11.02.1976
Neðri deild: 54. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1853 í B-deild Alþingistíðinda. (1525)

147. mál, Stofnfjársjóður fiskiskipa

Frsm. meiri hl. (Sverrir Hermannsson) :

Virðulegi forseti. Mál þetta, sem nú er til umr., frv. til l. um Stofnfjársjóð fiskiskipa, er af sömu rótum runnið og það mál sem hér hefur verið til umr. Það á sér sama aðdraganda. Þeim aðdraganda lýsti hv. þm. Jón Skaftason í framsögu sinni fyrir frv. til l. um útflutningsgjald af sjávarafurðum og vísa ég til þess.

Á undanförnum mánuðum hafa umr. verið miklar manna í milli um hið svonefnda sjóðakerfi sjávarútvegsins, og ótrúlega margir hafa verið haldnir þeim misskilningi að af því að nokkrir þeirra sjóða, sér í lagi tveir þeirra, hafa reynst illa, þá hafa þeir tekið hluta fyrir heild og viljað þar með dæma allt annað sjóðakerfi sjávarútvegsins, enda þótt með sönnu megi færa rök að því að ýmsir sjóðir í því kerfi hafa verið hin mesta lyftistöng og lífakker sjávarútvegsins á undanförnum áratugum. Þennan misskilning þyrfti að leiðrétta. Þarna á ég bæði við Aflatryggingasjóð og þarna á ég við Stofnfjársjóð, enda þótt margur sé sá sem er í mikilli andstöðu við eðli hans. En ég tel eðlilegt á miklum byltingartímum í sjávarútvegi, þar sem ný tækni til veiða er tekin í notkun og stóraukið öryggi á sér stað, aukinn öryggisbúnaður á skipum og allar aðstæður við sjósóknina, þá sé eðlilegt vegna þess stóraukna kostnaðar, sem það hefur í för með sér, að tekið sé af óskiptu nokkurt fé til þess að standa undir þeirri nýsköpun.

Ég er fylgjandi endurskoðun á sjóðakerfinu og er samþykkur þeim frv. sem hér liggja frammi og marka þá stefnu og samin eru af hinni svokölluðu sjóðanefnd sem sett var á fót af hæstv. sjútvrh. á s. l. vori. Skrefið er stigið til fulls varðandi hinn mikla Olíusjóð, en að verulegu marki varðandi Tryggingasjóðinn, enda þótt ég hefði eins og hv. þm. Guðlaugur Gíslason verið reiðubúinn til að samþ. niðurfellingu hans með öllu. Þetta eru skyld mál og þess vegna vík ég aðeins að þeim, enda þótt segja megi að sum þessi orð mín hefðu kannske frekar átt heima undir fyrra dagskrármálinu.

Ég hjó eftir því að hv. þm. Lúðvík Jósepsson, hv. 2. þm. Austurl., bar mjög af sér þau spjótalög að hann hafi með nokkrum hætti tekið þátt í að setja á fót, allra síst að efla hina umdeildu sjóði, eins og hann sagði, — þvert á móti. Sá veldur nú miklu sem upphafinu veldur, og svo mikið er víst að þótt hann hafi kannske ekki kveðið Olíusjóðs-Liljuna, þá átti hann a. m. k. að henni mottóið, sem varð þegar tekið var fjármagn vegna hins mikla ágóða af veiðum loðnu og vinnslu árið 1974. Að sjálfsögðu greiddi ekki vinnslan þetta einvörðungu. Að sjálfsögðu var verð loðnunnar ákveðið með beinu tilliti til þess arna. Að sjálfsögðu borguðu útvegsmenn og sjómenn þetta. Og nokkuð er það, að enda þótt hann í upphafi síns ráðherradóms lýsti því yfir að hann ætlaði að beita sér fyrir því t. d. að leggja niður Tryggingasjóðinn, þá varð minna úr efndum í því efni og ekkert að því ég best veit í hans ráðherratíð. En ég ætla ekki að víkja neitt sérstaklega frekar að því.

Hv. 5. þm. Suðurl., Garðar Sigurðsson, gagnrýndi málsmeðferðina, taldi þetta æðibunugang hinn mesta, þessum mönnum gæfist lítt ráðrúm til þess að skoða hug sinn til málanna eða athuga þau svo sem vert væri.

Satt best að segja eru það fá mál sem hafa átt sér rækilegri undirbúning, og það vill enn fremur svo til. að menn eru að kalla alfarið sammála um innihald þeirra og að sjálfsagt sé að þau nái fram að ganga. Því síður er ástæða til þess að gagnrýna málsmeðferðina, enda — eins og ég segi — varla hægt að benda á önnur mál sem hafa fengið jafnrækilegan undirbúning. N. vann frá því á vordögum 1975 að málinu, fjölmenn n., skipuð fulltrúum allra helstu hagsmunahópanna, og hún gekk mjög rækilega til verks. Fyrir alllöngu var öllum þm. send skýrsla þessarar n. með afar fróðlegum upplýsingum og margvíslegum sem snertu alla þætti málsins. Og ég læt mér ekki detta í hug annað en að jafnáhugamikill maður um sjávarútveg og málefni hans og hv. þm. Garðar Sigurðsson er kunni nokkurn veginn þessar skýrslur utanbókar. Ég læt mér ekki detta annað í hug, svo djúpt kafar hann venjulega í þessi hagsmunamál. Ég segi kannske ekki að hann kunni allar skýrslurnar utanbókar, enda má alltaf fletta slíku upp, en það mætti segja mér að flest af því sem þarna kemur fram, væri honum mjög nærtækt og þess vegna er ástæðulaust að finna að þessari málsmeðferð.

Sameiginlegur fundur sjútvn. hélt langan og fróðlegan fund með öllum nm. þar sem skipst var á skoðunum og málin rædd og skýrð. Þess vegna er það, að þetta mál og þessi mál bæði eru mjög vel undirbúin, enda sem betur fer og mér kom það sannarlega á óvart — ótrúlega einfaldlega sett upp, og það er mikil breyting frá því sem áður var. Hér hefur þetta verið fært í mjög einfaldan búning og auðskilinn, líka lögin sem snerta útflutningsgjaldið.

En það má segja að frv., sem ég hef hér framsögu fyrir, sé í raun og veru einvörðungu breyting á lögum um Stofnfjársjóð fiskiskipa. Eðli þess allt, eins og það liggur hér fyrir, er nálega einvörðungu breyting á tekjum Stofnfjársjóðsins, enda var svo ákveðið í þeim lögum, sem upphaflega voru sett um Stofnfjársjóð fiskiskipa, að tekjur hans skyldu ákveðnar með lögum hverju sinni, Hér er sem sagt lagt til að sú höfuðbreyting verði á, að til Stofnfjársjóðsins renni 10% af aflaverðmæti samkv. ákvörðun Verðlagsráðs, en aftur á móti 16% af sölu á afla erlendis, af brúttóafla. Má heita að þetta sé megininntak þess frv. sem hér liggur fyrir til laga um Stofnfjársjóðinn og sjútvn. d. tók til meðferðar á fundi sínum í morgun. Mælti meiri hl. n. með því að frv. yrði samþ. óbreytt, en hv. þm. Garðar Sigurðsson skilar séráliti.