25.02.1976
Efri deild: 63. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2161 í B-deild Alþingistíðinda. (1750)

118. mál, ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég hef raunar fáu við það að bæta sem kom hér fram af hálfu frsm. minni hl. fjh.- og viðskn., Ragnars Arnalds. Ég styð vitanlega þær till. sem hann hefur komið með um breyt. á þessu frv.

Ég tók hér örstutt til máls við 1. umr. þessa máls og þá kom það fram, sem gladdi mig mjög, hjá hæstv. viðskrh. að það stæði ekki á honum að upphæðin, sem í frv. var þá, yrði hækkuð og það væri algjörlega á n. valdi hvað við hana yrði gert. Mér þóttu viðbrögð hans mjög jákvæð og fagnaði þeim og vænti hins besta þar af. Ég heyrði það einnig glögglega á hv. frsm. meiri 1. að honum fannst ekki nógu langt gengið. Hann hefði gjarnan viljað ganga lengra í breytingaátt en meiri hl. leggur til. Ég skil það mætavel. Honum er jafnljóst og mér hve sárt þetta brennur á okkar umbjóðendum á Austurlandi, og hann veit einnig að þar ætlast fólk til þess að hinum upphaflegu lögum sé fylgt undanbragðalaust og það fái í sinn hlut réttmætan skerf miðað við það, sem auðvitað var einn upphaflegur tilgangur laganna, eins og hér hefur verið bent á, aðeins einn, sá einu að bæta fólki þessa gífurlegu byrði og þó aðeins að hluta. Breytingin, sem varð á þessu í fyrra, var vægast sagt varhugaverð. Ég gagnrýndi þá harðlega það fyrirkomulag. Ég gagnrýndi það sérstaklega vegna þess að ég var sannfærður um að það kæmi mínum landshluta að litlu gagni. Sú hefur orðið raunin á og hefur kannske en betur sannast á því ári, sem nú er að byrja, því að ekki kemur mikið í okkar hlut af hálfu Orkusjóðs á þessu ári. Það er greinilegt. Og vitanlega á annars staðar að taka peninga til Orkusjóðs, eins og hér hefur einnig verið bent á, heldur en frá þessu fólki sem sannarlega átti að fá þessa upphæð alla til þess að minnka þá fjárhagslegu byrði sem á það var lögð með hinni stórfelldu olíuverðshækkun.

Ég benti í fyrra sérstaklega á Austurland og hve lítil not menn mundu hafa þar af því framlagi sem ráð var fyrir gert til Orkusjóðs og ranglega var tekið af þessu söluskattsstigi. Ég held mig við það enn þá og þykist hafa fengið enn frekari sönnun fyrir því nú á þessu ári. Það eru ekki stórar upphæðir sem til Austurlands munu renna úr Orkusjóði nú á þessu ári. Það er fyrirsjáanlegt.

Ég sem sagt ítreka þá eindregnu kröfu, og ég veit að ég mæli þar fyrir munn íbúanna á köldu svæðunum yfirleitt, að það verði að fullu staðið við upphaflegan tilgang laganna og menn fái þær bætur sem þeim vissulega ber og þeir eru ekki ofhaldnir af.

Hér er mikið talað um meðaltal og það er auðvitað rétt að gera sér grein fyrir því. Það kom fram í máli hv. frsm. meiri hl. n. og síst skal ég lítið gera úr slíkum meðaltalsreikningi. Hann var einnig með samanburð milli ára, örugglega réttan samanburð milli ársins í ár og ársins í fyrra. En vitanlega sagði það ekki alla sögu vegna þess að mismununin kom auðvitað gleggst fram í fyrra, einmitt í fyrra þegar hluti af þessu framlagi var þá tekinn til Orkusjóðs. Það hefði því e.t.v. verið betra og skýrara fyrir okkur að fá mismuninn á árinu 1974 og svo aftur á árinu 1976. Þá hygg ég að mismunurinn hefði orðið enn hrikalegri. En út frá þessum meðaltalsreikningum öllum, þá held ég að mér sé óhætt að taka hrein dæmi, sem ég hef séð fyrir skömmu, um kostnað þess fólks sem býr við olíukyndinguna.

Ég sá reikninga aldraðra hjóna fyrir s.l. ár. Olíustyrkurinn til þeirra nam 24 600 kr. eða því sem næst. Heildarkostnaður þessara öldruðu hjóna við kyndingu á húsi þeirra var rúmar 165 þú s. kr. þetta hús er allstórt og gamalt, það er rétt, og það er því miður þannig að það er lítill möguleiki eða enginn fyrir þetta aldraða fólk að leigja þetta húsnæði út nema þá e.t.v. eitt herbergi í húsinu. Og þetta fólk á einnig í erfiðleikum með og vill ekki losa sig við þetta gamla hús sitt til að flytjast í annað ódýrara varðandi kyndinguna. En þetta er auðvitað mjög hátt dæmi, en heildarhitakostnaður þessa fólks varð, þegar olíustyrkurinn var kominn, þá var heildarhitakostnaður þessa fólks um 140 þús. kr. Þetta er aðeins eitt dæmi, að vísu mjög hrikalegt, og ég efast um að það séu mörg önnur slík sem má finna, en þó er ég ekki grunlaus um að þau séu fleiri. Ég held a.m.k. að engum detti í hug að þetta sé algert einsdæmi. Og ég gæti nefnt sjálfur persónulegt dæmi sem er býsna hrikalegt líka, ekki út af fyrir sig fyrir mig vegna þess að það vita allir hv. dm. hér hvað þm. eru vel launaðir og eiga auðvelt með að bera sínar fjárhagsbyrðar, en talan er nokkuð há. Ég er með stóra fjölskyldu og þar af leiðandi háan olíustyrk, en samt er kostnaður minn ekki mjög fjarri því sem var hjá þessum öldruðu hjónum.

Ég hef reynt hvort tveggja, að greiða kyndingu með olíu heima hjá mér austur á landi og svo aftur að greiða hitaveitugjöld hér í Reykjavík, og á því er sá reginmunur að einu sinni, þegar ég athugaði mánaðarreikning, í hitteðfyrra þó, þá var á þessu fimmfaldur munur. Og það skal tekið fram að húsnæðið, sem ég var í hér syðra, var auðvitað nokkru minna, ekki þó mikið, en húsið að vísu nokkru betra. Engu að síður var hér um fimmfaldan mun að ræða.

Ég held að menn séu almennt sammál um það að hér sé síður en svo of langt gengið til móts við þetta fólk sem býr á þessum svokölluðu köldu svæðum.

Það er gott og blessað að varið sé miklu fé til Orkusjóðs og Orkusjóður fái meira fé til sinna nauðsynlegu framkvæmda þannig að við getum búið við frambúðarlausn í þessu efni. Ég óskaði eftir því einu sinni að það kæmi fram hvers austfirðingar hefðu sérstaklega notið af þessu sérstaka framlagi sem af þeim var sannarlega tekið. Ég hef ekki fengið nein svör við því, enda kannske ekki von. Það hefur að vísu verið gerð á s.l. ári ein heiðarleg tilraun á Austurlandi til þess að leita annarra leiða en hinna hefðbundnu varðandi vatnsorkuna þar, þ.e.a.s. þar hefur ein borun verið framkvæmd. Von um árangur er að vísu næsta veik, en þarna er um lítið hlutverk að ræða og litla hlutdeild í heildarathugunum af þessu tagi. Því er von að fólk á Austurlandi sé almennt mjög óánægt hvernig verðgildi olíustyrksins er sífellt rýrt, en lítið sem ekkert gert í því að gera þennan landshluta sjálfbjarga um rafmagnshitun, því að litla trú hef ég á því að önnur lausn henti okkur. Því miður gengur það mjög hægt og enn sjáum við ekki fyrir endann á lausn okkar orkumála. Ég ætla ekki að fara út í það náið hér þrátt fyrir það að ég veit að hæstv. iðnrh. situr uppi með eflaust töluvert miklum og nýjan fróðleik varðandi þann möguleika sem okkur hefur verið hugleiknastur nú um stundir. Því mun verða svarað á næstunni í Sþ. og þá fáum við að vita það. En hitt er alveg ljóst, að við verðum um langan tíma enn afskiptir í þessum efnum, Austfirðingar. Það fer ekkert á milli mála. Því endurtek ég það: Ég held að fólk ætlist til þess þar að það fái sem allra mesta hlutdeild í samræmi við upphaflegan tilgang laganna, — hlutdeild í þessari fjárhæð til þess að jafna þann mikla mismun sem það verður að búa við, og ef það fæst ekki, ef þarf að taka svona mikinn hluta til orkusjóðs, þá vilji það þá einnig sjá einhvern árangur frá þeim sama Orkusjóði, eitthvert skref fram á við til að það sjái þá fram á lausn á sínum kyndingarmálum í framtíðinni.