05.11.1975
Efri deild: 11. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í B-deild Alþingistíðinda. (260)

42. mál, söluskattur

Flm. (Stefán Jónsson) :

Herra forseti. Ég mun ekki tala nema örstutt. Að vísu hef ég ekki hér frv. hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar, frá því í fyrravetur hérna við höndina, en ég staðhæfi að það hefst á — ja, nú hef ég fengið þetta frv. hér í hendur og 4. gr. þess hljóðar svo:

„3. tölul. 7. gr. l. nr. 10 frá 1960, um söluskatt, orðist svo:

Vöruflutningar, enn fremur fólksflutningar með flugvélum og almennum leigubifreiðum á bifreiðastöðvum, eftir því sem ráðh. ákveður nánar síðar.“ Þarna er um að ræða hvað undanþegið skuli.

Undanþegnir skulu sem sagt vöruflutningar, enn fremur fólksflutningar með flugvélum og almennum leigubifreiðum á bifreiðastöðvum, eftir því sem ráðh, ákveður nánar síðar. Mér virðist því, ef þetta er rétt prentað, að þá hafi þetta verið það sem fyrir ræðumanni vakti.

Ég vil aðeins ítreka þetta: Ef við gætum náð fyrr eða jafnskjótt sama árangri með annarri lagasetningu eða jafnvel betri árangri í viðleitni okkar til þess að jafna búsetuskilyrðin í landinu og jafnað vöruverð í landinu með annars konar lagasetningu en þeirri sem hér er gert ráð fyrir, þá mun ég að sjálfsögðu greiða atkv. með því. En ég tel, að það sé borin von að við munum á þessu þingi fá samþykkt lög um ráðstafanir til þess að jafna flutningskostnað og jafna vöruverð á öllu landinu, myndaðan þess háttar sjóð sem til þess þarf, eins og hv. þm. Halldór Ásgrímsson nefndi. Ég hef heyrt það út undan mér að nógu illa gangi að ná peningum í aðra sjóði sem til áttu að vera undir þeirri ríkisstj. sem nú situr. Og ég tel, að ef vandræði embættismanna ríkisins í sambandi við framkvæmd söluskattslaganna eru jafnmikil og hv. síðasti ræðumaður taldi, þá beri Alþ. að leiðrétta lögin á þá lund að bætt verði úr þeim vandræðum þeirra. Ég tel að óréttlát löggjöf og klaufalega samin, með þeim hætti að embættismenn geti ekki framfylgt henni, sé þess háttar að Alþ. beri skylda til að bæta hana.