10.11.1975
Neðri deild: 15. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í B-deild Alþingistíðinda. (291)

48. mál, vísitala byggingarkostnaðar

Frsm. (Ellert B. Schram) :

Herra forseti. Að beiðni hagstofustjóra hefur allshn. Nd. tekið að sér að flytja þetta mál hér í hv. deild. Núgildandi vísitala byggingarkostnaðar, sem er með grunntíma 1. okt. 1955, var sett á laggir með lögum nr. 25 frá 1957. Grundvöllur hennar er nú orðin úreltur og því brýn þörf á að endurnýja hana. Þess skal getið að á Alþ. 1970 var samþ. þáltill. þar að lútandi.

Samkv. þessu frv. er hinn nýi grundvöllur byggður þannig upp að hann á að geta orðið að miklu meiri notum en gamli grundvöllurinn við gerð verksamninga og við margvíslega áætlunargerð í sambandi við verklegar framkvæmdir. Þannig er séð fyrir því að reiknaðar verði og birtar vísitölur fyrir ákveðna verkþætti byggingarútgjalda og fyrir mismunandi byggingarstig, svo sem fokhelt, tilbúið undir tréverk og lok byggingar, og ýmsar frekari sundurgreiningar verður hægt að hagnýta úr hinni nýju vísitölu byggingarkostnaðar.

Gildandi vísitala hefur verið reiknuð þrisvar á ári, en samkv. frv. er lagt til að hin nýja vísitala verði reiknuð út ársfjórðungslega og gildistímar hennar falli inn í almanaksárið en það hefur ekki verið svo fram að þessu. Þetta eykur verulega notagildi vísitölunnar í sambandi við gerð verksamninga og hvers konar áætlunargerð. Þá er gert ráð fyrir að nýi vísitölugrundvöllurinn komi þegar til framkvæmda ef frv. þetta verður að lögum, þ. e. að grunntími hans miðist við verðlag í okt. á þessu ári. Næsti útreikningur færi svo fram í júní á árinu 1976 og síðan í sept., des., mars o. s. frv.

Þetta eru þær breyt. sem frv. felur einkum í sér og skipta máli, þ. e. a. s. að það er breytt skipan á útreikningi og birtingu, vísitalan verður reiknuð út eða birt fjórum sinnum á ári, en sú gamla sem sagt þrisvar. Frv. þetta mun hafa verið borið undir allmarga aðila sem þekkingu hafa á byggingarmálum og nota mikið vísitölu byggingarkostnaðar. Það leiddi til margvíslegra breyt. og lagfæringa á grundvellinum og hefur verið tekið tillit til þeirra við gerð þessa frv.

Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um einstaka þætti frv. Allshn. hefur, eins og fyrr er sagt, flutt þetta frv. að beiðni hagstofustjóra og hefur áskilið sér rétt til þess að skoða það og breyta eftir atvikum. Það gildir og um einstaka nm. Ég legg því til. herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til n. aftur og til 2. umr.