05.11.1975
Efri deild: 11. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í B-deild Alþingistíðinda. (258)

42. mál, söluskattur

Flm. (Stefán Jónsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm., ræðumönnum kærlega vinsamlegar undirtektir undir þetta frv. Sérstaklega þakka ég fréttirnar sem hv. síðasti ræðumaður flutti okkur. Það hafði lengi verið beðið eftir því að þessi n. skilaði störfum. Hún hefur tekið fjörkipp við tilkomu hans, og ég er honum sammála um að meginvandamálið er einmitt jöfnun á flutningskostnaðinum. Það er meginvandamálið. Aftur á móti minnist ég þess að þessi hv. þm. sjálfur flutti till. um það á síðasta þingi að flutningsgjöldin yrðu undanþegin söluskatti, og ég fæ ekki skilið til hlítar, sjálfsagt fyrir ókunnugleika sakir, með hvaða hætti erfiðleikarnir á því að undanþiggja flutningsgjöldin söluskatti hafa aukist svo stórlega tæknilega síðan.

Í framsöguræðu minni áðan vakti ég athygli á þeim meingalla á löggjöf sem felst í því að embættismenn séu látnir fyrir hægðarauka sakir kveða á um það með hvaða hætti löggjöfin skuli framkvæmd, að löggjöfinni sé breytt í framkvæmd frá því sem tilskilið er í lagaákvæðum, vegna þess að embættismenn telji erfitt fyrir sig að framkvæma löggjöfina.

Ég ætlaði aðeins — því miður er hv. þm. Albert Guðmundsson nú frá okkur horfinn í bili — ég ætlaði aðeins að leiðrétta þann misskilning að verslunarstéttin eða verslunin eigi óvinum að mæta í hópi Alþb.-manna. Það viðurkenni ég ekki. Báðir gengum við hv. þm. Albert Guðmundsson í Samvinnuskólann og lærðum það þar hvílíkur hyrningarsteinn góð verslun er landsbyggðinni — ekki öll verslun, heldur góð verslun. Mér er það minnisstætt enn í dag hvílíkan reginmun Jónas heitinn Jónsson skólastjóri Samvinnuskólans gerði á góðri verslun og vondri verslun. Nú kynni einhver að túlka tóninn í ræðu minni á þá lund að ég teldi einkaverslun undantekningalaust vonda verslun og samvinnuverslun undantekningalaust góða verslun. Svo er ekki. Sjálfur minnist ég vel þeirra tíma þegar kaupmenn úti á landi burgu heilum byggðarlögum og lögðu við aleigu sína til þess að geta gert það, þegar haldið var lífinu í heilum byggðarlögum með þeim hætti að menn tóku út í reikning hjá kaupmanninum án þess að geta veitt nokkra tryggingu aðra en loforð um að borga þegar þeir gætu.

Því fer víðs fjarri að ég vilji reka hornin í góða einkaverslun. En einmitt í fyrri ræðu hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar kom fram atriði sem í beinum tengslum við frv. það, sem hér um ræðir, skilur nokkuð á milli góðrar verslunar og slæmrar verslunar. Það er ekkert leyndarmál að einn meginannmarkinn á framkvæmd söluskattslaganna og einmitt sá annmarki sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson vék að og lýtur að innheimtunni og möguleikanum til þess að svíkja undan söluskatti eða stela söluskatti öllu heldur, einmitt þessi annmarki lýtur fyrst og fremst að einkaversluninni sem liggur undir þungum ákærum einmitt af hálfu þeirra manna, sem starfa að innheimtu söluskatts, um að standa ekki skil á söluskatti.

En máli mínu vil ég ljúka með því að ítreka þetta atriði, að allt of lengi hefur dregist að leiðrétta misfellur í lögum um söluskatt sem valda því að þegnarnir sitja þar ekki við sama borð. Enda þótt við eigum nú von á merkilegu frv., studdu heldum rökum um nauðsyn þess að jafna vöruverð á öllu landinu, þrátt fyrir þetta frv. sem kann að sjá dagsins ljós í vetur, þó að enn þá sé það svo fjarri í vitund minni, það ljós, að ég efist um að það muni koma í tíð þessarar ríkisstj., — þrátt fyrir þetta, að við eigum von í þessu frv., þá legg ég til, að Alþ. taki sig til og bæti úr þeim misfellum á löggjöfinni um söluskatt sem ég hef gert grein fyrir og þetta frv. okkar Helga F. Seljans fjallar um.