12.02.1976
Efri deild: 53. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1891 í B-deild Alþingistíðinda. (1569)

147. mál, Stofnfjársjóður fiskiskipa

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Aðeins ábending til hæstv. sjútvrh. 11. gr. er svo hljóðandi:

„Heimilt er stjórn Fiskveiðasjóðs að greiða skipseiganda innstæðu skips hjá Stofnfjársjóði, enda skuldi skipseigandi engar gjaldfallnar greiðslur, sbr. 8. og 9. gr., og eigi er fyrirsjáanlegt að hann hefji framkvæmdir þær, er um ræðir í 10. gr.

Þetta orðalag: „heimilt“ og „eigi“ og þar fram eftir götunum, hefur verið túlkað dálítið þröngt að mati margra manna og þeim hefur sumum gengið illa að fá lausa innstæðu um áramótin í þessari deild. Þó að oft hafi mikill meiri hluti á einum stað verið látinn laus, þá hefur það tekið alllangan tíma og sumum hefur komið þetta mjög illa. Ég ræddi þetta á nefndarfundi og var þá látið í það skína að hugsanlegt væri að kveða eitthvað ákveðnar að í þessu efni. Nú veit ég ekki hvort hæstv. sjútvrh. hefur fengið um þetta umkvartanir eða hefur í hyggju að gefa út reglugerð um þetta. En ég vildi aðeins vekja athygli á því, að þarna er fjármagni og oft dálítið háum upphæðum haldið inni og hefur orsakað það, sérstaklega þegar þröngt er um rekstur, að menn hafa ekki getað gert upp fljótlega eftir áramót. Þá hafa þetta oft verið einu peningarnir sem lausir voru, en þeim hefur verið haldið föstum. Þetta gildir jafnt um skip sem hafa staðið reglulega í skilum og ætti ekki að vera mikil áhætta að láta féð laust því að næsti afborgunardagur er hjá flestum 1. maí eða 1. nóv.

Ég vildi aðeins vekja athygli á því, að mörgum hefur fundist ekki nægilega ákveðið að segja: „heimilt er stjórn Fiskveiðasjóðs“, vegna þess að langflestir aðilar hafa átt við mikla rekstrarfjárörðugleika að etja og það mætti telja nokkuð sanngjarnt mál að strax um áramót eða fyrir miðjan janúar væri innstæða um áramótin gefin laus hjá langflestum. Stjórn Fiskveiðasjóðs ætti að þora að taka þá áhættu að fenginni margra ára reynslu hjá viðkomandi aðila. En sem sagt, menn hafa kvartað undan þessu við mig oft og sjálfur hef ég nokkra reynslu í þessu efni. Það mætti bæta úr hér, og það er ábending til hæstv. ráðh. hvort hann telur fært eða ekki að fá þetta aðeins liðkað.