08.04.1976
Efri deild: 88. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3159 í B-deild Alþingistíðinda. (2600)

198. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Landbn. hefur haft frv. til l. um Búnaðarbanka Íslands til athugunar og rætt það á fundum sínum, en náði ekki samstöðu um málið. Nál. meiri hl. n. er undirriðað af 6 nm., þar af einum með fyrirvara sem ég hygg að hann muni gera grein fyrir hér við umr. Minni hl., Helgi F. Seljan, mun gera grein fyrir sinn áliti.

Um þetta frv. mun ég ekki hafa mörg orð. Það kom fram á nefndarfundi að nm. töldu eðlilegt og sanngjarnt að Búnaðarbanki Íslands hefði rétt til að versla með erlendan gjaldeyri. En við 1. umr. um frv. hér í hv. Ed. gerði hæstv. landbrh. einmitt grein fyrir þessu atriði, að ákvæði um það var ekki fellt inn í frv., og vil ég minna lítils háttar á það sem hann sagði um það efni.

Hann taldi óþarft að fella það inn í lög um Búnaðarbankann, þar sem hægt er — og mun verða gert í þessu tilfelli, eins og hæstv. ráðh. sagði í ræðu sinni — að taka upp samninga við Seðlabankann, eftir að þetta frv. er orðið að lögum, sem hann vonaði að yrði fyrr eða seinna, um að Búnaðarbanki Íslands versli með gjaldeyri eins og hinir bankarnir.

Með vísun til þessara ummæla hæstv. landbrh., fallast nm. á þá málsmeðferð, sem hann gerir ráð fyrir að beita, og gera ekki till. um breytingu á þessu í frv., en treysta því að við yfirlýsingu hæstv. ráðh. verði staðið.

Að öðru leyti vísa ég til nál. okkar um það að meiri hl. n. mælir með því að frv. verði samþ. óbreytt.