22.10.1975
Neðri deild: 9. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í B-deild Alþingistíðinda. (109)

Umræður utan dagskrár

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Ég skal reyna að verða við þeim tilmælum að stytta mál mitt. — Ég hef, eins og þeir ræðumenn sem talað hafa á undan mér, kvatt mér hljóðs utan dagskrár vegna þess neyðarástands sem, nú ríkir í lánamálum námsmanna. Það fer ekki hjá því að í máli okkar muni koma fram sömu upplýsingarnar, um margt, en ég hygg að þeir hæstv. ráðh., sem hér eru inni, og hv. þm. hafi ekki nema gott af því að heyra þann boðskap, sem við höfum að flytja, oftar en einu sinni.

Framkoma stjórnvalda gagnvart námsmönnum, sú kjaraskerðing sem námsmenn standa nú frammí fyrir, hefur vakið almenna reiði í landinu. Stuðningsyfirlýsingar frá mörgum launþegasamtökum — ég nefni Alþýðusamband Íslands, Verkamannafélagið Dagsbrún, BSRB, Alþýðusamband Vestfjarða — o. fl., o. fl. sem við heyrðum lesnar á útifundi áðan, sýna að hér er ekki um einstæðan eða afmarkaðan atburð að ræða, heldur enn einn þáttinn í þeirri félagslegu og efnahagslegu stefnu sem stjórnin vinnur markvisst að, sem sé þeirri stefnu að byrðarnar skuli lagðar á þá sem síst mega við því: almenna launþega, lífeyrisþega, námsmenn. Ríkisstj. á sér orðið fáa liðsmenn í landinu.

Eins og komið hefur fram hér í máli manna, telur stjórn Lánasjóðs námsmanna að sjóðurinn þurfi rúmlega 1700 millj. kr. á fjárl. 1976 til þess að halda sömu kjörum og í fyrra. Mun sú upphæð rétt tæplega 3% af heildarútgjöldum fjárlagafrv. Þessa upphæð hafa stjórnarsinnar nú skorið niður um helming, niður í 807 millj. 500 þús. kr. Þetta er svo gífurlegur niðurskurður að varla er ofmælt þótt sagt sé, að í raun sé verið að ógilda lögin. Það hefur ekki fyrr gerst, eins og raunar kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns, að framlög til sjóðsins hafi verið skorin niður. Að vísu hefur námsmönnum stundum þótt miða seint að hinu endanlega takmarki, sem sé því, að sjóðurinn geti fullnægt 100% umframfjárþörf og að allir námsmenn njóti sömu lánakjara. En hingað til hefur þó tekist að halda í horfinu og oftast meira en það.

Auk 800 millj. kr. fjárveitingar til sjóðsins í fjárlagafrv. er einnig gert ráð fyrir lántökuheimild að upphæð 100 millj. kr. Það má að vísu deila um hvort sú fjáröflun er heppileg. Hitt er annað mál, að hún hefur verið reynd. Þessi lántökuheimild var líka sett í fjárlög í fyrra til notkunar á þessu ári, en svo treglega hefur gengið að útvega það lán í haust að varla er þess að vænta að menn setji traust sitt á sams konar lántökuheimild að ári að óbreyttu ástandi.

Þessi lántökuheimild í ár, 100 millj. kr., var ætluð til haustlána. Strax í vor tilkynnti sjóðsstjórnin að úthlutun haustlána færi fram á tímabilunum 15.–30. sept. og 15.–30. nóv. Í maí á þessu ári taldi sjóðsstjórnin að þörfin til haustlána, ætti sjóðurinn að standa við skuldbindingar sínar, væri 235 millj. kr. Þetta tilkynnti hún réttum yfirvöldum. Hún fékk ekkert svar. Þegar komið var fram á haust var ljóst að þörfin var ekki 25 millj. kr., heldur 290 millj. kr. Það segir sína sögu að ástæðan fyrir því að þörfin varð meiri en áætlað var mun vera minni tekjur námsmanna yfir sumarið en á undangengnum árum. Minnkandi atvinna var farin að segja til sín.

Hið alvarlega og ámælisverða í þessu máli öllu, þessari þróun sem ég hef nú rakið, er að í allt sumar hefur hæstv. menntmrh., hæstv. fjmrh. og ríkisstj. raunar öll vitað að stefndi að skipbroti. En hún hreyfði hvorki hönd né fót, virtist ekkert hafa gert til að leysa úr þeim vanda sem hún vissi að steðjaði að öllum þorra námsmanna, bæði hér heima og erlendis.

Við fréttum af hæstv. fjmrh. á baðströnd á Flórída og hæstv. menntmrh. á reisu um Kanada meðan íslenskir námsmenn voru að tygja sig til brottfarar og leggja frá landi til náms í öðrum löndum í þeirri góðu trú að þeir fengju haustlán á réttum tíma óskert. Ég veit að ég þarf ekki að tíunda fyrir þingheimi þær afleiðingar sem þessi vítaverða framkoma stjórnvalda hefur haft, sérstaklega fyrir námsmenn erlendis. Þeir verða yfirleitt að hefja nám fyrr en námsmenn hér heima, tími þeirra til sumarvinnu er skemmri, og þegar búið er að greiða húsaleigu, skólagjöld, námsbækur og önnur óhjákvæmileg gjöld er sumarhýran langt til farin og treyst á námslánin fyrir nauðsynlegu viðurværi. En í þetta sinn komu engin námslán. Neyðarópin fóru að berast heim. Um slíkt veit ég persónulega dæmi.

13. okt sögðu fulltrúar stúdenta í sjóðstjórn sig úr stjórninni. Þá hafði borist sú frétt frá hæstv. menntmrh. að peningar væru ekki til. Loks tókst þó hæstv. menntmrh. að fá flokksbróður sinn, hæstv. bankamálaráðh., til að opna hið lokaða bankakerfi og fá lánið til sjóðsins, 100 millj., að fullu. 160 millj. voru þá komnar til úthlutunar, en 130 millj. vantar til þess að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar um haustlánin nú. Það vantar því 45% upp á að heildarþörfinni til haustlána sé fullnægt.

Ég hef sérstaklega gert hér að umtalsefni framkvæmd á fjárútvegun til sjóðsins í haust, þar eð ég tel að freklega hafi verið níðst á námsmönnum, menn hafi þegar hafið nám, miðað áætlanir sínar við námslánin, en standa nú frammi fyrir því, fjöldi þeirra, að þurfa að hætta við nám strax í haust sakir efnaleysis.

Gegnum aldirnar hefur skólanám verið forréttindi hinna fáu hér á Íslandi. Hugur fleiri hefur staðið til mennta. En það var draumur sem alþýða þessa lands gat ekki gert sér vonir um að mundi nokkurn tíma rætast. Á síðustu áratugum hefur orðið sú breyting á smám saman að æ fleiri úr röðum alþýðu hafa getað stundað nám. Lengi var þetta þó miklum erfiðleikum bundið. Þessir námsmenn urðu að leggja hart að sér yfir sumarið, vinna lengur en aðrir, stunda námið með hléum til þess að geta unnið fyrir sér eða unnið með náminu öll sín námsár. Þannig stóðu málin, þegar lög um námslánasjóð voru sett. Börn efnaðra foreldra höfðu allt aðra reynslu. Og það var til að jafna þennan mismun, leiðrétta þetta ranglæti, sem við lögðum áherslu á námslán á sínum tíma. Skerðing námslána hefur e. t. v. ekki áhrif á námsmenn frá efnuðum heimilum, en hún verður óhjákvæmilega til þess að allur þorri námsmanna frá efnaminni heimilum, allur þorri fjölskyldufólks í röðum námsmanna verður að hætta námi.

Sú staðreynd að víðtæk samstaða hefur tekist meðal námsmanna að þessu sinni um kröfur þeirra og um mótmæli gegn kjaraskerðingu ríkisstj., sem bitnar fyrst og fremst á lágtekjur fólki, sýnir að meginkrafa þeirra, meginkrafa allra námsmanna í landinu er efnahagslegt lýðræði, efnahagslegt jafnrétti. Þeir krefjast ekki munaðar. Þeir krefjast réttlætis. Þetta ætti að vera alvarlegt íhugunarefni fyrir þá ríkisstj. sem sér ekki aðra úrbót við efnahagsvandanum en auka efnahagslegt misrétti í landinu.

Ég tek undir orð fyrri ræðumanna um það, að ég skora á hæstv. ríkisstj. og hæstv. menntmrh. að lýsa því yfir nú þegar við þessar umr. að úr þessu verði bætt strax.