03.05.1976
Neðri deild: 95. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3499 í B-deild Alþingistíðinda. (2891)

266. mál, fjáröflun til landhelgisgæslu, ríkisfjármál o.fl.

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þingflokkur Alþfl. hefur þegar athugað og rætt það frv. sem hér er nú til 1. umr. Í tilefni frv. hefur þingflokkurinn gert eftirfarandi ályktun sem ég leyfi mér að lesa, með leyfi hæstv, forseta:

„Þingflokki Alþfl. er ljós nauðsyn þess að afla verulegs fjár til þess að efla landhelgisgæsluna og auka fiskileit og hafrannsóknir. Hann er því reiðubúinn til þess að samþykkja það ákvæði frv. til l. um fjáröflun til landhelgisgæslu og fiskverndar, ríkisfjármál o.fl., sem lýtur að 1000 millj. kr. fjáröflun vegna landhelgisgæslunnar, fiskleitar og hafrannsókna, með tímabundinni hækkun á vörugjaldi í 13% á þessu ári, þó með því skilyrði að sú hækkun raski ekki gildandi kjarasamningum varðandi vísitölubætur. Í frv. felast hins vegar álögur sem eru langt umfram þessa fjárþörf og er í því ekki gert ráð fyrir að ríkissjóður leggi neitt á sig í sparnaðarskyni.

Þingflokkur Alþfl. telur að ríkissjóði beri að mæta hluta af þeim vanda, sem hér er um að ræða, með eigin sparnaði og er reiðubúinn til þess að samþykkja framlengingu skyldusparnaðarins, enda verði þá afgangi fjárhagsvandans, sem næmi um 504 millj. kr., mætt með sparnaði í ríkisútgjöldum. Þá telur þingflokkurinn ekki koma til mála að breyta nú fjögurra mánaða gömlum ákvörðunum Alþ. í fjárl. varðandi vegamál.

Frv. í heild ber þess ljósan vott, að ríkisstj. ræður að engu leyti við þann vanda sem við er að etja í efnahagsmálum þjóðarinnar. Þingflokkur Alþfl. telur að nú sé svo komið að ríkisstj. beri að segja af sér og reyna eigi myndun starfhæfari og ábyrgari ríkisstj., en að öðrum kosti virðist ekki um annað að ræða en að gefa þjóðinni kost á að taka afstöðu til núv. ríkisstj. með því að rjúfa þing og efna til nýrra kosninga.“ Þetta er ályktun þingflokks Alþfl.

Ég tel rétt að rökstyðja þær skoðanir sem fram koma í þessari stefnuyfirlýsingu þingflokks Alþfl.

Samkv. grg. þessa frv. er sá fjárhagsvandi, sem því er ætlað að leysa með 18% vörugjaldi út þetta ár, um 1800 millj. kr., þar af eru 1000 millj. taldar nauðsynlegar vegna landhelgisgæslu, fiskleitar og hafrannsókna, en 800 millj. vegna almennra útgjalda ríkissjóðs. Eins og kemur fram í stefnuyfirlýsingu þingflokks Alþfl., er hann reiðubúinn til að samþykkja þá hækkun vörugjaldsins sem nauðsynleg er til þess að hægt sé að verja einum milljarði til landhelgisgæslu, fiskleitar og hafrannsókna, en til þess dugar hækkun vörugjaldsins í 13% út þetta ár. Þingflokkur Alþfl. er einnig reiðubúinn til þess að fallast á framlengingu skyldusparnaðarins sem ríkisstj. sjálf áætlar að mundi geta fært ríkissjóði 300 millj. kr. tekjur á þessu ári. Þar með er kominn 1300 millj. kr. tekjuauki frá því, sem áður hefur verið gert ráð fyrir, upp í 1800 millj. kr. tekjuþörf. M.ö.o.: það vantar 500 millj. kr. Þetta hlýtur að leiða athyglina að því að í frv. eru engin ákvæði, engin grein, ekki setning sem leggur ríkissjóði sjálfum þá skyldu á herðar að spara eigin útgjöld. Höfuðrökin fyrir því að nauðsynlegt sé að hækka tekjur ríkisins um 800 millj. til viðbótar því sem þarf vegna landhelgisgæslunnar, fiskleitar og hafrannsókna, er sú kauphækkun sem átti sér stað í febr. s.l. Sú kauphækkun nam 8–9%. Atvinnuvegum þjóðarinnar er ætlað að standa undir slíkri kauphækkun. Útflutningsatvinnuvegunum er ætlað að standa undir henni og þeir geta það eflaust af ýmsum ástæðum, vegna hækkandi verðlags og vegna bættrar rekstraraðstöðu. Kauphækkunin á auðvitað að hvetja fyrirtæki til þess að auka hagsýni í rekstri með því að spara útgjöld í rekstri sínum. En hið sama hlýtur að eiga að gilda um ríkið sjálft. Hver trúir því að fyrirtæki eins og ríkisbáknið, eins og ríkissjóður, sem hefur 60 milljarða kr. veltu á ári, geti ekki sparað þær 500 millj. kr. í heildarrekstri sínum sem hér vantar í raun og veru á, ef samkomulag yrði um að hækka vörugjaldið í 13% og framlengja þau ákvæði sem hafa gilt um skyldusparnað? $g endurtek, að það vantar aðeins 500 millj. kr. á þá upphæð sem ríkisstj. sjálf telur sig vanta. Og ég endurtek til þess að Íeggja sérstaka áherslu á það, að stofnun eins og ríkissjóður, sem veltir um 60 milljörðum kr., hlýtur að geta sparað 500 millj. kr. Það er fullkomlega ástæðulaust að ætlast til þess að öll atvinnufyrirtæki í landinu spari vegna kauphækkunarinnar, en að ríkissjóður skuli ekkert gera í þá átt.

Þá er það annað aðalatriði frv. að vegáætlunin er endurskoðuð svo að segja frá grunni, og þó eru ekki nema 4 mánuðir síðan Alþ. samþykkti fjárlög þar sem gert var ráð fyrir ákveðnum útgjöldum til vegamála. Engu að síður er hér gert ráð fyrir 450 millj. kr. almennri tekjuaukningu Vegasjóðs og 170 millj. kr. tekjuauka af mörkuðum tekjustofnum, þ.e.a.s. hækkun á verði bensins sem mun eiga að koma til framkvæmda í dag. En tekjuauki Vegasjóðs að öðru leyti, 450 millj., er 300 millj. af sparifé, sem ætlað er að lána Vegasjóði, og 150 millj. kr. tekjuauki vegna aukins bifreiðagjalds.

Það hefur aldrei gerst áður að jafnmikilvægur þáttur í útgjaldakerfi ríkisins eins og vegamálín eru og hljóta að vera eðli sínu samkv. sé endurskoðaður svo að segja frá grunni aðeins 4 mánuðum eftir að Alþ. hefur á eðlilegum tíma og með eðlilegum hætti tekið ákvarðanir um útgjöld til vegamála á yfirstandandi ári. Slíkt hefur aldrei gerst áður og er ljósast dæmi um það stjórnleysi sem og stefnuleysi sem ríkir í stjórnarherbúðunum, að rétt fyrir jól skuli stjórnarflokkarnir taka ákvörðun um ákveðnar fjárhæðir til vegamála, vitandi auðvitað í stórum dráttum um þá þróun sem væntanleg er á árinu í kaupgjaldsmálum og verðlagsmálum, en komast síðan að þeirri niðurstöðu eftir 4 mánuði, að 4 mánuðum liðnum, að allt, sem sagt var og gert og hugsað í des., hafi verið vitleysa og nú þurfi að taka þessi mál öll saman til gagngerðrar endurskoðunar. Á slík vinnubrögð getur Alþ. ekki fallist, getur því ekki samþ. þá 620 millj. kr. útgjaldaaukningu til Vegasjóðs sem frv. gerir ráð fyrir.

Ég legg á það áherslu, að í stefnuyfirlýsingu þingflokks Alþfl. kemur fram fullkomin ábyrgðartilfinning gagnvart þeim verkefnum sem ég efast ekki um að öll þjóðin sé sammála um að séu brýn og nauðsynleg og horfi til heilla. Við viðurkennum að sjálfsögðu nauðsyn á eflingu landhelgisgæslunnar, á eflingu hafrannsókna og aukinnar fiskileitar, og erum reiðubúnir til þess að veita stuðning okkar til nauðsynlegrar fjáröflunar í því skyni. En við styðjum ekki fjáröflun sem ekki er hægt að rökstyðja með nauðsyn verkefnanna. Við styðjum ekki fjáröflun sem ber vott um stjórnleysi og sukk.

Hvað er ríkisstj. í raun og veru að gera með flutningi þessa frv.? Hvert er meginefni frv. ef reynt er að draga það saman í sem allra styst mál? Það er annars vegar að hækka vörugjald upp í 18% sem ætlað er að skila ríkissjóði á þessu ári um 1800 millj. kr., og afleiðing þessa játar ríkisstj. sjálf að muni verða 10–11 stiga hækkun á vísitölu framfærslukostnaðar. En þar með er sagan ekki öll sögð. Ríkisstj. ætlast til þess að 1000 millj. af þessum 1800 millj. verði bornar af launþegum landsins bótalaust, þ.e. að 5 stig í framfærslukostnaðarvísitölu, sem koma fram í tveimur áföngum, verði borin af launþegum án kaupuppbótar, m.ö.o. verði dregin frá „rauða strikinu“ svonefnda. Kjarni frv. er sá, að launþegum er ætlað að bera 1040 millj. kr. álögur algerlega bótalaust. Og þetta gerist í framhaldi af því að á undanförnum mánuðum hefur verðlag verið að hækka um 7.3%, sem aðeins má rekja til launahækkunar að því er varðar 1.3%, en hin 6% eru afleiðingar af gerðum stjórnvalda í verðlagsmálum. Ofan á þessa þróun í verðlagsmálum frá 1. febr. til 1. apríl leggur nú ríkisstj. fram frv. sem mun hækka vísitöluna, — sem hún játar sjálf að muni hækka vísitöluna um 10–11 stig, og þar af á helmingurinn að berast bótalaust af launþegum landsins. Er ekki von að maður spyrji: Er mælirinn nú ekki fullur? Og til viðbótar þessum 1800 millj., sem hækka munu vísitöluna um 10–11 stig, þar af helmingurinn bótalaust, ætlar ríkisstj. að afla 620 millj. kr. tekna vegna Vegasjóðs, — tekna sem fyrir 4 mánuðum var ekki talin þörf á, tekna til framkvæmda sem stjórnarflokkarnir sjálfir töldu hægt að fresta í des, s.l. Slík ríkisstj. sem þannig fer að, ríkisstj. sem lætur verðlag hækka um 6% umfram það, sem kauphækkanirnar í febr. gáfu tilefni til, á 4 mánuðum, ríkisstj. sem ofan á þetta gerir till., sem hækka munu vísitöluna um 10–11%, og ætlast til þess að almenningur beri helminginn af því bótalaust, — slík ríkisstj. er ekki vanda sínum vaxin.

Hvaða mynd blasir við þjóðinni í efnahagsmálum nú á þessari stundu? Ég skal nefna um það örfá dæmi. Því er spáð að greiðslujöfnuður við útlönd muni á yfirstandandi ári verða neikvæður um 14.4 milljarða kr., því er spáð að það muni verða 14.4 milljarða kr. viðskiptahalli gagnvart útlöndum á yfirstandandi ári, og þetta er hvorki meira né minna en 6.5% af þjóðarframleiðslunni. Þetta er kannske gleggsta dæmið um það hversu gersamlega ríkisstj. hefur mistekist stjórn efnahagsmála nú á öðru valdaári sínu.

Hvernig hefur þróunin verið með erlendar skuldir íslendinga? Þar hefur þróunin vægast sagt verið uggvænleg. Skal ég — með leyfi hæstv. forseta — nefna nokkrar tölur í því sambandi. Í árslok 1971 námu skuldir íslendinga við aðrar þjóðir 25.3 milljörðum kr. Í árslok 1972 hafa þær hækkað upp í 30.1 milljarð kr., í árslok 1973 upp í 36.4 milljarða kr., í árslok 1974 upp í hvorki meira né minna en 50.2 milljarða kr. Og svo kemur ógnvænlegasta talan, talan sem alla ábyrga íslendinga hlýtur að hrylla við: í árslok 1975 voru erlendar skuldir þjóðarinnar komnar upp í 65.4 milljarða kr. og hafa þannig aukist frá árinu 1975 um 15 milljarða kr. eða meira en helming þess sem allar skuldirnar námu í árslok 1971.

Þessi gífurlega skuldaaukning gagnvart útlöndum, sem er einn alvarlegasti þátturinn í þróun efnahagsmála á undanförnum árum, hefur auðvitað í för með sér stóraukna greiðslubyrði gagnvart útlöndum. Við þurfum að verja stórauknum hluta af gjaldeyristekjum okkar til þess að greiða vexti og afborganir af skuldum. 1973 nam greiðslubyrðin, þ.e. afborganir og vextir af erlendum lánum, í hlutfalli við útflutningstekjur 9.7%. 1974 hafði þessi hlutfallstala aukist upp í 11.2%, 1975 hafði hún enn aukist upp í 14.8%, í ár er áætlað að hún muni nema 18.6% og eftir 2–3 ár er alveg öruggt að greiðslubyrðin verður orðin yfir 20%.

M.ö.o.: það stefnir að því innan örfárra ára að meira en ein króna af hverjum fimm, sem við öflum með útflutningsframleiðslu okkar, fari til þess að greiða vexti og afborganir af erlendum skuldum. Gleggra dæmi um óstjórn undanfarinna ára verður varla fundið, og ég efast um að hægt sé að benda á hliðstæðu í nokkru nálægu landi, a.m.k. í Vestur-Evrópu, þess sem verið hefur að gerast varðandi erlenda skuldasöfnun og aukningu greiðslubyrðar af þeim sökum. Þarna erum við að leggja óbærilega byrði á framtíðina, á komandi kynslóð eða kynslóðir.

Það er skýrt dæmi um það fullkomna ráðleysi og fullkomna stjórnleysi sem ríkt hefur í stjórnarherbúðunum hvernig ríkissjóður hefur aflað sér í sívaxandi mæli fjár með því að sækja peninga í Seðlabankann, með því að láta Seðlabankann prenta þá peninga sem ríkissjóður hefur þóst þurfa til þess að nota eða eyða. Í árslok 1973 nam skuld ríkissjóðs við Seðlabankann 629 millj. kr., en í árslok 1974 — hverju haldið þið að skuld ríkissjóðs við Seðlabankann hafi numið þá? Ég geri ráð fyrir að menn trúi varla tölunni, en engu að síður er hún opinberlega staðfest. Í árslok 1974 var skuld ríkissjóðs við Seðlabankann orðin 3866 millj. kr. Ríkissjóður hafði sótt í Seðlabankann á árinu 1974 3.2 milljarða kr. og aukið skuld sína þar með upp í tæpa 3.9 milljarða kr. í árslok 1974.

Nú skyldi maður væntanlega halda að lengra væri varla hægt að halda á slíkri óheillabraut, frekari víxlspor af þessu stigi væri varla hægt að stíga. En hvað skyldi hafa gerst? Hver skyldi skuld ríkissjóðs hafa verið í árslok 1976, við síðustu áramót? Og nú nefni ég enn tölu sem flestir óreyndir mundu hafa talið alveg ótrúlega — algerlega ótrúlega. Skuld ríkissjóðs við Seðlabankann nam í árslok 1975 9932 millj. kr., 9.9 milljörðum, og hafði skuldaaukning ríkissjóðs við Seðlabankann á árinu 1975 aukist um 6.1 milljarð. (Gripið fram í.) Ég skal alveg láta ósagt hvað fjmrh. hefur vitað um þetta efni og hvað hann kann ekki að hafa vitað um það, en a.m.k. hefur ríkissjóður tekið þessi lán í Seðlabankanum og fengið þau, og hér er auðvitað um að ræða miklu, miklu geigvænlegri tölur heldur en talist geta samrýmanlegar heilbrigðum ríkisbúskap og heilbrigðum þjóðarbúskap.

Og enn hefur sigið á ógæfuhliðina. Síðustu tölur, sem ég hef getað fengið um viðskipti ríkissjóðs við Seðlabankann, eru frá því í febrúarlok s.l. Þá var skuldin komin upp í 10.3 milljarða kr., svo að enn heldur skuldaaukningin áfram. Til febrúarloka hafði skuldin vaxið við Seðlabankann um 404 millj. kr.

Þetta allt saman, sem ég hef nefnt, er auðvitað órækur vitnisburður um að algerlega óhæf ríkisstjórn situr að völdum á Íslandi.

Það er mikið gert úr því að kauphækkun sú, sem um var samið, 8–9% í febr. s.l., hafi valdið miklum erfiðleikum og valdi sérstaklega útflutningsatvinnuvegunum miklum erfiðleikum. í því sambandi vil ég minna á að ég hef kannað hvaða skoðanir séu uppi um það meðal sérfróðra manna hvert verðlagið á útflutningsvörum okkar íslendinga sé nú í hlutfalli við það sem var að meðaltali í fyrra. Þeir telja að útflutningsverðlagið í heild sé 13–14% hærra nú en það var í fyrra. Þessu hljóta allir góðir menn að sjálfsögðu að fagna, Þetta hlýtur að gera kleift fyrir útflutningsatvinnuvegina að greiða þá kauphækkun sem um var samið í febr., og ber því auðvitað að fagna. Engu að síður er nauðsynlegt að útflutningsatvinnuvegirnir eins og raunar öll fyrirtæki í landinu leitist við að haga rekstri sínum haganlegar og skynsamlegar en hingað til hefur átt sér stað. Það er áreiðanlega hægt. Sömu kröfu hlýtur maður að gera til sjálfs ríkissjóðsins, að hann leitist við að spara í rekstri sínum.

Sú mynd, sem ég hef dregið upp af ástandinu í íslenskum efnahagsmálum, er dekkri en ástæða hefur verið til að draga upp nokkurn tíma fyrr í sögu íslenskra efnahagsmála. Það syrtir nú meira í álinn á svíði íslenskra efnahagsmála en gert hefur áður, a.m.k. um mjög langt skeið. Þau dæmi, sem ég hef nefnt, þær tölur, sem ég hef talið, bera allar saman vott um einstaka óstjórn, einstakt stjórnleysi, einstakt ráðleysi af hálfu hæstv. ríkisstj. Og ráðleysið og stjórnleysið kemur í fyllstum mæli fram með flutningi þessa frv. Með flutningi þess teljum við þm. Alþfl. mælinn í raun og veru vera fullan. Þetta frv. er endanleg sönnun þess að hæstv. ríkisstj. ræður ekki við þann vanda, sem henni þó ber að takast á við. Það er þess vegna sem þingflokkur Alþfl. lýkur ályktun sinni eða stefnuyfirlýsingu með því að nú sé mælirinn fullur, að nú sé svo komið að ríkisstj. beri að segja af sér og reyna eigi myndun starfhæfari og ábyrgari ríkisstj. en þessi ríkisstj. hefur reynst. Að öðrum kosti virðist ekki um annað að ræða en að gefa þjóðinni sjálfri kost á því að taka afstöðu til núv. ríkisstj., sýna henni traust eða votta henni vantraust, sem ég efast ekki um að þjóðin mundi gera, með því að rjúfa þing og efna til nýrra kosninga.