27.04.1976
Sameinað þing: 81. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3274 í B-deild Alþingistíðinda. (2712)

187. mál, jöfnun á kostnaði við kyndingu húsa

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 394 ásamt hv. þm. Benedikt Gröndal að flytja svo hljóðandi till. til þál.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta semja frv. til l. um ráðstafanir til þess að jafna kostnað við kyndingu húsa sem hituð eru með mismunandi tegundum orkugjafa. við samningu frv. verði m.a. eftirfarandi atriði athuguð sérstaklega:

1. Hvort æskilegt sé að jafna kyndikostnað með verðjöfnun eingöngu, niðurgreiðslum eingöngu eða kerfi verðjöfnunar og niðurgreiðslna.

2. Að jöfnun verði þann veg hagað að hún hvetji, en letji ekki framkvæmdir til þess að draga úr raunverulegum kostnaði við húshitun, t.d. með virkjun jarðhita, rafhitun eða byggingu kyndistöðva. Í því sambandi verði sérstaklega athugað hvort ekki sé rétt að hluti þeirra ráðstafana, sem gerðar séu, verði í því fólginn að afla fjár með sérstökum hætti til að hraða rannsóknum á jarðhita, jarðhitaleit og virkjun jarðhita tll húsahitunar þar sem hans er von svo og byggingu olíukyndistöðva eða gerð rafhitunarkerfa, hvort heldur sem hagkvæmara þykir, þar sem jarðhiti er ekki fyrir hendi.“

Það hafa farið fram það miklar umr. um þessi mál hér á Alþ. í vetur að ég held að það þjóni ekki neinum tilgangi að lengja þær frekar en orðið er, enda fáu einu við það að bæta. Hins vegar er ljóst að það má skipta landsmönnum í fjóra flokka varðandi aðstöðu í húshitunarmálum. Í fyrsta lagi þá sem njóta húsahitunar frá jarðvarmaveitu, eins og t.d. reykvíkingar gera og sívaxandi hluti landsmanna. Í öðru lagi þá sem eiga von á því að geta í fyrirsjáanlegri framtíð virkjað jarðhita til húsahitunar. Í þriðja lagi þá sem eiga ekki von á slíku, en geta hugsanlega leyst sín húsahitunarmál með byggingu kyndistöðva, annaðhvort kyntra með svartolíu eða raforku. Í fjórða flokknum koma svo þeir, og þá eru það einkum og sér í lagi íbúar mestu dreifbýlishéraðanna, sem hvorki eiga von á hita til húshitunar frá jarðvarmaveitum né heldur frá kyndistöðvum, en verða til frambúðar að notast við olíu.

Aðstöðumunur fólks á olíuhitunarsvæðunum annars vegar og hitaveitusvæðunum hins vegar er þegar orðinn svo mikill að það finnst ekkert dæmi að minni hyggju um einn einstakan þátt brýnustu lífsnauðsynja þar sem aðstæður valda svo miklu misrétti. Verði ekkert að gert er mjög líklegt að þessi aðstöðumunur geti valdið mikilli byggðaröskun, því að það hlýtur, þegar til lengdar lætur, að hafa mikil áhrif á hvar fólk velur sér búsetu ef það á einum stað getur þurft að greiða allt að fimmföldu verði fyrir húshitun á við það verð sem það þyrfti að greiða kysi það sér annan stað á landinu til búsetu.

Þá hefur þessi aðstöðumunur að sjálfsögðu einnig talsvert mikil áhrif á atvinnurekstur, þ.e.a.s. á ákvarðanir atvinnurekenda um hvar þeir velja atvinnurekstri sínum stað á landinu. Það er að sjálfsögðu talsvert atriði varðandi ýmsan atvinnurekstur hver kyndikostnaður er við upphitun. Og atvinnurekandinn er að sjálfsögðu á sama báti og einstaklingur í þessu efni, að hann kýs heldur að velja atvinnufyrirtæki sínu stað á þeim stað á landinu þar sem hann getur þurft að borga allt að fimmfalt minni kostnað við upphitun húss heldur en á einhverjum öðrum stað þar sem kostnaðurinn getur verið fimmfalt meiri.

Við jöfnun á kyndikostnaði, eins og hér er um rætt, yrði því að taka tillit til kostnaðar bæði við kyndingu íbúðarhúsnæðis og eins við kyndingu á húsnæði til atvinnurekstrar, enda er beinlínis ráð fyrir því gert í þessari tillögu.

Sú er yfirlýst stefna allra stjórnmálaflokka í landinu að stuðla að varðveislu byggðar í landinu öllu þar sem byggilegt er. Í því skyni hefur ýmislegt þegar verið gert til þess að jafna aðstöðu landsmanna án tillits til búsetu. Ýmislegt fleira af slíku tagi er á döfinni eða til umr. Má þar til nefna ráðagerðir um flutning ríkisstofnana eða stofnsetningu útibúa frá þeim úti á landsbyggðinni, könnun á hvernig jafna megi flutningskostnað í framhaldi af þál. sem Alþ. hefur samþ. þar að lútandi, hugmyndir um frekari jöfnun á símagjöldum og fjölmargt annað af því tagi. Þá hefur fyrsta skrefið einnig verið stigið í þá átt að jafna kyndikostnað með niðurgreiðslu á olíu til húshitunar. Sú framkvæmd svo og hvernig fjár er til hennar aflað hefur hins vegar valdið deilum, enda frá upphafi aðeins um bráðabirgðaráðstöfun að ræða sem auk þess að vera bráðabirgðaráðstöfun er allsendis ófullnægjandi.

Það má segja sem svo að það sé í fyllsta máta eðlilegt, ef menn telja nauðsynlegt og réttlátt að jafna aðstöðu manna án tillits til búsetu t.d. hvað varðar flutningskostnað eða símagjöld, þá sé enn þá eðlilegra og réttlátara að jafna aðstöðu landsmanna án tillits til búsetu á þeim sviðum þar sem aðstöðumunurinn er miklu meiri, eins og t.d. í húshitunarmálum. Því er ekki óeðlilegt að farið sé á flot með hugmyndir um jöfnun kyndikostnaðar þegar horft er til þess hvað þegar hefur verið gert og hvað þegar hefur verið ráðgert um jöfnun á aðstöðumun á ýmsum öðrum sviðum.

Eins og fram kemur í þessari till. er okkur, sem að henni stöndum, hins vegar ljóst að slíkar aðgerðir mega ekki verða til þess að letja framkvæmdir til að draga úr raunverulegum kostnaði við húshitun, t.d. með virkjun jarðhíta og fleiru af því tagi. Því kemur að okkar álíti vel til greina að hluti þeirra ráðstafana, sem gerðar yrðu til jöfnunar, væri á þann veg að séð yrði fyrir sérstöku auknu fjármagni eða sérstöku auknu lánsfé til þess að hraða nýtingu innlendra orkugjafa til húshitunar eða til annarra framkvæmda til þess að draga úr kostnaði við húshitun með olíu, t.d. með byggingu kyndistöðva eða með því að greiða fyrir kostnaðarsparandi nýjungum í húshitunarmálum, t.d. með nýjum gerðum af miðstöðvarkötlum o.s.frv. Vil ég í því sambandi sérstaklega vekja athygli á uppfinningu íslensks uppfinningamanns sem ég gerði að umræðuefni á Alþ. fyrr í vetur, sem fundíð hefur upp nýja tegund af miðstöðvarkatli sem sameinar rafhitun og olíuhitun í einum og sama ketilbúnaði. Þessi ketill var við prófun rekinn með mun meiri hagnaði og mun meira kostnaðarsparandi heldur en nokkur ketilbúnaður sem á markaðnum er. Vissulega mundi það auka talsvert á jöfnuð í húshitunarmálum ef hægt væri að greiða fyrir því að fólk gæti skipt um húshitunaraðferð og tekið slíka upp á þeim svæðum þar sem útilokað er talið að leysa húshitun fólks á annan veg en með olíukyndingu.

Að lokum vil ég geta þess, að í þeim miklu umr., sem orðið hafa í vetur hér á Alþ. um húshitunarmál, hafa fjölmargir þm. lýst sig fylgjandi auknum jöfnuði í kostnaði við húshitun með mismunandi orkugjöfum. Vil ég í því sambandi leggja sérstaka áherslu á það, að í þann streng hafa einnig tekið þeir sem lýst hafa sig andvíga þeim aðferðum sem nú er beitt í þessu skyni. Till. þessi er m.a. flutt í því skyni að fá staðfest að þetta sé vilji Alþ., að leitað sé úrræða til þess að framkvæma sem fyllsta jöfnuð á húshitun í landinu, og ef sá er vilji Alþ. að honum verði þá fylgt eftir með viðeigandi ráðstöfunum.

Herra forseti. Ég tel svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta mál. Eins og ég sagði fyrr í minni ræðu, hafa orðið miklar og ítarlegar umr. um það á þingi í vetur. Ég legg til að þáltill. þessari verði vísað til hv. allshn.