01.04.1976
Sameinað þing: 74. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2920 í B-deild Alþingistíðinda. (2410)

156. mál, bann við geymslu kjarnavopna á íslensku yfirráðasvæði

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. í sambandi við þáltill. þá, sem hér er til umr., langar mig að segja aðeins örfá orð. Hún er fram komin m.a. vegna þess, eins og hv. 1. flm. sagði, að í janúarmánuði voru hér nokkrar umr. um það hvort hér á landi væru kjarnorkuvopn eða nánar tiltekið á Keflavíkurflugvelli. Hófust þær umr. með fsp. frá hv. þm. Gils Guðmundssyni. Þessar umr. munu hafa átt rætur sínar að rekja til þess, eins og hv. flm. raunar gat um, að bandarískur blaðamaður, Barry Schneider að nafni, hafi ritað grein þar sem hann m.a. sagði frá því að hann hefði dregið upp kort þar sem kjarnorkuvopn væru geymd, og var Ísland einn af þeim stöðum sem þar voru merktir á þann hátt. Og í viðtali við Dagblaðið hér í Reykjavík staðfesti hann þetta, enn fremur það, að hann hafi sýnt bandarískum þm. þetta kort og þeir hafi engum aths. hreyft. Dró hann því þá ályktun af þessu að mjög sterk rök hnigju að því að hér væru kjarnorkuvopn.

Ég sagði þá að þessi röksemdafærsla þætti mér ekki sannfærandi og utanrrn. væri kunnugt um að hér hafi aldrei verið geymd kjarnorkuvopn, hvorki fyrr né síðar. Og ég sagði jafnframt að mér virtist liggja nær að þeir, sem að þessum fullyrðingum stæðu, sönnuðu mál sitt betur áður en dregið væri í efa réttmæti upplýsinga íslenskra stjórnvalda. En rétt áður en ég fór í ræðustólinn til þess að flytja þessi fáu orð fékk ég í hendur skjal frá stofnun hérlendri, nánar til tekið Geislavörnum ríkisins, og í því var sagt að það væri auðvelt fyrir þá stofnun að ganga örugglega úr skugga um það hvort hér væru geymd kjarnorkuvopn eða ekki. Þess vegna var það að ég lauk ræðu minni eitthvað á þá leið síðast, að ég mundi láta ganga úr skugga um þetta þá stofnun sem hafði lýst því yfir í bréfi til utanrrn. að þetta væri auðvelt og á hennar meðfæri.

Í tilefni af þessari þáltill. vil ég nú endurtaka það. að það er vissa mín að á Keflavíkurflugvelli eru engin kjarnorkuvopn, hafa aldrei verið og verða ekki án samþykkis ríkisstj. Íslands. Mér er að vísu ekki kunnugt um að formlegur samningur milli Bandaríkjanna og Íslands um þetta atriði hafi nokkru sinni verið gerður, en það hefur ætið verið skoðun íslensku ríkisstj. að túlka beri 3. gr. varnarsamningsins á þann hátt að ekki skuli geyma á íslandi kjarnorkuvopn án heimildar Íslands, Þessi grein er svona, með leyfi forseta: „Það skal háð samþykki Íslands hverrar þjóðar menn eru í varnarliðinu svo og með hverjum hætti það tekur við og hagnýtir þá aðstöðu á Íslandi sem veitt er með samningi þessum“. En samkomulag hefur verið gert, er haft eftir Emil Jónssyni, og án þess að fara nánar út í það dreg ég það ekki í efa frekar en þær ríkisstjórnir hafa gert sem hér hafa verið við völd síðan herinn kom hingað. Þetta hefur verið skoðun íslenskra ríkisstjórna og er það enn.

En ég ætla aðeins að víkja aftur að Geislavörnum ríkisins og segja þá frá því, að þegar farið var að ræða nánar málið við þennan mann og honum falið að framkvæma athugunina í samráði við Geislavarnir ríkisins kom allt annað í ljós heldur en hann hafði áður sagt. Í bréfi dagsettu 28. jan. til varnamáladeildar segir forstöðumaður Geislavarna ríkisins svo, með leyfi forseta: „Í kjarnorkusprengjur er notað geislavirkt frumefni sem annaðhvort er úranfum 235 eða plútóníum 239 eða hugsanlega hvort tveggja. Nú er það svo að plútóníum gefur frá sér það orkulitla geislun að ekki er unnt að skynja hana með mælitækjum í gegnum neinar umbúðir, hve þunnar sem þær eru. Úraníum gefur aftur á móti frá sér talsvert orkumeiri geislun sem unnt er að mæla með næmum geislamælingum í því magni sem sennilegt er að notað sé í kjarnorkusprengjur. Þessi geislun er þó ekki orkumeiri en svo, að auðvelt er að skerma hana þannig með nokkurra sentímetra þykku blýi að ekki er lengur unnt að skynja hana með geislamælum. Það er því augljóst að leit að kjarnorkusprengjum með geislamælum, eins og talað hefur verið um, gæfi engar upplýsingar um það hvort kjarnorkusprengjur kynnu að vera geymdar á Keflavíkurflugvelli eða ekki ef leitin kæmi þannig út að ekkert fyndist. Leit sem þessi er því tilgangslaus.“

Ég vildi ekki láta sitja við þetta og fyrir tilstilli rn. var haft samband við þá sérfræðinga í kjarnavísindum í Danmörku sem mest höfðu með að gera rannsóknir á geislavirkni í sambandi við slysið sem varð í Thule er amerísk flugvél vopnuð atómsprengju féll þar niður á jökul. Þessir sérfræðingar töldu útilokað að nokkur árangur næðist með því að ganga um og reyna að mæla geislavirkni. Eini möguleikinn gæti verið að hægt væri að mæla gammageisla ef alveg væri komist að hlutnum sem álítið væri að hefði að geyma ísótópa er gefa slíka geisla frá sér. Þó töldu þeir, að slíkt væri langt frá því að vera öruggt og miklum örðugleikum bundið vegna varnarskerma. Um meðferð atómvopna sögðu sérfræðingarnir gilda hjá amerískum stjórnvöldum mjög strangar varúðarreglur og færi ekki á milli mála hvar þeim væri beitt.

Ég gekkst fyrir þessari athugun, því vissulega hefði verið þægilegt, ef hægt hefði verið að kveða niður þessa órökstuddu fullyrðingu hins ameríska blaðamanns með vísindalegu álíti óháðra sérfræðinga, en það reyndist nú þessum takmörkunum háð eins og ég hef hér lýst. Engu að síður er það full vissa mín að engin kjarnorkuvopn séu geymd á Keflavíkurflugvelli.

Ég hef ekkert nema gott um það að segja að þessi till. fái þinglega meðferð, og síst skal standa á mér að stuðla að því, meðan ég gegni því starfi, sem ég geri nú, að unnt verði að fá fulla vissu fyrir því, sem hér er sagt, fyrir þá sem ekki vilja trúa því sem ég segi.