09.04.1976
Sameinað þing: 78. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3224 í B-deild Alþingistíðinda. (2657)

Skýrsla iðnaðarráðherra um Kröfluvirkjun

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í herferð Alþfl. undanfarnar vikur gegn Kröfluvirkjun hefur það vakið nokkra athygli, að um leið og dregið hefur úr jarðskjálftum á Kröflusvæðinu, þá hefur skjálftavirkni aukist í Alþfl. Það kom greinilega fram í ræðu þeirri sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson flutti hér áðan og eins í fyrri ræðu hv. þm. Braga Sigurjónssonar. Hins vegar var þetta á annan veg í seinni ræðu Braga Sigurjónssonar, því að svo að ég noti orð eins sérfræðingsins sem þeir félagar eru alltaf að vitna í, — það var alveg eins og hv. þm. hefði tæmst af gufu.

Í umr. hér og í skýrslu minni er í rauninni búið að upplýsa allan þorra af þeim atriðum sem hér hafa verið gerð að umtalsefni. Það eru aðeins örfá atriði sem ég vil að lokum minnast á.

Það er þá í fyrsta lagi sú endurtekna staðhæfing, að iðnrn, Kröflunefnd og aðrir aðilar hafi gengið á svig við sérfræðinga, virt að vettugi álit þeirra, gengið á móti þeirra till. Allir, sem fylgst hafa með þessu máli, vita að þetta eru staðlausir stafir. En hins vegar er rétt að staldra hér við, — ég geri raunar ráð fyrir því að t.d. ritstjóri Alþýðublaðsins sé búinn að telja sér trú um að eitthvert sannleikskorn sé í þessum staðhæfingum. Ég skal fyrst nefna eitt dæmi.

Það var 19. jan. s.l. sem 4 jarðvísindamenn við Raunvísindastofnun háskólans rituðu mér bréf. Það bréf var kærkomið. Þegar í stað hafði ég samband við einn þeirra, Þorleif Einarsson prófessor, til að þakka honum fyrir þetta bréf og þessar ábendingar og bað hann að flytja þær þakkir til félaga hans. Í þessu bréfi segir svo:

„Við teljum því óráðlegt að halda áfram framkvæmdum við Kröfluvirkjun, öðrum en þeim sem stuðla að verndun þeirra mannvirkja sem þegar hefur verið fjárfest í, meðan jarðskjálftahrinan, sem hófst 20. des. 1975, stendur yfir.“

Við framkvæmdir í sambandi við Kröfluvirkjun var farið eftir þessum ábendingum. Það var unnið að því að styrkja og treysta þær byggingar, fyrst og fremst stöðvarhús, sem í smiðum voru. Það var í einu og öllu, meðan jarðskjálftahrinan stóð yfir, farið eftir þessum ábendingum. En fréttamenn og þeir, sem hafa valið sér það hlutskipti að berjast gegn Kröflu, þeir birtu þessar fregnir, þessa umsögn jarðvísindamannanna ekki eins og rétt var, heldur var því alltaf slegið upp í fyrirsögnum og forustugreinum í þessum tveimur blöðum, sem hafa haft samflot í þessum efnum, að jarðvísindamennirnir hafi talið óráðlegt að halda áfram framkvæmdum við Kröflu. — M.ö.o.: alger fölsun á umsögninni. Því er sleppt, að þeir telji eðlilegt að halda áfram við að styrkja húsin og mannvirkin, og því er sleppt, að viðvörun þeirra var miðuð við það meðan jarðskjálftahrinan, sem hófst 29. des., stendur yfir. Með þessum hætti gáfu þessir blaðamenn almenningi alranga hugmynd, sögðu rangt frá. Það er vafalaust svo um suma þessa menn, að þeir fara sjálfir að trúa því sem þeir hafa sagt ósatt í byrjun þegar það er sagt nógu oft.

Nú held ég að allir viðurkenni að jarðskjálftahrinan, sem hófst 20. des. 1975, stendur ekki yfir, henni er lokið, — hvað sem verður um framtíðina. Iðnrn. hefur beðið Þorleif Einarsson prófessor um skriflega umsögn um þetta atriði nú. Það hefur ekki fengist. Það eina svar, sem hefur fengist frá þeim ágæta prófessor, er viðtöl við blöð, en grg., undirskrifuð af vísindamönnunum eins og bréfið frá 19. jan., hefur reynst ófáanlegt.

Ég nefni þetta dæmi um það hvernig sumir blaðamenn hafa leyft sér að afflytja umsagnir vísindamanna og á þeim grundvelli, þessum ranga málflutningi, búið til þær staðhæfingar að ráðamenn hafi gengið á svig við ráðleggingar og tillögur vísindamannanna.

En þá komum við að öðru atriði. Þegar vísindamenn greinir á, hvað skal þá gert? Og þegar vísindin eru ekki lengra á veg komin en það, að vísindamenn geta engu spáð með vissu um hlutina, hvað á þá að gera? Það er auðveldast, það er létt verk og löðurmannlegt, að gera þá ekki neitt,leggja árar í bát, halda að sér höndum. En þegar vísindamenn greinir á, þá verða auðvitað þeir, sem bera ábyrgð á framkvæmd málanna, að taka ákvarðanir. Í þessum tilvikum, sem hér er um að ræða, hefur oft orðið svo að vera.

Hér er því haldið fram hvað eftir annað að val virkjunarstaðar hafi alls ekki verið eftir ábendingum vísindamannanna. Manni skilst helst á ræðum og skrifum sumra manna að það hafi verið Jón G. Sólnes, Ragnar Arnalds og Ingvar Gíslason sem í raun hafi farið á staðinn, valið virkjunarstaðinn, kannske látið mig vita og fengið samþykkt. Hver er sannleikurinn í þessu? Orkustofnunin hefur á að skipa fjölda vísindamanna í öllum þeim greinum sem hér er um að ræða. Árum saman fóru fram rækilegar forrannsóknir og ítarlegri rannsóknir á þessu svæði á vegum Orkustofnunar. Að undangengnum öllum þessum rannsóknum leggur Orkustofnun til að ráðist sé í virkjun Kröflu, og það er Orkustofnun sem velur virkjunarstaðinn og m.a. ákveður hvar stöðvarhúsið skuli byggt. Staðhæfingar um annað eru tilhæfulausar.

En við komum þá að öðru. Í jarðeldafræði eru rannsóknir og vísindi því miður ekki lengra komin en svo að menn geta ekki sagt fyrir um eldgos. Við þurfum ekki annað en líta á nokkra atburði, tiltölulega nýja, til að sannfærast um þetta. Árum saman hefur verið gefið í skyn að miklar líkur séu á nýju Kötlugosi. Menn hafa beðið eftir því í ofvæni og ótta. Það hefur sem betur fer ekki komið enn. Fyrir nokkrum árum birtist grein eftir einn af okkar allra fremstu jarðfræðingum. Þar segir m.a. að í yfirliti Þorvalds Thoroddsens jarðfræðings hafi Helgafell í Vestmannaeyjum verið talið virkt eldfjall. Hinn ágæti vísindamaður taldi ekki lengur ástæðu til þess, Helgafellssvæðið væri útdautt og því rétt að strika það af skrá um virk eldfjallasvæði á Íslandi. Nokkrum árum síðar hófst gosið á Heimaey. Við vitum það líka að þegar gosið hófst í Leirhnúk, sem varð sem betur fer mjög skammvinnt, þá heyrðist það eftir sumum sérfræðingum, sem gengu um svæðið fyrir norðan, að nú væri „goslegt“ á Þeistareykjabungu, „goslegt“ á Kröflusvæðinu og Mývatnssvæðinu. Það minnti á þegar mönnum finnst vera veiðilegt á einhverjum stað. Það var spáð gosi þá og þegar á ýmsum stöðum þar nyrðra. Sem betur fer hefur það ekki komið enn.

Með allri virðingu fyrir jarðvísindamönnum, þá er sannleikurinn sá, að það er ekki enn í mannlegum mætti að segja fyrir um eldgos. Stundum spá menn eldgosi sem ekki kemur. Stundum spá menn því að allt sé útdautt og þá brýst út eldgos skömmu síðar. Ég held að eftir að Hekla gaus 1947 hafi jarðfræðingar yfirleitt verið sammála um, að nú mundi Hekla ekki gjósa á næstu áratugum og miðuðu þá við reynslu fyrri alda. Ég ætla að það hafi komið þeim jafnmikið á óvart og öðrum, að þegar verið var að vígja Búrfellsvirkjun skyldi Hekla fara af stað, 23 árum eftir gosið 1947.

Ég nefni þessi dæmi ekki í óvirðingarskyni við vísindamennina. Við metum þá mikils. En það er þannig með þá, sem bera ábyrgð á framkvæmdum í þjóðfélaginu, að þeir þurfa oft að taka sjálfstæðar ákvarðanir eftir að hafa leitað álits sérfræðinganna. Þær eru oft erfiðar, en þær verður að taka, því að þjóðlífið verður að hafa sinn gang. Og þessar ákvarðanir eru yfirleitt auðveldar ef öllum sérfræðingum ber saman. En þegar annaðhvort er svo ástatt að vísindin eru ekki komin lengra en svo sem ég nefndi eða sérfræðinga greinir á, þá verður þessar ákvarðanir að taka. Og mér finnst það furðulegt, að þegar Orkustofnun, sem árum saman hefur unnið af hinni mestu kostgæfni með vísindamönnum sínum að rannsóknum og undirbúningi á Kröflusvæðinu, er komin að niðurstöðu, mælir með virkjun, ákveður staðinn, þá skuli nokkrir af starfsmönnum þar finna hvöt hjá sér, þegar framkvæmdir eru langt komnar, til þess að vefengja það sem stofnunin sjálf og forustumenn hennar hafa látið frá sér fara. Vitanlega eiga þessir menn að hafa málfrelsi, en manni finnst það næsta furðulegt, að þeir skuli þá ekki hafa látið frá sér heyra fyrr.

Annað er það sem menn verða líka að gæta þegar vitnað er til sérfræðinga, og þar er mikill misbrestur í málflutningi hv. þm. Sighvats Björgvinssonar og Braga Sigurjónssonar. Þegar Þorleifur Einarsson prófessor á blaðaviðtal sem er að minnstu leyti um hans sérgrein og hann lætur í ljós skoðanir sínar og fordæmingu á hinu og þessu sem er langt utan við hans sérþekkingu, þá er vitnað í öll þessi ummæli hans sem sérfræðiálit. Þegar Þorleifur Einarsson fer að láta í ljós skoðanir sínar í vélaverkfræði og að þær vélar, sem búið er að festa kaup á, séu ónothæfar, þá legg ég meira upp úr því sem hinn viðurkenndi sérfræðingur, prófessor í vélaverkfræði, Valdimar Jónsson, lætur frá sér fara. Það má einnig hafa í huga að þeir ráðgjafar, sem hér hafa verið að verki, tvö viðurkennd ráðgjafarfyrirtæki, íslenskt og erlent, hafa einróma mælt með þessum vélum. Ég bendi á þetta með allri virðingu fyrir Þorleifi Einarssyni sem jarðfræðingi. En það er auðvitað rangfærsla og blekking þegar farið er að vitna til „sérfræðiálits“ hans um allt aðra hluti heldur en þá sem snerta hans sérgrein.

Hér var á það minnst að lög hefðu verið brotin og hafði hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sterk orð þar um. Hv. 5. þm. Norðurl. v., Ragnar Arnalds, hefur svarað þessu. Ég vil bæta því við, að lögin heimila virkjun allt að 55 mw.., en það er 30 mw. stöð sem nú er verið að reisa. Það er aðeins fyrri vélasamstæðan sem á að koma fyrir nú, og ég held að það geti engum blandast hugur um að það er fyllilega innan ramma laganna. Hins vegar áður en til þess kæmi að önnur vélasamstæða yrði sett upp, þá tel ég sjálfsagt að fá nýja lagaheimild, enda má gera ráð fyrir að samkv. þeirri reynslu, sem þá er fengin, þurfi einnig að breyta fleiri ákvæðum laganna.

Í sambandi við afkomu — greiðsluafkomu, rekstrarafkomu — Kröfluvirkjunar má segja að þar séu tvö meginatriði sem máli skipta. Annað er þetta: Hver verða greiðslukjör, afborgunarkjör, hve langur verður afskriftatími á þessari virkjun? Hitt atriðið: Hver er orkumarkaðurinn? Hverjir eru möguleikar á að selja þessa orku?

Varðandi sjálfan stofnkostnað virkjunarinnar, þá hefur áður verið gerð grein fyrir því að framleiðslukostnaður er fyllilega sambærilegur við þær vatnsaflsstöðvar, sem hagkvæmastar eru. Þegar ég nefndi hér að framleiðslukostnaður væri áætlaður 1.80 kr., samanborið við Sigöldu og Hrauneyjafoss 1.50 til 1.80 kr., þá er hér um sambærilegar tölur að ræða, þær eru byggðar á sömu forsendum, allar stöðvarnar fullbyggðar, fullnýttar. Þetta er aðferð sem notuð er til þess að fá samanburð á virkjunarkostum. Það er auðvitað byggt á misskilningi hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni þegar hann hefur það eftir mér að söluverð orkunnar ætti að vera kr. 1.80 frá Kröfluvirkjun. Ég vil benda á það í fyrsta lagi, að t.d. frá Landsvirkjun, sem byggir þó að verulegum hluta á eldri rafstöðvum sem eru þegar að töluverðu leyti greiddar og afskrifaðar, og þó framleiðslukostnaður Sigöldu sé áætlaður þetta 1.50–1.80 kr., en miklu lægri og ódýrari í eldri virkjununum; — þá er söluverð orkunnar frá Landsvirkjun nokkuð á þriðju krónu að meðaltali á kwst. til almenningsnota. Auðvitað verður söluverð orkunnar frá Kröflu hærra en 1.80 kr. En hvert söluverðið þarf að vera, það veltur fyrst og fremst á þessum tveimur meginatriðum: Hver verða lánskjörin, og hver verður markaðurinn?

Hér hafa verið afflutt ummæli Jóhannesar Nordals í ræðu hans á fundi Sambands ísl. rafveitna, þar sem settir eru fram ýmsir útreikningar með 7 ára og 15 ára lánstíma. Þó að það sé rétt, að í dag er ekki hægt að fá lán til langs tíma, þá breytir það engu um að þessa virkjun er ekki fremur en aðrar hægt að borga upp á örfáum árum. Það verður að dreifast yfir á langan tíma. Almenn regla er sú, að afskriftatími vatnsaflsvirkjana er metinn 40 ár og gufuaflsstöðva 25 ár. Þetta er reikningsaðferð, en hins vegar vitað að þessar stöðvar endast miklu lengur. Ég hef bent á það áður að Ljósafossstöðin í Sogi er nær 40 ára gömul og ekkert lát á henni. Hún endist vafalaust langan aldur enn. En hún er fyrir nokkru greidd upp að fullu og afskrifuð. Og ég vænti þess að ég þurfi ekki að endurtaka það oftar til þess að menn skilji, að þó að ekki sé hægt nú að fá lán til langs tíma, þá verður að sjálfsögðu að dreifa þessari greiðslubyrði á fleiri ár, annaðhvort með því á næstu árum, þegar rýmkast um á lánamarkaði heimsins, að breyta lánum í lán til lengri tíma eða að taka ný lán til þess að létta byrðina. Ég nefndi hér í skýrslu minni dæmi um þetta frá Landsvirkjun í sambandi við Sigölduvirkjun. Landsvirkjun hefur tekið 10 ára lán, á að greiða meginhluta þess á 10. ári, en í útreikningum um rekstur og greiðsluafkomu Sigöldu eða Landsvirkjunar er ekki reiknað með því að greiða þetta 10 ára lán upp, eins og samningar standa til, heldur gengið út frá því að stærsta afborgunin síðasta árið verði framlengd, annaðhvort með samningum við þennan lántakanda eða nýju láni. Ég nefndi það líka, að Landsvirkjun hefði fengið fyrirgreiðslu með svokölluðum víkjandi lánum frá ríkissjóði þar sem enn í dag, eftir allmörg ár, hefur ekkert verið borgað, hvorki í vexti né afborganir. Á sama hátt verður auðvitað að miða rekstur Kröfluvirkjunar við það að lánin verði framlengd og fyrirgreiðsla komi í einu eða öðru formi til þess að þetta þurfi ekki að lenda á örfáum árum á einni kynslóð eða jafnvel að greiðast upp á 7 eða 10 eða 15 árum. Þannig verða virkjanir ekki byggðar. Ef menn halda sig fast við það að þetta sé bara út í loftið, út í hött, þá leiðir af því að hætta við allar virkjanir á Íslandi. Það getur verið að það sé fyrst og fremst það sem alþfl.-menn eru að boða: Það á annaðhvort að hætta við eða slá á frest eða fara hægar í virkjun Kröflu. — Að vísu bendir nú flest, sem þeir hafa sagt, til þess að þeir telji að aldrei hefði átt í hana að ráðast og fyrst ráðist var í hana, þá eigi að hætta við hana. Að vísu stangast þetta gersamlega á afstöðu Alþfl. 1974, þegar frv. um Kröflu var til meðferðar, því að þá greiddu alþfl.-menn atkvæði með lögunum um virkjun Kröflu. Fulltrúar flokksins í iðnn. beggja d. mæltu með frv., þó að sumir þeirra telji nú að það hafi verið hin mesta fásinna að ráðast í slíkt.

Lánum verður að dreifa yfir á lengri tíma og um það ætti ekki að þurfa að deila. Ég hef hér í höndum bréf frá orkumálastjóra, þar sem hann gerir grein fyrir því hvernig þessum hlutum er háttað í sumum öðrum löndum, sérstaklega í Svíþjóð. Það þekkist hvergi í nokkru landi að ætlast sé til þess að rafstöðvar séu greiddar þannig niður á örfáum árum. Og það eru farnar þær leiðir sem ég hef verið að rekja.

Við komum þá að hinu atriðinu sem segir til um greiðslu- og rekstrarafkomu þessarar virkjunar, og það er markaðurinn. Það er furðulegt að heyra hvernig menn leyfa sér að tala og það jafnvel menn sem ættu að vera og eru kunnugir fyrir norðan. Það er eins og þeir loki gersamlega augunum fyrir því að undanfarin ár hefur stundum verið hreint neyðarástand þegar vetur hefur verið harður og stíflur í Laxá. Og fyrir 2–3 árum var lagt bann við frekari húshitun á Norðurlandi, það var bannað að tengja hús, jafnvel hús sem höfðu verið byggð með það fyrir augum að fá rafhitun. Þrátt fyrir það að rafhitun hafi þar verið stöðvuð í 2–3 ár, þrátt fyrir það að iðnaðurinn hefur verið lamaður, þrátt fyrir algert neyðarástand þegar miklar truflanir hafa komið í Laxá, þá leyfa menn sér hér að tala eins og það sé ekkert vandræðaástand fyrir norðan. Það er eins og einhverjir menn séu að leika sér að þessu, gera það sér til dundurs eða sjálfum sér til frægðar að byggja þarna nýja virkjun. Svona þýðir auðvitað ekki að tala. Allir menn vita að þörfin hefur verið og er brýn fyrir norðan.

Það er auðvitað hægt að segja: Það á að keyra allar dísilstöðvar af kappi. Það á að brenna olíu fyrir hundruð milljóna á hverju ári. — En mér finnst að þeir, sem tala um efnahagsöngþveiti í þjóðfélaginu, eins og hv. þm. Bragi Sigurjónsson sem í báðum ræðum sínum talar af ábyrgðartilfinningu um efnahagsástandið, ætti ekki að flytja okkur þann boðskap að það sé þjóðinni í hag og muni bæta efnahagsástandið á Íslandi að í stað þess að hraða virkjunum og nota innlenda orku, þá eigi í auknum mæli að brenna erlendum gjaldeyri að óþörfu. Það er ekki ábyrgðartilfinning sem felst í slíku tali.

Ég hef áður gert að umtalsefni markaðinn fyrir norðan. Um mörg undanfarin ár hafa ýmsir aðilar gert orkuspár. Þessar spár hafa verið gerðar á mismunandi tímum og út frá mismunandi forsendum, og þess vegna hefur margt stangast á í þessum orkuspám. Þess vegna var ákveðið fyrir nokkru að efna til samstarfs til þess að fá samræmingu í þessu efni. Sérstök orkuspárnefnd var sett á laggirnar á s.l. hausti. Þar eiga sæti fulltrúar frá Orkustofnun, frá Landsvirkjun, frá Laxárvirkjun, frá Rafmagnsveitum ríkisins, frá Rafmagnsveitu Reykjavíkur og frá Sambandi ísl. rafveitna. Auk þess hefur verið haft samband við Framkvæmdastofnun ríkisins. Þessir fulltrúar hafa þegar lagt mikið starf í orkuspá. Það liggur þegar fyrir orkuspá till bráðabirgða frá þessari samstarfsnefnd. Niðurstaðan er ekki aldeilis á sömu nótum og þm. Bragi Sigurjónsson eða Sighvatur Björgvinsson eða Vilborg Harðardóttir, sem flutti þennan sama boðskap, að allt sé yfirfljótanlegt af orku.

Í þessari orkuspá er gert ráð fyrir að lögð sé lína til Austurlands, og kem ég þá að því sem hv. þm. Tómas Árnason ræddi. Í lögum um Kröfluvirkjun er ríkisstj. heimilað að leggja aðalorkuveitur til tengingar við aðalorkuflutningakerfi Norðurlands og Austurlands. Í samræmi við þetta fól ég Rafmagnsveitum ríkisins á s.l. ári að hanna og undirbúa þessa háspennulinu til Austurlands. því verki er það langt á veg komið að ef fé fæst til þessarar lagningar, þá ætti sú lína að geta tekið til starfa á árinu 1978 og farið þá að flytja rafmagn frá Kröflu til Austurlands. Í þessari spá, sem ég hef fengið frá Orkustofnun, er hefur haft forgöngu um þessa samræmingu, er annars vegar reiknað með tengingu við Austurland, en það er hins vegar — og það undirstrika ég — ekki reiknað með rafhitun á Akureyri. Það er gengið út frá hitaveitu á Akureyri, og þess vegna þarf ekki frekar um það að ræða, sem hér er fullyrt hvað eftir annað, að í orkuspám og áætlun um Kröflu sé aldrei tekið tillit til hitaveitu á Akureyri. Nei, þessi orkuspá reiknar ekki með rafhitun á Akureyri. Síðast í dag ræddi ég við orkumálastjóra um þetta mál. Orkuspáin er á þá lund að fyrri vélasamstæðan í Kröflu verði fullnýtt haustið 1978 og þá þyrfti síðari vélasamstæðan að vera tilbúin til notkunar. Þegar báðar vélasamstæður ern tilbúnar, þá er spáin sú að Kröfluvirkjun verði fullnýtt á árunum 1980–1982, þ.e.a.s. að aflið verði fullnýtt 1980 og orkan 1982.

Ég vil láta þessar upplýsingar koma fram. Við þær fellur meginið af því, sem hv. þm. hafa verið hér að tala og skrifað hefur verið um málið á undanförnum víkum, gersamlega um sjálft sig.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Ég vildi rekja hér nokkuð þær fjarstæður að gengið hafi verið á svig við einróma till. sérfræðinga. Ég hef reifað nokkuð hvernig þau mál horfa við. Ég hef rætt hér þessi grundvallaratriði um rekstur og afkomu Kröfluvirkjunar eins og annarra rafstöðva, sem er lánstíminn og orkumarkaðurinn, og ég held að það ætti ekki að þurfa lengur um það að deila eftir þessar ítarlegu rannsóknir og spár, sem nú liggja fyrir, að orkumarkaðurinn er nægur.