15.03.1976
Neðri deild: 77. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2549 í B-deild Alþingistíðinda. (2118)

200. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Hæstv. forseti. Með frv. á þskj. 417 er lagt til að frestur sá, sem Kjaradómur hefur til að kveða upp dóm í yfirstandandi kjaradeilu Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og fjmrh., verði framlengdur til 1. apríl n.k. Áður hafði frestur í kjaradeilu þessari tvisvar verið framlengdur með sérstökum lögum, nr. 90 frá 1975 og nr. 3 frá 1976, og hafa þá báðir aðilar verið sammála um að leita eftir slíkum frestum. Enn hefur ekki náðst samkomulag í áðurnefndri deilu. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hefur óskað þess að nýr frestur yrði veittur til að reyna að ná samkomulagi, og hefur ríkisstj. fallist á að gera þá tilraun og flytur því þetta frv.

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að leggja til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. Það hefur ekki tíðkast, þegar um samkomulag hefur verið að ræða undir slíkum kringumstæðum, að vísa málinu til n. og geri ég því það ekki að till. minni, en vænti þess að hv. þd. sjái sér fært að afgreiða þetta frv. við þrjár umr., þannig að það geti orðið að lögum í dag.