26.02.1976
Neðri deild: 69. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2246 í B-deild Alþingistíðinda. (1827)

118. mál, ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Mér kemur kemur ekki á óvart eða kippi mér ekki upp við það þó að hv. 5. þm. Vestf. taki stórt upp í sig og kalli mig þröngsýnan. Við erum vanir slíkum gífuryrðum af hans hálfu hér í d. og hlustum á það af mátulega mikilli tillitsemi. Hins vegar þykir mér það nokkuð miður þegar 4, þm. Austurl. Tómas Árnason, notar sömu orð um minn málflutning. Ég sé nú því miður ekki hv. þm. í salnum. Ég hefði gjarnan viljað beina til hans einni ákveðinni spurningu.

Hann talar hér mikið mun verðjöfnunarstefnu og vill fylgja henni fram og telur að því leyti Alþ. vera á réttri leið. Þetta hef ég ekkert við að athuga. En ég hefði í því sambandi viljað spyrja hann, ef hann hefði verið við, hvort hann væri samþykkur þeirri till. sem hv. þm. Karvel Pálmason hefur borið fram á þskj. 381 og felur í sér 20% aukagjald á þá, sem njóta hitaveitu, og skv. rökstuðningi hv. þm. á að vera til þess að jafna verðmun milli einstakra byggðarlaga. Ég á von á því að hv. þm. Tómas Árnason mundi svara fsp. minni á þá leið, að hann mundi greiða atkv. gegn þessari till. vegna þess að till. væri óaðgengileg. Hún er ekki skynsamleg, jafnvel þó að þessi rök búi að baki henni. M.ö.o. hv. þm. Tómas Árnason getur verið hlynntur þessari stefnu þó að hann sé á móti einni einhverri ákveðinni till. eða ákveðinni aðferð til þess að ná henni fram.

Með sama hætti hef ég lýst því yfir að ég sé óánægður með og andvigur þeirri aðferð sem notuð er til þess að jafna þann mun, sem sannarlega er á milli þeirra annars vegar, sem nota olíu, og þeirra, sem nota heitt vatn

Ég tók fram síðan og hef áður tekið fram þegar ég hef rætt um þetta mál, að ég er fylgjandi því að reyna að koma til móts við þá sem hafa mjög mikinn kostnað af olíukyndingu, það sé ekkert óeðlilegt við það þó að fjárveitingarvaldið og hv. Alþ. sem slíkt komi til móts við þetta fólk og það skuli þá gert með þeim aðferðum sem eru réttlátar og koma sanngjarnlega niður. Ég hef ríka ástæðu til þess að fullyrða að sú aðferð, sem frv., sem hér er lagt fram og er til umr., felur í sér, bjóði upp á misrétti, misnotkun og ranglæti. Við það verður ekki unað. Og ég hef reynt að benda á aðrar leiðir og ég vil láta í ljós þessa skoðun mína með því að greiða atkv. gegn þessu frv., því að ég vænti þess að þegar frá tíður sjái menn að það verður að taka upp aðra aðferð við þessa verðjöfnun.

Fleiri orð vildi ég ekki hafa að sinni og tefja þennan fund frekar. Ég vildi aðeins taka fram enn einu sinni að vitaskuld eigum við að framkvæma hér sanngjarna og víðsýna byggðastefnu. Vitaskuld eigum við að jafna mun milli fólks þannig að það búi við sömu kjör án tillits til búsetu. En það má ekki gera með því að leggja sérstök aukagjöld á einn ákveðinn hóp í þjóðfélaginu eða ákveðin byggðarlög. Það á ekki að jafna muninn með því að hækka kostnað hjá þeim sem betur eru staddir í augnablikinu. Það á að gera með því að lækka kostnaðinn hjá þeim sem hafa hærri kostnað eins og nú er. Að því leyti er ég andvígur þeirri skoðun sem felst t.d. í till. hv. þm. Karvels Pálmasonar, að leggja skuli sérstakt gjald á þá, sem búa við hitaveitu, til þess að jafna þennan mun Ég vil frekar fara þá leið að lækka þann kostnað með almennum niðurgreiðslum og með öðrum aðferðum fyrir þá sem hærri kostnað hafa og búa við skarðan hlut hvað þetta snertir í dreifbýli þessa lands.