07.04.1976
Sameinað þing: 77. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3064 í B-deild Alþingistíðinda. (2517)

Skýrsla iðnaðarráðherra um Kröfluvirkjun

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Það er dálítið erfitt þegar grammofónsnálin festist í plötunni heilan klukkutíma, sbr. ræðu hv. þm. Ragnars Arnalds.

Ég vil fyrst þakka hæstv. orkumrh. fyrir skýrslu þá er hann flutti á Alþ. í gær um Kröfluvirkjun, svo mjög sem það mál er nú í brennidepli. Hitt hlýt ég að harma, hve mjög hann gekk á snið við margt, sem nú brennur í hugum fólks um málið, og hve mörgu hann lét ósvarað, sem mönnum er forvitni á, og hve mjög hann skekkti málið með því að oftelja eða stækka ýmislegt virkjunarhraðanum til málsbóta. Þetta virði ég iðnrh. hins vegar til ókunnugleika, en ekki vísvitandi rangfærslu.

Frá upphafi hefur Kröfluvirkjun verið nokkuð umdeild, en aldrei hafa deilurnar risið hærra en nú. Gagnrýnt hefur verið val virkjunarstaða vegna goshættu, gagnrýnd hefur verið ákvörðunartaka um virkjun án nægilegra forrannsókna. Gagnrýndur hefur verið framkvæmdahraði þannig að ekki hefur verið tekið mið af markaðsþörfum. Gagnrýnt hefur verið að enn hefur ekki verið gengið frá því hver skuli eiga og reka þessa virkjun né nokkur rekstraráætlun samin fyrir hana. Gagnrýnt hefur verið að við þá efnahagsþröng, sem við búum nú við, skuli ekki dokað við með svo dýra framkvæmd sem virkjunin er. Loks hefur ýmisleg ákvörðunartaka Kröfluefndar legið undir gagnrýni.

Hér skal ekki dokað við búin og gerð mistök, heldur reynt að gera sér grein fyrir hvernig málið stendur í dag og hvað helst er til ráða til úrbóta.

Áhugi minn fyrir framvindu Kröfluvirkjunar er af tveim þáttum snúinn. Sá fyrri er ógn mín við efnahagsöngþveiti það er ég tel að nú herji þjóð vora svo að í algjört óefni stefnir. Hinn síðari er, að ég tel að með því að fresta ekki Kröfluvirkjun um einhvern tíma við þær aðstæður, sem skapast hafa, sé verið að gera virkjunina að veigamiklum þætti í efnahagsvandanum og binda annað tveggja byggðarlagi mínu óbærilegar fjárhagsbyrðar eða þjóðinni allri, nema hvort tveggja sé. Og ég hef þann metnað fyrir heimahéruð mín, að þau verði ekki þjóðarheildinni til þyngsla, en líka þá sinnu, að þau verði ekki drepin í dróma af fyrirhyggjuleysi.

Nú veit ég að einhver mun freistast til að halda því fram að ég sé andvígur framhaldi Kröfluvirkjunar um sinn vegna þeirrar skoðunar minnar að ljúka hefði átt Laxárvirkjun III fyrst. Og rétt er það, að ég hef um það mjög ákveðnar skoðanir að þar hafi verið framin höfuðskyssa. Ég játa einnig að mér finnast þau mistök átakanleg fyrir heimabyggðir mínar og þjóðina alla. En ég hef samt þá lífsskoðun að það sé miklu verra geðró manna að vinna illt mál en tapa góðu máli. Að því leyti raska mistökin í Laxármálinu ekki sálarró minni. Hitt blæðir mér í augum hve sá mistakaskattur ætlar að verða ægilegur baggi Norðurlandi eystra og landinu öllu, kannske helmingshækkun á raforkuverði, og það mega vera miklir þrekmenn sem þola óbugaðir að hafa unnið heimasveitum sínum og landsbyggðinni allri slíkt óþurftarverk.

En víkjum lítillega að dekksta skýinu sem yfir íslenskri þjóð grúfir í dag, efnahagsvandanum. Skuldasöfnunin erlendis er orðin slík að fjármálafræðingar okkar segja að þar sé komið að hættumarki. Verðbólga æðir upp svo að ekkert virðist geta við staðið. Ríkið gefur út gegndarlaust innlánsskírteini, þurrkar þannig burt getu viðskiptabankanna til þess að annast útlán til atvinnuvega og einstaklinga og lamar með þeim hætti heilbrigt atvinnulíf í landinu. Þessi innlánsskírteinaútgáfa ríkisins er orðin slík að ríkið kæmist strax í greiðsluþrot ef það greiddi skírteinin út reglum samkvæmt í reiðufé á gjalddögum, en flýtur meðan fólkið kaupir ný og ný skírteini að verulegum hluta sem greiðslu fyrir eldri. En hvað helst slíkt lengi? spyrja margir. Engin heildarstjórn er á fjármálum landsbúa, því að þar dansa lífeyrissjóðir og ríkissjóður sérdans, sem Seðlabankinn fær ekki við ráðið. Auðæfi hafsins umhverfis landið hafa þorrið stórlega svo að tekjur okkar hafa dottið niður. Það ríkir öngþveiti í efnahagsmálum okkar, — öngþveiti sem stefnir í ríkisgjaldþrot ef ekki er tekið rösklega í taumana eða eitthvað óvænt happ gerist.

Ríkisstj. virðist bíða hins óvænta happs. Hún gerir ekkert raunhæft til úrbóta. Ég vara við þessum vinnubrögðum, og mér er fullkunnugt um að það er ofboðslegur geigur í almenningi við þetta framferði ríkisvaldsins.

Nú er mér vel ljóst að það er sitt hvað á að horfa eða í að komast. En til þess er ríkisvald og þingvald að nota það þjóð sinni til velfarnaðar. Þá kröfu verður að gera í lýðræðis- og þingræðisríki, ella á ríkisstj., sem ræður ekki við vandann, að hafa þann manndóm að fara frá og gefa öðrum tækifæri til að freista þess að gera betur. Mér er líka ljóst að núv. ríkisstj. tók við mjög slæmu búi og hefur því ýmsar afsakanir. M.a. fékk hún skelfilegan arf þar sem var óstjórn fyrrv. ríkisstj. á efnahagsmálum, sjávarútvegsmálum og orkumálum. Þar á Alþb. óhugnanlega þunga sök. Ég er einn í þeim hópi sem fylgist vel með málflutningi þessa flokks og tel gagnrýni hans, aðfinnslur og ábendingar margar oft athyglisverðar og stundum mjög réttmætar. Þess vegna furðar mig á hvílíkar reginskyssur hann gerði í fyrrv. ríkisstj.: stórmennskuæði í orkumálum, sem núv. stjórn heldur svo áfram, og skaðræðisvinnubrögð í sjávarútvegsmálum: innmokstur skipa án skipulags og hófs, þar sem skefjalaus einkarekstrarhyggja var látin vaða uppi og skipulagi á veiðum ásamt fjölbreytileika til aflabragða var alveg gleymt. Það var eins og einkarekstrarmenn síðan fyrir stríð sætu þar að stjórn.

Núv. ríkisstj. settist því vissulega í vandræðabúi. Of mörg skip til veiða af of litlum afla, óskipuleg veiðisókn við orðnar aðstæður, orkumál í ólestri, fjárhagur ríkissjóðs í upplausn, verðhækkanir erlendis með olíuskugga og markaðshrap. En hvað gerði sterkasta þingræðisstjórn sem hér hefur sest að völdum svo að árum skiptir? Hún settist með hendur í skaut. Hún seldi ekki óþörf skip úr landi. Hún skipulagði ekki veiðisókn okkar. Hún hætti ekki við framkvæmdir sem þjóðinni voru ofviða við ríkjandi ástand. Og þó, sat hún með hendur í skauti? Ekki alveg, því að hún færði út landhelgina, og um það voru allir sammála. En hún gerði fleira sem menn voru ekki sammála um. Hún hækkaði fjárlögin. Hún ákvað kostnaðarsamar framkvæmdir, þó að bíða mættu, og hefur verið ófáanleg til að taka mið af getu þjóðarinnar né öðrum ástæðum sem síðar hafa séð dagsins ljós. Ég nefni hér Borgarfjarðarbrú og Kröfluvirkjun, en dæmin eru því miður ýmis fleiri. Og hún hafði ekki kjark til að takmarka ýmiss konar óhófsinnflutning eða spara í opinberum rekstri meðan siglt væri hjá verstu efnahagsskerjunum. Það var látið reka á reiðanum. Þess vegna nagar sá ótti þjóðina í dag að við séum að sigla efnahagslegu sjálfstæði okkar í strand, að okkur sé að reka undir eftirliti Alþjóðabankans með skuggalegri skuldasöfnun erlendis. Þjóð, sem ekki er efnahagslega sjálfstæð, er ekki sjálfstæð þjóð, og ríkisstj., sem færir nú hverju barni, sem fæðist, 300–400 þús. kr. í bagga erlendra skulda, er háskaríkisstj.

Hér er það Kröfluvirkjun sem kemur inn í efnahagsdæmi okkar og inn í sjálfstæðisdæmi okkar. Hún er svo gildur þáttur vegna dýrleika síns, vegna skuldatöku sinnar, vegna markaðsvafa síns og vegna öryggisleysisstöðu sinnar, að hún hlýtur mjög að vera í sviðsljósi sem umdeilanleg framkvæmd við gildandi aðstæður.

Það var alltaf ofrausn að vera bæði með Kröfluvirkjun og byggðalínu í gangi fyrir orkusvelt Norðurland. En síðan markaðshorfur fyrir Kröflurafmagn gerbreyttust með fyrirsjáanlegri hitaveitu til Akureyrar og gosið við Leirhnúk varð og jarðskjálftavirkni jókst svo á Kröflusvæði sem raun ber vitni er alþjóð að verða ljóst hvílíkt áhættuspil þessi virkjun er og hve sjálfsagt ætti að vera að bíða þar með framkvæmdir uns mál skýrðust varðandi goshættu, varðandi markaðsþörf, varðandi gufuborun þar og varðandi rekstrarmöguleika, en allt hangir þetta að sjálfsögðu saman. Hér verður byggðalínan að duga í bili, fyrst ríkisstjórn situr að völdum sem finnst það umtalsverðara siðgæðisbrot að rifta nauðungar- og heimskusamningi við ofríkislandeigendur við Laxá en ganga í sífellu á bak orða sinna við launþega um verðbólguvarnir.

Í athyglisverðu viðtali við Þorleif Einarsson jarðfræðing, sem birtist í Þjóðviljanum 1. þ.m., bendir hann á margar veigamiklar ástæður fyrir því að fresta beri frekari framkvæmdum að Kröfluvirkjun um sinn og endurskoða áætlanir um hana. Vegna skorts á forrannsóknum á Kröflusvæði, áður en virkjunin var hönnuð, var ekki vitað um afkastagetu svæðisins til orkuframleiðslu né hlutfall milli gufu og vatns né hitastig við djúpborun. Vegna þessa var runnið blint í sjóinn með hvaða aflvélagerð hentaði, en pantaðar vélar með hraði frá Japan án opins útboðs, óheppilegar að álíti Þorleifs, en því hefur raunar verið andmælt af Valdimar K. Jónssyni vélaverkfræðingi, ráðgjafa Kröflunefndar.

Gosið við Leirhnúk í vetur hefur ruglað öll spil á Kröflusvæðinu, segir jarðfræðingurinn. Gufutæming hefur orðið á svæðinu, goshættu er ekki lokið. Þessari skoðun hafa aðrir kunnir jarðfræðingar einnig lýst, svo sem dr. Sigurður Þórarinsson og Eysteinn Tryggvason. Aðeins önnur borhola af tveim boruðum lifir, hefur misst um 60% af upphaflegu afli sínu og dvínar enn. Frá þessari staðreynd sagði orkumrh. ekki né heldur því að núverandi gufukraftur holunnar mundi ekki geta framleitt nema 1–2 mw. af þeim 30 mw. sem önnur aflvélin í Kröfluvirkjun á að framleiða. Ein hola er hálfboruð, en ljóst er af þessu að ekki verður fyrir komandi áramót búið að bora eftir nægri gufu fyrir aðra aflvél virkjunarinnar, enda áður vitað af skýrslu Orkustofnunar sem Kröflunefnd og iðnrn. hafa farið með eins og mannsmorð. Nú hefur það bæst við að nægilega sterka loka vantar svo að hægt sé að bora nema niður á takmarkað dýpi á Kröflusvæðinu. Munu pantaðir lokar ekki væntanlegir fyrr en í ágúst í sumar, og hlýtur það að tefja borun enn. Þetta kom ekki fram í skýrslu ráðh.

Þorleifur Einarsson jarðfræðingur staðhæfir að vegna gerðar aflvélanna, sem pantaðar voru áður en vitað var um hitastig á Kröflusvæði og hlutfall milli gufu og vatns, þurfi að bora fleiri holur en ella þar eð stilla verði hitastig holanna og gerð vélanna, þetta hleypi borkostnaði fram. Enn bendir hann á að markaðshorfur fyrir Kröflurafmagn hafi mjög breyst með tilkomu væntanlegrar hitaveitu á Akureyri, og er athyglisvert að orkumrh. minnist hvergi á slíkt í skýrslu sinni. Þá benti jarðfræðingurinn á hvílíkt ábyrgðarleysi það sé að sínum dómi að halda áfram byggingu virkjunar nánast yfir virkri gossprungu meðan jarðskjálftavirkni er enn slík að gos geti hafist á ný þegar minnst vonum varir.

Í þessu sambandi vil ég rifja upp að í skýrslu ráðh. kom einmitt fram að jarðskjálftavirkni við Kröflu er nú enn álíka og í ágúst og sept. í sumar sem leið, en þá tók jarðfræðinga að gruna að gos kynni að vera skammt undan, sem og raun varð á í des. Einhverra hluta vegna var þessi vitneskja ekki látin almenningi í té, en almannavörnum í Mývatnssveit gert aðvart, og sýslumaður Þingeyjarsýslu gaf út aðvörun um hugsanlegt grjóthrun í Grjótagjá.

Í viðtalinu við Þorleif Einarsson bendir hann á að það hafi alltaf verið talið gufuvirkjunum til kosta að þar mætti virkja eftir hendinni, byrja í smáum stíl og síðan stækka eftir vaxandi þörf, með ákvörðun um 60 mw. virkjun við Kröflu hafi verið tekið stærra skref en þörf kallaði á, ekki undirbúið sem skyldi, eins og fyrr getur, en verst sé þó að hættumerkjum og aðvörunum sérfróðra manna sé í engu sinnt.

Viðtalið við Þorleif Einarsson jarðfræðing er tvímælalaust harðasta opinbera gagnrýni sem komið hefur fram af hálfu sérfræðinga á Kröfluvirkjun. En síðan hefur prófessor Jónas Elíasson verkfræðingur sýnt með föstum rökum vankanta virkjunarinnar. Og loks hafa 5 jarð- og jarðeðlisfræðingar við Orkustofnun ríkisins sent frá sér gagnrýni á, hvernig staðið hafi verið að framkvæmd virkjunarinnar, og látið í ljós þá skoðun að svo geti farið að sú hönnun gufuveitu, sem nú er miðað við, henti ekki þeirri gufu sem úr borholunum fáist á svæðinu, og telja að horfur á nægri gufuöflun fyrir árslok fyrir aðra vélasamstæðu virkjunarinnar séu mun verri nú en fyrir gos.

En fleiri en þessir aðilar hafa bent á hættuna við að flýta Kröfluvirkjun svo mjög sem nú hefur verið gert. Jóhannes Nordal seðlabankastjóri hefur bent á, að fjárhagsgetubogi landsins sé nú raunar spenntur til hins ítrasta, og telur eina orsökina að heildarfjárfesting landsmanna í raforkuiðnaðinum hafi frá árunum 1970–1974 annars vegar til áranna 1975–1976 hins vegar aukist úr 9% í 16% og greiðslubyrði þessa iðnaðar okkar muni í ár rösklega tvöfaldast frá s.l. ári, þetta táknar stórfellda hækkun á raforkuverði til neytenda í einhverju formi, beina hækkun til neytenda, hækkaða skatta frá almenningi til ríkisins eða auknar lántökur, en nú sé aðeins völ skammtímalána erlendis með tiltölulega háum vöxtum. Mér býður í grun að allt þetta gerist. Samkv. upplýsingum Birgis Ísleifs Gunnarssonar borgarstjóra, gefnum nýlega í borgarstjórn, er meðalverð á rafmagni til neytenda í Reykjavík í ár áætlað 9.90 kr. á kwst. Vitað er að rafmagnsverð er nokkru hærra annars staðar á landinu. Fólki þykja rafmagnsreikningar nógu háir nú. En hver verður söngur manna þegar kwst. fer upp í 14–15 kr. eða jafnvel 16 kr., eins og nú horfir að loknu þessu ári? Auðvitað verður þetta ekki allt sök Kröfluvirkjunar, en hún mun vega hér þungt vegna skorts á markaði fyrir framleiðslu sína fyrstu árin og gífurlega greiðslubyrði vaxta og afborgana.

Nú skulum við virða fyrir okkur, hvernig orkumrh. svarar fram kominni gagnrýni, og hafa þá einnig til hliðsjónar einræður hans í Kastljósi s.l. föstudag. Hann sagðist vinna að virkjunarmálum „af kappi með forsjá“. Mér finnst vanta talsvert á forsjána þegar efnahagsstaða landsins er ekki höfð til viðmiðunar, en á það tel ég skorta, eins og ég benti á í upphafi ræðu minnar. Ráðh. víkur sér undan að svara gagnrýni um skort á forrannsóknum, gengur á snið við staðhæfingar um orkurýrnun á svæðinu vegna gossins, læst varla vita af ótta jarðfræðinga við áframhaldandi gos, og gagnrýni á vanhugsuð aflvélakaup hefur hann lítið eða ekkert heyrt, að því er virðist. Ráðh. mótmælir að setja eigi nema 30 mw. aflvél niður við Kröflu. Þó er vitað að báðar vélarnar, hvor að framleiðslugetu 30 mw. hafa verið pantaðar og kemur hin síðari að öllu forfallalausu til landsins í ágúst í sumar. Verður hún seld eða geymd og hvar þá geymd? Í stöðvarhúsinu kannske, við Kröflu, í eldlínu við Leirhnúk, af því að ódýrara sé í verki að koma báðum vélunum fyrir í einu? Þetta eru spurningar sem hljóta að vakna. Ráðh. staðhæfir að byggðalinan geti ekki komið að fullu gagni fyrr en eftir tvö ár þar eð eftir sé m.a. að leggja línu frá Geithálsi upp í Hvalfjörð. En hví ekki að flýta henni, en láta Kröflulínuna bíða? hljóta einhverjir að spyrja sem horfa vilja í kostnaðinn og vita að þetta er hægt. Ráðh. staðhæfir að ósannað sé að Kröflurafmagn verði dýrt, mikill ómettaður markaður sé fyrir hendi hjá SÍS-iðnaðinum á Akureyri, hjá Mjólkursamlagi KEA á Akureyri, hjá iðnaði sem bíði þess að komast á laggir með auknu rafmagni, fyrir Austfirði o.s.frv. Ég vil benda á að raforkuþörf SÍS- og KEA-iðnaðarins minnkar verulega við komu hitaveitu til Akureyrar. Þá þarf t.d. ekki að hita upp mikið magn af iðnaðarvatni. Í öðru lagi bendi ég á að ekki má selja SÍS-iðnaðinum iðnaðarrafmagn á hærra verði en um 2 kr. kwst. svo að svartolíunotkun borgi sig ekki betur, samkv. því sem rafveitustjórinn á Akureyri hefur tjáð mér. En auk þess hafa SÍS-verksmiðjurnar á Akureyri með engu móti getað fengið það upplýst þrátt fyrir eftirgangsmuni með hvaða verði þær megi reikna að þeim verði seld raforkan frá Kröflu, svo að sá kaupandi hangir ekki á öngli enn. Hið nýja Mjólkursamlag KEA tekur ekki til starfa fyrr en í árslok 1977 eða jafnvel síðar. En mestu máli skiptir að væntanleg hítaveita til Akureyrar dregur verulega úr orkuþörf á Akureyri og þar með öllu orkuveitusvæði Laxár- og Kröfluvirkjunar. Þessu virðist ráðh. loka augunum fyrir.

Ráðh. staðhæfir í skýrslu sinni að Kröflurafmagn verði ódýrt eða 1.80 kr. kwst. í framleiðslu, en í Sigöldu verði hún 1 50 eða 1.80 kr. Hér reiknar ráðh. með fullri sölu allrar rafmagnsframleiðslunnar á báðum stöðum, að því er skilið varð, en á borðinu liggur að fyrst í stað selst ekki nema brot af Kröflurafmagninu. En ráðh. segir nú að Kröfluvirkjun muni alls kosta 7.5 milljarða með línu til Akureyrar og hefur þá kostnaðaráætlunin hækkað um 1 milljarð síðan hann svaraði fyrirspurn minni þar um fyrir jól. Þarf því enginn að halda að kostnaður hækki ekki enn. M.ö.o.: vaxtabyrðin ein verður a.m.k. 750–800 millj. kr. fyrstu rekstrarárin, auk afborgana. Með lítilli rafmagnssölu verður þetta erfiður heimaumundur.

Ráðh. sagði að hagkvæmni virkjunar byggðist á nægum markaði, góðum lánskjörum, eiginfjármagni og réttri verðlagningu. Hjá Kröfluvirkjun er ekki nægur markaður til staðar, hagkvæm erlend lán eru ekki fyrir hendi, eigið fjármagn er ekkert, verðlagning samkv. kostnaðartölum þarf að vera geigvænleg. Samt segir ráðh. að Kröfluvirkjun sé hagkvæm virkjun. Þetta kallast að fara í gegnum sjálfan sig á alþýðlegu máli.

Ráðh. gerði mikið úr kostnaði við keyrslu dísilstöðva á Norðurlandi — og rétt er það, sá kostnaður er mikill. En ég bendi á að toppurinn á þeim kostnaði, sem hann nefndi er tekinn áður en síðasta virkjun í Laxá var komin í gang og munar þar um 12 mw. Undarleg stökkbreyting er það í skýrslu ráðh. að gera ráð fyrir 80–100 gwst. orkuþarfaraukningu frá 1975–1977 meðan hún jókst ekki nema um 30 gwst. frá 1973–1975. Á þessari stökkbreytingu virðist hann síðan byggja furðuútreikninga á hugsanlegri olíunotkun við dísilstöðvar verði Kröflu frestað.

Ráðh. hefur ætlað að koma á fót svonefndri Norðurlandsvirkjun til að sjá um rekstur Kröfluvirkjunar og að mér skilst byggðalínu. Ekkert hefur gengið eða rekið um stofnun hennar. Öllum hrýs hugur við verkefninu, m.a. af augljósum markaðsskorti fyrst í stað, og að hafa bæði byggðalinu og Kröfluvirkjun í taki eykur líka óhagkvæmnina. Kröflurafmagn rýrir markað og þar með rekstrarhag byggðalínu, og byggðalína rýrir markað og þar með rekstrarhag Kröfluvirkjunar.

Ráðh. lét þau orð falla í Kastljósi að Laxárvirkjun mundi fús að reka Kröfluvirkjun. Það getur hugsast ef hægt yrði að gera henni reksturinn efnahagslega færan. En þó mun þetta með öllu órætt mál, eftir því sem ég veit, og enginn veit í dag hvernig í dauðanum á að reka Kröfluvirkjun með hagkvæmni meðan aðeins er hægt að selja brot af væntanlegri rafmagnsframleiðslu. Óbærilega hátt raforkuverð, kannske helmingshækkun, þola norðlendingar ekki, og þeir eru fleiri en ég sem hafa þann metnað að vilja ekki velta þungu hlassi á aðra þegna þjóðfélagsins.

Ráðh. talar um orkumarkað á Austurlandi frá Kröflu. Ekki sé ég að hann tali af heilindum þar meðan hann á hinu leitinu hefur látið verja 185 millj. kr. til athugunar á Bessastaðaárvirkjun og lofað, að mér skilst, 150 millj. kr. í ár, þótt það sé ekki á fjárlögum. Ef honum hefði verið alvara með að koma Kröflurafmagni austur hefði hann að sjálfsögðu notað milljónir þær, sem kastað hefur verið við Bessastaðaá, til línulagningar frá Kröflu austur. — Allt ber að sama brunni, fjárhagslega forsjá hefur skort.

Ráðh. telur að svo mikið fjármagn sé komið í Kröfluvirkjun að þjóðfélaginu verði dýrara að deila kostnaði hennar á lengri framkvæmdatíma en ætlað hefur verið, þegar sé komið á annan milljarð í hana, greiða þurfi vexti af því fé af engu, meðan framleiðsla komist ekki í gang, og alltaf hækki virkjunarkostnaðurinn með hverju ári sem líður. Hér grípur ráðh. á óhugnanlegu kýli því að hann og Kröflunefnd hafa þrátt fyrir gos, þrátt fyrir aðvaranir sérfræðinga og þrátt fyrir breyttar markaðshorfur pínt framkvæmdir áfram án samráðs við Alþ. og fjármálavald ríkisins. Síðan er sagt: Við getum ekki hætt! Hundrað járniðnaðarmenn kvað þurfa að virkjuninni í sumar að óbreyttum framkvæmdahraða, ómælda yfirvinnu á vöktum og vaktavöktum, og svona vinnubrögð verka eins og sprengja inn á viðkvæman vinnumarkað — eins og verðbólgusprengja. Þetta hafa rangæingar fundið við Sigöldu og biðja um hæggerðari virkjunarframkvæmdir framvegis. Það á oft við að gott sé að flýta sér hægt.

Enn segir ráðh. að auðgert sé að verjast hraunrennsli í Hlíðardal þar sem virkjunarhús Kröfluvirkjunar hefur verið reist, en um allan Hlíðardal eru gamlar hraunspýjur frá fyrri gosum, og öll þekkjum við að maðurinn er furðumáttlaus gegn höfuðskepnunum í ham, hvað sem allri kokhreysti líður. Sprengigígurinn mikli, Víti, er og beint fyrir botni Hlíðardals. Hvað verður um Kröfluvirkjun ef slíkt sprengigos yrði á svipuðum slóðum eftir uppsetningu hennar?

Loks las ráðh. tvær yfirlýsingar frá húsvíkingum og mývetningum til stuðnings sama framgangshraða við Kröfluvirkjun, að hann vildi telja. Báðar voru þessar yfirlýsingar meira almennar yfirlýsingar um stuðning við virkjun heldur en um virkjunarhraðann, og mér er tjáð að báðar yfirlýsingarnar hafi verið pantaðar af formanni og varaformanni Kröflunefndar. Hitt er athyglisvert að þeir virðast ekki hafa náð slíkri yfirlýsingu frá bæjarstjórn Akureyrar og í engu hefur þess verið getið að 1. apríl s.l. komu þrír úr bæjarstjórn Akureyrar hingað til Reykjavíkur til að ná viðtali af orkumrh. varðandi það að Akureyri fengi lengur að nota borinn Jötun við Laugaland til þess að kanna betur hitaveitumöguleikana, en þeir fengu ekkert viðtal.

Herra forseti. Ég þykist hafa leitt sterk rök að því að skynsamlegt og raunar sjálfsagt sé að flýta sér hægar með Kröfluvirkjun heldur en nú er fyrirhugað. Við erum fjárhagslega illa í stakk búin að koma henni nú fram. Borun eftir gufu er ekki nógu langt komin og þarf meiri framkvæmdatíma. Markað Kröflurafmagns þarf að staðreyna betur áður en lengra er haldið og skiptir þar stóru máli hitaveita til Akureyrar. Finna þarf væntanlegu Kröflurafmagni nýjan markað, helst allstóran og öruggan iðnaðarmarkað. Koma verður í böndin hver eigi og reki virkjunina og að hún öðlist rekstrargrundvöll. Vinna þarf upp nýja orkuspá fyrir Norður- og Austurland. Vinna ber upp nýja kostnaðar- og framkvæmdaáætlun fyrir virkjunina, sömuleiðis þarf að gera henni rekstraráætlun, og landinu öllu þarf að gera heildaráætlun um virkjunarframkvæmdir tiltekið árabil fram, svo að eitthvert kerfi sé í þessum málum hjá okkur. Fleira get ég talið, en læt nægja að sinni. Meðan á þessari athugun stendur ber að ljúka byggðalínu að sunnan svo að hún beri norður senn vannotað Sigöldurafmagn. Ég skora á orkumrh. að taka þetta mál nú þegar til endurskoðunar. Ég skora á ríkisstj. að gaumgæfa þessi mál ítarlega. Ég skora á Alþ. að láta rödd sína kveða við um mál þetta. Hér er mál á ferð sem snertir þjóðina alla.