09.04.1976
Sameinað þing: 78. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3217 í B-deild Alþingistíðinda. (2655)

Skýrsla iðnaðarráðherra um Kröfluvirkjun

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Þar sem hv. þm. Bragi Sigurjónsson hefur nú lokið sínum skammti í þessum umr., mun ég nú ekki bæta neinu að ráði við það sem ég var búinn að skenkja honum áður. Ég sé mig þó til neyddan, eiginlega af ótta við það að ella muni hann tæpast njóta svefns um páskahátíðina, að segja honum frá því að mér háir ekki herbergisskortur í kjördæmi mínu. Það er alveg rétt, að ég hef orðið að notast við fram til skamms tíma óbreytt heimilisfang að Laugum í Reykjadal og það hefur gefist mér æðivel, þangað til ég komst yfir húsnæði annars staðar.

Það má vel vera að hv. þm. Bragi Sigurjónsson telji sig betri þingeying heldur en ég tel mig. Þó hef ég grun um það, að þær glæður, sem upp af sprettur nú sá hinn heiti eldur sem logar í brjósti hv. þm. varðandi Laxárvirkjun, — hann kunni nú að vera sprottinn þrátt fyrir allt af fremur óblíðum minningum í samskiptum við fólk heima í héraði. Ég veit þetta ekki.

Sálfræðilega séð finnst mér ekki óeðlilegt að þessi áleitna, beiska hugsun í sambandi við nytjar Laxár, þessa frjóasta vatnsafls á norðurhveli jarðar, áð það skuli ekki vera bundið í stokk í raforkuframleiðslu, hún kunni að eiga sér, þessi árátta, einhverjar sálrænar ástæður. En það eitt er vist, að ég sé til þess enga von að þessi eldur, hvernig sem hann er nú til kominn, í brjósti hv. þm. yrði slökktur þó svo að árrennsli Laxár verði nytjað til þess.