22.10.1975
Neðri deild: 9. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í B-deild Alþingistíðinda. (111)

Umræður utan dagskrár

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég skal verða við þeirri beiðni að verða mjög stuttorður. Ég vil aðeins í upphafi minna á að upphlaup eins og það, sem átt hefur sér stað í dag, hafa orðið áður. Á fyrsta haustinu eftir að vinstri stjórnin tók við völdum, árið 1971, þá gerðist það, að þegar fjárlagafrv. var lagt fram, þá var ekki í þeirri fjárlagagerð, í því frv. farið eftir þeirri áætlun sem Lánasjóður ísl. námsmanna hafði lagt fram árið 1967 og þáv. stjórnvöld höfðu samþykkt að fylgja. Þetta vakti það mikla athygli á haustinu 1971 að ég leyfði mér að kveðja mér hljóðs hér utan dagskrár og spyrjast fyrir um þetta, hvernig á því stæði að till. var ekki hærri en rann bar vitni um. Þetta vakti nokkra athygli meðal námsmanna þá eins og nú. Ég vil taka fram strax, svo að það fari ekki á milli mála, að ég er enn sömu skoðunar og ég var þá, að ég tel að námsaðstoð eigi ekki að skerða meira en nemur almennri kjaraskerðingu í landinu hverju sinni, ef um skerðingu er að ræða, og meginatriðið í þessu máli fyrr og nú er að námsaðstoð sé fullkomlega í samræmi við óskir námsmannanna sjálfra.

Ég hef ekki litið á till. í fjárlagafrv. núna sem endanlega upphæð, heldur hef ég skilið hana svo, eins og áður hefur komið fyrir, að vegna þeirrar biðstöðu, sem í málinu er, og vegna þeirrar endurskoðunar, sem nú stendur yfir á lögunum um námslán, þá hafi þessi tala verið sett inn, menn hafi viljað bíða eftir þeim niðurstöðum sem endurskoðunarnefndin lætur frá sér fara, væntanlega innan skamms, eins og hæstv. menntmrh. gat um. En ég get ekki ímyndað mér að nokkrum manni hafi dottið í hug að þær niðurstöður geti leitt til skerðingar á námsaðstoð. Og ég vil leyfa mér hér og nú við þessa umr., þar sem ég á sæti í þessari endurskoðunarnefnd, að taka mjög skýrt fram að umr. í þessari n. gefa enga ástæðu til þess að halda að námsaðstoð verði skert. Þvert á móti má ætla að námsaðstoð verði aukin, a. m. k. eftir till. nefndarinnar.

Sú tala, sem í fjárlagafrv. er núna, segir auðvitað ekki alla söguna. Í fjárlagafrv. hverju sinni er sett fram sú upphæð sem á úr ríkissjóði að koma, en inn í þetta dæmi koma líka þær tekjur sem Lánasjóðurinn er talinn munu hafa á n. k. ári, og þær tekjur eru einkum af vöxtum og afborgunum. Ég hygg því, án þess að ég viti það, að þeir, sem hafa gengið frá þessu frv., hafi vonað og hafi viljað að endurgreiðslur yrðu drýgri fyrir sjóðinn en verið hefur hingað til og tillögugerðin hafi stafað af þessari óskhyggju. En þær vonir, ef þær hafa verið fyrir hendi, eru því miður óraunhæfar fyrir næsta ár a. m. k., hvað sem framtíðinni líður, því að endurgreiðslukerfið getur að sjálfsögðu ekki komið til framkvæmda strax á næsta ári, þannig að tekjur sjóðsins aukist að miklum mun. Þessi óskhyggja er hins vegar mjög skiljanleg, og ég veit að allir skilja það og námsmenn skilja líka að það verður ekki lengur unað við óbreytt lög og við óbreytt endurgreiðslukerfi.

Hæstv. menntmrh. rakti hér nokkrar tölur í því sambandi. Ég vil endurtaka það að á fjárlagaárinu, sem nú er að líða, var ráðstafað 780 millj. til Lánasjóðsins og á móti komu 15.5 millj. vegna endurgreiðslna og afborgana. Miðað við þær áætlanir, sem lánasjóðsstjórnin hefur lagt fram núna, er reiknað með því að Lánasjóðurinn þurfi 1700–2600 millj. á næsta ári, og í þeirri sömu áætlun er reiknað með að tekjur sjóðsins séu 18 millj. á móti þessum gríðarlega háu upphæðum.

Ég vil líka vekja athygli á því að eins og fyrirkomulagið er núna samkv. lögum fá námsmenn lán árlega án vaxta meðan þeir eru við nám. Að loknu námi líða síðan 5 ár án þess að þeir þurfi að borga afborganir af sínum námslánum. Þá standa lánin að vísu á lágum vöxtum, en síðan, að þessum 5 árum liðnum, greiða námsmenn lán sín með annúitetsgreiðslum á 15 árum og 5% vöxtum. Er ljóst öllum skynsömum mönnum að hér er ekki um raunveruleg lán að ræða, hér er um styrki að ræða og rétt að menn viðurkenni það. Ég held að allir sanngjarnir menn viðurkenni að þetta getur ekki gengið lengur. Þegar menn hafa þessi kjör námsmanna í huga, þá finnst sjálfsagt mörgum að það sé óskammfeilni hjá námsmönnum að efna til mikilla mótmæla og krefjast þess að áfram haldi þau kjör sem þeir hafa haft og greiðslur í þeirra sjóð, Lánasjóðinn, séu stórkostlega auknar. Ég vona því að kröfugerð þeirra spilli ekki fyrir eðlilegri endurskoðun og sanngjarnri niðurstöðu í þessari endurskoðun sem nú fer fram.

Það er mitt mat, eins og ég sagði áðan, að það komi ekki til greina að skerða námsaðstoð. Það þarf þvert á móti að hækka námsaðstoðina, þannig að hún nái smám saman því marki að fullnægja 100% umframfjárþörf. Hún á líka, námsaðstoðin, að veitast fleiri nemendum, úr öðrum skólum en nú er. Það þarf að veita miklu fleiri nemendum á framhaldsskólastigi aðgang að þessu kerfi. Þetta er nú verið að kanna með fullum velvilja, og ég vona að yfirlýsingar stundum vanhugsaðar yfirlýsingar eða fordómar á hinn bóginn — valdi því ekki að við getum náð fram eðlilegum og sanngjörnum lausnum á þessu máli.

En á sama tíma sem við verðum að stefna að því að auka námsaðstoðina með þessum hætti sem ég gat um, þá verðum við líka að breyta endurgreiðslukerfinu. Við verðum að breyta því á þann hátt að menn greiði lánin aftur sem þeir fá með eðlilegum kjörum, að lánin verði verðtryggð og greitt sé með hliðsjón af því hvaða laun menn hafa þegar þeir koma út í lífið. Mér finnst því í þessum umr. ekki vera rétt að hér sé staðið upp og einfaldlega lýst yfir vanþóknun sinni á því að fjárl. séu ekki nægilega há eða fjárlagafrv. sé ekki nægilega hátt. Ég trúi því að því verði breytt, eins og áður hefur tíðkast. Ég held að menn verði líka að vekja máls á þessum grundvallarvandamálum Lánasjóðsins og viðurkenna þá nauðsyn að það þarf að breyta endurgreiðslukerfinu. Það er alls ekki hægt fyrir þingið, fyrir fjárveitingavaldið að hækka fjárveitingar til Lánasjóðsins nema um leið og það breytir endurgreiðslukerfinu. Fjárveitingavaldið eða þingið hefur ekki bolmagn til þess og ég fullyrði að þjóðin muni ekki sætta sig við það. Því heiti ég á námsmenn og þá þm., sem hafa skilning á málefnum námsmanna, að taka höndum saman um að leysa þetta þannig að allir geti vel við unað.