03.02.1976
Sameinað þing: 44. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1678 í B-deild Alþingistíðinda. (1407)

86. mál, innanlandsflugvöllur á Reykjavíkursvæðinu

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Í fjarveru fyrri flm. þessarar þáltill. á þskj. 96, um innanlandsflugvöll á Reykjavíkursvæðinu, leyfi ég mér að mæla fyrir till. Ég get raunar haft um hana stutt mál, því að fyrri flm. flutti mjög ítarlega ræðu fyrir þessu máli á síðasta þingi og er sú ræða að sjálfsögðu prentuð í þingtíðindum. Einnig fylgir till. ítarleg grg. þar sem mjög vandlega er gerð grein fyrir þessu máli og ástæðum fyrir því að það er flutt.

Í fáum orðum má segja að meginástæðan er sú, að lengi hefur mönnum verið ljóst að Reykjavíkurflugvöllur, þar sem hann er nú, þjónar til frambúðar ákaflega illa að ýmsu leyti innanlandsflugi hér á landi og alls ekki utanlandsflugi. Því hafa menn lengi hugað að öðru flugvallarstæði. Athuguð var staðsetning á Álftanesi og einnig í hrauninu sunnan Hafnarfjarðar, en hvort tveggja hefur verið talið ófært. Þá er einnig ljóst að landssvæði það, sem Reykjavíkurflugvöllur nú er á, er ákaflega verðmikið fyrir Reykjavíkurborg og væri einnig af þeirri ástæðu æskilegt ef unnt væri að finna annað flugvallarstæði í nágrenni borgarinnar sem hefði einnig möguleika til stækkunar og gæti þá tekið við stærri vélum, sem eflaust eiga eftir að flytjast hingað jafnvel til innanlandsflugs á næstu árum, og jafnvel orðið að einhverju leyti flugvöllur fyrir millilandaflug.

Í þessari till. er vakin athygli á þeim möguleika að gera flugvöll við Löngusker í Skerjafirði með uppfyllingu þar. Í umr. um þetta mál hefur ýmsum þótt þarna seilst nokkuð langt og talið slíkt ærið kostnaðarsamt fyrirtæki, og hefur mér heyrst að margir vilji útiloka þennan möguleika strax og án frekari umr. Mér þykir það ekki eðlilegur háttur þegar um svo mikilvægt mál er að ræða. Sjálfsagt er að skoða það, enda er eingöngu farið fram á slíkt í þessari till.ríkisstj. skipi n. sérfróðra manna til að kanna þessa hugmynd, og ætti þá að taka afstöðu til málsins að sjálfsögðu þegar niðurstöður slíkrar n. liggja fyrir. Mér virðist ekki vera farið fram á mikið þegar um svo stórt mál er að ræða og mikilvægt mál fyrir þennan ákaflega veigamikla þátt í okkar samgöngum.

Ég vil einnig vekja athygli á því, að frá því að þessi till. var lögð fram á síðasta þingi, þar sem hún var ekki útrædd, hefur málið verið til umr. hjá Þróunarstofnun Reykjavíkurborgar. Sú stofnun skrifaði 19. jan. s. l. skipulagsnefnd Reykjavíkur bréf sem ég vil — með leyfi hæstv. forsela — lesa upp úr, en þar segir:

„Við umræður í skipulagsnefnd undanfarið um flugvöll í Reykjavík hefur komið fram sú skoðun að rétt sé að kanna frekar en gert hefur verið hugsanleg flugvallarstæði í nágrenni Reykjavíkur, kæmi upp sú staða að loknu næsta skipulagstímabili að flugvöllurinn yrði að víkja af núverandi stað. Staðsetning flugvallar á Lönguskerjum er einn af þeim möguleikum sem bent hefur verið á í þessu sambandi, og teljum við ástæðu til að mæla með því að gerð verði athugun á því, hvort hér gæti verið um raunhæfan möguleika að ræða, svo og athugun á öðrum þeim möguleikum sem fram kæmu og fýsilegir þættu í næsta nágrenni Reykjavíkur.“

Undir þetta skrifar fyrir hönd Þróunarstofnunar Reykjavíkurborgar Hilmar Ólafsson.

Hér er m. ö. o. tekið fyllilega undir það, að þessi hugmynd sé skoðuð, og sýnist mér það mjög mikilvægt framlag í þessu máli.

Ég vil geta þess að lokum, að mjög hefur verið kannað á hvern máta mætti gera þær breytingar á Reykjavíkurflugvelli að bann gæti fullnægt um nokkuð langa framtíð þörfum flugsins innanlands. En þær hugmyndir, sem fram hafa komið um breytingar, hafa ekki hlotið náð hjá skipulagsyfirvöldum, enda á þeim ýmsir annmarkar, og verður niðurstaðan sú, að flugvöllurinn verður a. m. k. fyrst um sinn óbreyttur frá því, sem nú er, að mestu leyti. Þarna er því enn óleyst ákaflega mikið og stórt vandamál sem þarf að skoða. Ég endurtek að með þessari till. er aðeins reynt að benda á eina hugsanlega lausn. Enginn dómur er kveðinn upp í þessari till. um þessa lausn. Hins vegar er lögð fram ítarleg grg. Málið er vandlega undirbúið og þar er bent á ungan mann sem hefur kynnt sér þessi mál sérstaklega á síðustu árum og mun áreiðanlega fús til þess að leggja fram þær upplýsingar sem hann hefur þegar aflað.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa um þetta lengra mál, því að eins og ég sagði, málið liggur mjög ítarlega fyrir, einnig í þeirri þingræðu sem um það var flutt á síðasta þingi, og legg til að málinu verði vísað til hv. allshn.