16.03.1976
Sameinað þing: 65. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2598 í B-deild Alþingistíðinda. (2155)

122. mál, hönnun bygginga á vegum ríkisins

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að þakka flm. þessa máls og lýsi yfir stuðningi mínum við það í öllum grundvallaratriðum. Ég hefði að vísu gjarnan vilja að kveðið væri á um það að sömu stofnun yrði ætlað að vinna að skipulagsmálum. Skipulagsmál dreifbýlisins, þorpanna, hafa nú um sinn hlotið þess háttar meðferð að sendir eru arkitektar sunnan úr Reykjavík til þess að líta á staðina, síðan vinna þeir að skipulagsmálum við teikniborð suður í Reykjavík og afleiðingin er sú að teiknaðar hafa verið og skipulagðar fjölmargar litlar Reykjavíkur hringinn í kringum landið án þess að íbúar þessara staða hafi raunverulega nokkuð um það að segja. — Þetta er nú annað mál.

Ég vil einnig vekja athygli á því í sambandi við gagnrýni, sem komið hefur fram á fræðilega reikninga frá tæknideild Húsnæðismálastofnunar, að þessi opinbera stofnun mun hafa verið þvinguð til þess að reikna þjónustu sína samkv. gjaldskrá Arkitektafélags Íslands, enda koma hlutfallstölurnar nokkuð heim og saman við það sem hv. þm. Páll Pétursson nefndi í framsöguræðu sinni um hina prósentu ofan á byggingarkostnað.

Nú standa málin þannig að Arkitektafélag Íslands, sem er aðili að gjaldskránni, hýsir ekki að öllu leyti íslenska arkitekta. Þeir hafa stofnað með sér stéttarfélag nýlega, vinna síðan hjá teiknistofum, einkateiknistofum og opinberum teiknistofum, fyrir fast kaup sem er gersamlega óviðkomandi þessari gjaldskrá og ekki ýkjahátt. Það eru teiknistofurnar og þá fyrst og fremst einkateiknistofurnar sem leggja raunverulega línuna í sambandi við þessa gjaldskrá. Og því er ekki að neita að mér er kunnugt um þessa tilhneigingu teiknistofanna, arkitekta þeirra, sem hirða arðinn af vinnu teiknaranna í stéttarfélagi arkitekta, — mér er kunnugt um þá tilhneigingu að vilja hafa mannvirkin dýr, fyrst og fremst dýr til þess að hundraðshlutinn verði sem hæstur.

Ég ætla mér nú ekki að fara að fara út í orðskýringar á muninum á þessum tveimur latnesku heitum talentu og prósentu. En það fer náttúrlega alls ekki á milli mála að okkur er kleift að sneiða gersamlega hjá því arna með því að koma á stofn teiknistofu ríkisins sem láti sér nægja miklu minni álagningu en þá, sem einkateiknistofurnar láta sér nægja, og miklu lægri álagningu en þá, sem tæknideild Húsnæðismálastofnunarinnar lét glepjast til þess að áætla í sambandi við þessa opinberu þjónustu.

Hv. þm. Helgi Seljan og síðar hv. þm. Karvel Pálmason sveigðu hér mjög krappt að ósið sem tekinn hefur verið upp sérstaklega í sambandi við hönnun íþróttamannvirkja hér á landi árum saman, þó að þeir töluðu ekki beinlínis um einstaka aðila í þessu sambandi. þar sem hv. þm. Karvel Pálmason talar um einn aðila sem komið hefði í veg fyrir skynsamlega stefnu í byggingu íþróttamannvirkja og annarra slíkra mannvirkja, þá megum við nú flestir vita við hvern hann átti, og ég á bágt með að trúa því að hefði einarður vilji löggjafarvaldsins komið fram, einarður vilji til þess að breyta þessu, þá hefði ekkí mátt kippa þessu í lag. Svo heimskir einstaklingar geta ekki verið í kerfinu að löggjafarvaldið ráði ekki við þá án þess að innleiða kannske að nýju lög um dauðarefsingu. En hitt er vafalaust, að við getum á ákaflega einfaldun hátt kippt þessum málum í lag, einmitt með þeim ráðum, sem flm. þessa ágæta máls hafa gert grein fyrir. Og ég legg á það ákaflega mikla áherslu að þetta mál fái eðlilega og skjóta meðferð í n. og því verði hraðað í gegnum þingið.