03.03.1976
Efri deild: 70. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2347 í B-deild Alþingistíðinda. (1938)

182. mál, saltverksmiðja á Reykjanesi

Albert Guðmundsson:

Herra forseti: Ég vil á sama hátt og aðrir, sem hér hafa tekið til máls, að undanskildum síðasta ræðumanni, þakka iðnrh. fyrir fram komið frv. og þá þeim sem hafa staðið að undirbúningsvinnu að þessu frv. Ég vona að framkvæmdir geti sem fyrst hafist, og tek undir það með 2. þm. Reykn. að þetta sé stórt framfaraspor, ekki bara fyrir hans kjördæmi og Suðurnesin, heldur fyrir þjóðina alla. Ég vona að þetta fyrirtæki eigi eftir að verða gjaldeyrissparandi eins og fram kom hjá hæstv. ráðh. og hv. 2. þm. Reykn.

Ég vil aðeins biðja um skýringar á 1. gr. frv. Það er talað um að ríkisstj. skuli beita sér fyrir stofnun hlutafélags er hafi það markmið að kanna aðstæður til að reisa og reka saltverksmiðju á Reykjanesi og annast undirbúning þess að slíku fyrirtæki verði komið á fót. Ég get ekki skilið hvernig ríkisstj. ætlar að standa að þessu. Ég reikna með að hún, eins og reyndar kemur fram í frv., sækist eftir þátttöku einstaklinga, að þarna komi einkakapítal með ríkisframlagi. En það er vafasamt að það fé einstaklinga gefi einstaklingunum arð þar sem þetta hlutafélag á að kanna aðstæður til að reisa verksmiðju og reka verksmiðjuna og framselja svo samkv. 3. gr. í hendur annars félags sem yrði þá félag til að reka verksmiðjuna. En í 3. gr. segir: „Skal að því stefnt, eftir því sem fært þykir, að unnt verði að framselja árangur af starfsemi félagsins í hendur aðila eða aðilum sem takast á hendur að fullbyggja verksmiðjuna og annast rekstur hennar til frambúðar.“ Þarna kemur líka fram að það ber að stefna að því að hlutafélagið, þ.e.a.s. það hlutafélag sem stofnað er í upphafi til að kanna aðstæður, fái tilkostnað sinn að fullu endurgoldin frá þeim sem við starfseminni tekur með hlut í vinnslufyrirtækinu eða á annan hátt. Mér finnst það ekki vera gæfulegt til árangurs að það sé stefnt að því að þeir, sem stofna upphaflega hlutafélag, fái tilkostnað sinn kannske endurgreiddan, en ekki arðsvon í upphafi.

Það kemur líka fram í 3. gr. að þessu upphaflega hlutafélagi skuli slíta þegar hlutverki þess samkv. 1. gr. er lokið, nema Alþ. heimili framhald á starfsemi þess í öðrum tilgangi. Mér finnst stangast þarna dálítið á.

Annars hefði ég frekar hallast að því að ríkið hefði átt að ljúka við þennan undirbúning og þessar undirbúningsframkvæmdir eitt og selja svo niðurstöðurnar í hendur hlutafélags, ef ríkið hefði ekki stofnsett þessa verksmiðju sjálft eða rekið hana. Ég er dálítið hræddur um að þarna gæti hugsanlega verið bremsa á frumkönnunum með þessu fyrirkomulagi.

En hvort sem þetta er hugsunarvilla hjá mér eða ekki, þá vil ég mótmæla því, sem kom fram hjá hv. 5. þm. Norðurl. e., að það eigi að fyrirbyggja að einstaklingar geti á einhvern hátt auðgast á því að taka þátt í annaðhvort þessari verksmiðju eða annarri. Ég vona að sem flestir, bæði þjóðin öll og svo einstaklingar, ef þeir á annað borð taka þátt í verksmiðjurekstrinum, geri það af því að þeir sjái sér hag í því og það verði þá hagkvæmt og gróðavon bæði fyrir ríki og einstaklinga. En ég tek undir með honum að þarna sé mikið í húfi og það sé sjálfsagt að nota sem mest af þeim möguleikum sem landið býður með sinni orku í iðrum jarðar og þá náttúrlega landinu og landsmönnum öllum til hagsbóta. En ég verð að segja að mér kemur ekki neitt undarlega fyrir sjónir þetta sjónarmið hv. þm. En það stangast bara á lífsskoðanir okkar, pólitískar lífsskoðanir, svo að ég reikna ekki með að ég breyti honum frekar en hann breyti mér. En úr því að hann kom fram með sina skoðun, þá vil ég koma fram með mína.

Rannsóknirnar hafa staðið lengi yfir og ég vil vona, án þess að ég sé fær um að meta hvort allt er rétt sem komið hefur hér á blað, ýmsar niðurstöður, en ég vona að afgreiðsla þessa frv. á Alþ. verði skjót þannig að úr framkvæmdum geti orðið sem allra fyrst.