07.04.1976
Efri deild: 86. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3086 í B-deild Alþingistíðinda. (2529)

239. mál, Orkubú Vestfjarða

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. Okkur gefst tækifæri til að ræða þetta, ekki einungis í n., heldur síðar vonandi hér í hv. deild.

Mér fannst í því, sem hæstv. utanrrh. sagði, gæta nokkurs misskilnings. Hann sagði t.d. að Landsvirkjun yrði ekkert nema nafnið, skildist mér, ef þetta frv. næði fram að ganga. Og hann sagði að þetta væri stefna sem þýddi að hver byggi að sínu. Þá sagði hann að Ísland væri ekki nema sem svaraði til eins bæjarfélags í Danmörku, eins og það skipti máli í þessu sambandi.

Ég vil fyrst um Landsvirkjunina segja að þetta frv. er ekki á neinn hátt til þess fallið að minnka veg Landsvirkjunar eða minnka hlutverk Landsvirkjunar. Landsvirkjun starfar samkv. sérstökum lögum, og þetta frv., ef að lögum verður, breytir ekki þeirri skipan á neinn hátt.

Þá er það líka misskilningur að á bak við þetta frv. sé sú stefna eða hugsun að hver landshluti eigi að búa að sínu. Þetta er ekki rétt, ef það er í þeim skilningi sagt að það sé gert ráð fyrir því að orkan sé framleidd fyrir hvern landshluta innan þess landshluta undir öllum kringumstæðum. Það er alls ekki meiningin. Ég held að við hljótum allir að vera sammála um það að grundvallarsjónarmiðið, sem á að ráða um það, hvar er virkjað, er hvar það er hagkvæmast frá þjóðhagslegu sjónarmiði. En þá verður að líta líka á öll atriði sem þarna skipta máli, eins og t.d. vegalengdir frá orkuverum og ég vil líka segja t.d. áhættuna af því að hafa alla meginorkuframleiðsluna á eldvirku svæði, og svo mætti telja upp ýmislegt fleira. Það þarf að líta á þetta frá ýmsum hliðum. En grundvallarsjónarmiðið er að virkja þar sem hagkvæmast er frá þjóðhagslegu sjónarmiði. Og eins og ég kom að í minni fyrri ræðu, þá er það yfirlýst stefna, ég held allra sem um þessi mál ræða, að það eigi að samtengja öll orkuver landsins. Það þýðir að það skapast náttúrlega möguleikar fyrir því að það sé hægt að flytja orkuna á milli ef það er hagkvæmt.

Ég nefndi aðeins að hæstv. utanrrh. hefði sagt að Ísland væri ekki nema sem svaraði einu bæjarfélagi t.d. í Danmörku og það væri þess vegna annað þótt þar væri fjöldi félaga sem önnuðust orkuframleiðsluna. Það er alveg rétt náttúrlega að það er margfalt fleira fólk þar, En það er líka annað, það er landið sjálft. Ísland er allt annað land landfræðilega heldur en Danmörk, miklu stærra og erfiðara yfirferðar og meiri vegalengdir. Ef við ættum að fara út í þessa sálma, þá væri hægt að halda því fram að hér væri enn þá meiri þörf en í Danmörku að hafa mörg orkuframleiðslufyrirtæki.

En þetta er nú aðeins sagt af því að mér virtist tal hæstv. ráðh. byggjast á einhvers konar misskilningi. Ég vildi leiðrétta það a.m.k. að frv. það, sem hér liggur fyrir, er ekki hugsað og samið á þeim misskilningi. Ég vil bara að það komi hér skýrt fram að þetta frv. er ekki hugsað eins og mér virtist að hæstv. utanrrh. gerði ráð fyrir.

Þá aðeins fáein orð varðandi það sem hv. 5. þm. Austurl. sagði. Hann kom inn á grundvallaratriðið, sem ég veit að við erum sammála um, að það ber að stefna að því að raforkuverðið verði það sama um allt land. Og hann spurði: Hvernig verður það best gert? Ég ætla ekki að fara út í það. En það verður a.m.k. ekki best gert þannig að það verði virkjanir sem eru ekki hagkvæmar frá þjóðhagslegu sjónarmiði, því að það er ekki allt fengið með því að rafmagnsverðið sé það sama um allt land ef það er óþarflega hátt rafmagnsverð. En mín skoðun er sú að það verði ekki síður unnið að því og hægt að stefna að því að koma á sem jöfnustu raforkuverði um allt land þótt það séu stofnuð landshlutafyrirtæki.

Þá sagði hv. 5. þm. Austurl. að það þyrfti að líta á málið í heild, en ekki í hlutum. Mér virtist að þetta væri einhver fyrirvari, þó að hann kvæði nú ekki sterkt að orði um það, að það þyrfti að líta betur á heildarstefnuna áður en þetta frv. væri samþykkt. En nú verða menn að gera greinarmun á stefnu og framkvæmd. Við getum gert ráð fyrir því að heildarstefnan sé sú að koma upp landshlutafyrirtækjum, en framkvæmdin komi ekki í heild, hún komi í hlutum, beinlínis vegna þess að það er ekki raunhæft eða mögulegt að framkvæma þetta allt í einu. Ég kom lítillega inn á það í minni fyrri ræðu. Menn tala svo um — ja, kannske eins og það sé engin stefna í þessum málum. Það kann að vera að það megi marka hana betur en gert hefur verið. En að svo miklu leyti sem hefur komið til kasta Alþ., þá held ég að verði að ætla að það sé einhver stefna í þessum málum. Og ég held að það verði að meta svo að það sé stefna þegar Alþ. tekur afstöðu til mála á þann veg að stofna landshlutafyrirtæki þar sem er Landsvirkjun, að stofna landshlutafyrirtæki þar sem er Laxárvirkjun og að stofna landshlutafyrirtæki þar sem er Hitaveita Suðurnesja. Hvað er svo undanfari þessa frv., sem hér er, og þeirrar nefndarskipunar, sem hæstv. félmrh, gerði að veruleika á s.l. sumri? Hæstv. félmrh. var að framkvæma stefnu Alþ., eins og vilji Alþ. kemur fram í þál. frá 1971. Þar lýsir Alþ. þeim vilja sínum að það séu athugaðir möguleikar á því að koma á fót slíku landshlutafyrirtæki sem frv. þetta gerir ráð fyrir, þ.e.a.s. fyrirtæki um raforkuframleiðslu, fyrirtæki sem sé sameign ríkis og sveitarfélaga.

Ég skal ekki lengja þessar umr. frekar, Mér fannst rétt að þessar aths. mínar kæmu fram að gefnu tilefni.