03.03.1976
Efri deild: 70. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2344 í B-deild Alþingistíðinda. (1936)

182. mál, saltverksmiðja á Reykjanesi

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég stend upp til þess að lýsa ánægju minni með framkomið frv. Mál þetta hefur, eins og fram kom hjá hæstv. iðnrh., verið lengi í athugun og er ein af mörgum athugunum á nýtingu náttúruauðæfa þessa lands til nýrra atvinnuvega og atvinnugreina. Þær athuganir hafa mjög beinst að nýtingu jarðhitans sem er mjög mikill hér Hjá okkur, eins og hv. þm. vita, og ekki nema að ákaflega litlu leyti nýttur enn.

Sá iðnaður, sem hér um ræðir, byggist á mjög sérstæðu jarðhitasvæði, því eina hér á landi sem er þeim eiginleikum búið að vera háhitasvæði, en gefa jafnframt af sér saltan jarðlög, eins og fram kom í ræðu hæstv. ráðh. Málið hefur verið lengi í rannsókn, og ég vil leyfa mér að fullyrða að það hafi hlotið meiri athugun en ýmislegt sem við íslendingar höfum farið af stað með.

M.a. er það mín skoðun að sú rannsókn, sem gerð var á jarðhitasvæðinu og Orkustofnun annaðist, sé að mörgu leyti til fyrirmyndar. Þar voru boraðar 8 holur. Miklir erfiðleikar urðu við þá jarðborun, m.a. þegar notaður var gufuborinn svonefndi, sem var sá stærsti sem við áttum þá. Þá hrundu saman tvær djúpar holur og fór þar mikið fjármagn forgörðum, að því er sumum hefur kannske virst. En þó varð niðurstaðan sú að það tókst að ráða við þau lausu jarðlög, sem þarna eru, og háan hita og er það í fyrsta sinn sem hér á landi hefur verið gripið til þess ráðs að fóðra borholu niður í botn og hleypa gufunni gegn á ákveðnum svæðum með götum sem til þess eru sett á fóðrunina. Þarna lærðist sem sagt að nota enn eina aðferð við beislun okkar jarðhita, og var þetta svæði að mati Orkustofnunar það vel kannað og þær aðferðir, sem þar þarf að nýta, að sæmilega öruggt er af sérfræðingum talið að við það megi vel ráða og þar fá þá orku sem nauðsynleg er fyrir verksmiðjuna. Ég held að það væri satt að segja betur ef við gæfum okkur oftar tíma til þess að rannsaka sum grundvallaratriði í okkar framkvæmdum eins vel og þarna var gert um þetta svæði.

Ýmsar aðrar athuganir voru jafnframt framkvæmdar, bæði tæknilegar og einnig markaðsathuganir sem ég ætla ekki að rekja hér. Einnig var framkvæmd þar í litlum stíl athugun á ýmsum áhrifum jarðgufunnar á þau tæki sem þarna yrði að nota, gerð tiltölulega lítil tilraun að vísu með tæringu og útfellingu úr jarðlegi og jarðgufu. Það eru hins vegar ákaflega kostnaðarsamar rannsóknir og þótt niðurstöður yrðu jákvæðar af þeim athugunum og ætla megi að þar sé ekki um verulega erfiðleika að ræða var þó sá varnagli sleginn í þeirri lokaskýrslu, sem skilað var, að ráðlegt væri og raunar sjálfsagt að reisa tilraunaverksmiðju, sem kosti þó töluvert fjármagn, til þess að ganga endanlega úr skugga um þessa eiginleika og þessi áhrif og afla í því sambandi nauðsynlegra hönnunarforsendna fyrir endanlega verksmiðju.

Að gefinni þeirri niðurstöðu að þetta sé viðráðanlegt, sem eins og ég sagði allar líkur benda til, virtist rekstrarafkoma þessarar verksmiðju vera góð. Og það var sérstakt ánægjuefni að iðnrh. lét skoða þessar athuganir mjög gaumgæfilega bæði af innlendum og erlendum aðilum og þær niðurstöður voru jákvæðar. Ég hef fylgst vel með þessu máli og ég leyfi mér að fullyrða að ef nokkuð er, þá hafi útkoman heldur færst í betri átt síðan, m.a. vegna þess að aðrar orkulindir, eins og olía, hafa hækkað mjög í verði.

Með þessu frv. er verið að stiga lokaskref í þessum tilraunum með því að reisa þessa tilraunaverksmiðju. Ekki er vert að staðhæfa neitt um niðurstöður af þeim tilraunum sem þessi verksmiðja á að framkvæma, en eins og ég sagði áðan, þá eru líkur allar mjög góðar.

Ég fagna því að fallist er á þá till. að reisa slíka tilraunaverksmiðju, en ekki að reisa þegar endanlega verksmiðju, þó að varið sé til þessarar tilraunar á annað hundrað millj. Ég tel hér enn haldið áfram á þeirri braut að kanna allar forsendur sem best og undirbúa á allan máta þá endanlegu verksmiðju, sem þarna kann að verða byggð, sem best, og það hygg ég að sé leið sem við ættum, eins og ég sagði áðan, að leggja ríka áherslu á. Ég vil því þakka þetta fram komið frv. n legg jafnframt ríka áherslu á að hér er ekki um endanlega ákvörðun að ræða. Hér er um lokaþátt tilraunanna að ræða sem ekki var talið fært að ráðast í fyrr en hagkvæmni verkverksmiðjunnar að gefnum þessum niðurstöðum væri vel athuguð.