27.04.1976
Sameinað þing: 81. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3277 í B-deild Alþingistíðinda. (2713)

187. mál, jöfnun á kostnaði við kyndingu húsa

Sigurður Blöndal:

Herra forseti. Ég er að sjálfsögðu mjög fylgjandi þeirri hugmynd sem kemur fram í þessari þáltill. sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson mælti hér fyrir. Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka þau atriði sem hann dró fram, en hér skipta ákaflega miklu máli, og það er einmitt sá mikli ójöfnuður sem það felur í sér að vera búsettur á t.d. hitaveitusvæði eða á þeim svæðum landsins þar sem jarðhíta nýtur ekki og menn eiga ekki annars kost en kynda hús sin með olíu. Mér er þetta náttúrlega sérstaklega hugleikið því að fyrir ári flutti ég frv. til l. um breyt. á grunnskólalögunum sem snerti takmarkaðan þátt þessa máls, þ.e.a.s. um jöfnun hitakostnaðar í skólum landsins milli þeirra svæða þar sem nýtur jarðhita annars vegar og þar sem menn þurfa að kynda með olíu eða rafmagni hins vegar. Þetta frv. endurfluttu þeir svo í haust í Ed. hv. þm. Helgi F. Seljan og Stefán Jónsson, og ég get ekki annað en notað þetta tækifæri til þess að harma að það er stansað í n., að því er mér er tjáð. Það hefur ekkert annað gerst en því hefur verið fylgt úr hlaði við 1. umr. og vísað til n. og þar situr það og situr fast, að því er mér er tjáð. Þetta er auðvitað bara einn angi þessa máls, sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson var að lýsa hér og till. hans og hv. þm. Benedikts Gröndals tekur til, hún er miklu almennari. Ég gerði þarna tilraun til þess að ráðast á aðeins einn þátt þessa vandamáls, þar sem var skólahúsnæðið. Þar er það mismunandi aðstaða sveitarfélaga sem málið snertir, og í raun og veru er það ekki stærra mál en svo að það ætti í raun og veru að vera mjög einfalt að kippa því í lag, því að það snertir bara þessa tvo aðila, ríkið og sveitarfélögin, en tekur ekki til einstaklinga. Þó að ekki væri nema sá takmarkaði hluti vandamálsins sem fengist leiðréttur, þá væri það strax nokkuð í áttina. Varðandi hitun skólahúsnæðisins koma einmitt til fámennir sveitahreppar og lítilmegandi, og ég held að okkur hafi tekist að finna mjög sómasamlega og aðgengilega jöfnunarreglu. Ég leitaði um það í fyrra samráðs við forráðamenn Sambands ísl. sveitarfélaga sem voru þessari hugmynd mjög fylgjandi, og hafði reyndar oft verið um það rætt hjá sambandinu.

Ég skal ekki lengja þessar umr, frekar, en sem sagt fagna þáltill. sem hér er til umr. Ég vil jafnframt harma mjög að það mál, sem ég flutti hér í fyrra og fer í sömu átt, skuli ekki vera komið nánast neitt áleiðis, af því að, eins og ég segi, það hefur þó þann kost að það er mjög einfalt. Það snertir aðeins þessa tvo aðila, ríkið og sveitarfélögin, og væri afskaplega fljótlegt að afgreiða það með handauppréttingu í þessari hv. þd.