25.02.1976
Efri deild: 63. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2157 í B-deild Alþingistíðinda. (1748)

118. mál, ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Frsm. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Eins og kunnugt er voru lög um ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða upphaflega sett í þeim tilgangi að jafna þessum mikla aukakostnaði, sem féll á íbúa olíuhitunarsvæðanna, á landsmenn í heild, þar sem talið var að um yrði að ræða óbærilega byrði fyrir þá íbúa sem enn hafa ekki fengið rafhitun eða jarðhita til að hita híbýli sín. Í þessu skyni var söluskattur hækkaður um 1% og komist að samkomulagi við launþegasamtökin um að þessi hækkun hefði ekki áhrif á kaupgreiðsluvísitölu. Nú er verið að framlengja þessi lög í annað sinn og eru áreiðanlega allir sammála um að það sé nauðsynlegt og sjálfsagt.

Þegar lögin voru framlengd fyrir einu ári kom hins vegar fram sú ákveðna tilhneiging hjá hæstv. núv. ríkisstj. að taka hluta af þessu fjármagni til allt annarra þarfa og af þessum sökum hækkaði styrkurinn á s.l. vetri aðeins um 1000 kr., eða úr 7200 í 8200 kr., enda þótt þá hefðu orðið mjög miklar hækkanir á verði olíunnar. Hins vegar var afgangurinn. sem við þetta myndaðist, rúmlega 300 millj. kr. lagður í Orkusjóð og ætlað að verja honum til fjárfestingarframkvæmda og rannsóknastarfa á sviði orkumála.

Í því frv., sem hér hefur verið lagt fram af hæstv. viðskrh., er gert ráð fyrir því að enn verði gengið á lagið hvað þetta snertir. Í frv., eins og hann lagði það fyrir, var ráð fyrir því gert að olíustyrkurinn hækkaði hreint ekki, enda þótt auðvelt sé að sýna fram á að olía til húshitunar hefur hækkað um hvorki meira né minna en 25% á því ári sem liðið er síðan lögin, sem nú eru að falla úr gildi, voru sett og enda þótt sýna, megi að sjálfsögðu fram á það að söluskattsstigið gefur talsvert miklu hærri fjárhæð á komandi ári en það hefur gert á liðnu ári.

Við meðferð málsins í n. hefur meiri hl. fjh: og viðskn. fallist á það að frv. verði breytt, þannig að styrkurinn hækki úr 8200 kr. á einstakling í 9 500 kr. og er það út af fyrir síg góðra gjalda vert. En það er skoðun mín að þessi hækkun sé algjörlega ófullnægjandi og í engu samræmi við hækkun olíuverðs, en hækkun þess er, eins og ég gat um rétt áðan, 25% milli ára, nánar til tekið úr 20.20 kr. fyrir einu ári í 25.30 kr. sem er núverandi verð. Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á því að miðað við þá útreikninga, sem nm. fengu frá Þjóðhagsstofnun, er gert ráð fyrir því að olíukostnaður á hvern íbúa, miðað við þá sem verða að nota olíu til kyndingar húsa, verði 30 056 kr., og jafnvel þó að olíustyrkurinn verði hækkaður í 13 500 kr., eins og ég geri hér till. um, verður kostnaður við olíukyndingu tvöfalt hærri en kostnaðurinn við að kynda hús með jarðvarma, þ.e.a.s. 16 500 kr. þegar olían á í hlut, en 8379 kr. þegar jarðvarminn á í hlut.

Ég skal fúslega viðurkenna það að orkumál þjóðarinnar eru hennar brýnustu mál ef lítið er á innlendar fjárfestingu sem ráðast verður í á næstu árum og þar hljóta hitaveituframkvæmdir og hitaveiturannsóknir að teljast brýnni en flest annað. Það stendur því ekki á því að við alþb.-menn séum hvatamenn að því að varið sé miklu fjármagni til þessara þarfa, bæði til þess að kanna til hlítar á sem allra skemmstum tíma, hvar unnt er að nota jarðvarma til kyndingar húsa, og eins hitt, að koma hugsanlegum hitaveitum í gagnið. En það er ósköp einfalt mál. Það er ekki alveg sama hvaðan peningarnir yrðu teknir, og hér er verið að breyta máli sem upphaflega var mál sem snerti útgjaldajöfnun milli landsmanna. Það er verið að breyta því í fjárfestingarstarfsemi. Upphaflega fór allt það fé, sem þetta söluskattsstig gaf, til að greiða niður olíukyndingu húsa, en nú á að verja hvorki meira né minna en 1/3 af þessari upphæð til Orkusjóðs, Þetta teljum við alþb.-menn algjörlega fráleitt, og við minnum á að það var fyrst og fremst á þeirri forsendu, að hér væri um að ræða útgjaldaminnkun fyrir fólk sem illa stæði á fyrir, að launþegasamtökin féllust á að þessi upphæð yrði ekki reiknuð með við útreikning kaupgreiðsluvísitölu.

Það er því ljóst að einmitt sömu dagana sem stendur yfir einhver erfiðasta kaupgjaldsdeila sem þjóðin hefur orðið að horfa upp á um mjög langt skeið, afar erfið og viðkvæm deila, að þá skuli hnífurinn lenda í bakinu á verkalýðshreyfingunni með því að enn frekar á að skerða þessa upphæð sem upphaflega var samið um að eingöngu rynni til þessara afmörkuðu nota og af þeim ástæðum yrði ekki reiknuð með í kaupgreiðsluvísitölu. Það segir sig sjálft að launþegasamtökin hljóta að líta allt öðrum augum á þetta skattgjald þegar það á fyrst og fremst að nýtast til að auka tekjur ríkissjóðs og ríkisstofnana í stað þess að upphaflega var þetta gjald sem kom inn og fór jafnóðum út aftur.

Ég vil sem sagt láta það eitt bætast við þessi orð mín, að þessi aðgerð ríkisstj. er ekki til þess fallin að auðvelda þá kjarasamninga sem nú eru á döfinni. Það er ljóst að sú gífurlega hækkun á olíuverði, sem átt hefur sér stað á seinustu árum, er að sjálfsögðu sérstaklega þungbær fyrir tekjulítið fólk og þá um leið fólk, sem hefur fáa í heimili og fær þar af leiðandi lítinn olíustyrk. Þetta á hvort tveggja alveg sérstaklega við aldrað fólk og mjög oft einnig við öryrkja sem hafa gjarnan fámenna fjölskyldu og fá tiltölulega lítinn olíustyrk. Það er nú svo að frá upphafi var tekið tillit til þessa með því að þeir lífeyrisþegar, sem njóta tekjutryggingar skv. 19. gr. laga um almannatryggingar, hafa fengið 11/2 styrk einstaklings. En ég tel að ekki veiti af að þessar greiðslur nemi a.m.k. tvöföldum styrk einstaklings.

Að þessu athuguðu hef ég flutt brtt. á þskj. 372. Í fyrsta lagi þá till., að í stað upphæðarinnar 8200 kr. til einstaklings komi 13 500 kr., og í öðru lagi, að í stað þess að lífeyrisþegar, aldraðir, og öryrkjar fái greiddan styrk sem nemur 11/2 styrk einstaklings, þá verði um tvöfaldan styrk einstaklings að ræða. Að öðru leyti mælum við alþb: menn með samþykkt þessa frv. breytts eða óbreytts.