01.04.1976
Sameinað þing: 74. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2924 í B-deild Alþingistíðinda. (2413)

156. mál, bann við geymslu kjarnavopna á íslensku yfirráðasvæði

Flm. (Svava Jakobsdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. og hæstv. ráðh. sem hér hafa talað og sýnt þessu máli áhuga. Ég hlýt þó að segja að hæstv. utanrrh. olli mér nokkrum vonbrigðum. Hann sagði í lok ræðu sinnar að hann hefði ekki á móti því að þetta mál fengi þinglega meðferð. Það er nú ekki sérlega þakkarvert þó að ráðh. standi ekki beinlínis gegn því að mál fái þinglega meðferð hér. En ég hefði vænst þess að fá sterka stuðningsyfirlýsingu frá hæstv. utanrrh. Þessi till. er ekki um það að skorið verði úr um hvort hin erlendu blaðaskrif, sem orðið hafa að undanförnu, séu rétt eða röng. Það veit hæstv. utanrrh. mætavel. Og ég hygg að ekkert það hafi komið fram í máli mínu sem gaf tilefni til þess að hann sneri þannig út úr því.

Till. er flutt til þess að taka af allan vafa um að hér geti nokkurn tíma orðið kjarnorkuvopn. Hvort hæstv. utanrrh. lætur gera rannsókn þar fyrir utan um, hvernig ástandið er nú, er annað mál. Ég tel alveg sjálfsagt að hann geri það. En það á ekki að verða til þess að villa um fyrir mönnum í þessu máli.

Þessi till. gerir ráð fyrir aðgerðum til þess að fyrirbyggja að hér verði nokkurn tíma kjarnorkuvopn. Og hæstv. utanrrh. hefur lýst það stefnu sína og þessarar ríkisstj. að hér skuli ekki vera kjarnorkuvopn. Þess vegna er þessi till. beinn stuðningur við stefnu hæstv. ríkisstj. Ég fæ því ekki séð hvers vegna ekki getur komið fram full stuðningsyfirlýsing hæstv. utanrrh. við till. Hún gengur alls ekki þvert á stefnu ríkisstj., heldur þvert á móti.

Ég vil í þessu sambandi líka gera aths. við þau ummæli hæstv. utanrrh. um yfirlýsingu hans að menn ráði því hverju menn vilja trúa. Kjarni málsins er sá, að í þessu efni vilja menn alls ekki þurfa að ráða því sjálfir hverju þeir vilja trúa. Þeir vilja vita vissu sína, og þeir vilja koma í veg fyrir að nokkuð slíkt geti gerst eða geti hugsanlega komið fyrir að kjarnorkuvopn séu geymd hér eða flugvélar hlaðnar kjarnorkuvopnum, hverrar þjóðar sem þær eru, geti lent hér. Og þess vegna er till. flutt.