27.01.1976
Sameinað þing: 40. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1620 í B-deild Alþingistíðinda. (1331)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umr., sem hafa verið málefnalegar og prúðmannlegar, og ég ætla þaðan af síður að fara að breyta þeim anda, sem þessar umr. hafa farið fram í. Þetta er vissulega alvörumál, ég skal alveg fallast á það. Ég hef verið í tveimur ríkisstj., og báðar þær ríkisstj., sem ég hef átt sæti í, hafa áreiðanlega trúað því og talið sig hafa fyrir því óyggjandi vissu að kjarnorkuvopn væru ekki á Keflavíkurflugvelli.

Það er eflaust rétt, sem hv. 3. þm. Reykn. sagði, að einhverjar og kannske þó nokkrar mikilsverðar upplýsingar muni vera hægt að fá frá öðrum þjóðum, við skulum þá t. d. segja frændþjóðum okkar á Norðurlöndum. Ég ætla ekki að neita því að óreyndu a. m. k. En ég minnist þess, þegar vinstri stjórnin, sem svo var kölluð, ætlaði sér að losa okkur við herinn, þá leituðum við til þessara frænda okkar um upplýsingar og hjálp til þess að rökstyðja það mál okkar að hér þyrfti ekki að vera her á þessum tíma. Við fengum ekki þessa hjálp. Okkur var neitað um hana. Þessar þjóðir vildu ekki skipta sér af því, hvort bandaríkjamenn hefðu hér herstöð eða ekki. Þeir sögðu: þetta er mál sem íslendingar, bandaríkjamenn og Atlantshafshendalagið verða að gera upp við sig. Við komum ekki nálægt því. — Það getur vel verið að þrátt fyrir þetta séu einhverjar stofnanir á Norðurlöndum sem séu fúsar til að upplýsa okkur um það hvort bandaríkjamenn geymi kjarnorkuvopn á Íslandi eða ekki. Það getur vel verið. Og mér er sönn ánægja að gera það fyrir vin minn, hv. 3. þm. Reykn., að senda skeyti til þessara stofnana og spyrja þegar á morgun hvort þær séu tilbúnar til að veita okkur þessar upplýsingar eða hvort þær geti það og hvort þær vilji það. Það er sjálfsagt að gera það og gera grein fyrir þeim svörum sem við fáum við þessum tilmælum.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég vil aðeins benda á að þessi leið hefur áður verið reynd, að leita ásjár hjá frændum okkar á Norðurlöndum. Þá var okkur synjað. Kannske hefur þeim snúist hugur. Kannske vilja þeir núna upplýsa okkur um það, sem okkur langar til að vita frá þeim ýmsa hér. — Ég vil svo enda ræðu mína eins og hinir tveir hv. þm. sem hér hafa talað, að ég óska þess eins og þeir að herinn geti horfið héðan sem fyrst.