25.02.1976
Neðri deild: 64. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2169 í B-deild Alþingistíðinda. (1761)

168. mál, flugvallagjald

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Vegna þess að við eigum ekki fulltrúa í þeirri hv. þn. sem þetta mál mun fara til og fá umfjöllun i, þá vil ég nú strax við 1. umr. segja um það nokkur orð.

Ég er fyrir mitt leyti samþykkur því sem hér er lagt til um lækkun á flugvallagjaldi. En það, sem ég vildi fyrst og fremst koma á framfæri nú strax við 1. umr., er að ég tel eðlilegt að þeir fjármunir, sem inn koma vegna þessa gjalds, séu notaðir til þess að byggja upp aðstöðu vegna flugmálanna hér á landi. Nú er öllum hv. þdm. kunnugt að það er síður en svo að viðhlítandi hafi verið gert í sambandi við flugreksturinn, öryggismál fyrst og fremst og annað sem tilheyrir flugrekstri, nú hin síðari ár. Meira að segja var það svo við afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1976, að þá var yfirlýst af hálfu flugmálayfirvalda að með þeim naumu fjárveitingum, sem skammtaðar voru á fjárl. ársins 1976 til flugmála, væri bersýnilegt að loka þyrfti mörgum flugvöllum úti á landi vegna fjárskorts til rekstrar flugvalla. Þetta er að mínu viti mjög alvarlegt mál, og ég tel að það sé í raun og veru mjög eðlilegt að tekjur, sem innheimtar eru á þennan hátt, með sérstöku gjaldi vegna flugsins, renni til þess að byggja upp þessa aðstöðu, sem er í sívaxandi mæli mjög áhrifamikil fyrir allar samgöngur hér á landi, ekki síst að því er varðar landsbyggðina. Sumir landshlutar eiga svo til allt undir flugsamgöngum. Það er því mjög áríðandi og nauðsynlegt að gerðar séu ráðstafanir til að sjá fyrir tekjum vegna þessarar starfsemi.

Ég vildi koma þessu á framfæri strax nú við 1. umr. Ég vænti þess að hv. n., sem málið fær til umfjöllunar, skoði þetta og leyfi mér að vænta að nm. þeirrar n. séu mér sammála í því að eðlilegast sé að þessar tekjur renni til uppbyggingar varðandi flugmálin hér á landi. Ég vil ekki nú strax við 1. umr. flytja um þetta till., en vil segja það strax við umr. að ef engin slík till. kemur fram eða málið verður ekki tekið upp þannig í n., þá mun ég að öllum líkindum flytja brtt. um það við 2. umr. málsins.