05.04.1976
Neðri deild: 87. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2975 í B-deild Alþingistíðinda. (2467)

207. mál, ríkisreikningurinn 1974

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Frv. til l. um samþykkt á ríkisreikningi fyrir árið 1974 liggur hér fyrir á þskj. 436. Einnig hefur verið lagt fram frv. til fjáraukalaga vegna sama árs og hefur verið gerð sérstök grein fyrir því.

A-hluti ríkisreiknings fyrir árið 1974, fullbúinn af hálfu ríkisbókhalds, var afhentur þm. í maí 1975. Gerði ég þá grein fyrir helstu niðurstöðum hans, en með fjárlagafrv. fyrir árið 1976 s.l. haust gerði ég ítarlega grein fyrir honum og lagði fram grg. ríkisbókhaldsins um afkomu ársins. Reikningurinn í heild með B-hluta hans, en án aths. yfirskoðunarmanna, var jafnframt lagður fram á Alþ. og hann fenginn yfirskoðunarmönnum til meðferðar. Reikningurinn með aths. þeirra, svörum við þeim aths. og till. yfirskoðunarmanna hefur nú verið lagður fram til meðferðar á hv. Alþingi.

Yfirskoðunarmenn gerðu fsp. í 14 liðum og birtu auk þeirra yfirlit u:n viðskipti innheimtuembætta við ríkissjóð skv. bókhaldi ríkisbókhaldsins fyrir árið 1974 með hliðstæðum hætti og áður hefur verið gert. Svör við fsp. sínum telja yfirskoðunarmenn ýmist fullnægjandi eða rétt að viðkomandi atriði verði til athugunar. Till. sínum skiluðu yfirskoðunarmenn í febr. s.l. og leyfi ég mér að vísa á ríkisreikninginn varðandi þær svo og sjálfar fsp. þeirra og svör við þeim. Tel ég ekki ástæðu til að gera nánari grein fyrir þeim að svo stöddu.

Með fyrrnefndu frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1974 gerði ég stutta grein fyrir helstu frávikum reiknings og fjárl. ársins 1974 og tel ég því ekki ástæðu til að rekja efni þess frv. að öðru leyti en því að geta stærstu liða A-hluta reikningsins.

Ég vil eins og áður vekja athygli á tveimur meginreglum við uppgjör A-hluta ríkisreiknings skv. núgildandi lögum, nr. 52 frá 1966, um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga. Önnur er sú, að álagðar tekjur og áfallin gjöld eru lögð til grundvallar við uppgjör rekstrarreiknings, en ekki greiðsluhreyfing þessara liða, þ.e. innheimta tekna og útgreiðsla gjalda. Af því leiðir að í efnahagsyfirliti eru óinnheimtar tekjur meðal eignaliða og ógreiddar gjaldaskuldbindingar meðal skuldaliða. Hin meginreglan er sú, að fjárfestingarútgjöld A-hlutans eru talin með gjöldum þess árs þegar til þeirra er stofnað, en þeim ekki dreift með afskriftum á þann árafjölda sem gert er ráð fyrir að fjárfestingin endist, eins og gildir um uppgjör fyrirtækja og sjóða ríkisins í B-hluta reikningsins.

Heildarniðurstaða rekstrarreiknings A-hluta ríkisreiknings fyrir árið 1974 var sú, að gjöld námu 3 milljörðum 287 millj. 248 þús. kr. umfram tekjur. Gjöld rekstrarreiknings námu 41 milljarði 7 millj. 880 þús. kr. Tekjur námu 37 milljörðum 720 millj. og 632 þús. kr. Endurmatsjöfnuður var óhagstæður um 575 millj. og 601 þús. kr. Samtala jafnaðar rekstrar- og endurmatsreikninga var því óhagstæð um 3 milljarða 862 millj. 849 þús. kr. Samsvarar sú fjárhæð aukningu skuldaliða umfram aukningu eignaliða í efnahagsreikningi þegar efnislegir fjármunir eru ekki taldir með. Sú breyting kom fram í verri stöðu sjóðs og óbundinna bankareikninga í árslok en ársbyrjun um 3 milljarða 170 millj. 835 þús. kr., en um 3 milljarða 390 millj. 905 þús. kr. að meðtöldum lánareikningum við Seðlabankann. Bætt staða annarra greiðslujafnaðarliða nam nettó 876 millj. 724 þús. kr. Í þeirri fjárhæð kemur fram aukning óinnheimtra tekna og eignarskatta um 446 millj. og 809 þús. kr. og söluskatts um 893 millj. 483 þús. kr. Á móti þessum greiðslujafnaðarliðum kemur lánajöfnuður. Hann fól í sér hækkun hlutabréfaeignar og stofnfjárframlaga um 119 millj. 559. þús. kr. og skuldaaukningu vegna nýrra lántaka umfram afborganir og hreyfingu veittra lána um 1 milljarð 468 millj. og 227 þús. kr. ef áðurgreindur lánajöfnuður við Seðlabankann er talinn með greiðslujöfnuði.

U.þ.b. helming gjalda A-hluta ríkisreiknings má rekja til þriggja þátta: Í fyrsta lagi framlög til Tryggingastofnunar ríkisins og Atvinnuleysistryggingasjóðs að fjárhæð 12 milljarðar 10 millj. 21 þús. kr., og eru þá markaðar tekjur meðtaldar að fjárhæð 1 milljarður 197 millj. 593 þús. kr. Í öðru lagi niðurgreiðslur á vöruverði 3 milljarðar 740 millj. og 377 þús. kr., auk uppbóta á útfluttar landbúnaðarafurðir 935 millj. 657 þús. kr., eða samtals 4 milljarðar 676 millj. 34 þús. kr. Í þriðja lagi gjöld vegamála 3 milljarðar 5 millj. og 113 þús. kr. Þessir þrír þættir námu samtals 19 milljörðum 691 millj. og 168 þús. kr. eða 48% af gjöldum A-hlutans. Gjöld skóla- og fræðslumála er falla undir menntmrn. auk bændaskólanna námu 5 milljörðum 916 millj. 406 þús. kr. eða 14.4% heildargjalda. Þessir fjórir þættir námu því um 3/5 hlutum gjalda A-hluta ríkisreiknings fyrir árið 1974.

Þrír stærstu liðir tekna á árinu 1974 voru söluskattur 11 milljarðar 863 millj. 430 þús. kr., almenn aðflutningsgjöld 9 milljarðar 114 millj. 800 þús. kr. og tekjuskattur 5 milljarðar 492 millj. 367 þús. kr., eða samtals 26 milljarðar 470 millj. 597 þús. kr. Þessir þrír liðir svara til um 70% heildartekna A-hluta ríkisreiknings árið 1974. Tekjur ríkissjóðs af hagnaði Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins námu á árinu 3 milljörðum 275 millj. 461 þús. kr. og tekjufærður launaskattur nam 1 milljarði 954 millj. 777 þús. kr. Framangreindir fimm teknaliðir námu samtals 31 milljarði 700 millj. 835 þús. kr., eða 84% heildartekna A-hluta ríkisreiknings.

Ég mun ekki gera nánari grein fyrir niðurstöðutölum ríkisreiknings fyrir árið 1974. Um frávik reiknings og fjárlaga hef ég fjallað, eins og ég áður sagði, með frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1974.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. með 24 shlj. atkv.