09.04.1976
Sameinað þing: 78. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3212 í B-deild Alþingistíðinda. (2653)

Skýrsla iðnaðarráðherra um Kröfluvirkjun

Tómas Árnason:

Herra forseti. Það er nú með hálfum huga að menn biðja um orðið eftir þau vopnaviðskipti sem fram hafa farið í sambandi við virkjunarmát norðlendinga. En ástæðan til þess, að mig langar að leggja hér nokkur orð í belg, er varðandi virkjunarmál Austurlands og hvaða efni það eru sem við þm. á Austurlandi höfum mestan áhuga á í þeim efnum og snerta óneitanlega virkjunarmál þeirra norðlendinga.

Það er löngu vitað að talsvert veruleg umframorka verður á Norðurlandi þegar lokið verður við að reisa Kröfluvirkjun og leggja byggðalínuna til Norðurlands. Og það er gert ráð fyrir því í lögum um jarðgufuvirkjun við Kröflu eða við Námafjall í Suður-Þingeyjarsýslu, að ríkisstj. sé heimilt að tengja saman aðalorkuflutningakerfi Norðurlands og Austurlands. En þetta kallar á línulögn frá Kröfluvirkjun til Austurlands. Þessi lína er talin vera nálægt 150 km löng og þyrfti að geta borið 130 kw. rafmagnsstraum eða vera sams konar lína og byggðalinan sem verið er að reisa núna norður um Holtavörðuheiði til Norðurlands, en flutningsgeta þeirrar línu skilst mér að sé í kringum 50 mw. Línustæðið frá Kröflu verður austur um Mývatnsöræfi og austur fyrir Jökulsá á Fjöllum og áfram yfir hálendið og allar götur austur í Fljótsdal, og það er hugsað að línan komi þar niður í Fljótsdal sem fyrirhugaður virkjunarstaður Bessastaðaár í Fljótsdal verður. Síðan á þessi lína að liggja áfram austur yfir í Skriðdal og koma þar niður sem heitir Eyrarteigur í Skriðdal, mjög skammt frá Grímsárvirkjun. Þar skiptist svo línan og greinist annars vegar um svokallaða Hallsteinsheiði til Reyðarfjarðar, sem er 24 km vegalengd, og hins vegar um Öxi suður til Berufjarðar. Kostnaður við Austurlandslínu er talinn nema nálægt 1500 millj. kr., að því er mér skilst, á núgildandi verðlagi og greinist þannig niður að efni mun áætlað um 70%, þar af tollar og ýmiss konar gjöld 44% og vinna um 30%. Síðan leggjum við áherslu á að tengt verði saman veitukerfi Austur-Skaftafellssýslu og við Djúpavog.

Árið 1978 er talið að orkuskortur á Austurlandi, miðað við litla dísilkeyrslu, verði um 15 mw., ef Austur-Skaftafellssýsla er ekki talin með. Í dag er varið um 8 mw. alls til hitunar á Austurlandi, en talið að skortur afls til hitunar, ef hita ætti upp hús á Austurlandi að fullu, sé þá um 32 mw. eins og sakir standa. En þetta mál kallar náttúrlega á öflugra dreifikerfi en nú er.

Erindi mitt hingað í þessar umr. er kannske fyrst og fremst að lýsa skoðun þm. Austurl., — ég hygg að ég geti talað fyrir hönd okkar allra, þeir leiðrétta það þá ef það er ekki rétt, — skoðun okkar og raunar eindregnum óskum að það verði ráðist í að leggja línu frá Kröfluvirkjun sem fyrst austur á land og tengja saman orkuveitusvæðin á Austurlandi og Norðurlandi með þessum hætti. Sú hugsun, sem á bak við þetta liggur, er fyrst og fremst sú, að með þeim hætti verði hægt að tryggja Austurlandi raforku sem fyrst, og í öðru lagi að það verði tengd saman orkuveitusvæði á Austurlandi, Norðurlandi og Suðurlandi þegar þessum framkvæmdum öllum er lokíð. Það er rétt að taka það fram og ástæða til að fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. iðnrh. að byggja á þeirri stefnu að það þurfi að tryggja grunnafl í landsfjórðungunum til öryggis þegar til lengdar lætur. Við höfum að sjálfsögðu í huga jafnhliða að það verði haldið áfram með rannsóknir og undirbúning að Bessastaðaárvirkjun og Fljótsdalsvirkjun jöfnum höndum, eins og ráð var fyrir gert, og tryggt verði fjármagn á sumri komanda til að halda áfram þeim athugunum, en jafnframt verði lögð á það mikil áhersla að hefja sem fyrst lagningu línu frá Kröflusvæðinu til Austurlands.

Hér á dögunum gerði ég fsp. um það til hæstv. iðnrh. hvað líði athugun á virkjun Bessastaðaár. Hæstv. ráðh. svaraði þeirri fsp. m.a. á þá leið að orkuvinnslugeta Bessastaðaárvirkjunar væri athuguð miðað við tvo kosti: í fyrsta lagi að Bessastaðaárvirkjun tengdist við núverandi Austurlandskerfi, og í öðru lagi að Bessastaðaárvirkjun tengdist við landskerfið, þ.e. þegar Austurland hefur verið tengt við Norðurland og Suðurland eftir að Sigölduvirkjun og Kröfluvirkjun hafa verið teknar í notkun. Orkuvinnsla verður þá mjög háð því hve mikilli miðlun verður við komið í Bessastaðaárvirkjun.

Í annan stað svaraði hæstv. ráðh. því til að niðurstaða athugunarinnar væri sú að með virkjun Bessastaðaár ykist verulega nýting þeirra rennslisvirkjana sem fyrir eru á Austurlandi, þ.e.a.s. Grímsár- og Lagarfossvirkjunar, og æskilegt væri að uppsett afl í Bessastaðaárvirkjun yrði nokkru meira en upphaflega var ráð fyrir gert. Jafnframt benti athugun þegar til þess að virkjunin mundi falla vel að samrekstri við aðrar virkjanir á landinu þegar komist hefur á örugg tenging hennar við virkjanir á Suður- og Norðurlandi.

Síðan skýrði hæstv. ráðh. frá því, að innan skamms, í þessum mánuði í síðasta lagi, mundi verða mögulegt að taka ákvarðanir um það hvort og hvenær ráðist yrði í Bessastaðaárvirkjun.

En erindi mitt hingað er fyrst og fremst þetta, að leggja áherslu á það viðhorf austfirðinga að hraða línulögn frá Kröflu austur um land, hafandi í huga þörf Austurlands fyrir grunnafl síðar meir og þá e.t.v. með það í huga, ef það reynist hagkvæmt, að reisa grunnaflstöð sem gæti þjónað landskerfinu í leiðinni, og það er byggt auðvitað á þeirri hugsun að á Fljótsdalsheiði er talið mögulegt að safna saman miklu vatni og nýta óvenjulega mikla fallhæð, milli 500 og 600 m, til raforkuframleiðslu. Á þennan hátt væri mögulegt að fá aðstöðu til æskilegrar raforkuframleiðslu einmitt á þeim tímum þegar rennslisvirkjanir hér á Suðvesturlandi búa við minna rennsli en á öðrum árstímum. Slík miðlunarvirkjun gæti þess vegna fallið mjög vel inn í samrekstur landskerfisins.

Ég sagði áðan að ég ætlaði ekki að blanda mér í þær umr. um raforkumál á Norðurlandi, sem mér finnast nú kannske úr hófi ef litið er á málið í heild, en leyfa mér að koma að þessum sjónarmiðum sérstaklega.