01.04.1976
Sameinað þing: 74. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2932 í B-deild Alþingistíðinda. (2420)

221. mál, graskögglaverksmiðjur

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Um leið og ég stend upp til þess að lýsa stuðningi mínum við þetta mál, sem ég tel mjög mikilvægt, vil ég jafnframt leggja mjög ríka áherslu á að bygging þessarar graskögglaverksmiðju verði í sem nánustum tengslum við jarðvarma og helst þar sem hitt er sem mestur, því að hagkvæmni í notkun jarðvarma er í mjög nánu hlutfalli við það hitastig sem fæst. Ég vil leggja áherslu á að þetta verði skoðað vandlega. Það hefur verið skoðað, satt að segja, í mörg ár. Baldur Líndal verkfræðingur gerði það á vegum Rannsóknaráðs ríkisins. Framan af, meðan olían var ódýr, var hagkvæmni slíkrar verksmiðju á mörkum borið saman við olíu, því að tækin verða stærri og fyrirferðarmeiri, dýrari. Þessar áætlanir vorn endurskoðaðar á árinu 1974 og kom út um þær skýrsla um áramótin 1974–1975 sem bendir eindregið til þess að jarðvarminn sé nú orðinn ólikt hagkvæmari heldur en olíunotkun. Ég óttast að þetta hafi ekki verið skoðað nægilega og kannske stundum verið farið fram af meira kappi en forsjá í þessum málum. Þess vegna vildi ég standa upp og leggja á það mjög mikla áherslu að þessi þáttur verði skoðaður. Það er t.d. alveg augljóst að heykögglaverksmiðja í Saltvík á fullan rétt á sér í þessu tilliti. Þar er jarðvarmi nægilegur nálægt og við hátt hitastig, og svo er raunar allvíða um landið. Að vísu verða þá ekki heykögglaverksmiðjur byggðar í hverjum hrepp, en ég held að við íslendingar verðum að sætta okkur við það að fá ekki alla hluti alls staðar,

Ég vil einnig vekja athygli á því, að á vegum fyrrv. iðnrh. var athuguð notkun rafmagns í þessu skyni og þetta hefur dálítið verið tekið upp. Þarna hygg ég að sé einnig mikill möguleiki vegna þess að heykögglaverksmiðjurnar starfa á þeim tíma þegar raforka er yfirleitt afgangs. Þetta er á sumrin þegar vatn er mikið og afgangsorka er fyrir hendi. Auk þess er ákaflega auðvelt að starfrækja heykögglaverksmiðjur á þeim tímum sólarhringsins þegar afgangsorka er mest.

Þarna held ég að mikil þörf sé á annarri verðlagningu raforku til þessara hluta en nú er. Ég hygg að sú verðlagning eða sú gjaldskrá, sem nú er á raforku til grasmjölsframleiðslu sé mjög óraunhæf og mætti lækka verulega með tilliti til þess sem ég hef nú rakið. Loks er mjög athugandi að reka þessar verksmiðjur þannig, að þær noti jarðvarma, en þar sem hann er e.t.v. ekki nógur eða nógu hátt hitastig, þá með raforku. Þetta má sameina.

Ég stend sem sagt upp til þess að lýsa ánægju minni með þetta mál, en legg á það mjög ríka áherslu að þessi þáttur verði vandlega skoðaður við byggingu þessara verksmiðja.