurtek ég stuðning minn við meginhugsunina bak við frv., viðurkenni nauðsyn þessa þáttar fúslega, en vil hafa nokkurn fyrirvara á og rétt til brtt. við frv. ef mér litist það vænlega fyrir virkan framgang fullorðinsfræðslu í landinu.