01.04.1976
Sameinað þing: 74. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2922 í B-deild Alþingistíðinda. (2411)

156. mál, bann við geymslu kjarnavopna á íslensku yfirráðasvæði

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Ég hef ekki miklu að bæta við það sem hv. 5. landsk. þm., 1. flm. till. á þskj. 337, hafði að segja um aðdraganda þess að hún er flutt hér á hinu háa Alþ. Erindi mitt í ræðustól er fyrst og fremst að gera grein fyrir þeim almennu rökum sem ég tel liggja til þess að æskilegt sé að sett verði löggjöf er banni geymslu hvers konar kjarnorkuvopna á íslensku yfirráðasvæði og lendingu flugvéla sem flytja kjarnorkuvopn, eins og komist er að orði í tillgr. Ég tel rétt að fenginni reynslu að festa með slíkum hætti í lög óumdeilda stefnu allra Íslenskra stjórnmálamanna og stjórnvalda sem um þetta mál hafa fjallað.

Til þessa liggja ýmsar ástæður. Það hefur verið rakið í þessum umr. hvernig það bar til í vetur að fréttir tóku að berast hingað til lands um staðhæfingar í ýmsum heimildum austan hafs og vestan um að Ísland væri eitt þeirra landa þar sem bandaríkjamenn geymdu kjarnorkuvopn. Það er sannarlega ástæða að mínum dómi til að girða fyrir í eitt skipti fyrir öll að það sé einhverjum vafa undirorpið hvort Ísland sé kjarnorkuherstöð eða ekki. Það er ekki með þessu verið að draga í efa þær yfirlýsingar sem íslenskir ráðh. hafa gefið fyrr eða síðar, nú síðast hæstv. utanrrh. En gagnvart umheiminum er að mínum dómi rétt að búa svo tryggilega um hnútana sem gert er ráð fyrir í þessari þáltill.

Þá kemur það einnig til að hertækni breytist. Þótt bandarísk herstjórn og heryfirvöld og ríkisstj. hafi ekki á einum tíma áhuga á því að gera þá aðstöðu, sem þau hafa enn hér á Íslandi, kjarnorkuhervædda, þá geta breyttar aðstæður vakið óskir um að svo verði gert. Ef til þess kemur tel ég einsætt að það sé bundið í lögum að slíkt geti íslensk ríkisstj. ekki leyft nema með breytingu á lögum á Alþingi.

Og að lokum og ekki síst er það ekki of margt sem eining er um hjá okkur íslendingum í svonefndum öryggismálum. Ég tel tvímælalaust æskilegt að búa svo um hnúta að sá grundvöllur, sem þar er þó til fyrir þjóðareiningu um ákveðin atriði, sé treystur og hann festur í lög.