06.11.1975
Neðri deild: 14. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

12. mál, orkulög

Benedikt Gröndal:

Hv. forseti. Það er augljóst af þeim umr, sem nú hafa hafist um það frv. sem hér liggur fyrir, eins og af fyrri umr. um sama mál, að það ætlar að skilja þm. nokkuð greinilega í tvo meginhópa: Annars vegar þá, sem eru fylgismenn íhalds og gróðahyggju, og hins vegar þá, sem eru félagshyggjumenn.

Við höfum lifað það nú í nokkra áratugi, íslendingar, að eyða stórfelldum fjárfúlgum til kaupa á eldsneyti órafjarri landi okkar og láta flytja það hingað, þó að við búum hér ofan á stórum kötlum fullum af þeim varmagjafa sem við ættum að geta notað. Það eru peningalegar ástæður fyrir því að við höfum ekki farið hraðar en raun ber vitni í að hagnýta jarðvarmann. Olían hefur verið það ódýr. En við höfum vaknað við vondan draum eins og fleiri og nú hefur færst mikið fjör í það að hagnýta heita vatnið til upphitunar, iðnaðar, ræktunar og fleiri nota. En þá höfum við skyndilega rekið okkur á vandamál sem sjálfsagt koma ekki öllum á óvart, en ég geri ráð fyrir að þjóðinni eða landsmönnum almennt komi nokkuð spánskt fyrir sjónir. Það er að jarðhiti er tíðum á landi sem er í einkaeign, og við það að þjóðin lendir í efnahagskreppu, sem kostar milljarða á ári hverju, eiga fáir jarðeigendur á Íslandi skv. hugsjónum gróðahyggjumanna, sem virðast vera fjölmennir hér á Alþingi, að hirða af landsmönnum ótaldar upphæðir fyrir það eitt, að hafa átt þetta land sem þeir gátu ekkert gert við, og fyrir það eitt, að aðstæður úti í heimi hafa skyndilega gert þetta land verðmætt fyrir þjóðina. Sá hugsunarháttur að þeir fáu einstaklingar, sem eiga þá skika þar sem jarðhiti er hagkvæmastur undir niðri, sá hugsunarháttur, að þeir eigi einhvern helgan rétt er örugglega gersamlega annarlegur réttlætistilfinningu íslensku þjóðarinnar.

Ég hygg að íslendingar vilji að menn njóti starfa sinna og hæfileika sinna og getu sinnar og fái afrakstur af því sem þeir vinna. T.d. var tekið áðan dæmi um sandana sem einu sinni blésu og gerðu tjón, en nú er búið að rækta. Mér finnst alveg fráleitt að bera þetta saman við hina nýju olíufursta. Mér finnst að bóndinn, sem þarna ræðst á foksandinn og festir hann með gróðri og gerir úr honum land sem hann fær af afrakstur, hafi unnið fyrir því og hann eigi að fá þann afrakstur. En að menn sem eiga hraunskika sem þeir hafa ekkert getað gert við og eins og hér var nefnt sennilega varla getað selt þangað til fyrir 2–3 árum, að þeir eigi kröfur á hendur þjóðfélaginu upp á mörg hundruð millj. kr. bara vegna þess að það reynist vera hiti þarna undir, — hiti sem þeir sjálfir geta ekki gert neitt við, en fjöldi manns í næsta nágrenni þarf á að halda og þjóðin þarf á að halda, — þessi hugsunarháttur er úreltur. Þetta er forneskjulegt og furðulegt hugarfar, að ungir, gáfaðir og efnilegir stjórnmálamenn skuli standa hér upp og lesa þennan boðskap.

Það eru margar hliðar á þessu máli og það er ósköp einfalt að veifa þjóðnýtingardulunni sem búið er að rægja niður á nokkrum áratugum þó að þjóðnýting eigi sér nú sífellt stað í þjóðfélaginu og jafnvel á vegum hinna ótrúlegustu flokka. En enginn hefur neitað því að stjórnarskráin hefur sína 67. gr., og enginn hefur hingað til haldið því fram að það eigi að ganga fram hjá þeirri gr., jafnvel þó að það sé hægt að ganga svo langt í því að túlka hana að mönnum blöskri, sbr. þær kröfur, þegar eigendur hitasvæðanna gera nú skyndilega kröfur um olíuverð fyrir heita vatnið.

Ég vil lýsa þeirri afstöðu minni, að ég hef aldrei mælt með því að eignir manna væru gerðar upptækar án bóta, og ég geri það ekki enn í dag. Mér er ljóst að það eru sterk rök fyrir því að íslenska ríkið geti lýst eignarrétti á djúphitasvæðum án þess að brjóta þessa gr. stjórnarskrárinnar. Ég vil vona að þetta sé rétt. Ég geri ráð fyrir því, að ef þetta frv. yrði samþ. mundi fyrr eða síðar verða prófað fyrir dómstólum hvort þetta ákvæði er brot á stjórnarskránni eða ekki. En þó að svo færi að við ættum nokkurn veginn víst að það yrði talið vera brot á stjórnarskránni, þá finnst mér að því fyrr sem samfélagið tekur þessa landsskika í sína eign, hvort sem að það verður neytt til þess að borga fyrir þá meira eða minna eða jafnvel ekki neitt, því fyrr sem það gerist því betra, það er svo mikið í húfi. Við skulum ekki líta þetta mál svo þröngum augum að telja það snúast að mestu leyti um Hitaveitu Suðurnesja, þó að hún sé stór í sniðum, e.t.v. sú stærsta sinnar tegundar fyrir utan Hitaveitu Reykjavíkur. Það verða mörg slík mál á næstu árum sem geta snert margvíslega notkun á öðrum háhitasvæðum.

Enda þótt þetta frv. hafi nú verið flutt hér á þrem, fjórum þingum er þetta mál miklu eldra. Þótt við færum hægt af stað í hagnýtingu jarðvarmans tóku glöggir menn í landsstjórn eftir því að það mundi vera hyggilegt að fara að hugsa til löggjafar um þessi mál fyrir alllöngu. Það er m. a. vitnað í tvo merka lögfræðinga og lögfræðiprófessora í grg. þessa frv. Árið 1974 var sett n. til að undirbúa löggjöf um jarðhita og jarðhitarannsóknir og sú n. fékk grg. frá sjálfum núv. hæstv. dómsmrh., Ólafi Jóhannessyni, og niðurstaða hans varð sú að heimilt væri að setja eignarrétti landeigenda á jarðhita slík almenn takmörk án þess að það bryti í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Að öðru leyti er vitnað til frv. dr. Bjarna heitins Benediktssonar frá 1945 og tekin þar orðrétt upp þessi setning, með leyfi hæstv. forseta: „Hér er aðeins um almenna takmörkun á eignarréttinum að ræða sem löggjafarvaldinu er heimilt að setja þrátt fyrir ákvæði stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins.“ Ég sé ekki að það breyti neinu um þessa lagalegu skoðun dr. Bjarna þó að tæknin hafi ekki verið eins fullkomin þá og hún er nú. Og það liggur við að það felist í því aðdróttun að það hefði haft áhrif á þann merka mann ef hann hefði vitað 1945 hvílíkar upphæðir hér gæti verið um að tefla. Ég þekkti hann aldrei að neinu slíku og trúi því ekki að hans lagalega skoðun hefði breyst um svo mikið sem millimetra þó að breytt tækni eða breytt verðmæti hefðu komið til.

Það er í raun og veru ástæðulaust að vera að karpa mikið við gróðahyggjumenn um þetta mál. Ræða hv. 5. þm. Reykn. var að mörgu leyti athyglisverð ef hún er vel skoðuð. Hann talar um að menn eigi að vera í friði fyrir ríkinu með sín réttindi. Þegar hann er þar að tala um réttindi, þá eru það réttindi til þess að hirða stórgróða án þess að hafa gert nokkurn skapaðan hlut til að skapa þann gróða, bara af því að þeir, e. t. v. af tilviljun, eru skráðir eigendur að jarðarskika sem reynist vera verðmætur. Ég lít svo á að verðmætisaukning á landi og jafnvel öðrum eignum, sem verður vegna utanaðkomandi aðstæðna, eins og skipulags í bæjum og opinberra framkvæmda og annars slíks, sé ágóði sem samfélaginu ber en ekki þeim sem telst vera eigandi lands í viðkomandi tilviki, hann eigi ekki nokkurn rétt á því að hirða gróða bara fyrir það að samfélagið þarf af öðrum ástæðum að gera aðgerðir sem breyta verðgildi eignarlands. Þetta er sem sagt spurning um það hvort menn fái að vera í friði fyrir ríkinu með réttindi sín, þar sem orðið réttindi ætti í raun og veru að tákna óeðlilegan gróða. Svo fylgdi það á eftir að ríkið á auðvitað að leggja fram vísindamenn, ríkið á að rannsaka hvort jarðarskikinn er einhvers virði. Það má ríkið hafa, þá er ríkið ekki með nefið niðri í hvers manns koppi, þegar það leitar að verðmætum sem braskararnir geta síðan notað til þess að gera freklegar kröfur á hendur samfélaginu, — kröfur sem verða ekkert annað en skattar á þá einstaklinga sem þurfa að nota þá þjónustu sem um er að ræða, í þessu tilfelli heitt vatn, — skattar sem geta oltið á tugum þúsunda á hvert mannsbarn á Suðurnesjum, hvaða tilgáta sem rétt er um kröfugerðina og hvaða niðurstaða sem kann að verða úr þeim samningum sem standa yfir.

Hv. þm. talaði um að virðingin fyrir einstaklingsbundnum réttindum færi stórkostlega þverrandi. Það getur verið að það sé rétt hjá honum að hinn fornfálegi hugsunarháttur, sem margir menn byggja á túlkun sína á eignarréttinum, njóti þverrandi fylgis. Ég tel það vera rétt að nú á dögum líti frjálslyndir menn svo á að það verði að athuga aðstæður í því tilviki og að menn eigi ekki rétt á því að hirða takmarkalausan gróða bara af því að eiga jarðarskika þegar verðmæti hans breytist af ástæðum sem þeir hafa ekki komið nærri.

Í sambandi við þetta vil ég geta þess að virðingin fyrir réttindum einstaklingins hefur undanfarna mannsaldra farið stöðugt vaxandi og hún hefur gert það með margvíslegri löggjöf um mannréttindi og félagsmál sem samþ. hefur verið hér og á öðrum löggjafarþingum og hefur gert það að stór hluti okkar þjóðar, eins margra annarra þjóða, er nú sjálfstæðir menn sem ekki búa undir neins konar oki og geta að verulegu leyti mótað líf sitt eftir eigin óskum. Að þessu leyti hefur virðingin fyrir einstaklingnum farið vaxandi, en ekki þverrandi. Og ég tel þetta miklu, miklu meira virði en réttur hinna örfáu til að hirða stórgróða af fjöldanum.

Til þess að undirstrika skoðun sína talaði hv. þm. heldur háðslega um að það væri fólk sem ætti ekkert nema eigið hús og kannske ekki einu sinni lóðina undir því nema til einhvers árafjölda og að flm. væru að reyna að koma sér í mjúkinn hjá þessu fólki til þess að fá atkv. þess. Ég þakka fyrir þennan skilning. (Gripið fram í.) Það getur verið að móttakarinn hafi verið þannig að hafa séð háð í því. Við skulum þá sleppa því og segja að hv. þm. réðist á eða gagnrýndi flm. fyrir að hugsa um þann stóra fjölda íslendinga sem eiga ekkert nema íbúðina og kannske hafa leigulóð undir henni, að leyfa sér að hugsa um þetta fólk á kostnað þeirra fáu sálna sem einhvern veginn hafa komist yfir eða erft eða keypt fyrir sama og ekki neitt jarðarskika sem síðan reynast vera mikilvægir fyrir þjóðarheildina og hægt væri að meta til stórra fjárhæða.

Það var rætt um það hér hvort meiri hl. sé á þingi fyrir þessu frv. eða ekki. Það er mjög eðlilegt að menn velti vöngum yfir því af því að frv. var flutt af síðustu ríkisstj. sem stjórnarfrv. Ég man ekki eftir því að það hafi þá komið fram, að neinir stuðningsmenn þeirrar stjórnar ætluðu að bregðast henni í því sambandi. Nú liggur það einnig fyrir að minn flokkur styður þetta frv. Spurningin er þá: Ætlar Framsfl. að standa við það stjfrv., sem hann stóð að fyrir þrem árum, eða ætlar hann, eins og Sjálfstfl. í Framkvæmdastofnunarmálinu, að hringsnúast eins og skopparakringla, hlaupa frá þessu og láta braskarana vaða áfram? Hvar er félagshyggja framsóknarmanna? Ef hún er til staðar óskert, ómenguð af núv. stjórnarsamstarfi, þá hygg ég að það sé meiri hl. fyrir þessu frv. hér á Alþ. Og ég vænti að það verði unnið þannig að frv. í n. að það fái að reyna á það, því að það getur munað þjóðina og alveg sérstaklega suðurnesjabúa í fyrstu hundruð millj. hvort þetta frv. verður afgr. á þessu þingi eða hvort verður þvælst fyrir því og málið látið taka þann farveg sem gróðahyggjumenn vilja.