29.04.1976
Efri deild: 92. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3351 í B-deild Alþingistíðinda. (2767)

20. mál, ábyrgð á láni Landsvirkjunar til virkjana í Tungnaá

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Með frv. því, sem hér liggur fyrir, er leitað heimildar fyrir ríkisstj. til að ábyrgjast lán er Landsvirkjun hyggst taka vegna framkvæmda við Sigölduvirkjun. Er hér um að ræða lántökur að fjárhæð allt að 15 millj. bandaríkjadala eða 2679 millj. kr. á gengi einn dollar ísl. kr. 178.60.

Samkvæmt fjárhagsáætlun Landsvirkjunar eru lántökur að þessu marki nauðsynlegur liður í lokafjármögnun stofnkostnaðar Sigölduvirkjunar. Í aths. með frv. er vikið að tiltekinni skuldabréfaútgáfu Landsvirkjunar í Bandaríkjunum í þágu þessarar lánsfjáröflunar á vegum The First Boston Corporation í New York, Af ýmsum ástæðum er nú talið ólíklegt að unnt verði að afla lánsfjár nema að nokkru leyti með umræddri skuldabréfaútgáfu. Er því fyrirhugað að fara aðrar leiðir í þessu efni eftir þörfum. Getur þá komið til álita að ríkissjóður taki lán og endurláni Landsvirkjun. Í fyrirliggjandi frv. er ekki gert ráð fyrir heimild til ráðstöfunar sem þessarar. Mun ég því leggja til við hv. fjh.- og viðskn. hv. d. að frv. verði breyti í meðförum n., þannig að leitað verði slíkrar heimildar með sérstöku viðbótarákvæði þar að lútandi í samræmi við fyrri lántöku- og ríkisábyrgðarheimildir til handa Landsvirkjun. Jafnframt tel ég æskilegt að í 1. gr. frv. komi skýrar fram en nú að ríkisábyrgðarheimildin takmarkist ekki við ákveðna fjárhæð í krónum, heldur taki til lánsfjáröflunar að fjárhæð allt að 15 millj. bandaríkjadala. Ég tel rétt að í þessu skyni verði gerðar nauðsynlegar breytingar á frv.

Við umr. þessa frv. þykir mér hlýða að víkja almennt að Sigölduframkvæmdum, gildandi löggjöf varðandi Sigölduvirkjun, núgildandi ríkisábyrgðarheimildum í hennar þágu og áætluðum stofnkostnaði virkjunarinnar.

Með l. nr. 37 frá 16. apríl 1971 veitti Alþ. Landsvirkjun heimild til að reisa allt að 170 mw. raforkuver í Tungnaá við Sigöldu ásamt aðalorkuveitum svo og allt að 170 mw. raforkuver í Tungnaá við Hrauneyjafoss, ásamt aðalorkuveitum. Í sept. 1971 samþ. stjórn Landsvirkjunar að haldið skyldi áfram undirbúningi að virkjun Tungnaár við Sigöldu, og á árinu 1972 fór fram útboð á framkvæmdum við virkjunina. Tekið var tilboðum í byggingarvinnu frá Energoprojekt, Júgóslavíu, og var hlutaðeigandi verksamningur undirritaður 23. ágúst 1973. Er samningsupphæðin 1 149 282 735 kr. að viðbættum 14 014 237 bandaríkjadollurum og 8156 047 vestur-þýskum mörkum, eða alls 4 milljarðar 94 millj. kr. á skráðu gengi hinn 1. mars 1976. Í véla- og rafbúnað virkjunarinnar var tekið sameiginlegu tilboði frá Brown, Boveri & Cie: Vestur-Þýskalandi og Energomachexport í Sovétríkjunum. Var hlutaðeigandi verksamningur undirritaður hinn 14. sept. 1973. Er samningsupphæðin 162 968 687 kr. að viðbættum 19 509 203 vestur-þýskum mörkum og 3 886 697 rúblum, sem greiðast í krónum á genginu 100 svissneskir frankar 24.51 rúblur. Nemur samningsupphæðin alls 2 milljörðum 101 millj. kr., einnig á skráðu gengi hinn 1. mars 1976.

Stofnkostnaður Sigölduvirkjunar áætlast í dag sem hér segir án vaxta á byggingartíma: Undirbúningskostnaður 341 millj. kr.

Byggingarvinna 1 milljarður 149 millj. kr.

Véla- og rafbúnaður 163 millj. kr.

Vélauppsetning o.fl. 34 millj. kr.

Háspennulína Sigalda–Búrfell 112 millj. kr.

Verkfræðiþjónusta, eftirlit og stjórnun 429 millj. kr.

Verðbætur 2 milljarðar 22 millj. kr.

Vinnubúðir, vegir og brýr 268 millj. kr.

Ýmislegt 257 millj. kr.

Svarar þetta alls til 11 milljarða 152 millj. kr. án vaxta á byggingartímanum miðað við gengið hinn 9. apríl 1976, en þá er dollarinn skráður á 178.64 kr. Eftir er þá að taka fullt tillit til gengisbreytingarreiknings vegna erlendra lána í þágu virkjunarinnar, en hann er að sjálfsögðu háður breytingum á byggingartímanum.

Verksamningar vegna Sigöldu miðast við þrjár vélasamstæður. Er hver þeirra 50 mw. eða alls 150 mw. Gera þeir ráð fyrir að fyrsta vélasamstæðan verði tekin í rekstur 15. júní nú í ár, önnur 15. sept., síðar á árinu, og sú þriðja 15. des. á þessu ári. Af ýmsum ástæðum er hins vegar nú fyrirsjáanlegt að fyrsta vélasamstæðan verður ekki komin í rekstur fyrr en seint á þessu ári, önnur og þriðja vélasamstæðan ekki fyrr en á árinu 1977. Skv. orkuspám Landsvirkjunar koma þessar seinkanir þó ekki til með að valda orkuskorti á orkuveitusvæði Landsvirkjunar.

Framleiðslugeta vatnsaflstöðva Landsvirkjunar í Sogi og í Þjórsá við Búrfell er nú 300 mw., ástimplað afl, og 2150 gwst. á ári. Er allar þrjár vélasamstæður Sigölduvirkjunar verða komnar í rekstur eykst framleiðslugeta vatnsaflstöðva Landsvirkjunar um 150 mw. og um 800 gwst. á ári eða úr 300 mw. í 450 mw. af ástimpluðu afli og úr 2150 gwst. á ári í 2950 gwst. á ári.

Í aths. þeim, sem fylgdu frv. að l. nr. 37 frá 16. apríl 1971, er gerð grein fyrir rannsóknum á áætlanagerðum Landsvirkjunar í þágu virkjana í Tungnaá við Sigöldu og Hrauneyjafoss, en þá þegar þótti sýnt að þessar virkjanir væru hagkvæmastar á orkuveitusvæði Landsvirkjunar í framhaldi af Búrfellsvirkjun. Voru þá hinir miklu miðlunarmöguleikar, sem Þórisvatn býr yfir, þungir á metunum, en þeir nýtast jafnt fyrir virkjanir í Tungnaá og í Þjórsá neðan ármóta Tungnaár og Þjórsár. Við umrædda lagasetningu var virkjanarannsóknum á Tungnaársvæðinu þó ekki að fullu lokið né endanlegar kostnaðaráætlanir fyrirliggjandi, en með tilliti til þess að undirbúningur, fjáröflun og framkvæmdir meiri háttar virkjunar taka að jafnaði um 5–6 ár þótti tímabært að leita þá þegar nauðsynlegra heimilda Alþ. og hefjast handa í þessu efni.

Eins og áður segir, samþ. stjórn Landsvirkjunar í sept. 1971 að halda áfram undirbúningi að virkjun Tungnaár við Sigöldu, og var þá að því stefnt að virkjunin kæmist í rekstur 1975–1976 þar sem orkukerfi Landsvirkjunar yrði þá svo til fullnýtt. Var af ýmsum ástæðum talið eðlilegra og æskilegra að virkja við Sigöldu á undan virkjun við Hrauneyjafoss og í því efni stuðst við niðurstöður verkfræðideildar Landsvirkjunar.

Með l. nr. 37 frá 16. apríl 1971 var ríkissjóði heimilað að veita ríkisábyrgðir á lánum sem Landsvirkjun tæki vegna fjármögnunar á kostnaði við undirbúning virkjunar Tungnaár, bæði við Sigöldu og Hrauneyjafoss, og við byggingu þeirrar sem fyrr yrði ráðist í svo og miðlunarmannvirkjanna við Þórisvatn og við lúkningu Búrfellsvirkjunar. Seinni áfanga Búrfellsvirkjunar lauk sumarið 1972 og Þórisvatnsmiðlun var að fullu lokið á árunum 1972 og 1973, en eins og áður er komið fram lýkur Sigölduvirkjun á þessu og næsta ári.

Téð ríkisábyrgðarheimild frá 1971 takmarkaðist við 2 milljarða 772 millj. kr., 31.5 millj. bandaríkjadala eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í annarri erlendri mynt, en á genginu 1 bandaríkjadollar 88. kr. Á þeim tíma lágu ekki fyrir endanlegar áætlanir um stofnkostnað Sigölduvirkjunar, enda virkjunin þá ekki komin á útboðsstig. Endurskoðaðar áætlanir hér að lútandi á grundvelli verksamninga og þróunar í verðlags- og efnahagsmálum sýna að ríkisábyrgðarheimildir vegna lána í þágu Sigölduvirkjunar þurfa að hækka um 15 millj. bandaríkjadala eða um 2679 millj. kr. á skráðu gengi 1 bandaríkjadollar kr. 178.60. Í frv. þessu er því farið fram á heimild fyrir ríkisábyrgð á lántökum að þessu marki, eins og ég hef nú gert grein fyrir.

Með skírskotun til þess, sem ég sagði í upphafi máls míns, mun ég leggja fram hjá fjh.- og viðskn. brtt. sem ég hef þegar gert grein fyrir.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til að málinu verði vísað að lokinni þessari umr. til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.