10.11.1975
Efri deild: 13. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í B-deild Alþingistíðinda. (284)

49. mál, skipan opinberra framkvæmda

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Þetta litla frv. lætur ekki mikið yfir sér, það er rétt, en ég tel að á ýmsum sviðum geti það gert byggingar notalegri. Það er vitað mál að okkur er ekki sama hvernig húsin, sem við búum í líta út, og sannarlega getur það verið mikils virði jafnvel fyrir líðan þeirra, sem í húsum búa, hvort þau eru listskreytt, hvort tekið er tillit til augans og hugans þegar þau eru byggð.

Okkar heilbrigðisstofnanir hafa farið varhluta af þeirri nýju stefnu sem er í þessum málum hér á landi. Það er rétt sem getið hefur verið, það hafa margir aðilar listskreytt hús sín að utan nú. En það eru ekki aðeins opinberar stofnanir, það eru einnig einkaaðilar sem í vaxandi mæli listskreyta byggingar sinar. Ég held að einmitt núna, þegar bæði stendur yfir og fyrir liggur að byggja margháttaðar og margs konar heilbrigðisstofnanir í þessu landi, að þá sé einmitt tíminn til þess að tryggja að eitthvað verði hugsað um þessi efni við frágang þeirra húsa. Það er rétt, sem kom fram hjá síðasta ræðumanni, að það kemur mjög til álita að þetta geti líka gilt um listmuni sem yrðu settir á sinn stað í þessum byggingum. Um það er sjálfsagt að ræða og athuga það mál. En ég held að það mundi verða öllum til góðs ef þetta frv. næði nú fram að ganga.